27.03.1969
Neðri deild: 70. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Á þskj. 383 er frv. til l. um aðgerðir í atvinnumálum. Frv. þetta er til staðfestingar á samkomulagi því, sem gert var 17. janúar s.l. á milli hæstv. ríkisstj., stéttarfélaganna í landinu og vinnuveitenda. Það er heimild fyrir ríkisstj. til þeirrar fjáröflunar, er þar er gert ráð fyrir, og lögfest skipan að þeim till., sem var samið um, bæði um atvinnumálanefndir héraðanna og um atvinnumálanefnd ríkisins. Enn fremur eru þar þær starfsreglur, sem þessar nefndir hafa sett sér til þess að starfa eftir.

Um frv. sjálft þarf ég ekki að segja mikið og vil taka það fram fyrir hönd Framsfl., að hann mun veita því brautargengi í gegnum þingið og ekki tefja á neinn hátt framkvæmd þess, enda telur hann, að það hefði gjarnan mátt vera fyrr á ferðinni heldur en raun ber vitni um. Enda þótt það sé skoðun flokksins, er það ekki þar með sagt, að ekki hefði mátt skipa þessum málum á annan veg, ef fyrr og betur hefði verið staðið að þessum málum á undanfarandi árum.

Það, sem ég vildi spyrja um í sambandi við þetta mál og ekki kom fram í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan, var það, hvort það er ekki hugsun atvinnumálanefndar ríkisins að taka til athugunar atvinnu skólafólks á komandi sumri. Ég hygg, að það verði eitt með meiri háttar vandamálum í atvinnumálum okkar í sumar að leysa atvinnumál skólafólksins og unga fólksins í landinu og ég vonast því til þess, að þetta verði eitt af þeim verkefnum, sem atvinnumálanefndin muni sinna, fyrst hennar hlutur er orðinn svo stór í atvinnumálum, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég vil líka segja það, að ég vonast til þess, að það verði farið að hraða afgreiðslu á rekstrarlánum iðnaðarins, sem hæstv. forsrh. nefndi hér áðan, því að mér er kunnugt um það, að mörg iðnaðarfyrirtæki í landinu hafa þörf fyrir þessa aðstoð og atvinnurekstur þeirra er ekki með eðlilegum hætti, fyrr en einhver lánsútvegun er komin þar til. Og það er einmitt hætta á því, að á sumum stöðum á landinu geti atvinnuleysi jafnvel aukizt frá því, sem nú er, ef ekki verður unnið fljótt að þessum málum. Út af frv. og þeirri leið, sem fara á um öflun fjárins, vil ég segja það, að það hefði verið æskilegt, að það hefði verið hægt að afla þessa fjár í landinu sjálfu, og ég hef skilið þannig þá stefnu, sem tekin var upp með þeirri starfsemi Seðlabankans að binda sparifé viðskiptabankanna, að það væri hugsað til að hafa þau áhrif í peningamálunum, að það væri hægt að veita þessu fé út í atvinnulífið aftur, þegar atvinnuástandið væri með þeim hætti, að það jaðraði við atvinnuleysi eða um atvinnuleysi væri að ræða. Enda er það beinlínis tekið fram í lögum Seðlabankans, að það eigi að vera hans hlutverk að haga sínum störfum á þann veg. Þess vegna hefði það ekki verið óeðlilegt, þó að hann hefði getað látið af hendi þær 300 millj., sem atvinnumálanefnd ríkisins ætlar að verja til lánveitinga. Ég vil því leyfa mér að spyrja um það, hvort það hafi verið útilokað, að Seðlabankinn gæti látið þetta fé af hendi, þar sem a.m.k. í mörgum tilfellum mun reynast fyrirtækjum erfitt, sem ekki stunda útflutningsframleiðslu, að taka lán með gengisáhættu, ef miðað er við reynslu síðustu ára.

