27.01.1970
Neðri deild: 45. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

126. mál, söluskattur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd vegna orða, er hv. 5. þm. Austf. lét falla í lok ræðu sinnar hér fyrir stuttu, er hann lét eiginlega í það skína, að vegna afstöðu minnar við atkvgr. við 2. umr. í þessu máli væri ég sammála honum og öðrum stjórnarandstöðuþm. um að sú breyting, sem var gerð við 2. umr., væri eingöngu til þess að koma í veg fyrir undandrátt og misferli í greiðslu á þegar innheimtum söluskatti til ríkissjóðs. Ég skal vissulega viðurkenna það, að bæði í röðum þeirra, sem innheimta þennan söluskatt, eins og sjálfsagt í röðum annarra atvinnustétta finnast breyskir menn og ég er ekki í nokkrum vafa um, að þeir finnast einnig þarna og ef þessari heimild verður beitt, getur dregið úr þessum misferlum.

En þetta er alls ekki aðalástæðan fyrir afstöðu minni, heldur kannske aðallega sú að firra þá aðila, sem þessi verk vinna fyrir það opinbera, að innheimta söluskattinn, – að firra þá sífelldum aðdróttunum þessa þm. og annarra, sem bera þeim sífellt á brýn, að þeir misfari með þetta fé, sem almenningur þegar á.