19.12.1972
Neðri deild: 31. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1095)

15. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Mér þykir rétt að leiðrétta misskilning hjá hv. síðasta ræðumanni, 9. landsk. þm. Ég held, að misskilningurinn stafi af því, að hann hefur lítið fylgzt með aðgerðum í þessum málum og lítið fylgzt með umr. hér á Alþ. í sambandi við þessi mál. Hann var með ámæli til okkar hv. 10. þm. Reykv. fyrir að hafa lagt til, að svæðið fyrir Norðausturlandi yrði friðað, það væri eitt tekið út úr. Ég vil benda honum á, að þetta er ekki okkar till. Svæðið er samkv. reglugerð þegar friðað. Okkar till. í þessu sambandi er sú ein, að friðun standi lengri tíma en þar er gert ráð fyrir. Ég vil einnig benda þessum hv. þm. á það, ef hann telur sig vera þess umkominn að vera með ámæli til mín og hv. 10. þm. Reykv. fyrir að hafa bent á þetta svæði, að í till. okkar er líka að finna till. um það, að svæði fyrir Suðurlandi, sem er aðalveiðisvæði bátanna frá Vestmannaeyjum og hér við Suðvesturland á vetrarvertíð, verði einnig friðað, þannig að við erum ekki að gera neinn mun á milli landshlutanna. A.m.k. ég fer í minn eiginn landshluta og legg til, að þar sé friðað svæði, þar sem netaveiðar hafa verið einna mest stundaðar á undanförnum áratugum. En eins og ég sagði í upphafi, stafar þetta af vanþekkingu þessa unga hv. þm., hann hefur ekki fylgzt með umr. um þetta og hefur sjáanlega ekki kynnt sér málin nægjanlega til að geta talað eins og hann gerði hér áðan.

Um að fiskveiðilagan. hafi ekki átt viðræður við þá aðila, sem hagsmuna hafa að gæta fyrir Norðausturlandi í sambandi við fiskveiðarnar, vil ég benda á það, að n. mætti vissulega á þessu landssvæði og gerði sér þangað ferð, sem var erfiðasta ferðin, sem n. fór í, en þeir voru því miður ekki tilbúnir til að tala við okkur. Við fengum þær upplýsingar, að aðstæður hjá þeim væru þannig, að þeir gætu ekki mætt til fundar með okkur, og af því varð ekki af þeim viðræðufundum, sem við höfðum stofnað til og vorum mæltir til að halda, svo að ég held, að fiskveiðilagan. verði litið ásökuð í þessu sambandi.

Ég skal ekki tefja þessar umr. neitt úr hófi, en vildi aðeins koma að fáum atriðum, vegna þess að hæstv. sjútvrh. var ekki mættur hér í kvöld, þegar ég lauk síðari hluta af minni ræðu. Hann fór fram á það við flm. till. á þskj. 185, mig og hv. 10. þm. Reykv., að við drægjum þessa till. til baka. Ég get sagt það fyrir hönd okkar beggja, að við erum ekki reiðubúnir til að gera það, og skal ég ítreka það, sem ég sagði fyrr í kvöld, að við teljum, að þær ráðstafanir, sem við leggjum til í till. séu svo nauðsynlegar og svo aðkallandi, að það er að okkar dómi alveg óforsvaranlegt undir öllum kringumstæðum að draga úr hömlu að koma slíkum reglum á nú þegar fyrir næstu vetrarvertið. Ég á þar við svæðið fyrir Suðurlandi, þar sem lagt er til, að tiltekið hrygningarsvæði á Selvogsbanka verði friðað. Ég benti á það hér í kvöld, þegar hæstv. ráðh. var ekki enn kominn í þingsal, að það hefði borið að á síðustu vertíð, að fiskur hefði ekki í neinum mæli, miðað við það, sem áður hefur verið, komið inn á þetta svæði á hrygningartímanum. Ef þetta stafar af því, að ofveiði með netum hafi átt sér stað á undanförnum árum á þessu svæði, þá er sannarlega óforsvaranlegt í alla staði að draga það eitt ár til viðbótar að gera ráðstafanir til þess, að þarna verði ákveðið tiltekið friðunarsvæði fyrir netaveiðum einnig. Það má vel vera, að þetta sé of seint fram komið. En ég tel, að það sé ekki hægt að afsaka það, þegar málum er komið eins og á síðustu vertíð, að draga eitt ár enn að gera slíkar ráðstafanir og gera þær í mun víðtækari mæli en reglugerðin, sem gefin var út 14. júlí, gerir ráð fyrir, því að friðun aðeins fyrir botnvörpu, flotvörpu og dragnót á þessum stað er sýndarmennska, eins og fiskifræðingar Hafrannsóknastofnunarinnar orðuðu það í áliti sínu. Þarna eru yfirleitt alls ekki stundaðar nokkrar dragnótaveiðar eða veiðar með botnvörpu á þessum tíma. Þarna fara fram einungis netaveiðar á þessum tiltekna tíma, og þess vegna er það, að ef ekki er friðað fyrir öllum veiðarfærum, ná ráðstafanir þær, sem núna eru í gildi, ekki tilgangi sínum, koma ekki að þeim notum, sem þeir menn, sem þarna eru kunnugir málum, telja, að verði að eiga sér stað.

