27.01.1970
Neðri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

126. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar frv. til l. um breyt. á l. nr. 10 22. marz 1960, um söluskatt, sbr. l. nr. 61 24. des. 1964, um breyt. á þeim lögum. Fjhn. d. hefur ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. hefur gefið út álit á þskj. 271 og minni hl. gefið út sérálit.

Við 1. umr. þessa máls gerði hæstv. fjmrh. grein fyrir þeim megin atriðum, sem frv. þetta fjallar um, þ.e.a.s. hækkun á söluskatti úr 7 1/2% í 11 %, svo og fyrirhuguðum breyt. á innheimtu söluskattsins. Hækkun söluskattsins leiðir af þeim breytingum, sem ætlað er að gerðar verði á tollskrá vegna inngöngu Íslands í Fríverzlunarsamtök Evrópu, EFTA, en gert er ráð fyrir, að töluverður tekjumissir verði hjá ríkissjóði við þær breyt. og sú söluskattshækkun, sem hér er lagt til að samþ. verði, er að verulegu leyti til þess að mæta þeim tekjumissi. Gerði hæstv. fjmrh. í framsögu ræðu sinni fyrir tollskránni grein fyrir þessum upphæðum, sem eru rúmar 500 millj. kr., svo og því, að það, sem söluskatts hækkunin mun gefa ríkissjóði til viðbótar, er vegna þeirra upphæða, sem samþ. voru á fjárl. til aukinna framkvæmda, svo og þeirrar upphæðar, sem ætluð er til aukningar almannatryggingum. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þær tölur hér frekar, en vísa til þess, er hæstv. ráðh. sagði í sinni framsöguræðu.

Hitt atriðið, sem frv. fjallar um, er þess efnis, að ráðh. sé heimilt að setja með reglugerð ákvæði um framtöl og framtalsfresti og eins og fram kemur í nál. meiri hl., þá mun hæstv. fjmrh. við þessa umr. gera hv. Nd. grein fyrir, með hvaða hætti hann hyggst koma fram breytingum á núverandi innheimtuaðferðum við innheimtu söluskattsins.

Þegar frv. þetta var rætt í fjhn., tók n. enn fremur til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. nr. 10 22. marz 1960, um söluskatt, 63. mál þingsins, þskj. 68, sem flutt er af Halldóri E. Sigurðssyni o.fl., en í því frv. eru till. um niðurfellingu á söluskatti á nokkrum tilteknum vörum. Meiri hl. fjhn. er samþykkur því, að felldur verði niður söluskattur á neyzlufiski, en eins og kemur fram í nál. meiri hl., er heimild í söluskattslögum til handa ráðh. að fella niður söluskatt í sérstökum tilvikum og mun ráðh. hér á eftir gefa yfirlýsingu þar að lútandi varðandi niðurfellingu á söluskatti á neyzlufiski. Meiri hl. fjhn. gat ekki fallizt á, að söluskattur yrði felldur niður á öðrum tilteknum vörum skv. frv. og leggur til, eins og fram kemur í nál., að verði um það fluttar brtt., þá verði þær felldar.

Frv. þetta var sent til umsagnar ýmissa aðila og eins og fram kemur, þá bárust erindi m.a. frá Flugfélagi Íslands h.f., Eimskipafélagi Íslands h.f. og Félagi ísl. ferðaskrifstofa. Erindi þessara aðila voru öll á þann veg, að felldur yrði niður söluskattur á farmiðum og ferðalögum og mjög höfðað til þess, að söluskattur mun ekki vera lagður á undir slíkum kringumstæðum hér hjá nágrannaþjóðum okkar. Meiri hl. n. telur, að þær ábendingar, sem koma fram í erindum þessara aðila, séu mjög á rökum reistar og að söluskattur á slíka þjónustu hér hjá okkur, sem ekki er lagður á hjá okkar næstu nágrönnum, geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir hag og rekstur þessara fyrirtækja. Meiri hl. fjhn. gerir sér hins vegar grein fyrir því, að hér er um töluvert fjárhagsatriði að ræða fyrir ríkissjóð og eins og segir í nál., treystir fjmrh. til þess að fella niður söluskattinn undir slíkum kringumstæðum að einhverju eða öllu leyti, sé slíkt með nokkru móti kleift, þá, eins og ég gat um áðan, skortir fjmrh. ekki lagaheimild til þess að gera slíka hluti, ef að hans dómi er möguleiki á því, og hann telur slíkt rétt. Meiri hl. n. taldi hins vegar rétt að láta í ljós skoðun sína í nál.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um frv. Hér er um að ræða breyt., sem eru afleiðingar af samþykkt Alþ. á inngöngu Íslands í EFTA og leggur meiri hl. n. til, með þeim skýringum, sem ég hef nú gefið, að frv. verði samþ. óbreytt.