27.10.1969
Neðri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

29. mál, gerðardómur í kjaradeilu atvinnuflugmanna

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki langt síðan ég fór að kynnast hv. 6. þm. Reykv., en ég hefði ekki búizt við, að hann væri svo kaldrifjaður eins og fram kemur í þessari síðustu ræðu hans. Hann segir, að ég hafi átt þátt í því að semja við flugliða utan við gerðardóminn og að flugliðar hafi fengið svo og svo miklar hækkanir með samþykki ríkisstj. Sem betur fer eru það fáir hv. þm., sem temja sér svona málflutning, aðeins að fullyrða út í loftið það, sem enginn fótur er fyrir, og treysta því, að einhverjir trúi því, sem þeir eru að fleipra með. Svo var þessi hv. þm. að tala um, að það gætu komizt hviksögur á fót. En hverjir skyldi verða höfundar slíkra hviksagna frekar en þeir, sem tala í þeim dúr, sem hv. 6. þm. Reykv. gerði hér áðan?

Það er leiðinlegt, að hv. þm. skuli temja sér svona málflutning. Það er alls ekki sæmandi. Og svo er hv. þm. að tala um það, að það sé ekkert vitað, um hvað var samið á bak við tjöldin, og skorar á mig að gefa skýrslu um það, höfund samkomulagsins, eins og hann kallar svo. Ég ætti líklega að vita það, hvað hefur verið samið um utan við þetta plagg, ef ég er höfundur þess, eins og hv. þm. vill fullyrða. Svona fullyrðingar stangast á við allt velsæmi og eru alls ekki svaraverðar.

Það er vitað mál, að flugfélögin sömdu við flugliðana um dagpeningana. Loftleiðir sömdu um búninginn og Loftleiðir sömdu einnig við sína flugliða um lengri vinnutíma en þeir áður höfðu haft. Mér var sagt, að þeir hefðu sparað sér ráðningu á tveimur eða þremur flugáhöfnum með því, að flugliðar Loftleiða tóku að sér að vinna lengri tíma en tilskilið var í samningunum. Fyrir þetta fengu þeir vitanlega hærra mánaðarkaup, en ekki hærra tímakaup, og út af fyrir sig held ég, að það sé ekki nema hrósvert að gera samninga á þessum grundvelli, á meðan vinnutíminn er ekki of langur, ekki hættulega of langur í svo ábyrgðarmiklu starfi, sem það er að stjórna flugvél. Þetta er það, sem mér hefur verið sagt um samninga á milli flugliða annars vegar og flugfélaganna hins vegar, á meðan gerðardómurinn var í smíðum.

Hv. 6. þm. Reykv. vitnar í það, að núv. ríkisstj. hafi gefið út mörg brbl. og það hafi alltaf verið gert í sambandi við vinnudeilur. Það hefur verið gert nokkrum sinnum að gefa út brbl., en aldrei nema í ítrustu neyð. Hv. 6. þm. Reykv. fullyrti, að ríkisstj. tæki alltaf afstöðu með atvinnurekendum gegn launþegum. En hvað segja nú þessi lög, sem við nú erum að ræða? Þar er gert ráð fyrir þriggja manna gerðardómi, sem hæstiréttur skipar. Það hefði verið í samræmi við málflutning hv. 6. þm. Reykv. hér áðan að segja eitthvað á þá leið: Ríkisstj. réð því nú alveg, hvaða menn hæstiréttur skipaði í gerðardóminn. Ég er dálítið hissa, að hann skyldi ekki fullyrða það. Það hefði verið í samræmi við annað orðalag í ræðu þessa hv. þm. En hann gerði það ekki. Kannske hefur hann gleymt því. E.t.v. gerir hann það í næstu ræðu til rökstuðnings því, að ríkisstj. hafi tekið afstöðu með atvinnurekendum, því að hafi ríkisstj. ekki fyrir fram vitað, hverjir ættu að fara í gerðardóminn, þá vissi hún ekkert um, hvaða afstöðu gerðardómurinn tæki gagnvart deilunni. Og ég geri nú ráð fyrir því, að engum öðrum en hv. 6. þm. Reykv. detti í hug að efast um það, að þessir gerðardómsmenn þrír, sem skipaðir voru af hæstarétti, hafi unnið að þessu plaggi af ítrustu samvizkusemi. Ég er alveg sannfærður um það, að þeir hafa gert það. Þeir hafa unnið að þessu af ítrustu samvizkusemi. Þess vegna ætti hv. 6. þm. Reykv. ekki að vera með fullyrðingar á borð við þetta.

