28.03.1969
Neðri deild: 73. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

191. mál, aðgerðir í atvinnumálum

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og ég gat um við 2. umr. málsins, þá hafði komið fram ábending um, að betur mætti fara að gera smábreytingu á frv., og hefur nú fjhn. þessarar deildar haft þessa ábendingu til athugunar, auk þess sem hv. 1. þm. Norðurl. v. kom fram með ábendingu um, að betur mætti fara í 5. gr. annað orðalag en þar stæði. Fjhn. d. hefur því leyft sér að flytja skriflega brtt. við frv., sem í er fólgið, að 5. gr. frv. verður að tveimur gr. í stað þess að vera í einni gr. og í stað orðanna í 5. gr., 2. málslið, þar sem stendur: „Féð skal vera í umsjá Atvinnujöfnunarsjóðs, er annist fyrirgreiðslu þess samkvæmt reglum....“ komi: „Féð skal vera í umsjá Atvinnujöfnunarsjóðs, sem fer með það samkvæmt reglum....“

Brtt. er því þannig, að 5. gr. orðist svo: „Ríkisstj. er heimilt að taka lán að upphæð 300 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, til atvinnuaukningar og eflingar atvinnulífs í landinu. Féð skal vera í umsjá Atvinnujöfnunarsjóðs, sem fer með það samkvæmt reglum, sem um það eru settar af atvinnumálanefnd ríkisins.“ Enn fremur að upphaf 6. gr. hljóði svo: „Verja skal fé því, sem aflað er samkvæmt 5. gr., eftir ákvörðun atvinnumálanefndar ríkisins.“ Síðan yrði það, sem eftir er af 5. gr. frv., áframhald af 6. gr., 6. gr. yrði síðan 7. o.s.frv. Ég leyfi mér fyrir hönd fjhn., — þar voru mættir allir fjhn.-menn, að undanskildum hv. 4. þm. Austf. og 5. þm. Austf., — að leggja til, að frv. verði samþ., svo breytt.