11.12.1968
Sameinað þing: 19. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í D-deild Alþingistíðinda. (3740)

273. mál, fiskiðnskólanefnd

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í des. 1966 skilaði n., sem skipuð var samkvæmt þál. um fiskiðnskóla frá 30. apríl 1964 áliti um fiskiðnskóla á Íslandi. Í áliti n. er gert ráð fyrir, að skólinn verði staðsettur á Suðvesturlandi. Hann verði í eigin húsakynnum, þar sem aðstaða verði til bóklegrar og verklegrar kennslu. Skólatími verði full tvö ár, þ.e. verkleg þjálfun í þrjá mánuði í upphafi skólatímans og þrjá mánuði á milli bekkja. Kostnaður við skólann skal greiddur úr ríkissjóði og fái nemendur ókeypis skólavist.

Í álitinu kemur fram, að nm. telja nauðsynlegt, að skólinn starfræki fiskvinnslustöð með fullkomnum fiskvinnsluvélum, þar sem verkun sem flestra fiskafurða geti farið fram. Bendir n. á aðstöðu, sem fyrir er í húsakynnum Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins að Skúlagötu 4, og telur það vera húsnæði, sem nota mætti fyrst í stað, enda verði tryggt, að skólinn komist svo fljótt sem við verður komið í eigin húsakynni. N. telur, að nauðsynlegt sé, að skólinn reki heimavist og mötuneyti til að jafna aðstöðu þeirra, sem skólann sækja.

Þar sem engin áætlun var í grg. n. um kostnað við stofnun og rekstur skólans, var Sveini Björnssyni framkvstj., Erni Marinóssyni fulltrúa og Jóni L. Arnalds deildarstjóra falið að semja fjárhagsáætlun fyrir fiskiðnskólann. Könnuðu þeir, hvaða hugmyndir lægju fyrir um starfsemi slíks skóla. Skoðanir manna um uppbyggingu og starfsemi slíks skóla virtust mjög ólíkar. Var þá sérstaklega kannaður hugur nm., sem upphaflega nál. sömdu. En aðrir töldu hins vegar nauðsynlegt, að skólinn hæfi starfsemi í eigin húsnæði og ræki fiskvinnslustöð ásamt útgerð o.s.frv., eins og fyrr er greint. Voru menn almennt ósammála um upphaflegan nemendafjölda.

Þeir þremenningarnir skiluðu fjárhagsáætlun um fiskiðnskóla í desembermánuði s.l., og var í fjárhagsáætluninni tekið tillit til allra þeirra hugmynda, sem fram höfðu komið og gert ráð fyrir mörgum valkostum. Í fjárhagsáætlun í fyrra er gert ráð fyrir ýmsum skólagerðum, allt frá einni bekkjardeild á ári, þar sem nýir nemendur eru innritaðir annað hvert ár og miðað er við að nota eingöngu þá aðstöðu, sem til staðar er að Skúlagötu 4, og allt til þess, að bekkjardeildir væru 4, 2 í hvorum árgangi. Skólinn væri í eigin húsakynnum og með heimavist og mötuneyti, svo sem upphaflega nál. gerði ráð fyrir og hann mundi starfrækja fiskiðjuver og útgerð. Rekstrarkostnaður ódýrasta valkostsins reyndist vera 2.2 millj. kr.

Í framhaldi af þessum till. hefur rn. nú í haust ákveðið að stofna til fiskiðnaðarnámskeiða í húsakynnum Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins að Skúlagötu 4, sem miðað er við, að orðið gæti grundvöllur að fiskiðnskóla. Hefur rn. falið dr. Þórði Þorbjarnarsyni forstjóra Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins að hafa yfirumsjón með skipulagningu og stofnsetningu þessara námskeiða. Sigurður B. Haraldsson fyrrv. framkvæmdastjóri Ferskfiskeftirlitsins hefur verið ráðinn til að undirbúa námskeiðin, semja starfs– og skipulagsáætlun og veita þeim forstöðu. Við stofnun og rekstur námskeiðanna verður leitað til fiskmatsstjóra, samtaka framleiðenda sjávarafurða og annarra stofnana sjávarútvegsins, eftir því sem við á og þörf verður á talin. Í húsi Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins að Skúlagötu 4 er fyrir hendi aðstaða fyrir verklega og bóklega kennslu, þar sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er staðsett. Forstjóri stofnunarinnar, dr. Þórður Þorbjarnarson, telur, að lítill skóli mundi ekki há starfsemi stofnunarinnar að öðru leyti eða trufla þau rannsóknarstörf, sem unnin eru á vegum hennar. Verður að telja æskilegt, að skóli sem þessi fengi að mótast í slíkum húsakynnum, a.m.k. áður en ráðizt yrði í mikla fjárfestingu og hann mundi væntanlega njóta góðs af nánum tengslum við rannsóknastofnanir sjávarútvegsins.

Ef úr því yrði, að skólinn yrði starfræktur áfram og stækkaður, væri e.t.v. hugsanlegt, að hann fengi eitthvað af því húsnæði, sem ríkisútvarpið hefur nú til afnota að Skúlagötu 4. Ljóst er þó, að húsnæðið að Skúlagötunni mundi ekki vera nægilegt til langframa. Ef skólinn héldi áfram að þróast að vissu marki og starfræksla hans að aukast, yrði óhjákvæmilegt, að hann kæmist í eigin húsakynni, sem yrðu þá rúm.