14.02.1973
Neðri deild: 52. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

159. mál, kaupgreiðsluvísitala

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en mig langar til að segja örfá orð í sambandi við þetta frv.

Það er að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni fyrir mig, sem á frv. í gangi í þinginu varðandi tannlækningar, að nú skuli koma tvímælalaust fram vilji ríkisstj. til að taka tannlæknaþjónustu upp í þessu þjóðfélagi, væntanlega á svipaðan hátt og þjónusta er við aðra sjúkdóma. En það, að þetta skuli bera að með þessum hætti, þykir mér miður. Hér er verið að binda saman hluti, sem að mínu mati átti ekki að binda saman á þann hátt, sem hér er gert. Það er a.m.k. nauðsynlegt að fá fullkomna vitneskju um það, í hvaða formi þessi tannlæknaþjónusta á að vera. Ég hafði lagt til áður, að hún næði til fullkominnar tannlæknaþjónustu við ungt fólk að 20 ára aldri. Getur vel verið, að þetta verði miklu meira en þar er um rætt, þegar þetta kemur allt fram. Í annan stað liggur ekkert fyrir um það, hvenær þessi tannlæknaþjónusta á að taka gildi. Hins vegar liggur ljóst fyrir eftir frv., að það á að byrja að láta borga fyrir hana með lækkun vísitölunnar strax 1. marz. Mér finnst þess vegna, að það sé eiginlega verið að biðja um að skrifa upp á eitthvert blað, sem enginn veit í dag, hvað á að standa á. Af þeirri sök einni og þó ekki kæmi annað til, eins mikinn áhuga og ég hef á aukinni tannlæknaþjónustu, þá get ég ekki með neinum hætti fellt mig við þessi vinnubrögð.

Út af síðari gr., sem er kannske aðalatriði frv., þá get ég vel fallizt á, að það gæti verið réttlætismál, að hækkun á áfengi og tóbaki væri ekki inni í vísitölunni. En ætli það séu ekki ýmis fleiri atriði inni í grundvelli vísitölunnar, sem þyrfti þá líka að endurskoða? Mér finnst aðalatriði málsins það, að með þessu frv. sé ætlað með lögum að lækka vísitölu, sem er grundvöllur undir kjarasamningum, og ég er sannfærður um það, að verkalýðshreyfingin getur ekki fellt sig við slík vinnubrögð. Ég er líka sannfærður um það, þó að það hafi ekki verið rætt í þingflokki Alþfl., að Alþfl. geti ekki sætt sig við þau vinnubrögð.

Ég fagna þeirri hugmynd, sem liggur á bak við stóraukna tannlæknaþjónustu, en ég mótmæli þeirri aðferð, sem er notuð til að koma þessu máli í höfn.