16.12.1971
Neðri deild: 27. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

127. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef nú ekki nema gott um það að segja, að almennar umr. hafa orðið hér um þetta frv. um tekju- og eignarskatt, og er það ekki nema að vonum, því að hér er um veigamikið atriði að ræða í stjórnmálaátökum. Ég hef að sjálfsögðu heldur ekkert við það að athuga, þótt núv. stjórnarandstæðingar hafi sitthvað við okkar stefnu að athuga, því að þegar við gagnrýndum þeirra stefnu hér áður fyrr, sem við og gerðum, voru svör þeirra jafnan á þá leið, að engin önnur leið væri til. Það er því ekkert undarlegt, þó að þeim finnist, að nokkuð sé nú á annan veg farið, þegar komin er ríkisstj., sem fer aðrar leiðir en þeir höfðu áður farið og er að breyta um stefnu. Það er heldur ekkert undarlegt, þó að sú stefnumörkun, sem við höfum ákveðið og erum að framkvæma, sé ekki orðin að heilsteyptri stefnu í efnahagsmálum að 4 eða 5 man. liðnum. Allt slíkt væri fjarri öllum veruleika og dytti engum í hug að halda því fram, að það væri framkvæmanlegt.

Ég minnist þess á árinu 1960, eða um áramótin þá, þegar viðreisnarstjórnin tók við völdum, að þá byrjaði hún á því að senda þingið heim til þess að fá sér tíma til þess að vinna að stefnumörkun sinni. Þá var t.d. búið að útbýta hér fjárlagafrv. af þeirri ríkisstj., sem sat næst á undan, og það var sett í bréfakörfuna, og nýtt kom. Þetta var ekki nema eðlileg afleiðing af stefnubreytingu þeirri, sem sú ríkisstj. vildi vinna að. Allan þann vetur og næsta var hún að koma með ákveðin stefnumörkunarmál í efnahagsmálum. Á þessu fyrsta þingi frestaði hún fjárlögum þangað til í marz, og þannig varð hún sem ný ríkisstj. að hafa önnur vinnubrögð við framkvæmd á stefnumálum sínum en ríkisstj. þurfa að hafa, þegar þær hafa setið lengi og haft nægan tíma og eru búnar að marka þá stefnu, sem þær ætla sér að fylgja. Það þarf því engan að undra, þó að núv. ríkisstj. geti ekki verið með fullmótaða stefnu eða þurfi yfirleitt tíma til þess að vinna að stefnubreytingu, og það svo, að hún verði að reyna það nokkuð á hv. þm., vegna þess að þetta tekur allt sinn tíma.

Ég hef áður lýst því yfir hér á hv. Alþ., að mér er það ljóst, að í kröfum mínum til nefndar þeirrar, sem vann að þessum málum, gerði ég meiri kröfu um hraða en raunverulega framkvæmanlegt var, og ég get líka lýst yfir því aftur, sem ég hef áður sagt og tel mér enga minnkun að, þó að það eigi eftir að koma í ljós við vinnu í sambandi við þessi mál í heild, t.d. athugun á tekju- og eignarskattslögunum, að eitthvað verði að breytast frá því, sem nú er í þessu frv. Ég hef talið, að hér væri miklu stærra mál en svo, að væri mögulegt að setja lög um tekju- og eignarskatt, sem ættu að vera heildarlöggjöf, eins og núv. ríkisstj. stefnir að, án þess að það taki sinn tíma, og það geta komið ýmsar veilur fram í svo miklu skyndiverki eins og þetta hefur að sjálfsögðu orðið að vera.

Hins vegar er það ljóst, að það er mörkuð ákveðin stefna með þessum þremur frv., sem hér eru nú til meðferðar á hv. Alþ., sem sýnir, í hvaða átt og að hvaða takmarki núv. ríkisstj. stefnir í skattamálunum. Það er það, sem meginmáli skiptir, þótt það hins vegar eigi eftir að koma í ljós, að það eigi eftir að bæta um frá þessum fyrstu frv. hennar.

