15.12.1969
Efri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (2474)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Aðalefni þessa frv. er að leggja Loðmundarfjarðarhrepp í Norður-Múlasýslu undir lögsagnarumdæmi og bæjarfélag Seyðisfjarðarkaupstaðar. Loðmundarfjörður er nú að heita má í eyði. Það munu, að því er bezt er vitað, einungis tveir menn telja sig eiga þar lögheimili, og liggur þá auðvitað í augum uppi, að þar er ekki neinn grundvöllur fyrir sjálfstæðu sveitarfélagi. Þarf því að ráðstafa þessum hreppi eitthvað annað, leggja hann við annað sveitarfélag. Þetta vandamál var tekið fyrir á fundi í sýslunefnd Norður-Múlasýslu, sem haldinn var 3. júlí s. l. Þar var samþ. með shlj. atkv. svofelld ályktun, með leyfi forseta :

„Með því að Loðmundarfjarðarhreppur er nú orðinn allt of fámennur til að geta rækt þær skyldur við íbúa sína, sem sveitarfélagi ber að rækja, mælist sýslunefnd Norður-Múlasýslu til þess við félmrn., að gerðar verði ráðstafanir til að sameina hreppinn öðru sveitarfélagi.“

Skömmu síðar eða 11. ágúst s. l. samþykkir svo bæjarstjórn Seyðisfjarðar fyrir sitt leyti, að Loðmundarfjarðarhreppur og Seyðisfjarðarkaupstaður verði sameinaðir í eitt sveitarfélag, er beri nafn Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Þetta frv., sem er stjfrv., er því flutt hér í beinu framhaldi af þessum samþykktum, og það eru tilmæli Norður-Múlasýslu við félmrn., sem ráðuneytið hefur svarað með því að útbúa þetta frv., sem hér liggur fyrir. Ég tel alveg ljóst, þegar litið er á orðalag þessarar samþykktar sýslunefndarinnar, sem segir „að sameina hreppinn öðru sveitarfélagi“, þá hljóti sýslunefndin m. a. að hafa haft það í huga, að það gæti orðið Seyðisfjarðarkaupstaður, því að annars kostar hefði samþykktin væntanlega hljóðað upp á að sameina hreppinn öðru hreppsfélagi. Vitanlega er hægt að hugsa sér það, að fleiri sveitarfélög komi til álita en Seyðisfjarðarkaupstaður til þess að taka við Loðmundarfjarðarhreppi. Af landfræðilegum ástæðum þar í sýslunni munu það þó einungis vera tvö hreppsfélög, þ. e. a. s. Seyðisfjarðarhreppur og Borgarfjarðarhreppur. En eftir því, sem sýslumaður Norður-Múlasýslu og bæjarfógetinn á Seyðisfirði hefur upplýst, þegar rætt var við hann af hálfu n., þá hefur hann tekið það fram, að það væri enginn vilji fyrir hendi hjá þessum hreppum Norður-Múlasýslu til þess að taka við Loðmundarfjarðarhreppi, og engin andmæli eða till. hafa komið frá þessum hreppum til n., þannig að líta verður á þessa samþykkt sýslunefndarinnar sem fullnægjandi í því efni, að hún sé því ekki andvíg, að Loðmundarfjarðarhreppur sé sameinaður Seyðisfjarðarkaupstað. Þegar líta á til þess, hvernig á að ráðstafa Loðmundarfjarðarhreppi, þá verður auðvitað að athuga, hvaða hreppsfélög eða sveitarfélög eru tilbúin til að taka við honum, og það liggur alveg ljóst fyrir, að Seyðisfjarðarkaupstaður er eina sveitarfélagið, sem reiðubúið er til þess. Hins vegar má segja, að sameining þessara tveggja sveitarfélaga sé að því leyti nokkuð óvenjuleg, að þau eiga ekki landamerki saman og það sé nokkuð óvenjulegt. Nú er það svo, að á meðan Loðmundarfjörður var í byggð, áttu þeir, sem þar bjuggu, viðskipti við Seyðisfjörð, og úr Loðmundarfirði lágu samgöngur á sjó og landi fyrst og fremst til Seyðisfjarðar. Ef Loðmundarfjörður byggist aftur, mundi sjálfsagt sami háttur verða hafður á. Milli þessara sveitarfélaga hafa því verið tengsl. Svo finnst mér líka einnig þurfa á það að líta, að Seyðisfjarðarhreppur, sem er þarna á milli, er mjög fámennur. Þar eru aðeins 47 íbúar, og ég lít nú svo á, að það sé aðeins hreint tímaspursmál, hvenær þessi hreppur verður tekinn og sameinaður Seyðisfjarðarkaupstað, og þá er þetta allt orðið samfellt landssvæði.

Þessu máli var vísað til heilbr.- og félmn. N. náði ekki samstöðu um málið. Meiri hl. n., sem ég mæli hér fyrir, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, og telur, að sýslunefndin hafi þegar tjáð sig til fulls um þetta mál og annarra kosta sé ekki völ en að sameina Loðmundarfjörð Seyðisfirði. Telur n. því algerlega óþarft að leita á ný umsagnar sýslunefndar um þetta mál, enda kemur hún sjálfsagt ekki saman fyrr en að vori, og það þýddi þá auðvitað, að þessu máli mundi naumast ljúka á þessu þingi. En meiri hl. n. leggur til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.