Ég get svo ekki látið hjá líða í sambandi við þetta frv. um aðgerðir í atvinnumálum að líta á það sem nokkurs konar úttekt hæstv. ríkisstj. á afrekum sínum í atvinnumálum þjóðarinnar eftir 10 ára valdasetu. Og vil í því sambandi minna á þau fyrirheit, sem hæstv. ríkisstj. gaf, þegar hún hóf valdaferil sinn og vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna í þau ummæli, er þá komu fram. m.a. í bókinni Viðreisn. En þar voru gefin þessi fyrirheit:

Ríkisstj. leggur til, að framleiðslustörfum og viðskiptalífi þjóðarinnar sé skapaður traustari, varanlegri og heilbrigðari grundvöllur en atvinnuvegirnir hafa búið við undanfarandi ár.“

Og til að skýra það, hvað hæstv. ríkisstj. átti við með þessum orðum, gaf hæstv. núv. forsrh., Bjarni Benediktsson, skýringu á þessu í áramótagrein í Morgunblaðinu um áramótin 1959–1960, þar sem hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Það kann ekki góðri lukku að stýra, að sjávarútvegurinn, sem framleiðir nær allar útflutningsvörur þjóðarinnar, fær ekki staðizt nema með ríkisstyrkjum.“

Og hvað segir svo hæstv. forsrh. nú í 4. gr. frv. um aðgerðir í atvinnumálum? Þar segir svo í niðurlagi þeirrar gr. um hlutverk atvinnumálanefndar ríkisins og tillögur hennar, að þær séu miðaðar við það eða gerðar í þeim tilgangi að útrýma atvinnuleysi og efla heilbrigðan atvinnurekstur, svo að atvinna sé betur tryggð í landinu í framtíðinni. Núverandi ríkisstj. hefur löngum hælt sér af því, að hún treysti á framtak einstaklingsins og með því frelsi, sem hún hafi skapað, hafi einstaklingurinn og atvinnurekandinn í landinu fengið það frelsi, sem athafnaþrá hans þráði, til þess að nýta möguleikana. Mér finnst, að þetta frv. sé frá hendi hæstv. ríkisstj. vantraust á atvinnurekendur í landinu, og það er vantraust á bankakerfið og stjórnendur opinberra sjóða í atvinnumálum, þar sem þeir voru ekki einu sinni hæfir til þess að annast lánveitingu á þeim 300 millj., sem hér á að lána til atvinnuveganna. Þetta er yfirlýsing hæstv. ríkisstj. um afrek sín í atvinnumálum og það kerfi, sem hún hefur hælt sér af og hefur beitt sér fyrir að gera sem allra frjálslegast.

Hitt er svo annað mál, að afkoma atvinnuveganna í landinu er augljóslega með þeim hætti, að þar þarf stórra aðgerða við. Meira heldur en hér er að gert. Afkoma atvinnuveganna er nú sú, að kaupmáttur launa í landinu er um 15% minni heldur en hann var fyrir 10 árum. Þrátt fyrir þetta er það staðreynd, að atvinnureksturinn getur ekki borið sig og þarf aðstoðar við í flestum greinum, eins og hæstv. forsrh. drap á. Þetta er niðurstaðan eftir 10 ára góðæri, þó að tvö síðustu ár hafi verið erfið og erfiðari heldur en árin 1964–1965 og 1966. Þá sýnir það kannske bezt stjórnarstefnuna og árangur hennar, að á þeim árum, 1964, 1965 og 1966, beztu afla- og viðskiptaárum í sögu þjóðarinnar, gengu höfuðatvinnuvegirnir ekki nema með ríkisstyrkjum. Það er staðreynd um stefnu eða framtak hæstv. ríkisstj. í atvinnumálum, að öll þessi ár varð ríkið að styrkja atvinnuvegina, svo að rekstur þeirra gengi með eðlilegum hætti. Ástæðan fyrir þessu er það stjórnleysi, sem hér hefur ríkt í fjárfestingar- og gjaldeyrismálum. Það eru þær álögur, sem hafa verið á fjármagni því, sem til atvinnuveganna hefur gengið, og það eru skattar á skatta ofan, sem hafa verið lagðir á atvinnuvegina, og dýrtíðin er svo afleiðing af þessu öllu saman. Um þetta ætla ég ekki að fara fleiri orðum, þó að ég minnti á það við þetta tækifæri.