Ég ræddi í sumar, þegar ég kom í fjmrn., við embættismennina, sem unnu í skattaendurskoðuninni, um viðhorf þeirra til málsins, og ég held, að það hafi ekki verið neinum vandkvæðum bundið eða þeir hafi litið á það sem neitt vantraust á sig, þó að ég óskaði eftir því að breyta þar um. M.a.s. sögðu þeir mér það, að skoðun þeirra væri sú, að það ætti ekki að láta embættismenn vinna fyrst og fremst að slíku verki. Hversu vel sem þeim tækist það, væri litið svo á, að þeir væru þar að verki fyrst og fremst sem fulltrúar fjmrn., enda var þeim ljóst, að það skattafrv., sem fram yrði borið, yrði aldrei borið fram á ábyrgð þeirrar nefndar, sem verkið vann, heldur á ábyrgð þeirrar ríkisstj., sem verkið lét vinna. Mér þætti það a.m.k. miður, ef einhver þeirra hefði tekið það svo, að það væri eitthvert persónulegt vanmat mitt á störfum þeirra, þótt þessi breyting hafi verið gerð. Ég hef ekki trú á því, að svo hafi verið, og ekki orðið var við það. Og það skiptir mig engu máli, hvort sá embættismannahringur væri flokksmenn mínir eða ekki. Ég mundi ekki setja upp slíka nefnd af því að ég teldi, að hún næði ekki eins inn til fólksins og nauðsyn hæri til með skattalaganefnd. Ég held því, að hér hafi ekki verið rangt að farið, nema síður sé. Hins vegar veit ég, að slíkar nefndir þurfa alltaf til embættismanna að sækja, og ráðuneytisstjórinn í fjmrn. hafði formennsku í þessari nefnd til þess að vera þar tengiliður á milli ráðh. og nefndarinnar.

Í sambandi við persónufrádráttinn, sem hv. 1. þm. Reykn. vék að, er ekki um neina stefnubreytingu þar að ræða. Það, sem hér gerist, er það, að persónufrádráttur er hækkaður meir gagnvart hjónum en vísitalan sagði til um. Hv. alþm. vita, að á þinginu í fyrra var skattvísitalan sett sem 100, og þá átti að reikna frá því þær verðbreytingar, sem síðar yrðu. Það hefur verið gert meira en það með þeim persónufrádrætti, sem nú hefur verið ákveðinn, sérstaklega gagnvart hjónum, og sú skattvísitala verður þar 100, sem síðar verður miðað við. Enn fremur er rétt að benda á það í þessu sambandi, að það er náttúrlega veruleg breyting á orðin, þegar búið er að leggja persónuskattana niður.

Við munum það hv. alþm., sem höfum setið hér nokkurn tíma, að það varð ekki breyting á skattvísitölunni frá því árið 1967 eða 1968 þangað til í fyrra, en þá var gerð veruleg breyting þar á, og ef kerfið hefði haldið áfram. hefði eðlileg vísitala verið á það reiknuð. Við deildum á þetta hér framsóknarmenn áður fyrr, en þá var alger kyrrstaða búin að vera í nokkur ár og þá m.a.s. búnar að eiga sér stað, ef ég man þetta nú alveg rétt, sem ég held ég geri, tvær gengisfellingar. Það hafði verulega sitt að segja.

Hitt er afskaplega erfitt, sem ég veit, að hv. 1. þm. Reykn. gerir sér ljóst, að reikna skattvísitöluna langt aftur í tímann, þegar svo mörg ár eru liðin, vegna breytinga á kjarasamningum o.fl., sem grípur þar inn í. Hins vegar þarf þetta að fylgjast að, í sambandi við verðlagið á hverjum tíma, en er afskaplega erfitt að grípa til þess langt aftur í tímann.

Þá vék hv. þm. að skattfrelsi hlutafjárins, og hann taldi, að sú breyting okkar, sem þar ætti að gera nú, væri ekki ákjósanleg. Við höfum ekki verið einir um það framsóknarmenn að telja þá ráðstöfun, sem gerð var í fyrra, mjög fráleita. Það hafa fleiri verið á þeirri skoðun. T.d. hef ég hér afrit af ræðu, sem próf. Ólafur Björnsson flutti 3. apríl 1971 um tekju- og eignarskatt, en hann var, ef ég man rétt, í fjhn. fyrir Sjálfstfl. í Ed. Skoðun hans á þessu atriði kom m.a. fram í þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„En þetta atriði er skattfrelsi arðs af hlutabréfaeign að vissu marki, sem mun vera algjört nýmæli í okkar skattalöggjöf, og aðspurðir kváðu sérfræðingar þeir, sem ég gat um, að hefðu mætt á fund okkar, að þeim væri ekki kunnugt um, að fordæmi væri fyrir slíku í löggjöf nágrannalandanna.“

