12.11.1970
Neðri deild: 17. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

101. mál, atvinnuöryggi

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það stappar nú nærri, að það taki því varla að tala um stórmál, ef þm. ekki sjá ástæðu til þess að koma í þd., en hæstv. forseti hefur nú veitt mér orðið, og er líklega rétt að halda máli sínu áfram samt sem áður.

Hv. 3. þm. Norðurl. v., sem hér talaði síðast, lét orð að því liggja, að þetta frv., sem hér er til umr., væri ekki illa samið, það væri nokkuð gott, vel samið, en grg. þó fulltorskilin og langdregin, en frv. ágætt. Þó verð ég að játa það, til þess að rangfæra ekki hans orð, að hann var ekki samþykkur öllu efni frv., t. d. ekki því, að 3 vísitölustig væru með þessu frv. augljóslega tekin af launþegum, af verkafólki, sem hann játaði, að væri alls ekki ósanngjarnast í kröfum þeirra, sem kröfur gera í þjóðfélagi okkar. En samt fannst honum sem þetta frv. væri eiginlega frekar kákl heldur en nokkur verulegur snoppungur í garð verkalýðssamtakanna. Um það atriði er ég honum ekki sammála og heldur ekki hitt, hversu listilega þetta frv. sé samið. Það verður að teljast mikið ógæfuspor, þegar hæstv. ríkisstj. færist það í fang að semja frv. og leggja fram frv. á Alþ. um málefni eins og verðstöðvun í þjóðfélaginu, sem þjóðin öll viðurkennir, að hafi verið þörf á að setja löggjöf um, fyrir ekki aðeins dögum eða vikum, heldur mánuðum síðan, og það hefði verið skylda hæstv. ríkisstj. að gera það fyrir löngu síðan, að þá skuli svo til takast, að frv. veldur ógæfu, kallar á þjóðfélagsháska, sem er líklega öllu alvarlegri en meinsemdin, sem þetta frv. á að lækna. Ég held, að frv. sé líka misheppnað að því leyti, að það læknar ekki þá meinsemd, sem því er ætlað að lækna, og hef sagt það áður. En það er ég alveg viss um, að með ákvæðunum, þar sem raskað er grundvelli samninga verkalýðshreyfingarinnar við atvinnurekendur s. l. vor, þá er stigið mikið ógæfuspor, svo mikið ógæfuspor, að ég held, að þetta frv. sé líklegra, svo listilega sem það kann að vera samið, til þess að valda ógæfu heldur en gæfu. (Gripið fram í.) Já, það má vel vera. En það er ekki aðalatriðið í mínum augum.

Þetta er sennilega afleiðing af því, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki gert sér það ljóst, hversu alvarlegum augum verkalýðshreyfingin mundi líta á það, ef gengið væri á hinn helga samningsrétt. En það mátti þó hæstv. ríkisstj. vita, að á það væri litið alvarlegum augum. Það virðist svo sem hæstv. ráðh. hafi, og alveg sérstaklega hæstv. viðskmrh., ímyndað sér, að það yrði litið bara þarna á peningalegu hliðina, krónutöluna, sem seilzt væri eftir ofan í vasa launþeganna. En það er alveg áreiðanlegt, að þó að þarna sé um eitthvað á sjötta hundrað millj. kr. að ræða, vafalaust á 9 mánuðum, — á þeim tíma, sem frv. er ætlað að vera í gildi sem lög og það er nokkurt fé, — þá er það þó algert aukaatriði í augum verkalýðshreyfingarinnar. Aðalatriðið er það, að með þessari árás á samningsréttinn er búið að skapa fordæmi, sem kannske yrði beitt síðar á margfalt alvarlegri hátt, að því er snertir fjárupphæðir. Það er verið að gera það að engu að ganga frá samningum. Menn vita ekkert eftir þetta, ef þetta verður gert að l., hvort þeir samningar eru pappírsins virði, sem þeir eru ritaðir á. Í síðustu samningagerð var lögð höfuðáherzla á það af hendi verkalýðssamtakanna, að tryggja verðlagsbætur á kaup, og til þess að ná samkomulagi um þetta, var gengið inn á tilslakanir um það að taka vissa hluti þar út úr til þess að draga úr gagnverkunum. Og það var gert meira. Það var teygt sig langt til þess að semja um lengri tíma en verkalýðshreyfingin hafði áður gert í fullu trausti þess, að þessir samningar gætu í því góða árferði, sem ríkti, haldið gildi sínu. Og það óraði engan fyrir því, að á ekki hálfnuðu samningstímabili yrði það ríkisvaldið, sem gripi inn í og rifti samningunum. Af þessum ástæðum, sem ég nú hef greint, er þetta mjög alvarlegt mál, einkum sem fordæmi í framtíðinni.

