27.11.1972
Neðri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

88. mál, almannatryggingar

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Á þskj. 101 höfum við nokkrir þm. Sjálfstfl. leyft okkur að flytja frv. um breyt, á l. um almannatryggingar. Í frv. felast till. um tvær óskyldar breytingar á þessum lögum, og hvorug þeirra fjallar í rauninni um breytingu á núgildandi upphæðum bóta tryggingalaganna. Það þýðir ekki það, að við teljum ekki, að ástæða hefði verið til endurskoðunar á þeim, en hins vegar eru þessi lög, eins og kunnugt er, í endurskoðun nú sem stendur, og búumst við fastlega við, að upphæðir bóta komi þar til endurskoðunar, og látum því við það sitja að bera fram till. um breytingar á vissum fyrirkomulagsatriðum, sem við teljum nauðsynlegt réttlætismál, að nái fram að ganga.

Fyrri breytingin, sem við leggjum til, að gerð verði, varðar mæðralaun. Eins og kunnugt er, eru þau nú greidd til 16 ára aldurs barna, en við leggjum til, að greiðslur mæðralauna nái til 17 ára aldurs. Það er í samræmi við þá breytingu, sem gerð var á því aldurshámarki, að því er varðar greiðslur barnalífeyris og meðlaga, í fyrra og hittiðfyrra. Eðlilegra þykir okkur, að sama aldursmark gildi um allar greiðslur vegna barna einstæðra mæðra.

Það þarf ekki að leiða sérstök rök að þessari till. okkar, þau hafa þegar verið fram borin í sambandi við breytingar, sem eru nú í lögum. Það er einfaldlega sá kostnaðarauki, sem verður af framfærslu unglinga, með hverju ári sem líður, og öllum er kunnugt, að hann er ekki minni á aldrinum 16–17 ára en fram til 16 ára aldurs. Sífellt fleiri unglingar sækja skóla á þessum aldri og eiga því erfiðara um vik að sjá um framfærslu sína sjálfir.

Við höfum birt í fskj. ýmsar talnaupplýsingar um mæðralaun. Þessar áætlanir eru gerðar af Kristjáni Sturlaugssyni tryggingafræðingi hjá Tryggingastofnun ríkisins. Tekið er fram, að hér sé um nokkuð lauslega áætlun að ræða, þar eð nákvæmir útreikningar í þessu efni geta verið mjög flóknir, vegna þess að ekki er til skipting barna í aldursflokka í þeim hópum, sem hér um ræðir. Hins vegar held ég, að tryggingafræðingurinn hafi farið nokkuð nærri lagi í áætlun sinni. Ég vil geta þess, að heildargreiðslur Tryggingastofnunarinnar árið 1971 vegna mæðralauna námu samtals 74 863 276.00 kr., en áætlaður kostnaður af þeirri breytingu, sem við leggjum til að gerð verði, er um 9.2 millj., svo að segja má, að stærri stökk hafi stundum verið tekin í breytingu þessara laga, án þess að menn létu sér mikið bregða, og vona ég, að mönnum sé ljóst, hvílíkt réttlætis- og hagsmunamál þetta er fyrir einstæða foreldra, þá, sem hafa fleiri en eitt barn á framfæri. Okkur er ljóst, að mæðralaunagreiðsla með einu barni er mjög lág og raunar allt of lág, en stökkið upp í mæðralaunaupphæðina með tveimur börnum er einkum mikið og enn stærra upp í mæðral. upph. með þremur börnum. Nú er upphæð mæðralauna þannig, að með einu barni eru greiddar 636 kr., — ég bið velvirðingar á því, að ég fer með þessar tölur eftir minni, en ég held, að ekki skeiki þá nema kannske 3–4 kr., — 636 kr. með einu barni, um 13450 með tveimur börnum og 6899 kr. með þremur börnum. Menn sjá, að þarna munar mjög miklu. Ef elzta barnið í þriggja barna hópi verður 16 ára, lækkar greiðslan, sem fæst í mæðralaunum frá Tryggingastofnun ríkisins, um helming. Að auki koma svo vitanlega greiðslur, sem nema barnalífeyri, meðlögum og fjölskyldubótum með þessum börnum, sem þarna er um að ræða.

Það er ljóst, að þetta mál liggur tiltölulega einfaldlega fyrir. Má í stuttu máli segja, að þessi breyting sé einungis til samræmis við þær breytingar, sem þegar hafa verið gerðar á aldursmarki varðandi greiðslur til barna einstæðra foreldra. Ég sé mér til gleði, að í almannatryggingalagafrv. frá ríkisstj., sem lagt er fram hér í dag, er gert ráð fyrir sams konar greiðslum, eftir því sem við á, til einstæðra feðra, sem halda heimili fyrir börn sín, og er það að sjálfsögðu líka í réttlætisátt.