Hér er ekki um minn dóm að ræða eða okkar framsóknarmanna, heldur er hér um að ræða mann; sem naut þess álits hjá flokki sínum, Sjálfstfl., að vera í fjhn. þeirrar d., sem hann sat í. Að okkar dómi var mjög fráleitt að vinna þannig að þessu máli, og þess vegna er það nú fellt niður. Við teljum þetta óeðlilegt, og við töldum líka óeðlilegt, að löggjöfin leiddi til þess, að yfirleitt hefðu þessir smærri aðilar horfið að því að mynda hlutafélög, þó að bara væri með sinni eigin fjölskyldu. Á þetta atriði benti sami maður, Ólafur Björnsson, sem sérstaka veilu, því að þetta skattkerfi, sem sameignarfélögunum var búið, mundi leiða til margra lítilla hlutafélaga, og þá gætu eigendur þessara hlutafélaga komið undan verulegum skatti, sem þeir að öðrum kosti mundu bera. Um þetta sagði Ólafur Björnsson í þessari sömu ræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„að þeir, sem hafa einhvers konar sjálfstæðan atvinnurekstur með höndum, muni í mjög stórum stíl fara þá leið að stofna hlutafélag með nánustu fjölskyldu sinni, sem þýðir það, að þeir fengju þar jafnvel nokkra tugi þús. kr. skattfrjálsa. Hér er ekki um það að ræða, að þetta sé raunverulegur arður af neinu hlutafé, því að aldrei er neitt borgað inn í slík hlutafélög, heldur mundi leiðin vera sú, að það er til málamynda stofnað þarna nýtt fyrirtæki, hlutafélagið Jón Jónsson, ef um málflutningsmann væri að ræða, síðan reiknar Jón Jónsson sér tiltölulega lágt kaup sem starfsmaður hjá þessu hlutafélagi og fær þannig meiri eða minni hluta af sínum vinnutekjum í formi hlutabréfaarðs. Fyrir þessari hættu má ekki loka augunum.“

Er nú ekki ástæða til, þegar ríkisstj. er setzt að völdum, en þm. hennar börðust gegn þessum atriðum, að þeir staldri við og vilji koma í veg fyrir það, sem þeir, sem voru stjórnarsinnar á sínum tíma, bentu á sem slíka veilu. Ég tel mig hafa það einnig í þessari ræðu Ólafs Björnssonar, að hann hafi bent á það, að atvinnurekendasamtökin í landinu hafi ekki viljað eða litizt á þessa leið. Þess vegna er nú horfið frá þessu ráði til þess að koma í veg fyrir þá misnotkun, sem próf. Ólafur Björnsson benti réttilega á, að gæti þarna átt sér stað.

Þá er það um flýtifyrninguna. Um það vil ég segja, að mér er það ljóst, að ef rétt er að atvinnurekstri staðið, og eins og á að standa að atvinnurekstri, þannig að eigendurnir séu ekki að tina fé út úr atvinnurekstrinum, heldur gæti þess að halda í það, á auðvitað fyrningin að vera til þess að mæta því, að endurnýjun geti átt sér stað. Og þess vegna gæti þetta ákvæði um flýtifyrningu, eins og það er kallað, átt rétt á sér að vissu marki. En eins og þarna var að gengið, var gefið svo mikið svigrúm og svo mikið val í því að nota flýtifyrninguna, að það var hægt í sérstöku góðæri að gera fyrirtæki skattlaust. Og það er þetta, sem núv. ríkisstj. er að reyna að koma í veg fyrir með sinum breytingum. Hins vegar er í frv. ákvæði um það að meta slíkar verðlagsbreytingar, en þá jafnharðan og þær gerast, svo að ekki geti verið um neina stórkostlega viðburði að ræða, sem geti gert slíkt fyrirtæki algjörlega skattlaust. Ég held því, að við getum orðið sammála um það, við hv. 1. þm. Reykn., að það sé ekki nema gott og ágætt, að fyrirtæki hyggi sig upp og séu fjárhagslega vel stæð, ef þau eru vel rekin og hófsemi er í hlutunum. En við eigum ekki að gera það með þeim hætti, að skattalögin geti stuðlað að því, að hlutaðeigandi forstjóri eða eigandi geti forðað sér frá því að greiða skatt, þó að hann hafi stórkostlega tekjuafganga. Það er fjarri öllu lagi, og ekki þarf orðum að því að eyða, að auðvitað lendir það á öðrum, ef þannig er að staðið, því að við verðum að ná þessum tekjum, og spurningin er hara, hvernig við gerum það. Og eins og hæstv. forsrh. gat réttilega um áðan, er líka spurning um, að við reynum að ná þessu með sem mestu réttlæti og reynum að ganga þannig frá skattalögum á hverjum tíma, að þau opni ekki möguleika til skattsvika.

