30.03.1973
Sameinað þing: 64. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2906 í B-deild Alþingistíðinda. (2297)

179. mál, sjónvarp á sveitabæi

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 8 öðrum þm. að bera fram þáltill. þá, sem hér er til umr. Hún gerir ráð fyrir, að ríkisstj. sé falið að hlutast til um, að Ríkisútvarpið komi upp endurvarpsstöðvum fyrir þá sveitabæi, sem nú njóta ónothæfra eða engra sjónvarpsskilyrða. Þá er gert ráð fyrir, að ríkisstj. afli sérstaks fjármagns í þessu skyni og stefnt verði að því að ljúka framkvæmdum innan tveggja ára.

Það er óþarft fyrir mig að fara hér orðum um mikilvægi sjónvarpsins og menningarlegt hlutverk þess í þjóðlífinu. Það er almennt viðurkennt. En það er ekki víst, að allir geri sér grein fyrir, að svo þýðingarmikið sem sjónvarpið er í þéttbýlinu, er þjónustuhlutverk þess hvergi mikilvægara en í strjálbýlinu. Þar sem fámenni og einangrun er mest, hefur sjónvarpið mestu hlutverki að gegna. Af þessu leiðir það að sjónvarpið er eitt hið þýðingarmesta tæki til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Hins vegar hefur það hinar alvarlegustu afleiðingar, ef sum byggðarlög eru afskipt sjónvarpinu. En það er einmitt þannig ástatt í dag í mesta strjálbýlinu. Af þessum ástæðum hefur tilkoma sjónvarpsins ekki orðið þessum byggðarlögum lyftistöng, heldur þvert á móti aukið á jafnvægisleysið milli þeirra og þéttbýlisins. Má ekki við svo búið standa, og það er tilgangurinn með þessum tillöguflutningi að bæta úr þessu ástandi.

Sjónvarpið nær nú til allra landsmanna, þó að sjónvarpsskilyrði séu misjafnlega góð, nema til um 470 sveitabæja. Landssíminn gerði í febrúar 1972 skýrslu og yfirlit um þessi mál og það viðfangsefni að búa þessum sveitabæjum sjónvarpsskilyrði. Þar kemur í ljós, að þessir 470 sveitabæir eru víðs vegar um landið og skiptast þannig milli kjördæma: 3 í Reykjaneskjördæmi, 39 í Vesturlandskjördæmi, 109 á Vestfjörðum, 113 í Norðurl. v., 52 í Norðurl. e., 73 á Austf. og 17 á Suðurlandi. Þetta er það viðfangsefni, sem við er að glíma.

Til þess að skapa þessum sveitabæjum sjónvarpsskilyrði þarf að reisa endurvarpsstöðvar. Í fyrrgreindri skýrslu Landssímans er gerð grein fyrir því, hvað mundi þurfa margar endurvarpsstöðvar til þess að koma þessum sveitabæjum í sjónvarpssamband. Það eru um 150 endurvarpsstöðvar. Stundum eru leyst vandamál nokkurra sveitabæja með einni endurvarpsstöð. Það eru enn fremur 60 sveitabæir, sem þurfa hver fyrir sig eina endurvarpsstöð. En þetta gefur ekki hugmynd um, hve kostnaðurinn er mikill við að koma einstökum sveitabæjum í sjónvarpssamband. Það þarf ekki að vera kostnaðarsamara, þó að það sé ekki nema einn sveitabær, sem kemur í gagnið fyrir eina sjónvarpsstöð. Landssíminn gerði ráð fyrir á þeim tíma, sem þessi skýrsla var gerð, að það mundi kosta um 150 millj. kr. að koma þessum sveitabæjum í sjónvarpssamband, eða að meðaltali mundi sjónvarpsstöðin kosta um 1 millj. Þetta er ekki nákvæm áætlun, en hún er nægilega nákvæm til þess að gefa nokkra hugmynd og raunhæfa hugmynd um umtak þess verkefnis sem hér er um að ræða. Af þessu er ljóst, að hér þarf þó nokkurt fjármagn til. Það vill þannig til, að eins og nú er málum háttað hefur Ríkisútvarpið ekki bolmagn til að sinna þessum verkefnum.

