07.02.1973
Neðri deild: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1831 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

151. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur fram komið í þessum umr., hefur orðið samkomulag í þeirri n., sem Alþ. kaus til þess að gera till. um sérstakan fjárstuðning vegna eldgosanna á Heimaey. Það var strax vitað, að nokkur ágreiningur var um það, hvernig afla skyldi þess fjár, sem þurfti að leggja fram. Ríkisstj. hafði undirbúið sínar till. í málinu, látið semja drög að frv. og gert þar ráð fyrir sérstakri tekjuöflunarleið. Sú tekjuöflun, sem þar var byggt á, miðaðist við, að allir landsmenn legðu fram, hver eftir sinni getu, fé til að mæta þeim vanda, sem við var að glíma. En þegar í ljós kom, að það gat ekki orðið samstaða á Alþ. um að velja þá leið, sem ríkisstj. hafði gert ráð fyrir í till. sínum, var horfið að því ráði að skipa þá n., sem samið hefur frv. það, sem hér liggur nú fyrir.

Aðalatriðið, sem hér er um að ræða, er það, að stofnaður verði sjóður, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, — sjóður af þeirri stærð, að hann sé fær um að takast á við það verkefni, sem hér hefur borið að. Það má að sjálfsögðu afla tekna í slíkan sjóð með ýmsum hætti. Það var skoðun okkar Alþb: manna, að þegar um væri að ræða svo mikið tjón fyrir þjóðarbúskapinn allan, væri eðlilegt, að kauphækkanir yrðu stöðvaðar um stundarsakir, um leið og allir legðu fram fé til þess að leysa vandamálið. Það hefði sýnt fullkominn vilja allra í landinu til að takast á við stórt verkefni og fulla ábyrgð. Ég efast ekki um það fyrir mitt leyti, að þjóðin hefði verið viljug til að sýna þetta í verki.

Nú hefur hins vegar orðið að ráði að fara þá leið að afla fjár í sjóðinn með sérstakri skattlagningu. Það er að sjálfsögðu einnig hægt. En við vitum, að skattlagningarleið fylgir verðhækkunarvandamál af ýmsum tegundum, og eigum við þá eftir að glíma við önnur mikil efnahagsleg vandamál, sem að þjóðinni hljóta að steðja, þegar hún hefur orðið fyrir áfalli eins og því, sem hér er nú rætt um.

Við Alþb.- menn stöndum að því samkomulagi, sem náðst hefur í þeirri n., sem Alþ. kaus. Við fögnum því, að samkomulag hefur tekizt í n. um að leysa það, sem mestu máli skiptir í þessum efnum, þ.e. að afla þess fjár, sem nauðsynlega þarf. Við teljum, að sú skattlagning, sem frv. byggir á, geri ráð fyrir því, að flestir leggi hér fram nokkurn hlut, og enginn muni í rauninni kvarta undan því, þó að á hann séu lögð nokkur gjöld vegna þess, sem gerzt hefur.

Það er von mín, að stofnun þessa sjóðs nái því höfuðmarkmiði að draga úr vanda Vestmanneyinga og jafnframt takist að leggja grunn að því, að hægt verði að hefja uppbyggingu í Vestmannaeyjum á nýjan leik, þannig að sú þýðingarmikla framleiðslustöð, sem Vestmannaeyjar hafa verið í íslenzkum þjóðarbúskap, — sú stöð komi okkur aftur að gagni í sambandi við aðalundirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Það er með þeim huga, sem við stöndum að þessu frv. og vorum fúsir til að falla frá þeim till., sem við töldum þó vera betri til fjáröflunar, því að meginatriðið er að takast á við vandamálið, afla þess fjár, sem til þess þarf, og vinna síðan í samhug að því að leysa þann mikla vanda, sem hér er um að ræða.