Það er ekkert eins voðalegt í augum hins heiðarlega skattborgara, sem fær allar sínar tekjur framtaldar og verður að greiða af þeim, eins og þær liggja fyrir, og það að vita af nágranna sínum, sem augljóslega hefur komizt undan með sínar tekjur. Og það er ekki nema von, að undan þessu svíði, og þetta er í raun og veru það mesta verkefni, sem við höfum í skattamálum, að reyna að hindra slíkt. Þess vegna þarf löggjöfin að leggja grundvöll að því, að fram hjá þessu verði komizt.

Þá vitnaði hv. 1. þm. Reykn. í það, að skattur á félögum væri nú 53%, en áður 43%, miðað við útsvarsfrádrátt. Nú er því til að svara í sambandi við þetta, að þar er orðin á allmikil breyting, þegar útsvörin er nú niður felld á fyrirtækjunum og ekki hægt að leggja á nema hálft aðstöðugjald miðað við það, sem áður var, því að þá er þar náttúrlega um geysilega mikla breytingu að ræða frá fyrri framkvæmd í skattaálagningu bæði útsvars og tekju- og eignarskatts og eignarútsvars. Þegar búið er að breyta þessu þannig, að það er orðinn einn skattur, þá hlaut hann að sjálfsögðu að verða hærri en hinir, áður en þeir eru lagðir saman. Meginatriði í stefnumörkun um álagningu skatts á fyrirtæki í þessu frv. eru þessir þættir:

Í fyrsta lagi er fasteignaskattur, sem er að minni hyggju mjög hóflegur. Ég held, að það þurfi enginn undan því að kvarta, og ég hef alltaf litið svo á t.d. sem sveitarstjórnarmaður, meðan ég sinnti þeim málum, að það væri afar óeðlilegt, að sveitarfélögin hefðu ekki meiri fasteignaskatt en þau höfðu. Eins og ég drap á í dag, er verulegur kostnaður af því fyrir byggðarlagið að búa þannig að fyrirtækjunum, að þau hafi sæmilega aðstöðu í sínu byggðarlagi, og það er ekkert óeðlilegt og ekki nema sjálfsagt, að þau taki þátt í því.

Í öðru lagi er svo gert ráð fyrir, að fyrirtæki greiði tekjuskatt. Þegar búið er að fella aðstöðugjaldið niður til hálfs, og við skulum nú hugsa okkur, að ef það yrði alveg lagt niður, hlyti það að leiða til þess, að sæmilega vel rekið fyrirtæki greiddi tekjuskatt, og það er ekkert óeðlilegt við það, þó það greiddi skatt af tekjum sínum eins og aðrir.

Í þriðja lagi greiða fyrirtæki svo eignarskatt. Ef atvinnufyrirtæki á eignir, er þá nokkuð óeðlilegt við það, að það greiði skatt af eignum sínum?

Enda er það nú svo, að samkv. þeim útreikningum, sem ég hef fengið gerða í Efnahagsstofnuninni, er ekki verið að íþyngja atvinnufyrirtækjunum. Það er síður en svo. Þau fá betra út úr þessari löggjöf en gömlu löggjöfinni í heild. En þeim eru ekki opnaðar svona gáttirnar, eins og var í lögunum frá í vor, það er langt frá því og mikið bil á milli. Ég lít svo á, að ef þessir þrír skattar yrðu þeir skattar, sem af atvinnurekstrinum væru teknir, sé það skattakerfi byggt upp á heilbrigðan hátt og með markmiðsstefnu, og hvert fyrirtæki geti við slíkt búið. Ég trúi því ekki, þegar að er gáð, að þá telji nokkur atvinnurekandi, að þannig sé að sér búið skattalega séð, að það hamli atvinnurekstri hans. Og það er ekkert varið í það fyrir atvinnufyrirtækin að verða skattlaus. Þau, sem lenda í því að verða skattlaus í sínu byggðarlagi, halda ekki lengi höfðinu uppi. Og það er enginn greiði gerður atvinnurekstrinum þannig séð, þó að eigi með skattalögum að reyna að opna gáttir, svo að þau geti orðið skattlaus. Og ég er líka sannfærður um, að það er ekki þetta, sem atvinnurekendur stefna að. Ég treysti því, að einmitt með skynsamlegri skattalöggjöf, eins og hér er verið að leggja grundvöll að, þá muni það sýna sig, að atvinnureksturinn muni greiða eðlilega skatta til þjóðfélagsins. Það þarf svo að vera.