Menn tala um það og velta því fyrir sér, hvort þessi verknaður ríkisvaldsins kunni að standast, t. d. fyrir félagsdómi. Hvað sem um það er að segja, þá er það víst, að tveir aðilar, sem gera á milli sín samning og undirrita hann, teljast tvímælalaust lausir af þeirri samningagjörð, ef stafkrók, þótt ekki sé nema stafkrók, er breytt í samningnum, eftir að hann hefur verið undirritaður. Við getum tekið sem dæmi sölusamning um húseign, sem tilgreindi ákveðna fjárupphæð sem gjald fyrir húseignina, og slíkur samningur væri staðfestur af báðum aðilum. Væri tölunni breytt, kemur ekki til mála annað en báðir samningsaðilar teldu sig lausa af samningsgerðinni, hvort sem það væri mikil eða lítil breyting á hinni umsömdu tölu. Þetta er stórt atriði, og þetta er fordæmt sem glæpsamlegt athæfi af einstaklingunum, af borgurunum í lýðræðisþjóðfélagi. Það má vel vera, að löggjafinn geti í skjóli þess, að hann er æðsta vald þjóðfélagsins, löggjafarvaldið, gert það, sem talið er glæpsamlegt af einstaklingnum. Þó að það sé hægt að setja slík lög, þá er alveg víst, að lögfylgjum af þeim verknaði verður ríkisvaldið og löggjafinn sjálfur að taka, og þar mundi engin staðfesting dómstóls duga. Það fer jafnan svo, að ef löggjöf styðst ekki við siðferðilegan grundvöll, þá er slík löggjöf brotin niður, hún verður ekki framkvæmd og hún verður brotin niður fyrr eða síðar, því að löggjöf, sem ekki styðst við móralskan grundvöll, eru ólög. Ég spyr: Getur hæstv. ríkisstj. ekki fundið neinar leiðir til þess að ráða við verðbólguvandann á annan hátt en kalla yfir sig þann voða, að allir samningar í landinu verði lausir og barátta í algleymingi hefjist um launamálin öll í landinu? Ég trúi því ekki, að hæstv. ríkisstj. sjái ekki, hversu alvarlegt þetta er og hversu þessi 3 vísitölustig, sem við teljum samningana alveg sérstaklega brotna á okkur með að taka í burtu, sjá ekki, að þetta borgar sig ekki. Þetta er óskynsamlegt, auk þess sem það felur ekkert réttlæti í sér.

Hæstv. viðskmrh. komst í þeirri stemningarræðu, sem hann hélt hér við 1. umr., að þeirri niðurstöðu, að það væri síður en svo kjaraskerðing í þessu frv., það væru bara kjarabætur. Hann sagði, að hann væri svo lukkulegur yfir því að eiga hlut að flutningi þess, því að þetta væri svo réttlátt og sanngjarnt. Já, það hefur verið sagt: „Illt er þeirra ranglæti, en enn verra er þeirra réttlæti.“ Sanngirnin er svo ekki betri, ef þetta er réttlæti þeirra og sanngirni í garð launastéttanna og verkalýðssamtakanna. Ég heiti á hæstv. ríkisstj. að hugleiða betur, áður en hún knýr þetta frv. gegnum Alþ., hvort hún er ekki að leiða ógæfu yfir þjóðina með því að knýja þessi ákvæði fram, sem verkalýðshreyfingin metur sem samningsrof, og hvort hún getur ekki fundið neinar leiðir til þess, að tilgangi frv. geti verið náð án þessa. Ég trúi því ekki, að það sé ekki fært. Ég trúi því ekki, að þessi 3 vísitölustig valdi örlögum um það og sé einasta færa leiðin til þess að hemja verðbólgu og dýrtíð í landinu. En það að gera þetta, er allt of dýru verði keypt. Hæstv. ríkisstj. fékk aðvörun um þetta, löngu áður en frv. var lagt fram. Það var 11. okt. í haust, sem þær viðræður fóru, eftir því sem ég bezt veit, fram í kyrrð og ró og með röksemdum á báðar hliðar, og var í upphafi þeirrar ályktunar, sem Alþýðusambandið sendi þá frá sér, varað við því mjög eindregið að beita lögþvingunum í sambandi við lausn þessara mála. Þar með hefði hæstv. ríkisstj. mátt skilja það, að í þessu fólst ekki hótun, heldur aðvörun, alvarleg aðvörun. En það var farið fram á yfirlýsingu um það, að í aðgerðunum væntanlegu yrði ekki beitt lögþvingunum og samningar verkalýðshreyfingarinnar ekki skertir. En þá vaknaði strax uggur í röðum verkalýðshreyfingarinnar, því að hæstv. ríkisstj. fékkst ekki til að gefa yfirlýsingu um það í viðræðunum, að út á þessar brautir yrði ekki farið. Það hefði farið betur, að hún hefði séð sér fært að gefa slíka yfirlýsingu og reyna þannig að laða öfl þjóðfélagsins saman um lausn þeirra vandamála, sem við er hér að glíma og sem verkalýðshreyfingin mundi vilja ekki síður en önnur öfl þjóðfélagsins, þjóðholl öfl, eiga hlut að að leysa farsællega.