Samkvæmt lögum eru sjónvarpinu fengnar tolltekjur af innfluttum sjónvarpstækjum til þess að standa undir stofnkostnaði dreifikerfis sjónvarpsins. Á fjárlögum fyrir árið 1973 eða á þessu ári er áætlað, að tekjur sjónvarpsins af þessum tekjustofni nemi um 20 millj. kr. En þess má geta, að á þessu eina ári þarf sjónvarpið að greiða 35–40 millj. kr. í afborganir og vexti af skuldum, sem stofnað hefur verið til vegna dreifikerfis sjónvarpsins. En þessar skuldir nema nú að eftirstöðvum um 100 millj. kr. Af þessu er augljóst, að núverandi tekjustofn kemur ekki að haldi við að sjónvarpsvæða þá sveitabæi, sem enn liggja óbættir hjá garði. Ríkisútvarpið hefur ekki heldur aðra sjóði til að grípa til í þessu skyni. Þannig er nú séð fyrir þörfum þessarar menningarstofnunar þjóðarinnar. Það er skemmst að minnast meðferðar á Ríkisútvarpinu við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1973. Sú afgreiðsla þýddi um 110 millj. kr. rekstrarhalla Ríkisútvarpsins á þessu ári, auk þess sem stofnunin situr uppi með 20 millj. kr. rekstrarhalla frá árinu 1972, og í þessum tölum er ekki reiknað með kostnaðarauka við reksturinn vegna gengislækkunarinnar í síðasta mánuði. En þess er skylt að geta og raunar nauðsynlegt, að nú fyrr í þessum mánuði hafa afnotagjöld útvarpsins, bæði hljóðvarps og sjónvarps, verið hækkuð nokkuð. Fyrir þessar aðgerðir er nokkuð bætt úr því, sem skeði við afgreiðslu síðustu fjárlaga. En það er ekki meira bætt úr því ástandi, sem ég hef lýst, en svo, að þrátt fyrir þessa hækkun afnotagjalda verður ekki hægt að halda uppi dagskrárgerð eins veigamikilli og hefur verið gert að undanförnu. Og þessi hækkun kemur þar af leiðandi ekki að neinu gagni við framkvæmdir Ríkisútvarpsins á öðrum sviðum. Það er heldur enginn leið í þessu efni að mínu viti að ætla Ríkisútvarpinu að taka lán til þeirra framkvæmda, sem hér um ræðir. Raunar er hér svo háttað, að það verður ekki komið við neinum venjulegum arðsemisjónarmiðum. Ef gengið er út frá áætlun þeirri, sem ég greindi frá áðan, má gera ráð fyrir, að það kosti a. m. k. 320 þús. kr. að meðaltali að koma sjónvarpinu á hvern bæ. Tekjur sjónvarpsins af hverjum bæ nema um 10 þús. kr. í tolltekjur af einu sjónvarpstæki, og afnotagjaldið er nú eftir hækkunina 3900 kr. Af þessum tekjum verður ekki staðið undir stofnkostnaði við að koma þeim bæjum í sjónvarpssamband, sem njóta þess ekki nú. Af þessum tekjum þarf auk þess að standa undir rekstrarkostnaði endurvarpsstöðvanna, sem til þessa þurfa, og hafa verið í huga, að tæki þessara stöðva verður að afskrifa á 10 árum.

