13.11.1972
Neðri deild: 12. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

36. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. komst þannig að orði, að þó að eitthvað megi finna að málum hér í sambandi við mjólkurdreifinguna, þá kastar alveg tólfunum, þegar út á landsbyggðina er komið. Síðan kaus hann að ræða sérstaklega um Ólafsfjörð, og mætti ætla af máli hans, að þar væri eitthvert ófremdarástand í þessum efnum. Ég kemst ekki hjá vegna þessara ummæla að skýra þetta mál hér á hv. Alþ., því að miðað við það, sem hann sagði um þetta, þó að það væru raunar fullyrðingar einar, þá gætu hv. alþm. ætlað, að þarna í Ólafsfirði væri eitthvað mjög einkennilegt mál á ferðinni.

Ég verð að byrja á því, að fyrir 1959 fluttu bændurnir mjólkina til Ólafsfjarðar, til kaupfélagsins, og þar var mælt upp úr brúsunum, því að þar var engin vinnsla á mjólk. Það voru miklar umr. um það og sérstaklega af hálfu heilbrigðisyfirvalda, að þetta gæti ekki gengið. Þá tóku bændurnir sig saman og sömdu við kaupfélagið að gerilsneyða mjólk og búa til smjör úr afganginum, af einhver væri. Það þótti sýnt, að ef þetta væri ekki gert, þá væri öll sveitabyggð í Ólafsfirði í hættu, því að ef heilbrigðisyfirvöld í Ólafsfirði gripu til þess, sem þau voru búin að láta í skína, að banna að selja mjólkina, og þá hefði hún verið flutt frá Akureyri, þá var sýnilegt, að þessir fáu bændur, sem þá munu hafa verið 16–17 að tölu, gætu ekki flutt mjólkina til Akureyrar, enda oft og tíðum ekki bægt öðruvísi en á bát frá Ólafsfirði. Þetta var svo gert, þó að t.d. kunnugir menn teldu, að það væri óhugsandi, að þessi rekstur gæti borið sig, og t.d. maður eins og Jónas Kristjánsson samlagsatjóri, sem ég ræddi um þetta við á þeim tíma, taldi, að það væri mjög djarft og raunar ekki hugsanlegt, að þessi rekstur gæti borið sig. Kaupfélagið sem sagt fór að taka á móti mjólkinni, og hún var gerilsneydd. Úr afganginum, sem ekki seldist til neyzlu, var búið til smjör og skyr, önnur framl. gat ekki farið þarna fram, enda mjólkurmagnið mjög lítið. En hvað hefur gerzt á þessum árum? Mjólkursamlagið hefur sérstjórn, og það eru framleiðendurnir þarna, sem eru í stjórn samlagsins og semja þannig við kaupfélagið. Það er aðeins eitt ár, sem hefur ekki náðst grundvallarverð, og oft hefur það verið töluvert hærra en grundvallarverðið, sem bændurnir hafa fengið borgað. En þegar þessi starfsemi var komin þarna og kaupmenn búnir að setja verzlun á stofn þarna, þá fóru þeir að reyna að fá mjólkina. Og þeir fengu þarna mjólk til þess að selja, en þeir urðu þá að selja hana á sama verði, og það gengur þannig enn í dag. Þeir kaupa þarna mjólk, og þeir selja hana. Það er ekki eins og á Seyðisfirði. Þeir fá þarna mjólk og selja hana sínum viðskiptavinum. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að hrista höfuðið, ég er búinn að kanna málið. Í okt. fengu þeir þarna um 1300 lítra af mjólk, sem eru um 6% af því magni, sem selt er í bæinn. Það er ekki nokkur vafi á því, að ef það fyrirkomulag hefði verið, að hinn aðilinn hefði fengið mjólkina líka beint til sölu, þá hefðu bændurnir ekki fengið það verð, sem þeir hafa fengið á undanförnum árum. Og ég vil taka það fram, að ég hafði samband við þann, sem hefur verið formaður samlagsstjórnarinnar. Hann segir, að það hafi aldrei komið til sín kvörtun frá neytanda á Ólafsfirði. Ég spurði kaupfélagsstjórann að þessu líka, og hann sagði, að það hefði ekki komið kvörtun til sín frá neytendum, aðeins frá kaupmanninum.