Þá vil ég í framhaldi af þessu, sem ég hef sagt við hv. 1. þm. Reykn., snúa mér að honum og hv. 2. landsk., sem talaði hér af hálfu Alþfl. Verður þar fyrst fyrir mér tal þeirra um niðurgreiðslurnar. Það er nú svo, að ekki var laust við, að mér dytti í hug, að vandlifað væri nú í veröldinni. Það hefur að vísu komið fyrir áður, að mönnum hafi fundizt, að svo væri, en nú var það vond latína, ef gerðar voru eðlilegar ráðstafanir, sem höfðu þær verkanir, að þær lækkuðu vísitölu. Á sama tíma er svo verið að tala um það, að búið sé að gera kaupsamninga, sem hækki kaup og rekstrarkostnað fyrirtækja. Fram að þessu hef ég skilið það svo, að kaupgjald samkv. vísitölu gerði það einnig. Ég man ekki betur en fyrrv. ríkisstj. gripi til þess að taka vísitöluna úr sambandi, sem kallað var, slíta hana frá kaupgjaldinu af þeirri ástæðu, að þeir töldu, að atvinnureksturinn gæti ekki borið þau áhrif, sem frá henni kæmu. Það er engin fölsun í því, að hjón, sem þurftu að greiða 22 þús. kr. í nefskatt, þurfa nú ekki að greiða það. Það er engin fölsun í slíku. Það er engin fölsun í því, að einhleypur maður, sem átti að greiða 16 þús. kr., losnar við að greiða þetta. En það er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en því, fyrst þetta er mælt í vísitölu, að þá hafi það einnig áhrif, þegar það er lækkað, eins og það hefur til hækkunar, og þetta er nú bara sá mælir, sem menn verða að viðurkenna, hvort sem þeim líkar betur eða verr, og ég er nú ekki allt of viss um, að þessir ágætu vinir mínir hafi alltaf verið ánægðir, þegar vísitalan fór upp á við, og ég er heldur ekki allt of viss um, að það hafi verið hið farsælasta fyrir þjóðfélagið.

„Nú skulum við bara hugsa okkur það“, sagði Haraldur heitinn Guðmundsson einu sinni, „að hjón ættu á milli sjö og átta börn“, og þá gerði annar aths.: „Á milli sjö og átta, hvernig má það nú ske?“ Þá sagði Haraldur: „Hvernig á nú að orða þetta öðruvísi, þegar sjö eru fædd og það áttunda á leiðinni?“

Nú skulum við bara hugsa okkur það, að þetta gengi nú svo til, að við létum þetta eiga sig allt saman, þessi vísitölustig, þessar krónur væru ekki notaðar í skatta eða til að lækka vísitölu. En hvað gerist þá? Það gerist bara það, að við yrðum að sækja tekjurnar eftir öðrum leiðum. Það er þörf fyrir þessar 450 millj. í ríkisdæminu, ég held, að hv. þm. dragi það ekki í efa. Ef við metum ekki svo, að vísitalan megi lækka eftir eðlilegum leiðum, þá verðum við líka að sækja þessar tekjur á annan hátt, og hvar kemur það við nema hjá fólkinu sjálfu? Menn geta haft um þetta hvaða orðalag, sem þeir vilja. Þeir geta kallað þetta og hitt ábyrgðarleysi, og þeir geta kallað þetta og hitt fölsun og annað því um líkt. Þeir um það.

