18.05.1972
Neðri deild: 85. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

77. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. Mig langaði þó til að láta örfá atriði koma fram. Mér þykir vænt um það sjónarmið, sem fram kemur í ummælum hæstv. forsrh., að hann geri sér það fullljóst, að það væri ekki sæmandi að framkvæma það lagaákvæði, sem í gildi hefur verið, gagnvart Vladimir Ashkenazy píanóleikara. Hans lögskýring var sú, að mannanafnalögunum hefði verið svo illa framfylgt á undanförnum árum, að hann mundi ekki hljóta ámæli fyrir það að framfylgja þeim ekki gagnvart Vladimir Ashkenazy. Það er öldungis rétt hjá hæstv. ráðh., að mannanafnalögunum hefur verið illa framfylgt, þau hafa verið brotin fyrir augum allra, dómsmrn. og löggjafa, án þess að gripið hafi verið í taumana. Engu að síður harma ég, að slíkt hefur átt sér stað, og það er einmitt ein meginástæðan fyrir því, að ég beitti mér fyrir því, meðan ég veitti menntmrn. forstöðu, að mannanafnalögin væru endurskoðuð, og það var af fyrrv. ríkisstj. sem mannanafnafrv. var flutt. En það er auðvitað andkannalegt og óeðlilegt ástand, að lögum skuli ekki vera haldið uppi, og það er ekki viðkunnanlegt, að hæstv. dómsmrh. skuli þurfa að gefa um það yfirlýsingu á hinu háa Alþ., að hann hyggist ekki hlíta alveg ótvíræðum lagabókstaf, og þess vegna er nauðsynlegt að finna einhverja lausn á þessu máli.

Ég fylgi því að sjálfsögðu, að málið fari til athugunar hjá hv. allshn. og hún freisti þess að finna skynsamlega lausn á þessum vanda. En að því er varðar það, sem hv. 1. þm. Austf. sagði, þá virtist mér þar gæta nokkurs misskilnings. Till., eins og hún er flutt af okkur fimmmenningunum, snertir að engu leyti deiluna um ættarnöfn á Íslandi. Till. er algjörlega óháð því. Til þess er engin afstaða tekin, og menn hafa ólíkar skoðanir á því máli, þótt till. okkar fimmmenninganna yrði samþ. En hann spurði, hvernig tilætlunin væri þá að framkvæma það, að þá skyldu börn útlendinga innan 17 ára taka upp íslenzk nöfn. Jú, þau eiga að taka upp íslenzkt eiginnafn, íslenzkt fornafn og íslenzkt kenninafn, kenna sig til föður síns eða móður og nota þá íslenzkt nafn, með leyfi dómsmrn. Í tilfelli Vladimir Ashkenazy mundi það t. d. verða framkvæmt þannig, að ungur sonur hans mundi verða Valdimarsson, fá íslenzkt nafn og verða Valdimarsson, af því að faðir hans heitir Vladimir. Ef ekki er hægt að finna nafn, sem beinlínis svarar til útlenda nafnsins, þá á foreldrið í samráði við dómsmrn. að finna íslenzkt nafn, sem er eins líkt því og hugsanlegt er. Þetta er sú lausn, sem mér er mætavel kunnugt um. Ég hafði skipað það á sínum tíma, að nefndin skilaði áliti til mín á sínum tíma, á meðan ég var í menntmrn., svo að mér er fullkunnugt, hvernig hún leit á þetta atriði. Þetta var samkomulag milli nm. um mjög vandasamt og viðkvæmt efni. En ég hef alltaf litið þannig á, að um þetta atriði hafi í raun og veru orðið samstaða í nefndinni. Ég vildi leyfa mér að lesa þessar setningar úr nál., með leyfi hæstv. forseta. Þeir segja um gildandi lagaákvæði um útlendingana:

„Ekki er kunnugt um, að í grannlöndum sé hliðstæðri löggjöf til að dreifa, en gögn eru þó ekki tiltæk til að meta það til hlítar. Mönnum er vissulega annt um nafn sitt, og virðist þurfa mjög veigamikil rök til þess að rétt sé að setja manni þá kosti fyrir ríkisfangi, að hann afsali sér rétti á nafni sínu, er tengir hann við fortíð sína, fjölskyldu og fyrra þjóðfélag. Er ekki sýnilegt, að Íslendingar þurfi að sæta slíku hjá öðrum þjóðum, ef þeir fá þarlent ríkisfang, þótt vera megi, að einhver dæmi megi finna þessa. Ekki orkar tvímælis, að óheppilegt er út af fyrir sig, að hingað flytjist erlend ættarnöfn, sem eru framandi í íslenzku málkerfi, en fram hjá því verður seint sneitt.“ Svo segir: „Semjendur frv. telja það meðalhóf heppilegast“ — hér er engin undantekning gerð af nokkrum nm. —„Semjendur frv. telja það meðalhóf heppilegast, að slíkum mönnum sé leyft að halda nafni sínu, þegar þeir verða íslenzkir ríkisborgarar, en hins vegar breyti börn þeirra — ef þau bera erlend nöfn — nafni sínu til íslenzks horfs, með samþykki dómsmrn. Með þessu móti er girt fyrir langlífi og a. m. k. arfgengi þessara ættarnafna í landinu. Börnin taka þegar er þau verða íslenzkir ríkisborgarar upp hin íslenzku nöfn. Tekur það einnig til barna, sem ófædd eru, þegar hinn erlendi ríkisborgari fékk íslenzkt ríkisfang, og hlíta þau íslenzku nafnakerfi allt frá fæðingu.“

Svo mörg eru þau orð. Að þessu áliti stendur öll nefndin, allir þeir fimm menn, sem í nefndinni voru, einnig prófessor Ármann Snævarr. Það kemur að vísu fram í framhaldi af þessu, að hann hefði kosið, eins og prófessorinn segir, „hann hefði kosið að haga ákvæðinu svo, að hinum erlenda ríkisborgara yrði gert að taka íslenzkt eiginnafn, er dómsmrn. samþykkir.“ Það eina, sem bar á milli, var það, hvort hinn fullorðni erlendi umsækjandi um ríkisborgararétt skyldi taka upp íslenzkt eiginnafn. Prófessor Ármann vildi láta hann halda ættarnafni sínu, en taka upp íslenzkt eiginnafn, það sama eiginnafn, sem börnin ættu síðan að kenna sig til. En hinir fjórmenningarnir litu svo á, að það væri ekki heldur rétt, þó að auðvitað væri ættarnafnið aðalatriðið, að skylda fullorðinn mann til að breyta eiginnafni sínu, heldur láta hann velja sér kenninafn, föðurnafn fyrir börn sín til þess að kenna sig við. En þær setningar, sem ég las upp áðan, bera vott um það, að nefndin virðist öll hafa orðið ásátt um að vandlega athuguðu máli, að þetta væri hæfilegt meðalhóf þrátt fyrir þennan smávægilega ágreining milli fjögurra nm. og eins þeirra. Þetta vildi ég bara, að kæmi fram til þess að ekkert færi á milli mála um efni þessa máls.

Annars endurtek ég stuðning minn við það, að frv. verði vísað til athugunar allshn., í von um það, að þar finnist skynsamleg lausn á þessu vandamáli.