27.10.1969
Neðri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í C-deild Alþingistíðinda. (2521)

28. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Þetta er í þriðja skipti, sem þetta frv. er lagt fyrir hv. þd. og þess vegna óþarft að gera ítarlega grein fyrir efni þess nú. Frv. er samið af mþn., sem falið var að endurskoða þingsköpin með þáltill., sem samþ. var á hv. Alþ. 29. apríl 1966. Frv. var síðan flutt að ósk forseta þingsins og er svo enn, þegar það er flutt í þriðja skipti. Ég tel óþarft að fara ítarlega út í að ræða efni frv., mun þó aðeins minnast á nokkrar aðalbreytingarnar, sem lagðar eru til.

Í fyrsta lagi er lagt til, að kjörbréfanefnd verði kosin fyrir allt kjörtímabilið, en ekki árlega, eins og verið hefur. Í öðru lagi er lagt til, að ef sæti Ed.-þm. losnar og varamaður tekur sæti á þingi, skuli sá þingflokkur, er skipa á sætið, tilnefna mann úr sínum flokki til Ed. Í þriðja lagi er lagt til, að nm. í utanrmn. verði bundnir þagnarskyldu um þá vitneskju, sem þeir fá í n., ef formaður eða utanrrh. kveða svo á. Þá eru í fjórða lagi sett ný og fyllri ákvæði um skýrslur, sem ráðh. óska að gefa Alþ. og um rétt þm. til þess að óska slíkra skýrslna. Í fimmta lagi eru ákvæðin um fsp. í Sþ. gerð fyllri en þau nú eru og stefnt að því að gera umr. um þær styttri og hnitmiðaðri. Lagt er til, að munnlegar fsp. verði teknar fyrir á sérstökum fundi í Sþ., þannig að þær taki ekki um of tíma frá öðrum þingmálum. Þá er lagt til, að það nýmæli verði tekið upp, að þm. geti borið fram skriflegar fsp., er ráðh. svarar síðan skriflega. Tíðkast slík fsp.- gerð í þingum nágrannaþjóða.

Í sjötta lagi er í sambandi við útvarps- og sjónvarpsumr. lagt til, að það nýmæli verði tekið upp, að útvarpa skuli innan tveggja vikna frá þingsetningu stefnuræðu forsrh. og umr. um hana. Er þá gert ráð fyrir, að slíkar umr. komi í staðinn fyrir útvarp fjárlagaræðu og umr. um hana. Þá er lagt til, að á síðari hluta hvers þings skuli útvarpa almennum stjórnmálaumr., er standi í eitt kvöld. Skulu þær umr. koma í staðinn fyrir eldhúsdagsumr., og verða því allmiklu styttri en þær hafa verið. Í þessu sambandi má geta þess, að þetta atriði hefur sætt allmikilli gagnrýni hér á tveimur síðustu þingum. Ýmsum þm. hefur fundizt, að þessi breyting næði ekki nægilega langt og vilja helzt fella eldhúsdagsumr. algerlega niður. En eins og sagt var, er lagt til í frv., að útvarpsumr. verði styttar um helming, og lengra varð ekki samkomulag um að ganga í þeirri hv. mþn., sem um málið fjallaði. Þá er í sjöunda lagi lagt til, að það nýmæli verði tekið upp, að ef Ríkisútvarpið óskar að útvarpa umr. frá Alþ. eða hluta af umr., verði það heimilað að höfðu samráði við formenn þingflokka.

Ýmis fleiri atriði en þau, sem hér er getið, voru að sjálfsögðu rædd í n., en eins og tekið hefur verið fram í framsögu fyrir frv. áður, taldi n., að hún yrði að skila sameiginlegu áliti um fyrirhugaðar breytingar á þingsköpum. Og það er enn þá óbreytt mín skoðun, að æskilegt og nauðsynlegt sé, að þegar breytt er löggjöf eins og þingsköpum, verði sem breiðast samkomulag um þær breytingar.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um frv. að þessu sinni, en beini þeim eindregnu tilmælum til hv. allshn., sem málið mun sennilega ganga til að þessu sinni eins og áður, að hún hafi nú skjót vinnubrögð á og afgreiði þetta mál frá n. Mér er kunnugt um það, að hún var langt komin með það á síðasta þingi, og nú vænti ég, að af því verði, að málið fái þinglega meðferð, og að sjálfsögðu er það hv. þd. og hv. Alþ. í heild að kveða á um það, hvort e. t. v. eigi að gera frekari og róttækari breytingar á þingsköpum en hér er gert ráð fyrir.

Ég leyfi mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.