20.12.1968
Sameinað þing: 25. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

1. mál, fjárlög 1969

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki hugsað mér að taka þátt í þessum umr., enda hef ég ekki fylgzt mjög nákvæmlega með afgreiðslu fjárl., þar sem ég var um skeið veikur, meðan umr. um þau fóru fram hér á þinginu. En það, sem kemur mér til þess að standa hér upp, er það, að ég lagði hér fyrir alllöngu inn brtt. við fjárl., sem ég reiknaði með, að yrði útbýtt hér einhvern tíma sæmilega snemma á degi, til þess að hún gæti orðið tilkynnt sem till., en nú líður mjög á þessa umr., og ég leyfi mér hér með að flytja þá till. sem skrifl. brtt. og biðja forseta að leita afbrigða, sem til þarf, til þess að hún megi koma til umr. og atkvgr. Þessi till. er sú hin sama, sem sá maður, sem við 2. umr. fjárl. skipaði hér mitt sæti, Björgvin Salómonsson, flutti, en dró til baka við þá umr. í von um, að fjvn. tæki málið til athugunar og gerði þá máske till. um það, en svo hefur ekki orðið. Till. er á þessa leið, við 4. gr. með þar tilheyrandi tölusetningum:

„Liðurinn orðist svo:

Vatnsveitur samkv. l., þar af til Vatnsveitu Vestmannaeyja 25 millj. kr., samtals 30 millj.“

Með því að búið var að flytja fyrir þessari till. ræðu hér á þingi, sé ég ekki ástæðu til þess að gera það frekar, en legg till. fram.