25.03.1969
Neðri deild: 69. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

192. mál, Landsvirkjun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. raforkumálaráðh. sagði, að ég hefði haft uppi getsakir um stefnu og vinnubrögð hæstv. ríkisstj. í atvinnumálum. Því miður eru þetta engar getsakir, heldur afar augljósar staðreyndir. Eftir að hæstv. ríkisstj. fékk þá meinloku, að hún gæti leyst vandamál íslenzku þjóðarinnar og vandamál atvinnuveganna með því að fela erlendum auðhringum þróun efnahagslífsins, hefur innlendum atvinnuvegum hnignað jafnt og þétt. Í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. hefur togurum fækkað svo mjög, að úthaldsdagar þeirra voru í fyrra meira en helmingi færri en þeir voru 1959. Það hefur orðið mjög verulegur samdráttur á þeim hluta bátaflotans, sem stundar bolfiskveiðar, og framleiðsla okkar á ýmsum fiskiðnaðarvarningi, eins og frystum fiskflökum, hefur dregizt stórlega saman á sama tíma og sú framleiðsla hefur margfaldazt annars staðar.

Hér á Íslandi hafa ýmsir þættir iðnaðarins dregizt mjög verulega saman, allt frá neyzluvöruiðnaði til málmiðnaðar, vegna þess að samkv. stjórnarstefnunni var talið heppilegra að flytja þann varning inn til landsins. Af þessu stafar atvinnuleysið, af þessari stefnu hæstv. ríkisstj. Og ég taldi rétt að vekja máls á þessu atriði hér vegna þess, að þetta frv. er liður í áformum, sem fela í sér, að sömu stefnu á að halda áfram. Þó að hæstv. ríkisstj. vinni að því kappsamlega að reyna að ná samningum við erlend auðfélög um að stofna hér ný fyrirtæki á næstu árum, þá er ekki um neina hliðstæða áætlun að ræða um þróun íslenzkra atvinnuvega.

Það er hægt að tala fagurlega um það, eins og hæstv. ráðh. gerir, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að virkja vatnsföllin. Ég er algerlega sammála honum um það. En því aðeins koma þær virkjanir okkur að gagni, að við notum þær sjálfir. Það er eins með raforku og hráefni, að í iðnvæddu þjóðfélagi fer minnst af arðinum til þessara hluta framleiðslunnar. Þar er fyrst og fremst greitt fyrir verkmenningu. Það hefur verið veila okkar í sjávarútvegi, hvað við höfum fullunnið framleiðsluna lítið. Á það var bent fyrir allmörgum árum af Davíð Ólafssyni, núv. seðlabankastjóra, þáv. fiskimálastjóra, að ef við ynnum fiskafla okkar á svipaðan hátt og Vestur-Þjóðverjar gerðu þá, þá gætum við tvöfaldað útflutningsverðmætið. En í staðinn fluttum við aflann úr landi og eftirlétum öðrum að fullvinna hann. Og það er nákvæmlega þetta, sem hæstv. ríkisstj. er að gera með áformum sínum um rafvirkjanir. Hún er að eftirláta erlendum aðilum raforkuna, svo að þeir geti hirt þann arð, sem í henni felst. Við seljum hana sem hráorku á ákaflega lágu verði, sem skilar svo til engum arði. En þá verða þetta ekki gagnlegar auðlindir fyrir okkur, ef við erum ekki menn til að hagnýta þær, ef við getum ekki komið okkur upp iðnfyrirtækjum til þess að nýta orkuna og breyta henni í verzlunarvöru. Og auðvitað getum við gert þetta. Það er minnimáttarkennd og ekkert annað, að við Íslendingar getum ekki hafið iðnþróun af eigin rammleik. Að sjálfsögðu getum við tekið upp samvinnu við erlenda aðila um það, og það er alveg sjálfsagt mál. En við eigum sjálfir að ráða yfir þeim fyrirtækjum, sem við komum upp í landinu. Þetta verður að vera aðalstefna okkar. Aðeins á þennan hátt getum við tryggt eðlilega efnahagsþróun á Íslandi og eðlilega atvinnuþróun.

