07.02.1973
Neðri deild: 48. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1446)

151. mál, neyðarráðstafanir vegna jarðelda á Heimaey

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Reynsla hefur sýnt, að þegar þjóðarsómi býður, þá á Ísland eina sál. Þegar jörð sundraðist á Heimaey og eldur úr iðrum jarðar stofnaði lífi og eignum í einhverju athafnasamasta samfélagi á Íslandi í hættu, þá sameinaðist þjóðin öll í bæn um það, að mannslíf mættu bjargast og tjón verða sem minnst, og í stuðningi við það starf, sem unnið var, til þess að slíkt mætti takast. Það gengur kraftaverki næst, að enginn mannskaði skuli hafa orðið vegna hinna ægilegu hamfara, sem átt hafa sér stað, og hversu miklum verðmætum hefur tekizt að bjarga. Fyrst og fremst er hér Vestmanneyingum fyrir að þakka. En þjóðin öll hefur staðið að baki þeirra og með þeim og mun gera.

Nú í dag er það einhuga Alþingi, sem stofna mun sjóð til þess að gera kleift að stíga fyrstu stóru sporin til þess að vinna gegn afleiðingum þeirra óskapa, sem yfir dynja. Af einlægni og alhug hefur verið leitazt við að leggja til, að fjár í þennan sjóð verði aflað á þann hátt, að allir leggi eitthvað af mörkum og að byrðinni sé dreift sem jafnast, ekki vegna metings um það, hvort framlag eins kunni að vera eitthvað meira eða minna en annars, heldur vegna hins, að það er siðferðisskylda, það er samvizkuatriði, að allir, bæði einstaklingar, fyrirtæki og opinberir aðila, taki þátt í því að bæta orðið tjón og greiða fyrir nýrri uppbyggingu í kjölfar þess. Við vitum, að tímaendir og erlendir aðilar, hæði einstaklingar, stofnanir og ríkisstj., hafa lagt og ætla að leggja fram mikið fé vegna ógæfu okkar. Allir Íslendingar þakka þann vinarhug, sem að baki býr. En þá getum við með beztri samvizku þegið og þakkað, ef við höfum sýnt í verki, að sjálfir tökum við strax á herðar okkar nauðsynlegustu byrðar og erum sammála um það.

Ágreiningur um þjóðmál er eðlilegur í lýðræðisríki. En þær stundir geta komið, þeir atburðir geta orðið, að enginn ágreiningur á við. Nú er slíkt að gerast í íslenzkri þjóðarsögu. Megi guð gefa, að Íslendingum takist að standa áfram saman um allt það, er lýtur að vandamálum í kjölfar eldsumbrotanna í Vestmannaeyjum.