Varðandi hina breytinguna, sem við leggjum til. að gerð verði á lögum um almannatryggingar, vil ég nefna, að oft hafa orðið umr. um það hér í Alþ., hvaða grundvallarsjónarmið komi til greina við greiðslu lífeyris til aldraðra og öryrkja. Það er okkur öllum sameiginlegt, að við erum að reyna að finna þær leiðir, sem við teljum, að næst komist réttlætinu, og það getur orðið æði örðugt, en um þær greiðslur og það fyrirkomulag, sem nú er í gildi, er óhjákvæmilegt að segja, að menn hafa rekið sig á vissa örðugleika vegna þess, hve skörp skilin eru milli réttarins til tekjutryggingaruppbótarinnar, sem greidd er á ellilífeyrinn og örorkulífeyrinn, og þess að hafa ekki þennan rétt. Mönnum finnst það æði ranglátt, að hver einasta króna, — sem menn afla sér oft af takmarkaðri orku, en sér þó oft til þeim mun meiri lífsfyllingar og ánægju, — að hver einasta króna, sem fyrir slíka vinnu fæst, skuli koma til skerðingar á rétti til tekjutryggingar frá Tryggingastofnun ríkisins. Við höfum alllengi velt fyrir okkur, hvernig bezt væri að fá framgengt leiðréttingu á þessu, og komumst að þeirri niðurstöðu, að réttara væri, að í stað þess, að hver króna, sem þetta fólk vinnur sér inn, kæmi til réttindaskerðingar, væri aðeins um að ræða visst brot af þeim tekjum, sem menn hefðu, og við leggjum til í frv., að það verði þriðja hver kr. að vissu marki tekna. Ef samanlögð upphæð lágmarkslífeyrisins og annarra tekna bótaþegans er innan við 134 400.00 kr., sem er það mark, sem nú er miðað við í greiðslu tekjutryggingar, þá skuli Tryggingastofnunin bæta við hans lífeyri, þannig að þessu marki verði náð.

Ég hef reynt með viðtölum við ýmsa embættismenn að fá upplýsingar um, hver kostnaður yrði af þessari breytingu, og mér þykir mjög leitt að skýra frá því, að tilraunir mínar í þá átt, sem hafa verið miklar, hafa ekki borið árangur, Að vísu mun vera hægt að fá ýmsar upplýsingar, sem þarna skipta máli, úr skýrsluvélum. Þær rannsóknir kosta visst fé, sem menn eru kannske efins um, að þeirra stofnanir hafi heimild til að ráðstafa, og þess vegna vil ég leyfa mér að æskja fyrirgreiðslu n., sem hefur með þetta mál að gera, og rn. til að afla þeirra upplýsinga, sem hér er um að ræða. Ég geri raunar ráð fyrir, að sú endurskoðunarnefnd, sem núna fjallar um almannatryggingal., hljóti að þurfa að fá þessar upplýsingar, svo að ekki ætti að þurfa að vera um sérstaka greiðasemi við einstaka þm. stjórnarandstöðu að ræða, þótt þessara upplýsinga væri aflað. Framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna hefur haft samband við Framkvæmdastofnunina um að gera áætlun um kostnað af þessari breytingu. Það mál er í athugun, og vona ég, að við fáum svör við því, áður en málið verður afgreitt úr n. Það eina, sem ég hef við að styðjast um hugsanlegan kostnað eða áætlanir um kostnað af þessari breytingu, eru þær upplýsingar, sem Tryggingastofnunin gaf hæstv. heilbr.- og trmrh. í vor í tilefni af fsp., sem gerð var um framkvæmd ákvæðanna um tekjutryggingu. Þar kom fram, hver fjöldi þeirra manna var, sem hafði fengið ellilífeyri og örorkulífeyri, annars vegar og hins vegar hver fjöldi þeirra manna var, sem hafði fengið tekjutryggingu greidda á þessar upphæðir og sömuleiðis heildarupphæðirnar. Þetta voru tölur, sem giltu um fyrsta ársfjórðung, og ég sé ekki betur en með því að margfalda þessar upphæðir með 4, þá fáum við nokkurn veginn þær upphæðir, sem á þessu ári mætti ætla, að verði varið til þess. Hins vegar er mjög erfitt að segja til um það, hver fjöldi fólks væri á því tekjubili, sem þetta snertir, þ.e.a.s. frv. á því bili að hafa innan við 12 þús. kr. tekjur annaðhvort af eigin vinnu eða úr lífeyrissjóðum. Þennan fjölda er mjög erfitt að finna, vegna þess að hugtakið tekjur í þessu tilliti er í raun og veru ákvarðað eftir vissum reglum, sem Tryggingastofnunin styðst við við útborgun tekjutryggingar, og þær reglur yrðu að sjálfsögðu að vera til grundvallar nákvæmri áætlun um þann fjölda.

