20.02.1973
Sameinað þing: 46. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2004 í B-deild Alþingistíðinda. (1559)

Umræður utan dagskrár

Jón Árnason:

Herra forseti. Það má segja, að það sé ekkert óeðlilegt, þó að varið sé nokkrum tíma í umr. um þetta mál. Ég hygg, að allir Íslendingar séu sammála um það, að hér sé um annað mesta vandamál íslenzku þjóðarinnar að ræða, sem við er að glíma á þessum tíma, þegar allur stærri hluti togaraflotans er bundinn við bryggjur og hefur staðið í verkfalli í heilan mánuð. Það er hins vegar leitt til þess að vita, að þróunin í útgerð togaranna skuli hafa verið á undanförnum árum sú sem rann ber vitni. Áður fyrr var það svo, að togararnir gátu komizt af með lægra fiskverð en bátaflotinn. Nú hefur það snúizt við á síðari árum, og togarnir hafa ekki komizt af með það fiskverð, sem verðlagsráð hefur ákveðið hverju sinni, og hafa í síauknum mæli orðið að fá meira og meira framlag úr ríkissjóði og frá öðrum sjóðum. Það er upplýst, að á síðasta ári veitti ríkissjóður 45 millj. kr. beint framlag, úr aflatryggingasjóði voru veittar 36 millj. kr. eða um 2 millj. á hvern togara, og í þriðja lagi var um 14 millj. kr. fjárframlag að ræða, sem var sérstaklega vegna framleiðslu á karfaflökum. Hér er því um 95 millj. kr. að ræða, sem togaraflotinn hefur fengið í beinum framlögum á s. l. ári, og hygg ég, að þrátt fyrir það muni reikningar togaranna að loknu ári sýna, að það hafi verið sízt of mikið til þess að endar næðu saman.

Það má öllum vera augljóst mál, að þegar einhver atvinnurekstur er kominn í slíka aðstöðu sem togaraflotinn er í dag, þá er þeim, sem standa fyrir slíkum atvinnurekstri, mikill vandi á höndum, þegar þeir eru að gera áætlanir um rekstur sinn og semja við sína viðsemjendur. Og það er ekki óeðlilegt, þegar það liggur fyrir, að svo mikið vantar á hjá togaraflotanum, til þess að hann geti staðið við sínar skuldbindingar um kaup til sjómanna og annað, þá hiki þeir við að gera samninga, sem fara langt fram úr því, sem nokkur von er um, að tekjumöguleikar geti verið. Ég tel því, að það sé óhjákvæmilegt, að í sambandi við lausn þessa máls nú verði vinnubrögðin á þann hátt, sem fram kom að lokum í ræðu hæstv. sjútvrh., þar sem hann sagði í ræðu sinni, að hann teldi ekki óeðlilegt, að reynt væri að hnýta saman og gera sér grein fyrir því, hvað ríkissjóður mundi leggja fram, annars vegar, um leið og ákveðið er, að komið sé á móti sjómönnum í kjarasamningunum. Þetta held ég, að sé nauðsynlegt, því að við skulum ekki dvelja lengi við það, að það vanti bara, að útgerðarmenn setji fram kröfur sínar, til þess að málið sé leyst. Það er enginn vafi á, að í þeim umr., sem farið hafa fram á milli hæstv. sjútvrh. og útgerðarmanna togaraflotans, hafa þeir meira og minna rætt um möguleika á, hvers væri að vænta frá því opinbera um fjárhagsstuðning, en ekki sett dæmið þannig fram, að þetta yrðu þeir að fá til þess að geta samið við sjómennina. Og það er ekkert óeðlilegt.

