05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

280. mál, sjónvarp

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin við fsp. Ég hygg, að menn sjái strax, að allmikill fjöldi bæja í Vestfjarðakjördæmi nýtur nú ekki þess munaðar, sem sumir kalla, að geta notið sjónvarps. Þar er um að ræða 82 bæi í Vestfjarðakjördæmi, sem alls ekki sjá sjónvarpsútsendingar. Þar að auki eru um 27 bæir með mjög slæm skilyrði. Ég hygg, að þessar upplýsingar varpi ljósi á það ástand, sem kannske ríkir víðar en á Vestfjörðum, en þó e.t.v. hvergi eins slæmt varðandi móttökuskilyrði sjónvarps.

Við 2. spurningunni er það upplýst af hæstv. ráðh., að áætlanir séu uppí um, að á árinu 1973, ef fjármagn verði fyrir hendi, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, — og ég treysti því, að hæstv. ríkisstj. sjái fyrir því fjármagni, — þá muni um 30 bæir, sem nú hafa ónothæf sjónvarpsskilyrði, njóta þeirra og um 10, sem hafa slæm skilyrði nú, muni einnig fá sín skilyrði bætt. Þetta er að vissu leyti verulega til bóta, en að mínu mati ekki nægjanlegt. Þó að þetta yrði, þá eru eftir eigi að síður nokkrir tugir bæja á Vestfjörðum, sem alls ekki geta notið sjónvarpsútsendingar.

Í sambandi við 4. spurninguna er ljóst, ef ég hef skilið hæstv. ráðh. rétt, að engin heildaráætlun liggur fyrir um það að koma á sjónvarpsskilyrðum á miðum úti fyrir Vestfjörðum. Mér hafa borizt í hendur, og ég veit, að hæstv. ráðh. hafa einnig borizt í hendur óskir sjómanna á Vestfjörðum um þetta mál. Mér þykir miður, að ekkert skuli hafa gerzt í þessu máli. Ég vænti þess fastlega, að hæstv. ráðh. taki það mál til gaumgæfilegrar athugunar, og treysti því jafnframt, að hann og þá ríkisstj. í heild um leið sjái sér fært að verða við þeim óskum, sem sjómenn á Vestfjörðum hafa borið fram, þannig að þær megi verða innan ekki langs tíma að raunveruleika.