01.02.1973
Sameinað þing: 39. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1793 í B-deild Alþingistíðinda. (1408)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Á þskj. 97 liggur fyrir till. til þál. um innheimtu veggjalds af hraðbrautum. Flm. þessarar till. auk mín eru þeir Karvel Pálmason, Helgi F. Seljan, Steingrímur Hermannsson, Ragnar Arnalds, Benóný Arnórsson og Stefán Valgeirsson, en tillgr. er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela samgrh. að innheimta í samræmi við 95. gr. vegal. nr. 23 1970 sérstakt umferðargjald af bifreiðum, sem fara um Reykjanesbraut og Suðurlandsveg, svo og aðrar þær hraðbrautir, sem lagðar verða með varanlegu slitlagi, þegar þær teljast gjaldbærar.“

Það eru í rauninni tvær ástæður fyrst og fremst, sem eru undirrótin að þessum tillöguflutningi. í fyrsta lagi er það fjárþörf vegasjóðs og í öðru lagi það, að flm. telja innheimtu veggjalds á þann hátt, sem hér um ræðir og vegal. gera ráð fyrir, eðlilegan gjaldstofn vegasjóðs.

Fyrra atriðið, fjárþörf vegasjóðsins, þarf í ranninni ekki skýringa við. Á síðasta Alþ. var við meðferð vegal. og vegaáætlunarinnar gerð mjög veruleg almenn hækkun á því fé, sem varið er til vegamála. Það er unnið af fullum krafti við hraðbrautir samkv. vegáætluninni. Það er haldið áfram framkvæmd sérstakrar Austurlandsáætlunar, það hefur verið hafin framkvæmd á Norðurlandsáætlun, og það eru hafnar framkvæmdir við að opna hringveg umhverfis landið. Allt þetta var ákveðið á síðasta löggjafarþingi, og þess vegna alveg ástæðulaust að hafa mörg orð um þetta atriði, um fjárþörf vegasjóðs, í áheyrn þeirra hv. þm., sem réðu þessum ráðum aðeins fyrir nokkrum mánuðum.

Það þarf heldur ekki annað en virða fyrir sér verkefnin mjög lauslega til þess að sjá, hversu brýn nauðsyn er að halda áfram af fullum krafti byggingu hraðbrauta, þ.e.a.s. að leggja varanlegt slitlag á vegina í framhaldi af því verki, sem þegar er hafið, ekki einasta hér í allra næsta nágrenni Reykjavíkur, heldur miklu víðar um land. Undan því verður ekki komizt lengi. Við vitum um þörfina að tengja byggðarlögin, tengja saman þéttbýla staði, einnig utan höfuðborgarsvæðisins, með betri vegum en nú eru til. Við vitum, hversu margir af framleiðsluvegunum um sveitirnar, sem menn þar gjarnan kalla þessu nafni, framleiðsluvegi, — hversu mjög mikill hluti af þeim er marflatur gamall vegur, sem brýn nauðsyn er að byggja upp. Og á opnun hringvegarins hef ég áður minnzt. Það er þess vegna engum blöðum um það að fletta, að verkefnin í vegamálunum eru ákaflega stórbrotin og þörfin brýn og aðkallandi að sinna þeim sem allra fljótast að tök eru á.

Við, sem flytjum þessa till., teljum þess vegna eðlilegt alveg tvímælalaust að nýta flesta tiltæka tekjustofna. Ég vil vekja athygli á því, að hér er ekki verið að brjóta upp á nýjung. Það er langt síðan það ákvæði, sem nú er í 95. gr. vegal., kom inn í vegal. Það er búið að standa þar lengi. Þess vegna er þetta alls engin nýjung, auk þess sem búið er að innheimta veggjald um nokkurra ára bil af tilteknum vegi, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt.

Þegar þetta ákvæði var sett inn í vegal., hefur það væntanlega m.a. verið gert að erlendri fyrirmynd. Þetta er víða tíðkað í öðrum löndum, þó að þar séu miklu betri ástæður í vegamálum heldur en hér. Mér er t.d. sagt, að menn komist ekki að eða frá New Yorkborg öðruvísi heldur en að borga gjald fyrir á hinum ýmsu leiðum, sem þar eru farnar.

Þegar þetta var ákveðið hér og byrjað að innheimta veggjald á Reykjanesbraut, þá vakti það töluvert miklar deilur í fyrstu. En ég tel, þó að öðru hverju hafi gagnrýni skotið upp á þessu atriði, að þær deildur hafi rénað mjög verulega í seinni tíð.

Í fyrstu var ekki um að ræða nema einn veg með varanlegu slitlagi, þar sem umferð var það mikil, að hægt var að koma slíkri innheimtu við. Nú er það svo í dag, að annar vegur til viðbótar er kominn í gagnið. Og það lá fyrir, þegar vegamálin voru hér til meðferðar á síðasta þingi, að þetta yrði á því ári, sem nú er nýliðið. Ég hygg, að allir hafi þá verið sammála um það, að annaðhvort yrðu menn að falla frá innheimtu veggjalds á þessum eina vegi og þar með frá þessari aðferð til gjaldheimtu í vegasjóð ellegar þá að færa gjaldheimtuna út á nýja vegi, jafnskjótt og þeir teldust gjaldbærir. Um það hefur ekki verið ágreiningur. Ég a.m.k. leit svo á í fyrstu, þegar þetta var rætt, t.d. í n. og manna á milli, að flestir væru inni á því að færa gjaldheimtuna yfir á fleiri vegi og sem sagt að halda henni áfram. En við meðferð málsins hér á Alþ. varð hitt ofan á, að falla frá gjaldheimtu á Reykjanesbraut og þar með gjaldheimtu í vegasjóð á þennan hátt.

