20.11.1968
Sameinað þing: 13. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í D-deild Alþingistíðinda. (3652)

264. mál, bifreiðar í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er svo í þessu máli sem æðimörgum öðrum, að það er töluvert einfaldara fyrir þá menn að gagnrýna, sem utan vandans standa, að ekki skuli hafa verið gert eitt og annað, heldur en að leysa málið. Hitt vil ég ekki láta hjá líða að segja og leggja á það áherzlu, að málið er miklu vandasamara og flóknara en hv. þm. heldur, og það er svo margt, sem þar spilar inn í, réttindi, sem embættismenn hafa haft í lengri tíma og á svo allt í einu að fara að taka af þeim. Það er ekki hægur vandi og ég hef a.m.k. ekki viljað stefna út í þá ófæru að setja reglur, sem menn gæfust upp við að framfylgja. Það held ég, að sé höfuðnauðsyn í sambandi við allar slíkar aðgerðir. Það var byrjað eins og ég sagði í sambandi við þessi bílamál að hindra, að um frekari útvíkkun þessara réttinda yrði að ræða, meðan þau væru í athugun. Í annan stað var ákveðið, að settar væru hömlur á, hvað þeir bílar mættu kosta, sem keyptir væru á þessu tímabili eða eftir að þau ákvæði væru sett og það eitt út af fyrir sig hefur dregið verulega úr þessum kostnaði, þó að það auðvitað leysi ekki vandann. En þegar ég tala um, að það sé betra að fara gætilegar af stað og athuga þau spor, sem maður stígur og tryggja, að ekki verði hörfað til baka, þá vil ég minna á, að fyrir alllöngu var tekin sú ákvörðun af þáv. fjmrh. og ég segi þeim mæta manni það sízt af öllu til lasts, að það skyldi skila ríkisbílum. Þá átti að gera mjög ákveðna ráðstöfun til þess að draga úr þessum ófögnuði og það átti að afhenda ríkisbílana. Það var ein stofnun, sem afhenti bílinn sinn. Það var að vísu stofnun, sem hv. þm. var nátengdur og það var henni til sóma, en það var eina stofnunin, sem afhenti bíl og meira var ekki aðhafzt. Það var látið gott heita og látið við svo búið standa, eins og sagt er. Þarna álít ég, að sé betra að fara með gætni og vera öruggur um að koma málinu fram og færa það fram til sigurs, en stíga svo róttækt spor, að það sé ekki hægt að framfylgja ákvörðuninni.

Ég nefni þetta aðeins, eins og ég sagði, ekki til neinnar gagnrýni á þann hæstv. ráðh. sem þá var, heldur til þess að sýna, hve hér er um mikinn vanda að ræða, þegar sá ráðh. var alls ekki þekktur fyrir að reyna ekki að halda fast á málum.

Hv. 3. þm. Vesturl. hélt því fram áðan, að fsp., sem hann hefði flutt í fyrra ásamt fleirum, mundi hafa ýtt þessu máli mjög áleiðis. Ég verð því miður að hryggja hann með því, að það ýtti ekki málinu áleiðis nema um einn dag af þeirri einföldu ástæðu, að eins og ég gat um þá, var orsökin til, að ég gat svarað fsp., sú, að búið var að safna öllum þeim gögnum, sem þurfti til að svara henni, þannig að það var ekki hafizt banda um það, þegar fsp. var borin fram. Það hefði verið ómögulegt að svara fsp., nema það hefði verið búið að gera þær rannsóknir allar, sem þar lágu að baki og þar greindi frá. Hann upplýsti sjálfur, að reglurnar hefðu verið til snemma í sumar og þá hefði fjvn. eða undirnefnd hennar verið skýrt frá þeim, þannig að það hefur þá verið mikill hraði og ekki um mikinn vanda að ræða, ef það hefði verið gert á nokkrum dögum eftir að þessi fsp. var borin fram að leysa málið með þessum hætti. Það auðvitað skiptir engu máli, hvort menn hafa þá skoðun, að þeir hafi einhver áhrif með málflutningi sínum. Ég er ekkert að reyna að taka af hv. þm. þá fjöður, ef hann vill hafa hana. En reyndin er sú, að þetta hefur haldið áfram með alveg eðlilegum hraða.

