22.03.1973
Neðri deild: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2734 í B-deild Alþingistíðinda. (2088)

183. mál, lögreglustjóri í Hafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Þetta mál hefur gengið í gegnum Ed., fékk þar skjóta og góða afgreiðslu og var þar afgreitt samhljóða og ágreiningslaust.

Ástæður til þess, að þetta frv. um lögreglustjóra í Hafnarhreppi í Austur-Skaftafellssýslu er flutt, eru þær, að síðustu ár hafa verið mjög vaxandi erfiðleikar á því fyrir íbúa Austur-Skaftafellssýslu og þá alveg sérstaklega fyrir hina ört vaxandi byggð og hið ört vaxandi athafnasvæði á Höfn í Hornafirði að hafa samband við sýslumann Skaftafellssýslu eða að sýslumaðurinn gæti veitt viðunandi þjónustu í þessum hluta umdæmis síns. Það stafar að sjálfsögðu ekki af því, að það hafi verið skortur á vilja hjá hlutaðeigandi sýslumanni til að inna þetta starf af hendi, síður en svo, heldur er það vegna þeirrar aðstöðu, sem þarna er fyrir hendi og ég þarf ekki hér að eyða orðum að, menn þekkja þær. Hafa á undanförnum árum verið gerðar fjöldamargar samþykktir á fundum í Hafnarhreppi og í rauninni í sýslunni allri um þetta mál, þar sem óskað hefur verið eftir því, að settur væri sérstakur lögreglustjóri á Höfn í Hornafirði.

Mér er ljóst, að frá almennu sjónarmiði verður sjálfsagt ekki talið æskilegt að fjölga umdæmum eða skipta umdæmum þeim, sem fyrir eru, þar sem slíkt mundi leiða til kostnaðarauka. Á það jafnvel við um fjölmennari umdæmi, hvað þá heldur þau fámennustu, eins og hér er nú um að ræða. En ég held, að það geti ekki verið nokkur ágreiningur um það, að í þessu tilfelli er um alveg sérstakar aðstæður að ræða, að þarna er fyrir hendi alger sérstaða. Þótt svo fari sem allir vona, að ekki verði langt undan, að langþráð vegasamband komist á milli Hafnar og Víkur, þar sem aðsetur sýslumannsins er, þá er það svo, að mér er tjáð, að það mundi væntanlega taka sýslumanninn u. þ. b. 5 tíma að komast á milli þessara staða eftir þeim vegi. En eins og er nú háttað, verður sýslumaðurinn fyrst, ef hann ætlar að fara austur til Hafnar að aka til Reykjavíkur og síðan að fljúga frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði.

Það hefur verið talað um að reyna með ýmsu móti að bæta úr þessu hálfgerða vandræðaástandi, sem þarna hefur verið af þessum sökum, t. d. með því, að sýslumaður hefði sérstakan umboðsmann til afgreiðslu, og mun það raunar hafa verið gert. En það mun viðurkennt, að það hafi ekki verið fullnægjandi og ekki svarað til hinna ört vaxandi þarfa Hafnarkauptúns.

Hafnarhreppur er nú, eins og kunnugt er, fjölmennasti hreppur á eystri hluta landsins. Þar var íbúatalan 1. des. s. l. um 1013 íbúar. Bendir allt til þess, að sú þróun og sú vaxandi starfsemi, sem þar hefur átt sér stað að undanförnu, muni halda áfram og íbúum þessa staðar muni fjölga mjög á næstunni.

Eins og ég vék að, hafa verið athugaðar ýmsar leiðir til úrbóta í þessu efni, og þá hefur borið á góma að skipta hreinlega Skaftafellssýslu í tvö umdæmi, þar sem austursýslan væri sérstakt lögsagnarumdæmi og sýslumaður sæti þá í Höfn, vestursýslan sérstakt umdæmi og sýslumaður sæti í Vík. En það, sem stendur í vegi fyrir þessu, er, að þá yrðu þessi umdæmi hvort um sig heldur fámenn, svo að menn hafa ekki viljað að svo stöddu a. m. k. fara þá leið. Það hefur verið talað um, að sýslumaðurinn í Vík hefði sérstakan fulltrúa búsettan á Höfn í Hornafirði, en á því hafa einnig verið taldir annmarkar.

Það er nú svo, að þótt mönnum sé ljóst og þótt menn játi, að hin forna umdæmaskipting í lögsagnarumdæmi sé í ýmsum tilfellum orðin úrelt, þá er hún mjög fastmótuð í hugum manna, og sannleikurinn er sá, að þegar á að fara að hreyfa eitthvað við henni, verða örðugleikar á því. En það er mál, sem ekki verður komizt hjá að taka til athugunar, og það mál er hinni svokölluðu réttarfarsnefnd eða dómstólanefnd m. a. ætlað að taka til athugunar, þ. e. umdæmaskiptinguna yfirleitt að því er dómsmál varðar. En það er augljóst mál, að álit þeirrar n. getur ekki legið svo fljótlega fyrir, að það leysi þá þörf, sem hér er fyrir hendi. Þess vegna hefur verið horfið að því ráði, sem gert er með þessu frv., að setja sérstakan lögreglustjóra fyrir Hafnarkauptún, takmarka lögsögu lögreglustjórans við Hafnarhrepp, en fela honum þar hin víðtækustu verkefni, þannig í reyndinni svarar hann til bæjarfógeta að þessu leyti, þótt ekki sé um kaupstað að tefla. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að valdsvið þessa lögreglustjóra sé talsvert víðtækara en valdsvið t. d. lögreglustjórans í Bolungarvík og þeirra annarra lögreglustjóra, sem um skeið voru settir hér á fót, en þau lögreglustjóraumdæmi eru nú öll orðin bæjarfógetaumdæmi og þeir bæjarfógetar, nema lögreglustjórinn í Bolungarvík. Eftir sem áður er gert ráð fyrir því, að sýslumaðurinn í Skaftafellssýslu sé jafnframt sýslumaður austurhluta sýslunnar, Austur-Skaftafellssýslu, og Hafnarhreppur aðeins undantekinn. En það er jafnframt haft í huga, að sýslumaðurinn í Vík geti falið lögreglustjóranum í Hafnarkauptúni að fara með ýmiss konar störf, og finnst mér ekki ólíklegt, að til þess geti orðið gripið í framkvæmd. Það er gert ráð fyrir því, að um þetta allt séu sett nánari ákvæði í reglugerð.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fara fleiri orðum um þetta frv., en að vísa að öðru leyti til grg, og vil leyfa mér að vænta þess, að það fái eins góða og hraða afgreiðslu í þessari hv. d. og það fékk í Ed.

Ég vil svo óska eftir því, að frv, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.