Það er fjarri því, að launþegasamtökin í landinu, og þá á ég ekki aðeins við verkalýðssamtökin, fallist á þá skoðun hæstv. viðskmrh., að hér sé um kjarabætur að ræða eða réttláta og sanngjarna lausn. Það drífa nú að samþykktir launþegasamtaka, sem eru mjög efnislega samhljóða þeim niðurstöðum, sem miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur komizt að. T. d. hefur Bandalag starfsmanna ríkis og bæja þann 12. þ. m., þ. e. í dag, gert ályktun um málið og lýsir algerri andstöðu við þetta frv. Það telur, að í því felist aðeins skammtímaráðstafanir, en þær auki á misrétti í þjóðfélaginu og viðhaldi jafnvægisleysi efnahagslífsins. Þar er sagt, að aðeins með samræmdum heildaraðgerðum sé nokkur von til þess að ráða niðurlögum verðbólgunnar, en hún sé þjóðarböl. Það fer ekkert á milli mála, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja telur jafnvel, að rofin séu grið á þeim samtökum og réttur þeirra skertur. Önnur launþegasamtök, Starfsmannafélag ríkisstofnana, eru ekki myrk í máli í ályktun sinni, og þar er alveg, eins og að því er Alþýðusamband Íslands varðar, staðhæft, að brotnir séu á þeim samningar og loforð svikin, sem ríkisvaldið hafi gefið þeim samtökum. Þetta bréf er stutt og er því heillegast að lesa það frá upphafi til enda, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Starfsmannafélags ríkisstofnana mótmælir harðlega því ákvæði í frv. til laga um ráðstafanir til stöðugs verðlags og atvinnuöryggis, sem nú liggur fyrir Alþ., þar sem gert er ráð fyrir röskun á útreikningi vísitölu framfærslukostnaðar. Stjórnin bendir á, að samkv. samningi kjararáðs og fjmrh. frá 22. júní skuldbatt ráðh. sig fyrir hönd ríkissjóðs til þess að breyta launum í hlutfalli við hækkanir á vísitölu framfærslukostnaðar, eins og hún var þá reiknuð. Með þessu ákvæði frv. gengst ríkisstj. fyrir því, að veigamiklar breytingar verði gerðar á umræddum samningi. Stjórn Starfsmannafélags ríkisstofnana telur því, að verði ofangreint ákvæði umrædds frv. að lögum, hafi ríkisstj. þar með brotið fyrrnefndan samning um laun ríkisstarfsmanna.“

Síðan málið var hér til 1. umr., hefur miðstjórn Alþýðusambandsins einnig komið saman til fundar og rætt þetta frv. efnislega og tekið afstöðu til þess í allýtarlegri ályktun, sem þegar í stað var send hæstv. forsrh. og strax á eftir send fjhn. d. Þar er í einum 3–4 atriðum mótmælt efnisþáttum þessa frv. Það er í fyrsta lagi mótmælt þeim atriðum í frv., sem hagga vísitölugrundvelli og skerða grundvöllinn um 1–2 vísitölustig, þ. e. a. s. 3 vísitölustig, og færa tímamörkin fyrir því, að launafólkið fái verðlagsbætur, á mun óhagstæðari tíma en samningar kveða á um. Þetta er það fyrsta. Í öðru lagi telur miðstjórnin, að grundvelli samninganna frá 19. júní s. l. sé í brott kippt, og eigi þeir því að falla úr gildi, þ. e. a. s. öll kaupgjaldsákvæði þeirra, ef frv.-ákvæðin verða lögfest. Sem afleiðingu af þessu hvetur miðstjórnin öll sambandsfélög til að tilkynna viðsemjendum sínum, að þau muni krefjast nýrra kjarasamninga, þar sem þessir verði að teljast lausir, ef skerðingarákvæði frv. koma til framkvæmda. Þá er það í fjórða lagi álit miðstjórnarinnar, að það sé unnt eftir þeim leiðum, sem bent er á í samþykkt miðstjórnar frá 11. okt., að stöðva verðbólguþróunina, án þess að grípa þurfi til lögþvingunar eða breytinga á gerðum og gildum kjarasamningum verkalýðsfélaganna. Þeim leiðum, sem þar var bent á, hefur áður verið lýst hér, og skal ég ekki tímans vegna endurtaka það, en þar var á ýtarlegan hátt fjallað um, hvaða aðferðum verkalýðshreyfingin teldi, að bæri að beita til þess að hamla gegn dýrtíðarþróuninni án þess að beita lögþvingunum eða skerða samninga verkalýðsfélaganna í launamálum. Í niðurlagi ályktunarinnar er því slegið föstu, að frjáls samningsréttur verkalýðshreyfingarinnar sé þverbrotinn með framangreindum ákvæðum, ef frv. verður að lögum, og sé tvísýnt um framtíð samningsréttarins, ef slík aðför tekst í þetta sinn, á þann hátt, að ógilding lögmætra samninga nái fram að ganga. Afleiðingarnar af því, ef þetta gerist, telur miðstjórnin vera, að það verði ekki hægt að semja nema til fárra mánaða, til örskamms tíma, sem áreiðanlega er óhagkvæmt, bæði atvinnurekendum og verkafólki, ef annað er mögulegt, og síðast sömdu menn til 1½ árs í trausti þess, að hægt væri þá að fá samninga virta og gildi þeirra varðveitt og óskert það tímabil.

