31.10.1972
Sameinað þing: 10. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

268. mál, eiturlyfjamál

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Fsp. 1 hljóðar svo: „Hve margir starfa við eiturlyfjamál á vegum lögreglunnar?“ Svar: Hjá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík starfa 3 menn með þennan málaflokk sem aðalstarf. Hjá öðrum embættum eru ekki starfandi lögreglumenn að þessu sem aðalstarfi.

2. fsp. er: „Hefur lögreglumönnum verið veitt fræðsla til að gera þeim kleift að þekkja áhrif eiturlyfja á fólk og rétt viðbrögð við fólki undir áhrifum þeirra? „Svar: Tveir starfsmenn lögreglustjóraembættisins í Reykjavík hafa sótt námskeið í Bandaríkjunum, þar sem þeim var m.a. veitt fræðsla á þessu sviði. Eftir heimkomuna héldu þeir fyrirlestra fyrir lögreglulið Reykjavíkur, þar sem m.a. var fjallað um áhrif fíkniefna á fólk og viðbrögð við fólki undir áhrifum þeirra.

Ég get bætt því við, að nýskipan þessara mála er í athugun.