16.04.1973
Neðri deild: 93. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3674 í B-deild Alþingistíðinda. (3284)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Jón Snorri Þorleifason:

Herra forseti. Ég vil alveg sérstaklega þakka hv. þm. Bjarna Guðnasyni fyrir þessa síðustu ræðu, því að hún sannaði einmitt hringsnúninginn, sem ég var að tala um áðan. Í sinni síðustu ræðu segir hann einmitt, að kjarni þessa máls sé ekki það, sem ég hafi sagt áðan, það var um stjórn sjóðsins, heldur að það yrði að fækka sjóðum. Um það var ég ekkert að deila við hann áðan, heldur hélt ég því fram, að ágreiningurinn væri um, hverjir ættu að stjórna þessum sjóði, og deildi á afstöðu hans til þess vegna sumra hans fyrri ræðna, þar sem hann var að tala um nauðsyn þess, að aðilar vinnumarkaðarins ættu hlut að máli, þegar um væri að ræða slíka sjóði, sem að einhverju leyti kæmu við þeirra mál. Nú leyfir þessi hv. þm. sér að koma hér upp í pontuna og segja, að stjórn sjóðsins sé ekkert aðalatriði, það sé að fækka sjóðunum. Með leyfi að spyrja, hefur þessi hv. þm. ekki lesið það nál., sem hann skrifar undir? Mig langar, með leyfi forseta, að lesa bara fyrstu línurnar í nál., sem hann skrifar undir, en þar segir svo:

N. hefur rætt þetta frv. á tveim fundum sínum. Hún er efnislega sammála um að mæla með frv. að öðru leyti en því, að hún gat ekki orðið sammála um 3. gr. frv., sem fjallar um stjórn iðnrekstrarsjóðsins“.

Hv. þm. kemur hér í pontuna og segir: Stjórnin er ekkert aðalatriði, heldur að fækka sjóðum. En hann er nýbúinn að skrifa undir álit, sem er á borðum allra þm., um það, að hann sé sammála því að fjölga sjóðunum, það sé stjórnin, sem hann sé ekki sammála um. (BGuðn: Þetta er alrangt. Það stendur í brtt.: Stjórn iðnlánasjóðs fer með stjórn sjóðsins, sem skal vera sérstök deild í iðnlánasjóði.) Ég vil biðja hv. þm. að byrja á því að lesa sitt eigið nál. Þetta er orðrétt lesið upp úr því, sem ég var að segja áðan, enda leggur hv. þm. alls ekki til í nál. að fækka sjóðunum. Deilan er bara um stjórnina. Deilan stendur um það, hvort verkalýðshreyfingin og samvinnuhreyfingin eigi að fá fulltrúa í stjórn þessa sjóðs eða hvort eigi að fylgja þeirri gömlu reglu, sem er 50 ár á eftir tímanum nærri því, að það séu ekki til nema tvö samtök í iðnaðinum, þ.e.a.s. Landssamband iðnaðarmanna og Félag ísl. iðnrekenda. (BGuðn: Af hverju gerir ráðh. þá ekki brtt. um þetta?) Mér finnst, að hv. þm. ætti nú að spyrja sinn fyrrv. samflokksráðh. að því, ég svara ekki fyrir þá. Hins vegar gæti ég ýmsu svarað þm. fyrir hönd verkalýðshreyfingarinnar. M. a. gæti ég frætt hann um það, að það mundi enginn fulltrúi, hvorki óbreyttur né í forsvari í verkalýðshreyfingunni, leyfa sér þann málflutning, sem hv. þm. leyfir sér hér, eftir að vera búinn að leggja á borðið fyrir okkur nál. um allt annað en hann heldur fram hér í pontunni.

Frekar ætla ég ekki að deila við manninn um þetta mál. En vegna þess að ég hef áður sagt, að hér sé stigið réttlætisspor, þegar samvinnuhreyfingunni og verkalýðshreyfingunni er gefinn kostur á að eiga hér aðild að máli, sem bæði þessi samtök réttlætisins vegna eiga heimtingu á, styð ég það og geri allt, sem ég get, til að fella brtt. hv. þm.