17.04.1973
Neðri deild: 96. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3721 í B-deild Alþingistíðinda. (3351)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef leyft mér af flytja litla brtt. við þetta mikla mál, frv. til l. um stofnlánadeild landbúnaðarins. Mín till. varðar einn þátt í fjáröfluninni til stofnlánadeildar. Hún fjallar um það aðallega, að gjald á útsöluverð mjólkur og rjóma og heildsöluverð annarra landbúnaðarvara, sem nemur 1%, verði fellt niður. Varatill. mín fjallar um það, að hækkunin, sem núv. ríkisstj. leggur til að gerð verði á þessu gjaldi, þ.e.a.s. hækkunin um 25%, verði felld niður.

Ástæðan til þess, að ég flyt þessa brtt., er í fyrsta lagi sú, að mér þykir það engan veginn óumdeilanleg fjáröflunarleið til stofnlánadeildar eða fjárfestingarsjóðs eins atvinnuvegar, að gjald sé lagt á útsöluverð vara frá þessum atvinnuvegi, vara, sem seldar eru hér innanlands. Þannig verða neytendur látnir bera kostnað af hinum margvíslegustu framkvæmdum, sem hægt er að segja að standi í sambandi við þennan grundvallaratvinnuveg. Þessi aðferð er ekki tíðkuð í öðrum fjárfestingarlánasjóðum. Þó var það svo, að þegar lögin um stofnlánadeild landbúnaðarins voru sett á Alþ. 1961, þá var þessi aðferð samþ., og þetta var látið gott heita af meiri hl. Alþ., sem þá var, enda stóð þá svo á, að mjólk og mjólkurvörur voru tiltölulega ódýrar. Sú var raunar tíðin þá, að hv. 2. þm. Sunnl., núv. sessunautur minn hér í d., Ágúst Þorvaldsson, flutti brtt. um, að þetta gjald yrði fellt niður, rétt eins og ég er að gera nú. Hann flutti m.a. till. um, að 1 % gjald bænda væri líka fellt niður og að samsvarandi upphæðir yrðu fremur teknar af almannafé. Ég leyfi mér því að vænta stuðnings hans við þessa till. svo og annarra flokksbræðra hans, sem sama sinnis voru.

Það er enn þá minni ástæða til þess nú í dag, að þetta gjald sé látið halda sér, þegar þannig stendur á, að nú nýverið hafa landbúnaðarvörur og sérstaklega mjólkin hækkað svo mjög í verði, að einsdæmi er. Hæstv. núv. ríkisstj. hefur því miður sýnt neytendum í landinu alveg einstakt tillitsleysi, þegar hún, um leið og almennar verðhækkanir urðu í landinu, sem allir vissu um að hlutu að koma 1. marz, stórminnkaði niðurgreiðslur á landbúnaðarvörur, þannig að mjólk hækkaði í verði um 44%. Það þarf engan að undra, að húsmóður á við skulum segja 5 manna heimili, sem kemur í mjólkurbúðina og kaupir sinn venjulega skammt þar, sem hún þurfti að borga 370 kr. fyrir í gær og þarf að borga 500 kr. fyrir í dag, verði á að mótmæla því, sem verið er að gera. Og konan við hliðina á henni, sem er kannske að kaupa mjólk til tveggja daga, borgaði fyrir það í gær um það bil 290 kr. og þarf að borga fyrir það í dag 440 kr. Það, sem gerðist, verður að segjast eins og er. er fyllsta tillitsleysi gagnvart neytendum í landinu. Slíkt og þvílíkt létu menn sér ekki detta í hug að gera, nema þeir byggjust við, að það fólk, sem slíkar hækkanir bitna á, væri vant því að taka því þegjandi, sem að því væri rétt. Og það voru þessar aðferðir, sem húsmæður í Reykjavik og víðar voru fyrst og fremst að mótmæla nú nýverið, er þær ályktuðu gegn hinum tíðu og miklu verðhækkunum í landinu. Það var fyrst og fremst verið að mótmæla þeim aðferðum og því tillitsleysi, sem neytendum í landinu er sýnt.

Nú þegar til umr. eru hér þessi mál, sem varða einmitt verð á þessum vörur, legg ég til, að nú noti hæstv. ríkisstj. tækifærið og geri þarna bragarbót og felli niður þetta gjald, sem frv. ríkisstj. gerir ráð fyrir að lagt sé á útsöluverð mjólkur og rjóma og heildsöluverð annarra landbúnaðarvara, þannig að verð þessara vara megi nú aftur nokkuð lækka. Það liggur í augum uppi, að það er ekki aðeins, að verðið muni hækka, vegna þessa frv., sem hér liggur fyrir. ef það verður samþykkt.

Þá má sérstaklega benda á það, að vitanlega er þetta ákaflega þægilegur gjaldstofn að hafa, þegar svo stendur á, að gjaldið er lagt á útsöluverðið, sem nú nýverið hefur hækkað, og þess vegna er engu um það að treysta fyrir fólk, hvað eiginlega muni koma út úr þessu gjaldi, þegar litið er til þess, hversu hringlað hefur verið til og frá með niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum nú í vetur. Það veit enginn mjög lengi, hvaða verð á að vera á þessum vörum, þegar niðurgreiðslur geta skyndilega orðið lækkaðar eða jafnvel felldar niður, um leið og aðrar verðhækkanir verða á vörunni. Menn hafa oft sagt: Hækkaði ekki kaup almennt í landinu? Var þá ekki sjálfsagt, að fólk greiddi hærra verð fyrir þessar vörur eins og ýmsar aðrar? Jú, e.t.v., en ekki svona miklu hærra. Þar við bætist, að sú kauphækkun, sem almenningur fékk, kom ekki í hendur alls þorra fólks fyrr en í lok marzmánaðar, en hækkunin á mjólkurafurðunum varð í byrjun marzmánaðar. Það var því víða erfitt að láta enda ná saman þennan mánuð, þegar verðið var svo mjög á undan kauphækkuninni.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að leiða fleiri rök að því, að sú álagning sem þetta frv. felur í sér, sé ekki eðlileg í þessum tilgangi. Ég get ekki séð samhengið í því, að við þurfum að greiða hærra verð fyrir mjólk vegna þess, að það þurfi að reisa loðdýraræktarbú, gróðurhús eða klakstöð, viðgerðarverkstæði fyrir jeppa o.fl., sem ekki á neitt skylt við mjólkurverð annað en það, að allar þessar framkvæmdir eru úti í sveitum og mjólkin er í flestum tilvikum framleidd í sveitum. Þess vegna finnst mér þetta ekki vera eðlilegur gjaldstofn, það verður að segjast eins og er, þótt ég hafi vafalaust eins og fleiri stjórnarþingmenn 1961 látið þetta gott heita. En ég endurtek, að þá stóð ekki svona einstaklega illa á með mjólkurverð eins og nú, og stingur sérstaklega í augun, þegar sérstakt álag kemur á útsöluverð mjólkur, sem nú nýverið hefur stórhækkað öllum neytendum að óvörum. Ef hv. þm. geta ekki fellt sig við þá tilhögun að fella þetta gjald algerlega niður, leyfi ég mér þó að vænta þess, að þeir sýni neytendum í landinu þá tillitssemi að hækka álagið ekki frá því sem nú er, og samþykki varatill. mína ef aðaltill. nær ekki fram að ganga.