En þegar hv. 2. landsk., sem mér er nú að góðu kunnur í baráttunni í Vesturlandskjördæmi, var að tala um ábyrgðarleysi hér í kvöld, þá vildi svo til, að ég fór að lesa till., sem þá voru að koma á borðið, frá formanni Alþfl. Till. hans, samkv. ábyrgð og öllu því, var um það að greiða fjölskyldubætur til unglinga upp að nærri 21 árs aldri, ef þeir væru 6 mánuði í skóla, og þetta átti að gera á sama tíma og verið var að fella niður persónuskattana af þessu fólki. Halda ekki hv. þm., að einhvern tíma hefði nú verið talað um heldur mikið gáleysi hjá okkur, sem ekki réðum hér áður fyrr? Við höfðum ekki setið í ráðherrastól í 15 ár og gleymt þessu þá, en talið þörf á að bæta þessu við núna. (Gripið fram í.) Já, fyrrv. menntmrh. hverfur að þessu ráði, þegar verið er að gera þá breytingu að fella niður 16 þús. kr. gjald, sem þetta fólk ætti að greiða. Ég er ekki alveg viss um, að þetta flokkist undir fullkomna ábyrgð, en kannske vilja menn halda því fram, að ég kunni nú ekki nógu mikið að meta það.

Það, sem ég vildi svo segja frekar í sambandi við þetta og annað, sem fram kom í ræðu þessa hv. þm. og annarra, er, að þeir útreikningar, sem ég hef fengið — og get ég þá svarað hv. 11. landsk. í leiðinni — í sambandi við þessar skattaathuganir, — eru ekki gerðir af mér. Það er alveg rétt, enda held ég, að engum hefði dottið það í hug, að ég hefði setið við að reikna þetta. Reiknistofnun Háskólans hefur gert alla útreikninga á skatttöflunum, sem ég og aðrir nota og alveg án áhrifa frá minni hendi. Nefnd sú, sem vann að því, sá um það allt, og ég hef ekki talað við þá góðu menn. Ég veit ekki einu sinni, hvað þeir heita eða hvernig þeir líta út. Það eru gefnar upp, og ég skýrði frá því hér í dag, alveg ákveðnar forsendur fyrir þessum útreikningum. Forsendurnar eru þær, að talið er, að meðalfrádráttur einstaklings, áður en til skatts komi, miðað við gömlu regluna, sé 15% af brúttótekjunum, og fyrir hjón sé þetta 25%. Frá þessu er svo persónufrádrátturinn dreginn, 140 þús. kr. fyrir einhleypan, 220 þús. kr. fyrir hjón og 30 þús. kr. fyrir hvert barn, svo að skalar þeir, sem fyrir þá eru lagðir, eru þannig útreiknaðir. Nú get ég ekki haldið því fram, að þarna sé um rangan útreikning að ræða. Ég hef ekki trú á því, ég treysti þar tölvunni það vel. enda eru komin svo mörg sýnishorn, að merkilegt mætti það nú vera, ef þeim bæri ekki vel saman, eins og þeim hefur borið saman í sambandi við þau atriði, sem út hafa verið reiknuð, og auðvitað hafa verið prófaðir miklu fleiri skattstigar en sýndir eru í frv. M.a. hef ég fengið þrjá stiga útreiknaða líka, og er ekki nema sjálfsagt að láta fjhn. í té þá stiga, sem til eru á okkar vegum í sambandi við þessa útreikninga. Þeir stigar sumir, sem voru með þremur þrepum, gáfu meiri heildartekjur en þessi með tveimur. Þetta er matsatriði, hvora leiðina á að velja í þessu. Ég segi ekki endilega, að við höfum fundið þá langréttustu. Það er aftur matsatriði.

Auðvitað er eitthvert takmark í því, hvað út úr þessu á að koma, og í sambandi við áhrifin eða hversu grófir við höfum verið í þessari skattheimtu, þá hef ég leitað álits hjá Efnahagsstofnuninni. Það álit er unnið í samstarfi við ráðuneytisstjórana í fjmrn. og félmrn. um þær upplýsingar, sem þeir sátu með, ráðuneytisstjórinn í félmrn. í sambandi við sveitarfélögin, og hinn aftur úr sinni nefnd, og það, sem út úr þessu kemur, er að dómi Efnahagsstofnunarinnar, að þessar hækkanir á sköttunum séu ekki mjög umtalsverðar. Þar sé miklu fremur tilfærsla en það, að heildarhækkun sé, nema þegar miðað er við það skattkerfi eða skattalögin, sem gerð voru í fyrra, þá getur munað nokkrum hundruðum millj., en að öðru leyti er að þeirra dómi ekki um neinar stórfelldar breytingar að ræða. Það er að vísu að þeirra áliti nokkru meiri óvissa um fyrirtækin en einstaklingana, en inn í þetta dæmi eru að sjálfsögðu teknir allir liðirnir, persónuskattarnir, útsvörin og skattar ríkisins, og það er ekki hægt að reikna þetta dæmi út nema út frá slíkri forsendu. Þess vegna held ég, að ekki sé um neina stórkostlega skattálagningu að ræða, hins vegar tilfærslu, sem við vitum um og hlaut að koma í sambandi við það, sem hér er verið að gera.