Afgreiðsla Alþ. varð með þeim hætti, að 8 þm. greiddu ekki atkv, eða voru fjarstaddir. Með tilliti til þess m. a., að það vannst ekki langur tími til þess að íhuga þetta mál, þegar þessi ákvörðun var tekin, og einnig hins, að þetta margir þm. tóku þá ekki beina afstöðu, heldur tóku þann kost að greiða ekki atkv. um málið, það er m.a. með þetta í huga, sem við flm. þessarar till. leggjum nú til, að Alþ. endurmeti þetta mál.

Flm. till. telja alveg tvímælalaust, að innheimta veggjalds af brautum, sem skera sig úr um gæði í þessu tilfelli svokölluðum hraðbrautum okkar, sé ákaflega eðlileg. Þessir vegir spara þeim, sem um þá fara, miðað við malarvegina okkar, mjög mikla fjármuni í minni brennslu, í minna viðhaldi bifreiða og í minni tíma auðvitað, sem það tekur að fara hvern km á þessum vegum, að ógleymdum þeim þægindum, sem það veitir að aka slíkan veg. Á þessu er gífurlegur munur. Það má deila um, hversu mikill hann sé, en hann er gífurlegur, og ég held að engum detti í alvöru í hug að halda því fram, að veggjald það, sem ákveðið var á sínum tíma, hafi verið nema brot af þessum mismun, hversu mikið verða menn aldrei alveg sammála um.

Það er rétt að rifja það upp í þessu sambandi, að þegar ákveðið var að taka veggjaldið 1965 og upphæð þess ákveðin, þá var hún miðuð við það, að innheimtur yrði helmingur af þeim sparnaði, sem yrði við það að aka nýja veginn miðað við það að aka malarveg. En það, sem lá til grundvallar ákvörðun um upphæðina, voru skýrslur frá nágrannalöndum, t.d. frá Norðurlöndunum og frá Ameríku, þar sem gert hafði verið yfirlit og könnun um þetta atriði. Og þetta var miðað við þann mismun, sem þar var talinn á því að aka vegi með varanlegu slitlagi annars vegar og að aka malarvegi þeirra landa hins vegar. Þarna ætti því a.m.k. ekki að halla á okkur í þessu mati, því að það hef ég fyrir satt og hef raunar engan heyrt halda öðru fram en að malarvegir þeirra landa, sem hér um ræðir, séu yfirleitt miklu fullkomnari en okkar malarvegir. Því má ætla, að hér sé þessi munur meiri en erlendis. Því hefur nú verið slegið fram í umr. um þessi mál, að innheimta veggjalds hér á landi, miðað við þá áætlun, sem um það var gerð í fyrra, væri svo lítið atriði fjárhagslega og svo lítið fé, sem inn kæmi, að það borgaði sig ekki að standa í þessu vafstri þess vegna. Menn getur náttúrlega greint á um þetta. En þó er það svo, að samkv. vegáætluninni, og þá er miðað við gjaldið eins og það hefur verið frá 1965, þá var þó um að ræða rúmar 30 millj. á ári, sem áætlað var, að þetta gæfi. Nú er ekki skynsamlegt, ef farið yrði aftur í þessa gjaldheimtu, að miða við upphæðina frá 1985. Ég ætla, að hún hafi verið á rökum reist og a.m.k. alls ekki of há, heldur væri rétt, að innheimt yrði hærra gjald nú. Ég held, að við séum ekki það stórir í sniðum, að við lítum ekki á upphæðir, sem skipta nokkrum milljónatugum, og t.d. hlutfallslega hækkun á gjaldi frá því, sem var þá, gæti numið nálægt 5% af því fé, sem veitt var beint til vegaframkvæmda á síðustu vegáætlun. Það er því fráleitt að fallast á það, að hér sé um svo litla fjármuni að ræða, að það taki því ekki að hirða þá fyrir vegasjóðinn, sem vissulega er fjárþurfi miðað við verkefni sín. Það eru auðvitað ýmsir agnúar á þessari tekjuöflunarleið. Með henni verður t.d. ekki fullnægt öllu réttlæti, það dettur mér ekki í hug að fullyrða. En flm. þessarar till, líta svo á, að þessir agnúar ýmsir séu ekki svo miklir, að rétt sé að hafna þessari tekjuöflunarleið þeirra vegna.

Ég skal svo ekki fjölyrða miklu meira um þetta. Við leggjum sem sagt til, að Alþ. skoði þetta mál að nýju. Og meginatriðin í okkar röksemdafærslu eru, eins og ég sagði í upphafi, annars vegar ótvíræð og ég vil segja óumdeilanleg fjárþörf vegasjóðsins og svo hitt, að gjaldstofn samkv. 95. gr. vegal. er í raun eðlilegur. Það er ekki verið að mismuna neinum á þann hátt, að þessi gjaldheimta íþyngi þeim, sem þessa vegi aka, þannig að þeir búi við verri kjör en hinir, sem búa við vondu vegina. Þvert á móti er hér aðeins um það að ræða, að þeir leggi til vegamálanna brot af þeim fjárhagslega ávinningi, sem að því er að aka hraðbrautina miðað við aðra vegi. Eins og ég sagði, er þörfin ótvíræð. En menn geta auðvitað rætt um réttmætið og deilt um það, og það er sjálfsagt að brjóta það alveg til mergjar og þá gjarnan að gefa sér betri tíma til þess en vannst við meðferð málsins, þegar það var afgreitt hér á þingi síðast.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að till. verði vísað til hv. fjvn.