fjvn. hafi raunverulega ekki vitað um málið fyrr en fyrir 1–2 dögum, af því að undirn. hafi aðeins vitað um það í sumar, hef ég ekki reiknað með sannast sagna. Ég bjóst ekki við, að undirn. mundi leyna n. þessu. Ég óskaði eftir því í sumar, að undirn. segði skoðun sína á þessu máli, vegna þess að hér væri um það yfirgripsmikið vandamál að ræða, sem var ljóst, að mundi hitta mjög marga. Ég er ekki með því — ég tek það fram aftur — að kasta vanda á fjvn.; heldur tel ég það mikilvægt, að allir þeir aðilar, sem eiga með eftirlit ríkisfjármuna að fara, bæði fjvn. og fjmrn., séu nokkurn veginn sammála um jafnveigamiklar reglur og þessar, þegar þær verða settar. En ég reiknaði satt að segja ekki með því, að það hefði þurft að útbýta því sérlega í n., heldur mundi undirn. ræða það þar, eftir því sem hún teldi ástæðu til. En ég vakti hins vegar máls á því fyrir nokkru á fundi með fjvn. allri, að ég vildi mjög gjarnan heyra skoðun n. í heild á þessu máli.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi, að það hefði sérstaklega átt að vera auðvelt fyrir mig að leysa þetta mál, vegna þess að það hefðu gerzt þeir atburðir árið 1963, þegar launabreytingar urðu hjá ríkisstarfsmönnum, að þá hefðu öll hlunnindi átt að falla niður. Um það var að vísu ekkert sagt í þeim kjaradómi, sem þá féll, að öll hlunnindi ættu að falla niður, a.m.k. var þetta ekki gert. Og sannleikurinn er sá í dag, að það er mikið vandræðamál, eins og þróun launamála hefur verið, ekki sízt hjá yfirmönnum stofnana og hjá mönnum með hliðstæða menntun og þeir hafa, að búa með nokkrum viðhlítandi hætti að þeim mönnum, sem hafa mesta ábyrgð í ríkiskerfinu, vegna þess að í mörgum tilfellum eru forstjórar stofnana ríkisins launalægstir í stofnununum af þeim mönnum, sem hafa hliðstæða menntun. Þetta á sér t.d. stað með allar þær stofnanir, sem verkfræðingar eru forstjórar fyrir, þannig að þetta eina dæmi sýnir okkur, að hér er sannarlega ekki um einfalt mál að ræða. Svo hefur það í ýmsum tilfellum gerzt, bæði fyrr og síðar, að tilteknir menn hafa beinlínis ráðizt til starfa hjá ríkinu vegna þess að þessi hlunnindi voru fyrir hendi. Ég er ekkert að segja, að það sé gott, að þetta hafi gerzt, en ég veit um ýmis dæmi þess, að þessir menn telja, að það hafi verið svo og því er ómótmælt af þeim, sem hafa annazt þá ráðningu, að það sé rétt, að þeir hafi mátt ganga út frá, að þessi hlunnindi væru til staðar. Og það er ein grundvallarregla í sambandi við kjaramál hjá ríkinu, að menn séu ekki sviptir launum eða lækkaðir í launum, sömu starfsmenn búi áfram við sömu kjör, meðan þeir eru í starfi. Og það þótti t.d. ekki tiltækilegt, þegar við vorum að setja löggjöfina um embættisbústaði á s.l. ári, að taka hlunnindin af þeim embættismönnum, sem þá höfðu embættisbústaði, heldur var ákveðið að selja embættisbústaðina, þegar skipti yrðu á embættismönnum. Nú er ég ekkert að slá því fram, að þetta eigi að vera regla í þessu sambandi. Það þarf að skoðast miklum mun betur, en ég nefni þetta aðeins til þess að sýna fram á, að málið er miklu flóknara en menn halda, þegar þeir segja, að þetta sé hægt að leysa á einum til tveimur vikum, þó að megi kannske segja, að maður eigi að geta leyst það á 21/2 ári, það er önnur saga.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. Það er enginn ágreiningur milli mín og þeirra hv. þm., sem hér hafa talað, um, að það sé mikil nauðsyn að koma hér á fastri skipan. Ég get alveg tekið undir með þeim, að einmitt á þessum tímum, þegar þarf að leggja kvaðir á landsfólkið, sé nauðsynlegt að lagfæra svona hluti. En hinu skulum við þá heldur ekki gleyma, að með þessu er verið að taka hlunnindi af miklum fjölda manna, veigamikil hlunnindi, þannig að í því er einnig kjaraskerðing og ég vil jafnframt taka fram, að það eru ótal stofnanir, sem eru ekki annað en hálfgerðar útkjálkastofnanir úr ríkiskerfinu, ef svo má segja og einnig einkastofnanir, sem veita starfsmönnum sínum og forstöðumönnum þessi hlunnindi, en ekki vegna þess að ríkið hafi gert þetta. Það er ekki byggt á þeirri ástæðu, heldur vegna þess, að þessi fyrirtæki hafa talið sér nauðsynlegt á ýmsum stigum að veita forstjórum sínum þessi sérstöku hlunnindi. Þetta hefur verið mjög vaxandi og gerir auðvitað erfiðara um vik að afnema þessi hlunnindi að meginhluta til hjá ríkinu.

En ég skal ekki orðlengja um þetta frekar. Ég hygg, að allt hafi komið fram, sem menn vildu um þetta segja og ég vænti þess þá mjög, þegar að því kemur að koma þessum reglum saman, að almennur stuðningur verði á hinu háa Alþ. við að koma fram nauðsynlegum takmörkunum eða æskilegum takmörkunum í sambandi við þessi réttindi.