Ég held, að í þessari ályktun miðstjórnarinnar felist engar öfgar, aðeins er bent á það, hversu alvarlega verkalýðshreyfingin lítur á þá árás, sem í frv. felst, á samningsréttinn fyrst og fremst, ekki aðeins nú, heldur einnig að því er framtíðina varðar. Það er áreiðanlega eitt af því versta, sem gerzt getur í okkar þjóðfélagi nú, ef ný kaupgjaldsbaráttuskriða fer af stað, og þó er ekkert líklegra en það verði afleiðingin. Við skulum líta að öðru leyti á, hvernig sakirnar standa.

Á það var minnzt hér áðan, að það væru allar líkur til þess, að sjómenn eigi í kjarabaráttu, nú þegar líður á haustið, og sú barátta getur verið hörð og leiðir varla til annars en hækkaðs fiskverðs og breyttra hlutaskipta á ný eitthvað í líkingu við það, sem gilti, áður en grípið var inn í hlutaskiptasamninga sjómanna með löggjöf, löggjöf sem er þess eðlis, að sjómannastéttin fæst ekki til þess að una henni og er ráðin í því, að því er mér skilst, að hefja baráttu gegn og fá sinn fyrri rétt til baka. En annað kemur og til, sem mun gera það líklegt, að ef samningar verkafólksins verða lausir núna, t. d. 10. þessa mánaðar eða í byrjun næsta mánaðar, rétt í þann mund, sem það verður opinbert, að ríkisstj. stendur að samningum við embættismannakerfið í landinu, sem gefur ekki embættismönnunum minni kjarabætur í viðbót við það, sem embættismannastéttirnar hafa fengið síðan í vor, heldur en kannske 25–30% í launahækkun. Þegar það kemur til með að blasa við og samningar verða taldir lausir af verkalýðshreyfingunni, þá er enginn vafi á því, að þar verður þung launaskriða farin af stað, svo þung, að ég býst við, að hæstv. ríkisstj. fái að kenna illilega á því. En það er hún, sem hefur opnað flóðgáttirnar og hleypt þessu af stað, ef þetta verður. Það er því ekki nema maklegt, að hún hitti sjálfa sig fyrir. En það getur kostað þjóðina mikið.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. eigi að gefa sér nú tóm a. m. k. fram á helgina til þess að athuga það, hvort hún geti ekki fallizt á að nema í burtu það, sem ólgunni veldur hjá launþegasamtökunum, úr þessu frv., án þess að það missi af þeim tilgangi, sem hæstv. ríkisstj. ætlar frv. að ná. Annað er óskynsamlegt, að þvinga þetta frv. fram gegn öllum þeim mótmælum, sem fram eru komin, og þeim aðvörunum, sem ríkisstj. hafa borizt bæði fyrr og nú. Það er óskynsamlegt og háskalegt, og hæstv. ríkisstj. mundi ekki minnka í áliti þjóðarinnar fyrir það, þó hún sæi að sér núna, meðan Alþ. er með málið til meðferðar. Ég held, að þegar líkt stóð á eins og nú, og ríkisstj. Ólafs heitins Thors hafði staðið að stórfelldum launahækkunum hjá embættismannakerfinu, en á sama tíma átti að lögbinda, fjötra fast laun hinna lægst launuðu í verkalýðssamtökunum, þá var slík ólga og alda að rísa gegn þeirri lagasetningu, að ógæfan blasti við. Og það er síður en svo, að Ólafur heitinn Thors hafi minnkað við það, þegar hann gekk í það mál við síðustu umr. í seinni deild að kippa frv. til baka og leita samkomulags um lausn. En hann hafði stjórnhyggindi og sveigjanleik til þess að gera þetta og væri betur, að stjórnarherrarnir vitnuðu til síns gamla látna foringja, sem svo farsællega leysti mál á örlagastundu.