18.05.1972
Sameinað þing: 74. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í D-deild Alþingistíðinda. (3863)

277. mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það eru vafalaust allir hv. þm. sammála um, að nauðsynlegt sé orðið að hefjast handa um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Um hitt hefur svo verið og er nokkur ágreiningur, með hvaða hætti sá undirbúningur skuli fara fram. Athugun hefur leitt það í ljós, að sú till. um endurskoðun stjórnarskrárinnar frá hv. allshn., sem hér liggur fyrir, veldur nokkrum ágreiningi, og þar virðist gæta einkum tveggja atriða. Í fyrsta lagi eru menn ekki sammála um það, hvaða aðila skuli til kveðja til að fást við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Sumir vilja kveðja þar til lagaaðila, eins og lagadeild Háskólans og Hæstarétt, aðrir ýmis stéttarsamtök og önnur samtök, eins og sveitarstjórnarsamtök, og jafnvel fleiri aðila. Um eitt virðast þó allir sammála, og það er, að Alþ. skuli eiga aðild að slíkri endurskoðun. Um það held ég, að sé ekki neinn ágreiningur. Hitt atriðið er svo það, hvort setja eigi ákveðin tímatakmörk, hvenær endurskoðun stjórnarskrárinnar skuli lokið. En það má öllum ljóst vera, að hér er um geysilega umfangsmikið verkefni að ræða, ef fara á fram heildarendurskoðun á stjórnarskránni.

Sú stjórnarskrá, sem nú er í gildi, er að miklu leyti miðuð við þær aðstæður og þann hugsunarhátt, sem ríkti á síðari hluta fyrri aldar. Segja má, að hún sé að mjög verulegu leyti frá þeim tíma. Sú nýja stjórnarskrá, sem við stefnum að, að setja og verðum að setja, verður að miðast við aðstæður og hugsunarhátt síðari hluta 20. aldar. Þess vegna koma til athugunar og meðferðar fjöldamörg atriði, sem ekki er að finna í núgildandi stjórnarskrá, og ég vil aðeins í því sambandi minna á nokkur atriði, sem talin eru upp í þeirri grg., sem fylgir þáltill. um endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem liggur hér fyrir, frá hv. 5. þm. Reykv., Gunnari Thoroddsen. Þar er t.d. nefnt, að hin nýja stjórnarskrá þurfi að ná til atriða eins og þeirra, hver eigi að vera réttur manna til vinnu og ákvæða um vinnuvernd, hún eigi að fjalla um rétt manna til menntunar, opinbera aðstoð í því skyni og jafna menntunaraðstöðu, hún þurfi að fjalla um rétt til trygginga vegna sjúkdóma, slysa, örorku, aldurs, missis fyrirvinnu og réttar til læknishjálpar og sjúkrahúsvistar. Það þurfi að endurskoða ákvæði núgildandi stjórnarskrár um prentfrelsi með hliðsjón af þróun fjölmiðla. Það þurfi að endurskoða öll mannréttindaákvæði auk þeirra, sem talin eru hér á undan, með tilliti til mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og sáttmála Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis. Það þurfi einnig að endurskoða í þessu sambandi ákvæði um náttúruvernd, um stuðning við listir og vísindi og síðast en ekki sízt um forgangsrétt Íslendinga til allra náttúruauðlinda lands og landgrunns.

Þessi upptalning sýnir það, að í nýrri stjórnarskrá þarf að fjalla um fjölmörg atriði, sem núgildandi stjórnarskrá nær ekki til og þess vegna hlýtur hér að verða um mjög umfangsmikið verkefni að ræða og þess vegna tæpast rétt að setja ákveðin tímatakmörk um það, hvenær slíkri endurskoðun skuli vera lokið. En ákvæði um þetta atriði er einmitt að finna í þeirri till. frá hv. allshn., sem hér liggur fyrir. Það er með tilliti til þess, að hægt sé að ná samkomulagi um, að hafizt verði handa um endurskoðun á stjórnarskránni og sneitt fram hjá þeim ágreiningsatriðum, sem ég hef nú minnzt á, sem ég hef leyft mér ásamt hv. 4. þm. Norðurl. v., Ragnari Arnalds, og hv. 6. þm. Norðurl. e., Birni Jónssyni, að leggja fram svo hljóðandi skrifl. till., sem ég vænti, að samkomulag geti orðið um. Hún hljóðar á þessa leið: .

„Alþingi ályktar, að skipuð skuli sjö manna nefnd til að endurskoða stjórnarskrána. Nefndarmenn skulu kosnir af Alþingi. Forsrh. kveður nefndina saman til fyrsta fundar, en hún skiptir sjálf með sér verkum. Nefndinni ber að leita álits sýslunefnda og bæjarstjórna, landshlutasambanda sveitarfélaga og landssambanda stéttarfélaga. Hún skal leita álits lagadeildar Háskóla Íslands og Hæstaréttar um lögfræðileg efni.

Með opinberri tilkynningu skal þeim, er þess kynnu að óska, gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina skriflegum og skriflega rökstuddum brtt. við núgildandi stjórnarskrá fyrir þann tíma, sem nefndin tiltekur. Kostnaður við endurskoðun stjórnarskrárinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Ég leyfi mér að leggja þessa till. fram og óska eftir, að forseti leiti afbrigða fyrir henni. Ég vænti þess, að þessi till. geti orðið til þess, að fullt samkomulag geti náðst um þetta mál hér á hv. Alþ.