Hæstv. raforkumálaráðh. minntist á Noreg í þessu sambandi og alúmíniðnaðinn þar. Ég vil benda á það, að Norðmenn eru sjálfir mjög umfangsmikill aðili að þessari alúmínframleiðslu. Þeir eru mjög umfangsmikill þátttakandi í henni, en það erum við alls ekki. Og ég veit ekki til, að hæstv. ríkisstj. hafi gert nokkra minnstu tilraun til þess að tryggja það, að Íslendingar gætu orðið aðili að slíku verksviði.

Það er mikil fjarstæða, sem hæstv. ráðh. sagði, að hvarvetna blasti við alhliða uppbygging í atvinnulífinu. Ég held, að það sé ekki hægt að hugsa sér öllu hróplegra öfugmæli, og það er einnig mikil fjarstæða, þegar hæstv. ráðh. segir, að kostað sé til miklum fjármunum að rannsaka auðlindir Íslendinga og hvernig við getum hagnýtt þær. Ég bar fram fsp. á þingi fyrr í vetur um það, hversu miklu fé væri varið til vísindarannsókna og tilrauna á Íslandi. Og það kom í ljós, að við verjum til þessara þarfa 0.38% af þjóðartekjunum á sama tíma og sæmilega þróuð Evrópuríki verja um 2%. Við stöndum á svipuðu stigi og Portúgal, Spánn og Grikkland, vanþróuðustu ríkin í Evrópu. Einmitt þarna er einhver mesta veilan í öllu atvinnukerfi okkar, að við verjum allt of litlu fé til þess að rannsaka hinar sérstöku aðstæður á Íslandi og einnig til hliðstæðra rannsókna á því, hvernig við getum sjálfir unnið úr hráefnalindum okkar og orkulindum, og hvernig við getum komið upp iðnaði, þar sem við hagnýtum innflutt hráefni. Þær rannsóknir, sem nú er verið að framkvæma á íslenzkri náttúru, beinast ekki sízt að hráefnaleit. Það er verið að athuga þaravinnslu á Breiðafirði og málma á Austfjörðum. Þetta er í sjálfu sér gott og gilt. En það, sem skiptir máli fyrir okkur, ef við ætlum að hefja iðnvæðingu, er að efla verkmenningu á Íslandi, og til þess þarf allt annað. Til þess þarf mjög verulegar breytingar á skólakerfi okkar, og til þess þarf breytingar á öllu kerfi atvinnulífsins, allri uppbyggingu fyrirtækja á Íslandi. Í það þyrfti að leggja stórfé, að vinna að slíkum athugunum. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki hikað við það að leggja fram stórfé til þess að undirbúa samninga við erlend auðfélög. Hún veit, að það kostar peninga. Hún veit, að hún verður að leggja til sérfræðinga á því sviði og greiða það, sem það kostar. En hún fæst ekki til þess að leggja hliðstæða fjármuni í rannsóknir á því, hvernig við Íslendingar getum sjálfir komið upp okkar eigin iðnaði.

Þetta er ákaflega mikið alvörumál. Ég benti á það í ræðu minni áðan, að enda þótt þessi áform tækjust öll um þrjú ný erlend stórfyrirtæki ofan á alúmínbræðsluna í Straumi og þótt þessi fyrirtæki væru komin upp 1976, þá veittu þau ekki atvinnu nema um 1000 manns. En á þessum sömu árum hafa um 10 þús. manns bætzt við á vinnumarkaðinum. Hvað eiga þessar þúsundir að gera, þegar ekki eru lögð á ráðin um það að efla atvinnuvegina í þeirra þágu? Á þetta fólk að flytja til Ástralíu? Þetta er tvímælalaust mesta alvörumálið, sem við okkur blasir, og mér finnst það vera einhver alvarlegasti ljóðurinn á ráði þessarar ríkisstj., að hún hefur ekki fengizt til þess að horfa af raunsæi framan í þennan vanda. Hugmyndir hennar um, að erlend auðfélög leysi það fyrir okkur, eru markleysa. Þær standast ekki. Algerlega óháð því, hvort menn telja slíka samninga hagstæða eða ekki, þá er sú staðreynd augljós hverjum manni, að þeir nægja alls ekki, og hér þarf að gera margfalt umfangsmeiri ráðstafanir, sem við verðum sjálfir að ráðast í. En um þau verkefni liggja engin áform fyrir.