18.05.1972
Neðri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Árið 1952, eða fyrir 20 árum, var sú regla tekin upp, að til þess að erlendir menn fengju íslenzkan borgararétt yrðu þeir að taka upp íslenzkt nafn og þá átt við bæði eiginnafn eða fornafn og kenninafn. Fram til þess tíma voru engin slík skilyrði sett. Þessi nýja regla olli miklum deilum þá strax á þingi og hefur oft gert það síðan. Rökin fyrir þessari reglu eru að ýmsu leyti skiljanleg. Það er hin næma tilfinning okkar Íslendinga fyrir móðurmáli okkar og andúð gegn því, að nöfn, sem eru ósamþýðanleg íslenzkri tungu og lögmálum hennar, festist í málinu. Á hinn bóginn hefur mörgum þótt, að hér væri höggvið nokkuð nærri persónurétti manna, þar sem þeir væru neyddir til þess að skipta um nafn, varpa fyrir borð nafni sínu og feðra sinna til þess að fá íslenzkan borgararétt. Ég býst við, að í framkvæmd hafi þetta verið ákaflega misjafnlega viðkvæmt hjá ýmsum mönnum, og í grg. með frv. um mannanöfn, sem hefur legið fyrir þessu þingi, kemur fram, að sumir menn hafa tekið þetta mjög nærri sér, og jafnvel eru þess dæmi, eins og segir í grg., með leyfi hæstv. forseta, „að borið hefur við, að menn hafi talið nafnbreytingu slíka afarkosti, að þeir hafa horfið frá að æskja ríkisfangsins.“

Þetta mál hefur enn nú komið í sviðsljós og í rauninni í heimsljós af sérstökum ástæðum, vegna þess að hér er heimsfrægur listamaður, sem í hlut á, Vladimir Ashkenazy. Hér er um ákaflega mikið vandamál að ræða, og í rauninni er ég alveg sammála hv. 7. þm. Reykv. og vil undirstrika það, sem hann sagði, að Alþingi Íslendinga getur vart boðið slíkum manni upp á þessa kosti. Það má segja, að ákaflega erfitt sé að finna lausn á þessu máli, sem flestir eða allir gætu sætt sig við. Og í frv. um mannanöfn, sem hefur legið fyrir þinginu, 17. gr., er reynt að leysa þetta mál. Þó var það nú þannig, að í undirbúningsnefndinni var ekki alger samstaða um málið, eins og kemur fram í grg., en þar er þó viðleitni til að leysa málið. Hv. 7. þm. Reykv. hefur nú ásamt öðrum þm. lagt hér fram skrifl. brtt., og þó að ég sé ekki alls kostar ánægður með þessa 17. gr. í mannanafnalögunum eða þá skipun, sem hún gerir ráð fyrir, þá tel ég, að hún eða brtt. hv. þm. sé til mikilla bóta, og þar sem hún kemur fyrst til atkv., væntanlega á undan minni till., mun ég greiða henni atkv. Ég hafði áður lagt fram brtt. á þskj. 915 um, að aftan við gr. bætist: „Heimilt er dómsmrh. að veita undanþágu frá þessu ákvæði.“ Var það hugsað á þá lund, að helzt væri hægt að sameinast um eitthvert slíkt ákvæði og þá miðað við það, að ráðh. beitti þessu undanþáguákvæði, þegar alveg sérstaklega stæði á, eins og ég held, að allir séu sammála um, að sé um þetta tilvik, píanóleikarann, sem vissulega, eins og hv. 7. þm. Reykv. sagði, sýnir landi voru mikla sæmd með því að óska að verða íslenzkur ríkisborgari.

Ég vil því um leið og ég bendi á till. mína á þskj. 915 taka það fram, að ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. með hinni till., sem kemur fyrst til atkv., en ef svo færi, að hún yrði felld, þá vænti ég þess, að menn geti fallizt á mína till.

Hins vegar virðist mér eða eftir mínum skilningi er það nauðsynlegt að gera breytingu á 2. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, því að ég fæ nú ekki séð, hvernig hæstv. dómsmrh. hefur heimild til þess að víkja frá þeirri gr. Hún er svo fortakslaus, að hún segir, að þeir, sem heita erlendum nöfnum, skuli ekki öðlast ríkisborgararétt samkv. lögum þessum, fyrr en þeir hafi fengið íslenzk nöfn samkv. lögum um mannanöfn. Ég hef talið, að dómsmrh. hefði ekki heimild til þess að óbreyttum lögum að veita ríkisborgararétt, t. d. í þessu tilviki. Hæstv. forsrh. og dómsmrh. lýsir því yfir, að hann muni engu að síður gera það, þó að lögunum verði ekki breytt, því að hann segist munu fara eftir heilbrigðri skynsemi, og er það auðvitað ágætt heilræði. Hins vegar gengur mér dálítið erfiðlega að skilja, að hægt sé jafnvel eftir heilbrigðri skynsemi að túlka málið þannig, að heitið Ashkenazy sé íslenzkt nafn. En hvað sem líður lögskýringum hæstv. forsrh., þá tel ég nú eindregið, að öruggara sé fyrir Alþ. að samþykkja aðra hvora brtt., sem hér liggur fyrir.