11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

75. mál, sauðfjárbaðanir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekkert stórmál, þessi brtt., sem hér er um að ræða, og verður nú sennilega ekki neitt hitamál hér í hv. þingi. Eigi að síður þykir mér rétt að fara nokkrum orðum um þetta, og það, að margir séu nú þegar búnir að baða, held ég, að geti nú tæplega verið rétt. En það má vel vera, að það séu einhverjir, og það getur vel verið, að það sé önnur regla norður í Eyjafirði heldur en hér á Suðurlandi. Hér á Suðurlandi er venjan að baða, eftir að fé er komið í hús, en ekki hafa það úti, eftir að búið er að baða það. Þetta frv. var lagt hérna fram, og það er áreiðanlegt, að bændur fylgjast betur heldur en flestir aðrir með þingmálum. Þeir vita, hvaða mál eru flutt og ekki sízt, ef það snertir landbúnað. Og þar sem þetta er stjfrv., þá hafa bændur áreiðanlega reiknað með því, að þessi breyting yrði að lögum, og það út af fyrir sig gerir það enn ótrúlegra, að bændur séu búnir að baða. En þetta er ekkert stórt atriði, hvort þetta bráðabirgðaákvæði út af fyrir sig er samþ., en ég gæti nú bezt trúað því, að það væri með öllu óþarft.

Það segir hér í 1. gr. l. um sauðfjárbaðanir, með leyfi hæstv. forseta:

„Skulu þær baðanir fara fram á tímabilinu 15. október til 1. marz veturna 1959–60 og 1960–61. Eftir það er heimilt að baða aðeins annað hvert ár, en á sama tímabili.“

Ég er nú ekki alveg viss um það, nema það væri bara heimilt að veita þeim bændum, sem eru búnir að baða, ef þeir eru einhverjir, undanþágu frá því að baða næsta ár, ef þeir hafa baðað núna. En það þykir sjálfsagt, að það verði athugað nánar, og ég tel, að þótt þessi till. sé ekki mikilvæg, þá sé það eðlilegt, að það fari ekki fram atkvgr. um hana fyrr en við 3. umr. Henni verði frestað núna, og n. fái tækifæri til þess að athuga að, hvort það þykir ástæða til að samþykkja till. Ég tel, að tímabilið frá 1. nóv. til 1. marz sé eðlilegur tími, vegna þess að sauðfjárbaðanir fara yfirleitt ekki fram, fyrr en fénaður er kominn á gjöf. En hv. landbn. getur nú skotið á fundi, og hv. 1. flm. þessarar till. hefur vonandi tíma til þess að mæta á þingfundi, þ. e. a. s., ef hann er rétt og eðlilega boðaður, og þá kemur fram, hvort ástæða er til að samþykkja brtt. eða ekki. Ef það að athuguðu máli þykir rétt og eðlilegt, þá hefði ég sízt á móti því: Ef það er óþarft, þá er bezt að láta það vera, og þá tryði ég hv. flm. alveg til að taka till. aftur, ef hún að athuguðu máli sýnist vera algerlega óþörf.