Það er heldur ekki neitt við það að athuga og á vissan hátt eðlileg stefnubreyting, að tekjuskattarnir eru miklu meiri jöfnunarskattar á milli þeirra, sem hafa breiðu hökin, og hinna en neyzluskattarnir eru. Þeir eru allt annars eðlis. Þar er meiri greiðsla í ríkissjóð eftir því sem fjölskyldan stækkar, alveg án tillits til tekna. Tekjuskattur hefur alltaf verið hugsaður sem þannig skattur, að hann jafnaði á milli skattþegnanna, og mér sýnist, að í heild geti kannske verið, eftir því, sem ég hef fengið bezt upplýsingar um, um 5% hækkun að ræða á beinu sköttunum í tekjukerfi ríkisins frá því, sem var, og ég held, að það geti enginn með sanni sagt, að þar sé um neina stórfellda breytingu að ræða. Hitt má svo að sjálfsögðu deila um, hvort mönnum finnst sú stefna rétt. Það er pólitískt atriði, og það er ástæðan til þess, að við erum ekki í sömu stjórnmálaflokkum. Þetta er eitt af grundvallaratriðunum, hvernig menn vilja skipta á milli þegnanna, og það verður aldrei hægt að gera það nema í gegnum skattana og félagslega aðstoð.

Ég held, að það sé mikill misskilningur hjá hv. 2. landsk. að halda það, að í þessu sé ekkert litið fram í tímann. Þar lítum við alveg öðrum augum á. Við lítum svo á, að við séum hér að marka stefnu fram í tímann, sem eigi síðar eftir að mótast betur með þeirri vinnu, sem þarf að leggja í hana.

Einu atriði gleymdi ég úr ræðu hv. 1. þm. Reykn., sem var um ríkisskattanefnd. Frá mínum bæjardyrum sé er það óeðlilegt, að ríkisskattstjóri, sem í þessu tilfelli er sá, sem stjórnar öllu kerfinu, sé raunverulega að dæma í sjálfs sín sök með endanlegum úrskurði á sköttum og útsvörum. Hann er sá, sem stjórnar kerfinu, og hann er umboðsmaður ríkisins gagnvart þessu kerfi, og það er mitt mat, að það sé miklu eðlilegra, að um þetta félli dómur, sem er ekki bundinn kerfinu, svo að hann á eftir eðlilegum leiðum að geta horft á þetta frá sjónarmiði gjaldandans og þeirra, sem skattana eiga að njóta. Ég trúi því, að þessi stefnubreyting sé rétt. Hún er ekki frá minni hendi hugsuð sem neitt vantraust á núv. ríkisskattstjóra, og væri fjarri mér að sýna það. Í þessari frvgr. eru þessum dómi sett ákveðin tímatakmörk til þess að ljúka verki sínu, og það er í raun og veru óframkvæmanlegt fyrir ríkisskattstjóra í sínum annasömu störfum að geta komið frá öllum þeim skattkærum, sem þangað berast til úrskurðar, með þeirri skipan, sem nú er á. Þess vegna hef ég trú á því, að þetta geti orðið til bóta.

Út af því, sem hv. 11. landsk. þm. sagði í sambandi við samstarfið á milli hæstv. ríkisstj. og Sambands ísl. sveitarfélaga, þá vil ég taka undir það með honum, að ég tel, að brýna nauðsyn beri til, að það samstarf verði gott, og eg treysti því, að það geti orðið. Ég held, að það hafi orðið okkur í ríkisstj. ekki síður leiðindi en þeim það slys, sem henti um daginn, þegar rætt var um þessi mál, og var allt sagt í opinberu dagblaði einu, sem auðvitað getur ekki gengið, og þá var málið á því stigi meira að segja, — ég get játað það fyrir mína hönd, — að ég var ekki farinn að leggja það fyrir minn þingflokk, einmitt þegar þessi frásögn kom, vegna þess að þá voru að koma fyrstu mótanir, og það var verið að reyna að ræða það á þessu stigi. Ég vissi það ósköp vel. að stjórnarmönnum þar og framkvæmdastjóra fannst þetta mikið miður, og ég veit, að fram hjá þessu verður komizt og vona, að þetta samstarf geti orðið eðlilegt og gott, eins og það þarf að vera fyrir báða aðila.