Með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að endurtaka upplýsingar hæstv. ráðh. frá í vor, og hann getur þá kannske sparað sér lestur þeirra á eftir, ef hann skyldi ekki hafa heldur aðrar upplýsingar við að styðjast um þetta mál, en þær eru. „Á fyrsta ársfjórðungi í ár var fjöldi hjóna, sem hafði fengið elli- og örorkulífeyrisgreiðslur, 2710 og bótaupphæðir til þeirra á fyrsta ársfjórðungi voru samtals 124.5 millj. kr. Einstaklingar, sem fengið höfðu elli- og örorkulífeyri, eru 13080 talsins og bótaupphæðir til þeirra á tímabilinu jan.–marz eru 315 millj. Samtals nema greiðslur þessa fyrstu þrjá mánuði 439.5 millj. Því má skjóta hér inn í þessa tilvitnun sem ábendingu, sem kannske gæti borizt endurskoðunarnefnd tryggingalaganna, að alltaf kann ég dálítið illa við það orðalag tryggingalaga, að þar skuli einungis þeir vera kallaðir einstaklingar, sem ekki eru í hjúskap. En þetta er orðalagið þarna, og við verðum að halda okkur við það, þótt það hljómi dálítið undarlega.

Ef ég má aftur leyfa mér að vitna í upplýsingar ráðh., þá kom þar einnig fram fjöldi þeirra, sem á fyrsta ársfjórðungi höfðu fengið tekjutryggingu. Í Reykjavík höfðu þá 1612 bótaþegar fengið hækkanir vegna tekjutryggingarákvæða, og sú hækkun nam 15.8 millj. fyrir fyrsta ársfjórðung. Það er visst hlutfall, nokkuð fast, milli fjölda bótaþega utan af landi og í Reykjavík, og yrði það hlutfall vitanlega að koma til skoðunar í sambandi við útreikning á fjölda þeirra manna, sem þegar njóta tekjutryggingarinnar, en hins vegar liggja engar upplýsingar fyrir utan af landi, vegna þess að skýrslur berast ekki frá umboðum þar fyrr en í árslok.

Daginn eftir að við lögðum fram þetta frv. okkar, kom frv. til l. um breyt. á sama ákvæði tryggingal. frá hinum stjórnarandstöðuflokkunum, og í því frv. er eilítið betur boðíð. Þar var lagt til, að hámarksupphæð tekjutryggingarinnar yrði hækkuð og viss tekjuupphæð skyldi ekki talin til tekna, þegar reiknað væri út, hvort bótaþegi ætti að fá tekjutryggingu eða ekki. Þetta er vitanlega ósköp fallegt og rausnarlegt boð, og ég sé ekki ástæðu til að vera því andsnúin, síður en svo. Vissulega væri mjög æskilegt, ef hægt yrði að sameina þessi tvö frv.

Væri hægt að hafa bæði vissa teknaupphæð utan við útreikning tekjutryggingar og síðan, að ekki kæmi heldur hver einasta króna til frádráttar á réttinum, eins og nú er. En eftir hinu frv. yrði sú útkoman, að viss tekjuupphæð yrði undanþegin, en eftir það kæmi hver einasta króna til frádráttar. — Ég bið hæstv. forseta velvirðingar á því, að ég ræði þetta mál hér um leið, en mér sýnist hér vera allt að því um sama málið að ræða, og það er til flýtisauka, að ég fái að segja nokkur orð um þetta mál um leið. Ég sé, að hæstv. forseti kinkar kolli, og skil það svo, að mér sé leyft þetta.

Varðandi þetta mál vil ég aðeins vekja athygli á því, að þetta er vissulega leið, sem við höfðum haft í huga og höfðum látið okkur detta í hug að leggja til, en við nánari skoðun fannst okkur réttara að binda okkur einungis við hlutfall af tekjum. Jafnvel þó að viss tekjuupphæð kæmi algerlega til frádráttar eða væri undanskilin við útreikninginn, þá væri allavega að miða við hlutfall af tekjum, þegar tekjutrygg. væri ákvörðuð.