Hinu vil ég svo vekja athygli á, að hæstv. ríkisstj. hefur verið furðu sinnulaus um framkvæmdir í sambandi við atvinnuleysið. Það var öllum ljóst á s.l. sumri, að atvinnuleysi mundi verða hér á yfirstandandi vetri, og þegar þær umr. fóru fram, sem fóru fram á milli stjórnmálaflokkanna s.l. haust, var þetta mergurinn málsins í umr. Það kom greinilega fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., formanns Framsfl., sem hann flutti hér í sambandi við umr. um gengisbreytingarnar s.l. haust, að flokkurinn legði höfuðáherzluna á það, að fram hjá því yrði komizt, að hér yrði atvinnuleysi. Tillögugerð hans var við það miðuð og í öllum umr., sem hér fóru fram á hv. Alþ. í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, var það höfuðatriði í umr. okkar framsóknarmanna, að komizt yrði hjá atvinnuleysi og það yrði fyrirbyggt þegar í fyrrahaust, að atvinnuleysi yrði hér í vetur. Í sambandi við afgreiðslu fjárl. fluttum við minni hl. fjvn. till. til breytinga við fjárl., þar sem gert var ráð fyrir að verja 350 millj. til atvinnumála. Við tókum fram í sambandi við þá tillögugerð, að við værum fúsir til samstarfs um málið hér á hv. Alþ. og í fjvn. og umræðna um, hvor leiðin yrði farin; að þetta fé yrði tekið að láni eða það yrði veitt til þess að einhverju leyti á fjárl., og endanlega gerðum við till. um lántöku upp á 150 millj. og 200 millj. í fjárveitingu. En við tókum það fram, bæði í umr. á hv. Alþ. og eins í fjvn., að við værum til viðræðu um það að breyta því á annan hátt, ef það mætti verða til þess að leysa málið. Hins vegar væri okkur það ljóst, að það yrði að koma til fé, ef forða ætti atvinnuleysi og það riði á, að það kæmi til nógu snemma til þess að hjá atvinnuleysinu yrði komizt. Nú er hér frv. um að verja 300 millj. í þessu skyni eða álíka upphæð og við lögðum til. En nú eru nærri 3 mánuðir liðnir af árinu 1969, og hefði verið mikill munur, ef þetta mál hefði verið afgreitt fyrir áramótin síðustu. Við bentum á það í sambandi við umr. um fjárl. og þessa till. okkar, að t.d. skólabyggingarnar væru sá þáttur, sem auðvelt væri að hagnýta sér til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi hjá iðnaðarmönnum. Ef sú hugmynd okkar hefði verið tekin hér og unnið úr henni á s.l. hausti, hefði ekki þurft að vera það atvinnuleysi hjá iðnaðarmönnum, sem verið hefur í vetur og er enn. Sama má segja um fleiri opinberar framkvæmdir, aukið fé til vegagerðar gæti komið að verulegum notum í sambandi við atvinnu í sumar, m.a. fyrir skólafólkið.

