05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1019 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

281. mál, kennsluskylda og rannsóknarstörf prófessora

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar svörum mínum við fsp. hv. 7. landsk. þm.

Eins og fram kom í svari mínu, er það viðurkennt með lagasetningu um kennsluskyldu prófessora, að þeirra kennslustörf skuli metin á nokkuð annan hátt en kennara á öðrum skólastigum, og það hefur frá öndverðu þótt eðlilegt. Einnig hefur háskólaráði lengi verið lagt í hendur vald til að ákveða kennsluskyldu hvers einstaks prófessors. En eins og ég gat um í svari mínu, er fullur vilji til þess hjá þeim, sem nú fara með æðstu stjórn Háskólans, að þessu verði skipað á ákveðnari og fastari hátt en verið hefur. Enn fremur gefur það auga leið, að þótt menn hafi sýnt rannsóknarhæfileika, áður en þeir hljóta háskólakennarastöður, þá er mjög æskilegt, að fylgzt sé með því, eftir að þeir eru komnir í þær stöður, hversu þeir neyta þeirra hæfileika, og því er ég sammála því áliti, bæði starfandi háskólarektors og fyrirspyrjanda, að æskilegt væri að koma þessum málum, bæði hvað varðar kennsluskyldu og afraksturinn af rannsóknarskyldunni, í fastara form en verið hefur. Ekki vil ég lofa því á þessari stundu, að mér auðnist að láta taka saman í snatri skýrslu um rannsóknarstörf háskólakennara, sérstaklega prófessora, því að eins og kom fram í svari mínu, hefur engin samantekt verið gerð um þau störf önnur en skráin um rit háskólakennara.