Ég vil svo segja það í sambandi við þau dæmi, sem hv. 11. landsk. þm. nefndi hér, að ég hef skýrt honum frá því, hvernig þær tölur eru til orðnar, sem ég hef byggt hér á, og á engan hátt farið í felur með það. Þar er, og ég held, að það liggi alveg ljóst fyrir, ekki um neinn heimatilbúning að ræða, heldur það sem þær stofnanir vinna, sem að slíkum verkum eiga að vinna. Það má vel vera, að tölur hans, sem hann lagði hér fram, hafi til sins ágætis nokkuð. Ég skal ekki um það fullyrða neitt að þessu sinni, enda hef ég enga aðstöðu til þess að segja neitt um þær, en ég segi bara frá því, hvernig þessar tölur hafa orðið til, sem ég hef vitnað hér til.

Út af því, sem hv. 3. landsk. þm., Bjarni Guðnason, sagði hér áðan, þá tek ég undir það með honum, að það ber brýna nauðsyn til þess að endurskoða löggjöfina um hlutafélög og það að herða skattaeftirlitið, eins og ég drap á áðan, er eitt þýðingarmesta atriðið í sambandi við skattamálin.

Nú skal ég, herra forseti, fara að stytta mál mitt, enda hefur þetta víst tekið lengri tíma en ætlað var. En ég vil að lokum segja fáein orð vegna þess, sem fram hefur komið í þessum umr. um tekjur ríkissjóðs og hversu öruggt væri, að ríkissjóður næði nægum tekjum á næsta ári. Ég hef áður sagt, að fjárlög yrðu afgreidd tekjuhallalaus, og ég get bætt því við, að ef ég óttast það, að sú tekjuáætlun, sem gerð verður, ætli að bresta, þá mun ég feta í fótspor fyrirrennara minna og skoða málið betur á framhaldsþingi. Sú saga er mjög þekkt hér á hv. Alþ., og það verður öruggt, að það verður reynt að tryggja það, að ríkissjóður hafi nægar tekjur á næsta ári.

Ég vil líka taka undir það, sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að auðvitað gerum við okkur grein fyrir því, að þær breytingar, sem hér hafa verið gerðar í kaupgjaldsmálum og öðru slíku, leiða auðvitað af sér meiri veltu í þjóðfélaginu og meiri eftirsókn eftir veraldlegum gæðum. Það hefur aldrei verið yfirlýst stefna ríkisstj., að hér gæti ekki orðið nein verðbólga, heldur væri stefnt að því, að hún yrði ekki meiri en í nágrannalöndunum og þeim löndum, sem við hefðum viðskipti við. Ég vona, að ríkisstj. muni ekki tapa sjónum af þessu takmarki sínu frekar en öðru, og verður í sambandi við tekjur ríkissjóðs að meta þetta. (Gripið fram í.) Um sjómannafrádráttinn, fyrirgefðu, það hafði fallið hér niður hjá mér. En það mál er í sérstakri athugun, og frekar get ég ekki um það sagt að sinni.

Ég vil undirstrika það og ítreka, að ég tel það ekki nýja skatta, þótt skattgreiðslur séu færðar á milli ríkis og sveitarfélaga. Frá mínum bæjardyrum séð er hér um eitt kærleiksheimili að ræða, og stundum getur nú sletzt upp á vinskapinn þar í milli, en fyrir gjaldandann er það nokkuð hið sama, í hvorn vasann það fer.

Það skal ég svo að síðustu segja, hvað sem menn kunna að kalla þetta, tilraunir eða annað því um líkt, að þá endurtek ég það, að það verður haldið áfram að vinna að endurskoðun þessara mála og allra tekjustofna ríkisins, og það verður engin feimni viðhöfð við það, þótt fram ættu eftir að koma einhverjar veilur í þessari breytingu. Þá verður reynt að taka á þeim og hæta þar úr, en ekki að sýna feimni um það, þótt mönnum kunni að hafa í einhverju yfirsézt, enda fer bezt á því, að þannig verði að þessu máli unnið og árið 1972 verði notað til þess, að á næsta Alþ. geti hér verið afgreidd lög um tekju- og eignarskatt, heildarlöggjöf, og að tekjustofnar ríkisins verði þá miðaðir við þá stefnu, sem núv. ríkisstj. fylgir í efnahagsmálum.