Í sambandi við þetta frv. langar mig að spyrja um það, hvert sé raunverulega hlutverk Efnahagsmálastofnunarinnar. Ég hef litið svo á, að hlutverk Efnahagsmálastofnunarinnar væri það að vera til ráðuneytis fyrir ríkisstj. í atvinnu- og efnahagsmálum. Hjá þessari stofnun ættu að vera fyrir hendi skýrslur um hreyfingu í þessu, og hún ætti að eiga auðvelt með að gera áætlanir um úrlausnarefni í atvinnumálum. Það kom mér og fleiri þm. á óvart í sumar, þegar hæstv. ríkisstj. boðaði til umr. hjá stjórnmálaflokkum, að þá skyldi Efnahagsmálastofnunin ekki hafa tilbúnar athuganir á ástandinu í efnahagsmálunum, eins og það var þá. Ég leit á þetta sem viljaleysi hæstv. ríkisstj.-manna, til þess að þessar viðræður bæru nokkurn árangur. Ég gat í raun og veru ekki áttað mig á því, að Efnahagsmálastofnunin hefði ekki þessa greinargerð eða skýrslur tilbúnar. Nú hefur það hins vegar komið í ljós, að hið sama hefur gerzt nú. Frá hendi Efnahagsmálastofnunarinnar hafa ekki verið lagðar fram þær greinargerðir eða skýrslur eða till. í atvinnumálum, sem mátti gera ráð fyrir. Nú er ekki hægt að bera því við, að þessi stofnun hefði ekki haft aðgang að því að fá sér upplýsingar úti um landsbyggðina, því að hún getur, með því að snúa sér til sveitarstjórnanna í landinu og t.d. verkalýðsfélaganna, fengið þær upplýsingar um atvinnumál staðanna, sem er verið að safna nú. Ég hélt, að í raun og veru þyrfti ekki að setja upp sérstaka ríkisstofnun til þess að gera þessa athugun. Hún ætti að liggja fyrir í Efnahagsmálastofnuninni og ætti a.m.k. að vera þar auðunnin. Þetta hefur hins vegar komið á daginn, og mér leikur því forvitni á að vita, hvert hið raunverulega verkefni þessarar stofnunar er. Ég vil líka benda á það, að hæstv. ríkisstj. hefur verið knúin af stjórnarandstöðunni og stéttarfélögunum til þess að sinna þessum málum á þann hátt, sem hér er stefnt að, því að það var ekki fyrr en eftir nokkuð langa samninga með stéttarfélögunum og atvinnurekendunum, sem þetta varð niðurstaðan, en ekki af því, að hæstv. ríkisstj. hefði forystu þar um. Þetta harma ég, því að engum er það skyldara heldur en hæstv. ríkisstj. að hafa forystu um svo veigamikið atriði í þjóðmálunum, eins og um atvinnu landsmanna. Og eins og ég hef áður drepið á, var það öllum ljóst, að að þessu mundi fara, sem farið hefur, að atvinnuleysi yrði hér á yfirstandandi vetri. Ég vil svo undirstrika það, að þó að þessar aðgerðir, sem hér er stefnt að með þessu frv., muni taka sárasta broddinn úr atvinnuleysinu og draga úr því verulega í bili, þá munu þessar aðgerðir ekki nægja til þess að treysta atvinnulífið í landinu. Til þess þarf breytta stefnu hjá stjórnvöldum og nýja forystu. Þar verður að koma til stefna, sem dregur úr fjármagnskostnaði atvinnuveganna, stefna, sem dregur úr skattaálögum á atvinnuvegina, stefna, sem byggir atvinnulífið og fjárfestinguna upp með skipulögðum hætti samkv. fyrirfram gerðum áætlunum. Aðeins þess háttar vinnubrögð geta raunverulega leyst vandamál atvinnulífsins. Og þessi stefna verður að miða atvinnumálastefnu sína við það, að atvinnulífið í landinu geti greitt eðlilegt kaupgjald til þeirra, sem vinna hjá atvinnufyrirtækjunum, en ekki eins og nú er gert. Allt annað er óraunhæft í þessum atriðum.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mál mitt mikið úr þessu. En ég vil að lokum leggja áherzlu á þessi atriði. Ég tel frv. þetta nauðsyn, eins og nú er komið. Hins vegar lít ég líka á það eins og yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. um skipbrot hennar í atvinnumálum. Það er frá hennar hendi vantraust á stefnu hins frjálsa framtaks og banka- og peningastofnana í landinu. Í öðru lagi sannar það athafnaleysi hæstv. ríkisstj. Hún er knúin til þessa verks af stjórnarandstöðunni og stéttarfélögunum. Í þriðja lagi: Það leysir ekki vanda atvinnulífsins og tryggir ekki fulla atvinnu í landinu. Til þess þarf breytta stjórnarstefnu, þar sem framkvæmdir og fjárfesting eru gerð með skipulögðum hætti og samkv. fyrirframgerðum áætlunum, þar sem stjórn kemur í stað stjórnleysis. Það eitt getur treyst atvinnumál þjóðarinnar.