Hv. þm. talaði um það, að flugfélögin ættu alveg víst, að það yrðu gefin út brbl. þeim til bjargar. Það er náttúrlega, ef um tvennt er að ræða, annaðhvort það að láta flugfélögin hætta starfsemi og fara á hausinn, eins og það er kallað, eða gefa út brbl., þá er valið ekkert erfitt frá mínu sjónarmiði. Þá vil ég gefa út brbl., ef það nægir til þess að bjarga þessum mikilvæga atvinnurekstri okkar, sem flugið er orðið. En það má hv. 6. þm. Reykv. vita, eins og allir aðrir þm., að það var ekki horfið að því að gefa út brbl., fyrr en búið var að boða verkfall og allt var að komast í strand. Nú gæti ég bezt trúað því, að hv. 6. þm. Reykv. hafi ekki hugmynd um það í rauninni, um hvað var deilt. Ég gæti bezt trúað því. Ég held, að hann geri ráð fyrir því, að það hafi verið sáralítið, sem bar á milli. En til upplýsingar fyrir hann, — ég geri ráð fyrir, að flestir aðrir þm. hafi gert sér grein fyrir því (MK: Það stendur í brbl.) Nei, það stendur nú ekki að öllu leyti í brbl. Það er talað um prósenttölu, hlaupandi, en það er hægt að gefa nánari skýringar á þessu, því að það er að sjá, að það, sem stendur í brbl., hafi ekki nægt hv. 6. þm. Reykv. sem rök fyrir málinu.

Hér er um þrjá launaflokka að ræða. Fyrsti launaflokkurinn er fyrir byrjendur, þ.e. fyrstu 6 mánuðina. Það er á DC-3 og DC-4. Þar er mánaðarkaupið lágt, 13655 kr., eða var fyrir hækkunina. Krafan var 20 þús. eða hækkun um 6345, þ.e. 46.5%. Svo er það annar flokkurinn. Það er á DC-3 og Fokker. Þar voru launin frá 20 þús. upp í 26 þús., en krafa um hækkun var úr 20 þús. upp í 33 þús., og 26 þús. í 49 þús., eða 58 – 87%. Ef við tökum svo þriðja flokkinn, sem er Boeing 727, þar voru launin 38537, krafa var 86 þús., eða 123.2%. Þetta voru þær hækkanir, sem um var að ræða, og það var ekki aðeins mánaðarkaupið, heldur var einnig um að ræða mikla hækkun, þegar flogið var umfram umsaminn flugtíma. Þegar flogið er umfram umsaminn flugtíma, en umsaminn flugtími núna er frá 50 – 60 stundir á mánuði eftir því, á hvaða flugvél er flogið, þá var krafan á minni vélunum 1500 kr. á klst., en í úrskurði gerðardómsins er það 570 kr. Á Rolls Royce 400 var krafan 2000 á klst., en í úrskurði gerðardómsins eru það 850 kr. Á Boeing 727 var krafizt 2500 kr. á klst., en í úrskurðinum er 910, þannig að það bar anzi mikið á milli, og það er náttúrlega reginmunur á því, sem úrskurðað var samkv. gerðardómnum, og því, sem krafizt var í byrjun. Flugfélögin bæði töldu, að með þessum kröfum flugliða væri starfseminni ógnað og að tilveruréttur flugfélaganna væri settur á vægast sagt mjög veikan grunn.

Sannleikurinn er sá, að ég er dálítið hissa á því, að þegar gerðardómsleiðin er valin og hlutlausum aðila er fengið málið í hendur; þá skuli það valda deilum hér í hv. Alþ., að þessi leið var farin til þess að bjarga þessu máli, sem komið var í algeran hnút og sáttasemjari gafst algerlega upp við að leysa. Ég held satt að segja, að það sé hægt að finna sér nóg deiluefni hér í hv. Alþ., þó að menn hefðu komið sér saman um það, að nauðsynlegt var að leysa þessa deilu, að það var skylt að koma í veg fyrir, að flugið stöðvaðist í vor, eins og útlit var fyrir, að það mundi gera. Ég hefði haldið það. Og ég hafði haldið það, að þó að við séum sammála um, allir hv. þm., að flugliðar okkar eigi allt gott skilið, þá væri sanngjarnt, að þeir sættu sig við það, sem þeir hafa nú fengið samkv. úrskurði gerðardómsins. Þeir gegna ábyrgðarstöðum, en þeir hafa líka hæstu laun, sem greidd eru í landinu, og þeir hafa ekki samkv. því, sem upplýst er, þvingandi langan vinnutíma.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði hér áðan, að gerðardómurinn, þessi bók hér, væri bara ómerkilegt plagg, sem væri látið fara í ruslakörfuna, lögin væru ekki framkvæmd, gerðardómurinn væri markleysa. Allir vita betur. Allir vita það, að lögin hafa verið framkvæmd og eru þegar í fullu gildi. Allir vita það, að eftir úrskurði gerðardómsins er farið, nema hv. 6. þm. Reykv. En auðvitað hlýtur hann að vita þetta, þó að hann temji sér að fullyrða annað. En ég held, að það sé svo ekki annað, sem ég þarf að taka fram. Ég held, að ég hafi hér með hrakið fullyrðingar hv. þm., og ég á ekki von á því, að nokkur annar hv. þm. taki undir það, sem hann hér áðan sagði.