14.12.1970
Neðri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (3057)

171. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Við erum 5 þm. þessarar hv. d., sem höfum leyft okkur á þskj. 235 að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 63 frá 28. maí 1969, um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf. Við samanburð á 1. gr. þessa nýja frv. og 7. gr. þeirra laga, sem ég hef nefnt, kemur í ljós, að höfuðbreytingin er sú, að ætlazt er til, að samþ. verði að fella niður síðustu línur 7. gr. í lögunum eins og þau eru núna, en í stað þess verði með þessari lagabreytingu gert skylt að verja 2% af brúttósölu tóbaks til greiðslu auglýsinga í sjónvarpi, hljóðvarpi, blöðum og víðar, þar sem varað er við hættu af tóbaksreykingum, og um þessa framkvæmd verði haft samráð við stjórn Hjartaverndar og stjórn Krabbameinsfélags Íslands. Ástæðan fyrir því, að við flytjum tillögu til breytingar á lögunum um verzlun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, er fyrst og fremst sú, að við teljum, að þessi viðvörunarorð á vindlingapökkunum hafi ekki náð tilætluðum tilgangi. Maður sér það við yfirlestur á ræðum manna, sem fluttu þetta mál á sínum tíma, eða á árinu 1969, að þeir trúðu því, að þetta mundi verða til þess að vindlingasala og vindlinganotkun mundi fara þverrandi í landinu, og þeir gerðu líka ráð fyrir því, að það væri hægt að fá framleiðendur til að setja þessi viðvörunarorð á vindlingapakka á framleiðslustað og þeir kæmu með þessa setningu til landsins eins og lögin gerðu ráð fyrir. Þess er að minnast, að þetta tókst ekki. Framleiðendur í Bandaríkjunum féllust ekki á að setja þessi viðvörunarmerki á pakkana, töldu, að þessi orð, þessar fullyrðingar, væri ekki að finna í neinu landi á viðvörunarmerkjum. Í samningsviðræðum, sem áttu sér stað milli Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins og fulltrúa bandarískra tóbaksframleiðenda, var niðurstaðan sú, að tóbaksframleiðendur lánuðu hingað til lands vél, sem merkir pakkana með umræddu viðvörunarmerki, þeir greiða merkimiðana, en Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins greiðir vinnulaun, húsnæði, ljós og hita. Það þurfti ekki að taka neitt húsnæði á leigu og rafmagnsnotkun varð ekki meiri, þó að þetta væri framkvæmt í stofnuninni.

Nú hefur það sýnt sig síðustu 11 mánuðina, sem þessar merkingar hafa verið framkvæmdar, að þrátt fyrir þær hefur vindlingasala hækkað úr 203 þús. 826 millum í 234 þús. 254 mill. Salan hefur því aukizt á síðustu 11 mánuðum þessa árs, þrátt fyrir þessar merkingar, um 1½ millj. pakka þetta tímabil. Reyktóbakssalan hefur hins vegar lækkað um 7854 kg, en hún hafði hækkað verulega á árinu 1968 og 1969. Þegar þessar staðreyndir blasa við, að þessar merkingar hafa ekki gert það gagn, sem til var ætlazt, hefur sú spurning vaknað hjá manni, hvort ekki væri hægt að ráðstafa þeim peningum, sem varið er til að vinna að þessum merkingum, betur. Og ég er ekki í nokkrum vafa um, að það er mun heppilegra og skynsamlegra að verja 1 millj. kr. eða kannske rúmlega það til þess að koma á framfæri viðvörunarauglýsingum um hættu af tóbaksreykingum í fjölmiðlum heldur en á pökkunum. Ég hef rætt hér við nokkra þm. utan funda, og ég vil segja það, eftir því sem ég bezt veit, að fjöldi þm. er sömu skoðunar og ég. En einstaka þm. vilja láta merkja pakkana áfram og fá milljón í viðbót fyrir viðvörunarauglýsingar í fjölmiðlum. Ég held, að því sé ekki að heilsa á þessu þingi, en ég tel, að ef þetta frv. okkar verður samþ., þá sé það til stórra bóta. Ég ætla ekki að orðlengja hér frekar um þetta, en ég mæli með því, að þessu frv. verði vísað til fjhn. að lokinni 1. umr. hér í þessari hv. deild.