Mér skildist það á síðasta ræðumanni, Sverri Hermannssyni, að ég hefði tekið munninn dálítið fullan, þegar ég var að tala um forréttindi kaupmannanna. Við hvað átti ég í þessu sambandi? Ég átti líka við Ólafsfjörð. Þessir kaupmenn þarna á Ólafsfirði hafa t.d. afgreiðslu fyrir skipafélögin. Þó að kaupfélagið komi með sína bíla og sína menn til þess að skipa upp, þá verður að borga stórar fúlgur til þessara kaupmanna fyrir það, sem þeir kalla „fyrir uppskipun“. Ég man ekki, hvaða ár það var, hvort það var 1967 eða 1968, sem voru flutt um 26 tonn af áburði, og skipið kom á laugardaginn fyrir páska norður. Kaupfélagsstjórinn var spurður að því, hvort hann gæti ekki komið með mannskap til þess að skipa upp þessum áburði. Hinn aðilinn kom ekki nálægt þessu. Og reikningurinn, sem þeir máttu borga þessum kaupmönnum, var upp á 5 000 kr. Eru þetta forréttindi, eða eru þetta ekki forréttindi? Ég spyr þessa hv. þm.

Menn verða náttúrlega að gera það upp við sig í þessum málum: Er verið að hugsa um þá mörgu, sem hafa hagsmuni, eða á að hugsa um hagsmuni kaupmanna í þessu máli? Á Ólafsfirði eru það fyrst og fremst hagsmunir bændanna og neytendanna. Ég spyr hv. þm., — ég sá, að hann var að biðja um orðið, telur hann, að það séu hagsmunir þeirra á Ólafsfirði, ef sveitabúskapur í Ólafsfirði er lagður niður? Það, sem ég hef sagt um þessi mál, sýnir raunar, að þrátt fyrir þá erfiðu aðstöðu, þrátt fyrir það, að nú í dag eru ekki nema um 11 framleiðendur í Ólafsfirði, þá skilar þetta litla samlag bændunum meira en grundvallarverði fyrir mjólkina. Þeir hafa aldrei fengið eyri úr verðjöfnunarsjóði.

Ég var að kaupa mjólk á föstudaginn í þeirri verzlun, sem ég skipti við. Þessi verzlun er ekki við hliðina á kaupmannsbúð, heldur á KRON-búð, stórrí sjálfsafgreiðslubúð. Og ég spurði þarna nokkrar konur að því, hvort það mundi ekki vera þægilegra fyrir þær að fá mjólkina líka í KRON-búðinni heldur en í endabúðinni, þar sem ég var þá inni að taka mjólkina. Þær sögðust vera búnar að vera í rúman hálftíma við borðið í þeirri búð, þar sem kassarnir eru, og sú, sem ég talaði aðallega við, sagðist þurfa að fara fleiri en eina ferð, hún gæti ekki farið með allt saman, sem hún keypti fyrir helgina, í einni ferð, og hún taldi, að það væri stórt spor aftur á bak, ef ætti að loka þessari búð, sem var þarna í sama húsi, var bæði mjólkur- og brauðbúð, vegna þess að þá mundi álagið á hinni búðinni verða langtum meira, svo að biðtíminn eða ösin yrði svo mikil, að þetta yrði allt saman erfiðara en þó væri hér í dag. Það eru því ýmis sjónarmið í þessum málum. Og ég er hræddur um, að ef ætti að fara að spyrja neytendurna, kæmi ýmislegt upp, sem hv. flm. hafa gengið fram hjá í þessum umr.