30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2904 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

48. mál, fiskiðnskóli í Siglufirði

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu þessarar till. N. leggur einróma til á þskj. 333, að till. verði samþ. óbreytt, og hefur hún við að styðjast jákvæðar undirtektir undir till. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, Fjórðungssambandi Norðlendinga, Fiskifélagi Íslands og Fiskmati ríkisins. Hv. frsm. gat þess, að hann hefði ekkert á móti því, að till., sem hv. þm. Geir Gunnarsson flytur á þskj. 415, verði samþ. Mér finnst að þessi till. sé óþörf, því að vissulega getur það verið þáttur í undirbúningi undir þetta mál, að það verði kannað, hvort þörf er á slíkum skóla á Siglufirði eða grundvöllur undir stofnun hans. Ég geri ráð fyrir því, að þessi brtt. sé flutt vegna þess, að það hafi komið í ljós, að fiskiðnskóli efa fiskiðnskólar eru ekki mikið sóttir, og kemur það raunar undarlega fyrir sjónir.

Fiskiðnskólar hafa oft komið til umr. hér á Alþ., og um þá hafa verið fluttar till. og frv. og allir þm., sem um þá hafa rætt, hafa verið einhuga um það og sammála, að mikil þörf væri á stofnun slíkra skóla, enda verður að segjast, að það er næsta undarlegt, ef ekki er þörf fyrir slíka skóla, sem eiga að starfa að því að mennta fólk til þess að vinna að þeirri iðngrein, sem er einna mikilverðust í atvinnulífi okkar Íslendinga.

Eins og ég sagði, sé ég ekki þörf á því, að þessi brtt. verði samþ., vegna þess að það hlýtur að vera einn þáttur í undirbúningi undir málið, að það verði kannað, hvort þörf sé á slíkum skóla. En mér finnst, að það sé eðlilegt, að einn slíkur skóli yrði stofnaður a. m. k. í hverjum landsfjórðungi.