Við skulum gera okkur grein fyrir, í hvaða aðstöðu togaraútgerðin er, þegar hún á að fara að semja um kjör fyrir atvinnureksturinn með fjármunum, sem hún hefur ekki yfir að ráða. Starfsgrundvöllurinn býður ekki upp á nauðsynlegar tekjur til þess að greiða það kaup, sem hann þarf að greiða sjómönnunum, svo að þeir sitji við sama borð og aðrir, sem stunda sjávarútveg hér á landi. Ég ætla ekki að líkja saman við það, sem á sér stað nú þessar vikurnar í sambandi við loðnuaflann, því að þær tekjur eru langt fram úr öllu því, sem við eigum að venjast og þekkjum til. Það má örugglega leita vítt um, ef slíkan samjöfnuð ætti að fá. En ef við byggjum á þeim aðalútgerðarrekstri og tekjumönnum, sem bæði bátarnir og togararnir hafa orðið að byggja afkomu sína á, þá eru það að sjálfsögðu þær aflaskýrslur og aflamöguleiki, sem liggur fyrir, hvað hægt sé að gera sér vonir um, að þessi skip geti aflað á ársgrundvelli.

Ég held, að til þess að hægt væri að beita réttum vinnubrögðum við lausn þessarar deilu, sé nauðsynlegt að hið opinbera hafi gert sér grein fyrir, hver rekstrargrundvöllur togaraflotans er. Það er fyrir fram vitað, að togaraflotinn bjargast ekki á fiskverðinu, því raunverulega fiskverði, sem er, og þess vegna er slíkt ástand komið hjá þessum þætti atvinnurekstrar í okkar landi, og það er ekki síður þess opinbera heldur en útgerðarmannanna að gera sér grein fyrir afkomumöguleikum og horfum þessa atvinnuvegar.

Ég tel, að um svipað leyti og ákveðið var að leggja út í kaup á nýju skuttogurunum hefði ekki verið óhyggilegt, að hið opinbera hefði jafnhliða reynt að gera sér einhverja grein fyrir afkomuhorfum og möguleikum þessa skipaflota, sem í vændum var, að kæmi til landsins, og það þótt ekki væri nema með hliðsjón af þeirri afkomu, sem togaraflotinn á við að búa í landinu. Nú má segja, að það sé hægt að gera sér betri vonir um afkomumöguleika nýju skipanna, vegna þess að þau séu miklu fullkomnari, og það sé hægt að gera ráð fyrir meiri afla hjá þeim en hinum eldri. Þar á móti kemur, að stofnkostnaður eldri togaranna er miklu minni og sá liður rekstrararins að sama skapi líka miklu minni, og eins og fram kom í dæmi hér áðan um einn skuttogarann, sem byrjaður er veiðar, þá er það augljóst mál, að þrátt fyrir mikil aflaverðmæti af mánaðartúr, sem skipið var í, vantaði mörg hundruð þús. kr., til þess að endar næðu saman og það útgerðarfyrirtæki geti staðið við greiðsluskuldbindingar sínar.

Það kann vel að vera, að það sé ekkert óeðlilegt, að þessir erfiðleikar steðji að okkar togaraútgerð. Við vitum vel, að bæði í Þýzkalandi og Bretlandi nýtur togaraútgerðin mikils fjárhagslegs stuðnings, og væri vonlaust fyrir nokkurn að halda slíkum rekstri úti, án þess að slíkt ætti sér stað. Þess vegna má segja, að það sé ekkert óeðlilegt, að eitthvað svipað þurfi að koma til hér hjá okkur. En samt sem áður hefur verið reynt að stefna að því sem mest, að útgerðin gæti staðið undir sér og verðlag á fiski og annað væri við það miðað, að endar næðu saman. Ég vil því að lokum segja það, að ég tel það vera ráðlegast og nauðsynlegt, til þess að nokkur árangur fáist um lausn þeirrar deilu, sem hér er um að ræða, að útgerðarmönnum skipanna verði gerð nokkur grein fyrir, hvers sé að vænta af opinberri hálfu til stuðnings, til þess að þeir geti gengið frá samningum við sjómennina, því að það segir sig sjálft, að atvinnurekandi, sem semur um kjör, sem hann er fyrir fram viss um, að hann getur ekki staðið við, og kemst í greiðsluþrot við viðsemjendur sína innan takmarkaðs tíma, er ekki að gera neinum greiða með slíkum samningum. Þess vegna er nauðsynlegt, að útgerðarmennirnir hafi nokkra hugmynd um, hvers þeir eiga að vænta, þegar þeir ganga frá samningum við sjómennina, og að þeir hafi þá von um að geta staðið við þá samninga, sem þeir gera.