Varðandi svæðið fyrir Norðausturlandi, er engin tilviljun, að hæstv. ráðh. tók það inn í reglugerðina á s.l. sumri. Það er vitað, að þetta er það svæði, sem fiskifræðingar hafa árum saman fjallað um. Ég á þar við fiskifræðinga og sérfræðinga þá, sem komið hafa saman og kölluð er almennt Norðaustur-Atlantshafsnefndin. Þetta er það svæði, sem þeir, ég held fyrir 10–12 árum, bentu á, að fyrst bæri að friða sem uppeldisstöðvar ungfisks hér við land.

Ég vil til áréttingar því, sem ég sagði hér í dag um þetta atriði, benda hæstv. ráðh. á það, sem Ingvar Hallgrímsson, fiskifræðingur, sem þá var settur forstöðumaður Hafrannsóknastofnunar, sagði í viðtali, sem hann átti við fréttamann sjónvarpsins hinn 22. nóv. á árinu 1971. Ég fékk vélritað þetta viðtal og vil — með leyfi forseta — lesa upp úr því einn kafla, að því er þetta svæði varðar. Fréttamaðurinn spyr Ingvar Hallgrímsson, fiskifræðing þessarar spurningar: „En hve alvarlegt er þetta seiða- og smáfiskadráp í raun og veru? Hve mikið er í húfi?“ Þetta er spurningin, sem fréttamaðurinn leggur fyrir fiskifræðinginn varðandi ungfisksveiðarnar. Svar hans er þetta: „Ég held, að það sé mjög mikið í húfi. Við getum t.d. tekið þorskárganginn frá 1964, sem var mjög stór, að hann var byrjað að veiða hér við land 1968, og í svo miklum mæli, að af því sem var veitt við landið af smáþorski, var helmingurinn árgangurinn frá 1964 þegar 1968, og þessu hefur verið haldið áfram. Við bjuggumst við því, að þessi fiskur kæmi fyrst til hrygningar á síðustu vetrarvertið hér sunnan- og vestanlands, en hann kom ekki. Og það læðist náttúrlega að sá grunur, að það hafi einmitt verið vegna þess, hve mikið hafi verið gengið á hann, á meðan hann var ókynþroska.“

Þá á fiskifræðingurinn við á uppeldisstöðvunum fyrir Norður- og Norðausturlandi. Ég held, að það sé rétt með farið hjá mér, að þetta sé eiginlega fyrsta aðvörun, sem Alþ. og þjóðin fær um það, frá Hafrannsóknastofnuninni, hvað raunverulega er að gerast á svæðunum fyrir Norður- og Norðausturlandi, á aðaluppeldisstöðvum ungfisks. Það er þegar við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, að árgangur fisksins, sem þarna hefur verið að alast upp á undanförnum árum og átti eðli málsins samkv. og samkv. þeirri kenningu, sem fiskifræðingar hafa, að ganga suður fyrir land, eftir að hann var kominn á visst þroskastig, kemur ekki, og skýringin hjá fiskifræðingum er sú ein, að hann hafi verið veiddur á þessum svæðum, meðan hann enn var ókynþroska og hélt sig á uppeldisstöðvunum. Ég tel einmitt, að þetta sé mjög sterk ábending til Alþ. um að gera nú þegar ráðstafanir til þess, að tiltekin svæði verði friðuð. Ég tel rétt, að einmitt þetta tiltekna svæði verði friðað, ekki aðeins í tvo mánuði, eins og reglugerðin gerir ráð fyrir, heldur í tvö ár, til þess að við fáum reynslu af því, hvort friðunarráðstafanir þær, sem við erum með í huga komi að því haldi, sem við höfum gert okkur vonir um.