Við skulum taka lítið dæmi um núv. framkv. tekjutryggingar. Ég hugsa mér, að ég réði til mín í vist 67 ára gamla konu. Ég hugsa mér, að ég geri þetta sjálf, af því að það eru dálítið syndsamlegar hugleiðingar, sem ég ætla að gera viðkomandi vinnuveitanda upp, og ég kæri mig ekki um að gera öðrum rangt til. Ég hugsa mér, að ég ráði í vist til mín 67 ára konu, hún vinni hjá mér í þeim mæli, að hún eftir taxta ætti rétt á 10 þús. kr. í kaup. Þessi 67 ára gamla kona, sem er glögg og greinargóð kona, skulum við segja, og góð vinkona mín, segir við mig, þegar hún ræður sig, ef hitt frv. verður samþ. óbreytt: Nei, þú skalt ekki vera að greiða mér 10 þús. kr. á mánuði, þú greiðir mér bara 6 þús., því að 4 þús. greiðir Tryggingastofnunin mér. — Nú spyr ég: Finnst hv. þm. það sanngjarnt, að Tryggingastofnunin greiði þannig fyrir mig 40% af húshjálpinni? Það finnst mér ekki. Þess vegna finnst mér réttara, ef að því ráði verður horfið, að viss tekjuupphæð komi ekki til skoðunar við útreikning tekjutryggingar, sem mér finnst í sjálfu sér góð hugsun og rétt, að eftir að tekjur eru komnar eitthvað örlítið fram úr því marki, þá verði ekki hver einasta kr. til þess að skerða þann rétt, sem menn ella hafa til tekjutryggingar. Þannig er það nú, og það kemur oft allgrimmilega út fyrir menn, sem e.t.v. hafa verið skyldaðir til þess að greiða af naumum tekjum sínum til lífeyrissjóðs og fá svo á gamals aldri örlitla upphæð úr lífeyrissjóði, kannske 3 þús. kr. Þeirra tekjutrygging lækkar um 3 þús. kr. Við vitum mörg dæmi þess, að öldruðum mönnum, sem svo stendur á um, þykir sem þarna sé þeirra lífeyrissjóðsgreiðsla af þeim tekin. Í þessu máli koma vitanlega ýmsar leiðir til skoðunar, en þetta dæmi er mjög augljóst og nauðsynlegt að leiðrétta.

Sama máli gegnir, ef um það er að ræða, að menn afli sér lítils háttar tekna. Við skulum hugsa okkur konu, 68 ára gamla, sem alla sína ævi hefur fundið ánægju og lífsfyllingu í vinnu og því að geta bjargað sér með vinnu sinni. Hún notar tímann til þess að prjóna peysur, skulum við segja. Ef hún prjónar peysur fyrir 4 þús. kr. á mánuði, þá fær hún 7244 kr. í ellilífeyri. Ef hún heldur að sér höndum og prjónar engar peysur eða gefur þær, — við skulum segja Álafossi, þá fær hún frá Tryggingastofnun ríkisins 11200 kr. Það er augljóst, að þessi skipan er ekki sem skynsamlegust.

Með þessu tali mínu er ég ekki að deila á hæstv. núv. ríkisstj. Mér finnst ærið tilefni til þess oft og tíðum, en ég veit, að hugmynd um þessa tekjutryggingu var í tryggingal., sem samþ. voru vorið 1971, og menn vildu, að reynt væri að finna leið til þess, að þeir, sem minnstar tekjur hefðu, ættu öruggar vissar lágmarkstekjur. En framkvæmdin sýnir, að það verður að hafa mörkin svolítið liprari, ef þannig má að orði kveða, ekki eins skörp og nú er. Þau verða að vera þannig, að þau hvetji menn til að starfa sér og þjóðfélagi sínu til gagns, en letji menn ekki, Með þessu er engan veginn verið að segja, að aldrað fólk vilji ekki hreyfa hönd til vinnu án þess að hugsa um arð í aðra hönd. En hitt er annað mál, að ef við, eins og við flest gerum meira og minna, erum sí og æ að berjast fyrir því, að menn beri úr býtum það, sem þeir eiga skilið fyrir sitt erfiði, þá getum við ekki allt í einu hætt að láta þá reglu gilda, þegar fólk er orðið 67 ára gamalt.

Herra forseti. Ég tel, að ég hafi getið hér um þau rök, sem í huga okkar eru fyrir því, að við gerum þessar till. til breyt. á l. um almannatryggingar, og vona, að enn fyllri upplýsingar um kostnað af frv. liggi fyrir í n., sem um málið fjallar, og komi þá fyrir augu hv. þm. við 2. umr. málsins.