Það er augljóst af þessu, að ef á ekki að vera algjörlega tilgangslaust að ræða um þörfina á því að koma því fólki í sjónvarpssamband, sem nýtur þess ekki nú, þá verður að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til þess að leysa þetta mál. Það verður að afla sérstaks fjármagns í þessu skyni. Það má segja, að það sé ekki eðlilegt, að slíkt viðfangsefni sem þetta sé í raun borið uppi af venjulegum tekjustofni sjónvarpsins vegna þess, sem ég sagði áðan. Það verður ekki komið við neinum arðsemisjónarmiðum í þessu efni, en hins vegar er ótvírætt, að hér er um mjög þýðingarmikla aðgerð að ræða til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það er á þeim grundvelli, sem við flm. þessarar till. tökum þetta mál upp. Með því að málið er þessa eðlis, er eðlilegt og sjálfsagt, að það sé veitt óafturkræft framlag til þess að standa undir þessum framkvæmdum. Ég vil enn fremur til frekari áherzlu á það, að ekki má ætla sjónvarpinu sjálfu það verkefni að ráða fram úr þessu vandamáli, benda á það, að fram undan eru stórkostleg verkefni, sem Ríkisútvarpið verður að sinna á næstunni. Og áreiðanlega hefði þurft að vera byrjað á þeim verkefnum. en það strandar á fjármagni. Ég á hér við hvað varðar sjónvarpið sjálft, að það er talið nauðsynlegt af hálfu sérfræðinga að skipta um sjálft dreifikerfið, það er hvorki meira né minna. Dreifikerfi sjónvarpsins, eins og það er byggt upp í upphafi og er í dag, er svokallað endurvarpskerfi, þ. e. a. s. að sending myndarinnar fer frá einni stöð til annarrar og myndin tapar skýrleika við hverja stöð, sem hún fer í gegnum, svo að þá kemur, eins og við köllum í daglegu tali, snjór á myndina. Hjá okkur er þetta kerfi þannig, að þar sem myndin þarf að berast lengst til fjarlægra staða í dreifbýlinu verður hún að fara í gegnum 6 endurvarpsstöðvar. Það er talið algjörlega óviðunandi. Sú regla er viðurkennd af sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva, að ef þetta kerfi er notað, þá megi myndin ekki fara í gegnum nema 2 st. Af þessu sést, hvernig ástand þessara mála er víða um landið. Það er ekki heldur að ósekju. að það skuli vera kvartað undan sjónvarpsskilyrðum á ýmsum stöðum. Þetta kerfi þarf að leggja niður á milli Reykjavíkur og aðalstöðvanna úti á landi og taka upp svokallað örbylgjukerfi. örbylgjukerfi er víðast hvar eða sennilega alls staðar notað í heiminum í þessu skyni nema hér hjá okkur. Ég ætla ekki að skýra þetta verkefni nánar, en ég vænti þess, að menn sjái af því, sem ég hef þegar sagt, að hér er um brýnt og veigamikið verkefni að ræða, og verður að gera ráðstafanir til að bæta hér úr. Það væri ekki rétt, ef tekjustofnar væru fyrir hendi hjá sjónvarpinu, að veita því fjármagni til sjónvarpsvæðingar sveitabæjanna, heldur hlýtur það að eiga að koma til framkvæmda sem þessara, sem eru undirstaða í sjónvarpskerfinu. Þetta eru ein rökin fyrir því, að við verðum að afla sérstaks fjármagns til þess að sjónvarpsvæða þá sveitabæi, sem ekki njóta þeirrar aðstöðu nú.

Ég vil varðandi sjónvarpið benda á annað þýðingarmikið verkefni, sem bíður. Það er að bæta sjónvarpsskilyrðin umhverfis landið á fiskimiðunum. Þegar dreifingarkerfinu var komið upp, var það miðað við fólkið í landi, en ekki við fiskimiðin. Hins vegar er það svo, að sjónvarp sézt sums staðar á fiskimiðunum, sums staðar þannig, að lýtalaust er, annars staðar þannig, að það er óviðunandi, og á stórum svæðum eru engin not af sjónvarpinu á fiskimiðunum umhverfis landið. Hér er enn fremur mikið verkefni, sem þarf að leysa. Það kostar ekki eins mikið og hið fyrra verkefni.

En ég legg áherzlu á það, að við flm. þessarar þáltill. á þskj. 323 viljum á engan hátt verða til þess, að Ríkisútvarpið eða sjónvarpið hafi minni möguleika til þess að sinna þessum mikilvægu verkefnum, þótt tekizt sé á við það verkefni að sjónvarpsvæða sveitabæina. Þess vegna leggjum við áherzlu á, að það sé veitt sérstakt fjármagn í því skyni.

Ég hef hér aðeins minnzt á tvö verkefni sjónvarpsins, sem bíða úrlausnar. Það mætti telja fleira varðandi sjónvarpið. Af því að við erum að tala um Ríkisútvarpið, þá má ekki í þessu sambandi gleyma hljóðvarpinu og ástandi dreifikerfisins þar. Enn í dag, eftir meira en 40 ár, er ástandið þannig, að hljóðvarpið heyrist ekki þannig að hlustendur hafi eðlileg not af því, í fjölmörgum byggðarlögum í landinu. Það þarf að koma upp nýju dreifikerfi hljóðvarps, og það kostar mikil fjárútlát.

Herra forseti. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta sjálfsagða mál, sem við flm. þessarar þáltill. flytjum hér. Ég vænti þess, að þm. geti orðið sammála um, að það sé ekki neitt réttlæti í því, að það skuli vera viss hópur landsmanna, sem getur ekki séð sjónvarpið á heimilum sínum, meðan meginhluti þjóðarinnar getur gert það. Ég vænti þess, að þm. sjái, að það er tómt mál að vera að tala um jafnvægi í byggð landsins, ef menn sinna ekki þessu mikilvæga hlutverki. Og ég vænti þess, að menn sjái, að þetta verkefni sé þess vert, að það sé útvegað sérstakt fjármagn til þess að hrinda því í framkvæmd, svo að það verði ekki á nokkurn hátt til þess að draga úr þeirri viðleitni, sem Ríkisútvarpið þarf að hafa á næstu árum til þess að auka almennar framkvæmdir sínar vegna dreifikerfisins í landinu.