Þá vil ég aðeins koma að þeirri till., sem hæstv. ráðh. hefur flutt hér um, að lögin um bann gegn botnvörpuveiðum verði framlengd, ekki til 15. maí, eins og öll fiskveiðilagan. og öll sjútvn. d. urðu sammála um að leggja til, heldur til 1. júlí, Ég er satt að segja nokkuð undrandi yfir því, að hæstv. ráðh. skuli leggja þessa till. fram, eftir að hann veit afstöðu allra þessara aðila, sem um þetta hafa fjallað. Það er ekki út í bláinn, að við leggjum til, að lögin verði framlengd til 1. maí. Það er vitað, að þá eru vertíðaskipti um land allt, þá hefst nýtt veiðitímabil, t.d. fyrir Suðurlandi í sambandi við humarveiðarnar. Það væri mjög óeðlilegt og erfitt að byrja humarveiðarnar 15. maí, eins og reglur og lög gera ráð fyrir, og eiga svo á miðri humarvertíðinni að fá yfir sig breyttar reglur. Það er miklu betra, að þær reglur, sem kunna að verða lögfestar hér í vetur, verði komnar fram og fiskimenn viti um þær, þegar þeir byrja þessar veiðar hinn 15. maí n.k. Þetta var ástæðan fyrir því, að allir þessir aðilar voru sammála um að framlengja lögin aðeins til 15. maí, en ekki lengur. Ég tel það eðlilega ósk frá minni hendi og nm., bæði fiskveiðilagan. og sjútvn., að hæstv. ráðh. tæki þessa till. sína til baka.

Þá var það eitt atriði, sem hæstv. ráðh. kom inn á, sem ég sé ástæðu til að ræða aðeins nánar, að vísu gerði hv. 5. þm. Reykv. það, en það var það, sem hæstv. ráðh. sagði og var kannske aðalástæða hans fyrir því að ganga á móti till. okkar á þskj. 185, að samningur hefði verið gerður við Belgíumenn um tiltekin veiðisvæði og viðræður ættu sér stað við aðrar erlendar þjóðir. Ég segi: Hvar er nú hinn harði maður, Lúðvík Jósepsson, eins og hann talaði fyrir síðustu kosningar, að útfærslan skyldi ákveðin þennan ákveðna mánaðardag og það varðaði engan annan um það, þetta væri okkar innanríkismál, eins og hann orðaði það? Þetta var rétt hjá honum, þetta er okkar innanríkismál. En hvað er nú verið að hopa og tala um samninga, sem gerðir hafa verið við Belgíumenn, eða viðræður við aðrar erlendar þjóðir? Ég segi, að Íslendingar eiga alveg óhikað að gera sínar friðunarráðstafanir, bæði gagnvart erlendum aðilum og okkar veiðiflota einnig. Við verðum, þó að það komi eitthvað niður á bæði flotanum fyrir Norðurlandi og Suðurlandi og togaraflotanum, að gera okkur grein fyrir því, að það verður að skipuleggja veiðarnar þannig, að viss svæði séu á hverjum tíma friðuð fyrir botnvörpu og í sumum tilfellum fyrir öllum veiðarfærum.

Eins og ég sagði í upphafi, skal ég ekki lengja þessar umr. neitt verulega. En ég vil mjög undirstrika það, sem fram kom hjá hv. 5. þm. Reykv. og reyndar einnig hjá hv. 10. þm. Reykv., að sú aðstaða, sem nú hefur skapazt með samþykkt þeirri, sem gerð var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær, gefur okkur vissulega meira svigrúm til þess að gera þær ráðstafanir, bæði í friðunarmálum og öðru, sem við sjálfir teljum skynsamlegar og nauðsynlegar. Við þurfum að mínum dómi ekki að taka þar neitt tillit til þeirra aðila, sem nú hafa verið að sækja á okkur í sambandi við útfærslu landhelginnar. Ég tel, að að það sé kominn fullkominn grundvöllur til að standa alveg óhikað á málstað okkar, hvað sem aðrar þjóðir kunna að segja, því að ég held, að það dyljist ekki einum einasta Íslendingi lengur, að við erum raunverulega búnir að sigra í landhelgisdeilunni, en ekki fyrir aðgerðir ríkisstj., það er svo langt frá því. Við erum búnir að sigra í deilunni vegna þeirrar samþykktar, sem allsherjarþingið gerði í gær. Það er raunverulega búið að skapa alþjóðalög. Og ég hygg, að það sé öllum ljóst, að Alþjóðadómstólinn getur vart undir nokkrum kringumstæðum gengið fram hjá svo ákveðinni ályktun jafnmargra þjóða eins og þarna áttu hlut að máli, þar sem engin þjóð andmælti. Ég hygg, að þetta sé grundvöllur, sem hljóti að verða lagður fyrir þeim niðurstöðum, sem endanlega kunna að verða teknar í sambandi við rétt strandríkja til nýtingar yfir landgrunni sínu. Sem betur fer hefur þetta viðhorf skapazt, og við vitum miklu betur núna en áður, hvar við stöndum. Við höfum mun sterkari afstöðu í dag en við höfðum fyrir stuttu gagnvart þeim aðilum, sem við höfum verið að slást við í sambandi við landhelgismálið. Það þarf ekki að mínum dómi á nokkurn hátt að taka tillit til þeirra frekar en okkur sjálfum sýnist, eftir því sem við teljum skynsamlegt, í sambandi við friðunarráðstafanir og aðrar aðgerðir, sem við teljum nauðsynlegar við skipulagningu fiskveiðanna hér við land.