05.03.1973
Efri deild: 65. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2259 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

183. mál, lögreglustjóri í Hafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar umr. um þetta mál var frestað hér fyrir helgina, en síðan hefur komið fram í ræðum hv. 3. þm. Austf. og hæstv. dómsmrh. ýmislegt af því, sem ég hafði annars ætlað mér að segja, og get ég því stytt mjög mál mitt.

Það, sem m. a. vakti fyrir mér, var að gera stuttlega grein fyrir athugun, sem fram fór í dómsmrn., meðan ég hafði afskipti af málum þar, á þessum vandkvæðum Austur-Skaftfellinga. Það voru aðallega tveir hv. þm., sem á þeim tíma ræddu við mig um þetta mál, það voru hv. 3. þm. Austf., Páll Þorsteinsson, og þáv. hv. þm. Jónas Pétursson. Hv. 3. þm. Austf. átti iðulega við mig viðræður í rn. um þessi vandkvæði Austur-Skaftfellinga vegna fjarlægðar sýsluyfirvaldsins.

Í rn. voru svo gerðar athuganir á hugsanlegum breytingum til aukinnar þjónustu vegna Austur-Skaftafellsýslu, og hefur verið rakið hér, hvaða atriði bar á góma. Það var fyrst og fremst, eins og hæstv. ráðh. vék að áðan, að löglærður fulltrúi á vegum sýslumannsembættisins hefði aðsetur á Höfn og ræki skrifstofu, að á Höfn yrði stofnað sérstakt lögreglustjóraembætti, eins og nú liggur hér fyrir frv. um að gert verði, að skipta sýslunni í tvö lögsagnarumdæmi, að veita Höfn sérstök kaupstaðarréttindi með bæjarfógeta á staðnum, að halda í meginatriðum áfram óbreyttu ástandi með þjónustu frá Vík, og svo að lokum að flytja embætti sýslumannsins frá Vík til Hafnar. Það er auðvitað um sumt af þessu að segja, að það hafi ekki verið tímabært að framkvæma það, og óvíst, hvort yfirleitt til mála kæmi.

Það voru gerðar lauslega kostnaðaráætlanir, ég sé ekki ástæðu til að rekja þær, vegna þess að þetta eru orðnar úreltar kostnaðaráætlanir, þar sem svo miklar breytingar hafa orðið síðan á kaupgjaldi og verðlagi, en miðað var við árið 1969.

Eins og hér hefur komið fram í umr., voru gerðar nokkrar ráðstafanir, og ég vil þakka hv. 3, þm. Austf. fyrir viðurkenningarorð hans um afskipti mín af þessum málum. Það voru gerðar ráðstafanir til nokkurrar fyrirgreiðslu með stofnun vísis að skrifstofu á Höfn, þar sem á tilteknum tíma væri vís aðgangur að ákveðnum aðila, manni, sem íbúar Hafnar gætu snúið sér til með erindi sín. Það kom fram hjá hæstv. ráðh., að það hafi sýnt sig fljótlega, að þetta hafi verið ófullnægjandi, og ég get sagt það eins og er, að þegar komi í ljós, að þetta mundi ekki vera nein frambúðarlausn og mundi alls ekki fullnægja öllum óskum íbúanna þarna fyrir austan.

Ég held, að öllum megi vera ljóst, hvaða erfiðleika það ástand skapar, hve langt er að sækja til sýslumannsins og sýsluskrifstofunnar. En ég býst við, að það, sem fram að þessu hafi haldið aftur af mönnum að gera róttækar ráðsafanir, sé einmitt það, sem hæstv. ráðh. einnig minntist á, við það er auðvitað aldrei æskilegt að þurfa að sníða þannig af embættum, ég tala nú ekki um, þegar um er að ræða mjög fámenn sýslufélög, eins og Skaftafellssýsla er, og svo er hitt líka hafandi í huga, að það má alltaf búast við, að það kalli á kröfur frá öðrum stöðum, sem telja sig hafa mikið óhagræði af fjarlægð frá sýsluyfirvaldi, þó hvergi sé um að ræða neinar sambærilegar fjarlægðir við það, sem er þarna fyrir austan í Skaftafellssýslunni.

Nú hefur þróunin gengið í þá átt, sem reyndar mátti sjá fyrir, að fólki fjölgar ört á Höfn og athafnalíf þróast þar og þenst út, og það er mat hæstv. ráðh., að nú verði ekki lengur beðið með að gera einhverjar róttækar ráðstafanir, og þess vegna er þetta frv. fram komið.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um málið. Ég vildi aðeins láta koma fram afskipti mín af málinu í dómsmrn. á sínum tíma. En ég vil aðeins ljúka máli mínu með því að segja, að það er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt, að það verði farið að snúa sér að einhverjum róttækum aðgerðum til úrbóta þarna, hvort sem það yrði með stofnun lögreglustjóraembættis eða á einhvern annan veg, ef mönnum sýndist svo betur fara.