06.12.1972
Efri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (740)

108. mál, þörungavinnsla á Reykhólum

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um undirbúning þörungavinnslu að Reykhólum kemur hér inn í þingið á hálfgerðum handahlaupum, ef svo má að orði komast. 8. nóv. s.l. skilaði Rannsóknaráð ríkisins til menntmrh. skýrslu um þang- og þaraþurrkstöð á Reykhólum við Breiðafjörð, og var skýrsla þessi samin af dr. Vilhjálmi Lúðvíkssyni. Nokkru síðar eða um miðjan síðasta mánuð var iðnrn. falið að fjalla um þessa skýrslu og gera síðan till. um, hvernig að málinu yrði staðið. Iðnrn. ákvað að senda skýrsluna til sérfræðilegrar könnunar og gagnrýni til verkfræðiskrifstofu Baldurs Líndals efnaverkfræðings, en hann hefur ekki átt neinn þátt í þessum undirbúningi og er þess vegna vel til þess fær að fara yfir þetta sem óháður aðili, og í annan stað var ákveðið að fela hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar að fjalla um efnahagsþætti málsins og um markaðsþætti. Eðlileg vinnubrögð hefðu að sjálfsögðu verið þau, að iðnrn. hefði beðið eftir niðurstöðum þessara athugana, áður en það legði fram till. sínar um framkvæmdir í málinu. Vandi okkar var hins vegar sá, að í tengslum við þessa athugun liggur fyrir tilboð um kaup á verulegu magni af þangmjöli frá stærsta fyrirtæki á því sviði, Alginate Industries í Skotlandi, en þetta fyrirtæki býðst til þess að kaupa 4 þús. tonn af þvegnu, þurrkuðu og möluðu þangmjöli árið 1974 og síðan vaxandi magn um 10 ára skeið þar á eftir, allt upp í 10 þús. tonn á ári. Þetta erlenda fyrirtæki þarf hins vegar á þessu efni að halda á árinu 1974, þannig að ef við ætlum að hagnýta okkur þetta mjög svo hagstæða markaðstilboð, verðum við að hafa ákaflega snör handtök. Í þessu felst það, að um leið og athugun kynni að leiða í ljós, að þarna sé um að ræða arðsama og skynsamlega og gagnlega framkvæmd, verða stjórnvöld að hafa tök á því að hefja framkvæmdir án tafar. Af þessum ástæðum er málið hér lagt fyrir í þessu formi, að stofnað verði hlutafélag, sem hafi með höndum undirbúning þessa máls. Þetta fyrirkomulag er sniðið eftir fyrirkomulagi, sem áður hefur verið samþ. hér á Alþ., þ.e.a.s. þegar stofnað var undirbúningsfélag til þess að kanna möguleikana á því að koma hér upp olíuhreinsunarstöð. Þessi aðferð er viðhöfð sem sagt til þess að reyna að hraða málinu, eftir því sem kostur er.

Þetta frv. skýrir sig að miklu leyti sjálft. Í 1. gr. segir, að ríkisstj. skuli beita sér fyrir stofnun hlutafélags, sem hafi það að markmiði að kanna aðstæður til að reisa og reka verksmiðju til þörungavinnslu að Reykhólum við Breiðafjörð, og stuðla að því, að slíku fyrirtæki verði komið á fót, og með þörungavinnslu sé með lögum þessum átt við starfsemi til framleiðslu á þang- og þaramjöli og öðrum skyldum afurðum fyrir innlendan og erlendan markað.

Í 2. gr. er svo ákveðið, að ríkisstj. sé heimilt að kveðja til samvinnu um stofnun eða starfrækslu hlutafélags samkv. 1. gr. hvers konar aðila, sem áhuga hafa á málinu, innlenda eða erlenda, en þó skuli aldrei minna en 51% af hlutafé félagsins jafnan vera í eigu ríkisins og stjórn þess skipuð fulltrúum ríkisins að meiri hl. Það er kunnugt um innlenda aðila, sem hafa áhuga á aðild að þessu verkefni, og það eru þá fyrst og fremst aðilar, sem eru búsettir í námunda við Reykhóla. Í maí í vor var stofnað hlutafélag, sem nefnist Sjávaryrkjan h/f og hefur heimill og varnarþing að Reykhólum í Reykhólahreppi. Tilgangur þessa félags er að byggja og starfrækja verksmiðju að Reykhólum til þurrkunar á sjávargróðri og grænfóðri. Dagsetning stofnunar þessar 22. maí 1972, en í stjórninni eru Ingimundur Magnússon, Bragi Þórarinsson og Sigurður Karlsson. Upphæð hlutafjár í þessu félagi er 1.5 millj. og greitt hlutafé 600 þús. Mér er kunnugt um, að þessi aðili hefur áhuga á að taka þátt í þessu undirbúningsverkefni, og tel ég mjög svo mikilvægt, að þetta sé tengt við áhugaaðila heima fyrir.

Í 3. gr. eru svo ákvæði um skipun stjórnar í samræmi við það, sem áður hefur verið sagt. Og í 4. gr. segir svo: „Hlutafélagið skal athuga þær rannsóknir, sem fram hafa farið á þara- og þangvinnslu að Reykhólum. Því skal heimilt að framkvæma eða láta framkvæma hvers konar athuganir og aðgerðir til rannsóknar og skipulagningar á starfsgrundvelli þörungaverksmiðju og undirbúnings að því, að hefjast megi handa um byggingu hennar og rekstur. Skal að því stefnt að framselja árangurinn af starfsemi félagsins í hendur aðila eða aðilum, sem takast verkefnið á hendur, þannig að félagið fái tilkostnað sinn að fullu endurgoldinn.“

Í 5. gr. eru ákvæði um það, að ríkisstj, megi leggja fram 10 millj. kr. sem hlutafé í þetta undirbúningsfélag og enn fremur að veita ríkisábyrgð fyrir láni eða lánum allt að 10 millj. kr. og að félaginu verði leyfð umferð og afnot af löndum og mannvirkjum o.s.frv.

Í 6. gr. eru ákvæði um, að stjórn þessa félags þurfi ekki að hlíta lögum um hlutafélög og þar megi hafa annan hátt á, ef skynsamlegt verður talið.

Þetta er meginefni frv. sjálfs, en í tengslum við það er rétt að geta þess, að til þess að gera rekstur þarna mögulegan, þarf hið opinhera að leggja í fjárfestingu vegna hafnarmannvirkja, vegagerðar, jarðhitavirkjunar og raflínu, sem áætluð er um 60 millj. kr., og vegna þessara aðstæðna, sem ég lýsti áðan, eru allar líkur á því, að meginhluti þessa fjármagns yrði að koma til á næsta ári, ef talið verður skynsamlegt að leggja í þetta fyrirtæki. Því er okkur nokkur vandi á höndum einnig í sambandi við afgreiðslu fjárl. og framkvæmdaáætlunar að þessu sinni. Ég hygg, að það væri skynsamlegast að ríkisstj. óskaði eftir heimild Alþ. til sérstakrar fjáröflunar í þessu skyni, þegar þing verður kvatt saman eftir áramót, því að þá eiga að liggja fyrir þær athuganir, sem ég hef rætt hér um. En sem sagt, þarna mundi ríkið verða að taka á sig allverulegar almennar skuldbindingar til að búa í haginn fyrir fyrirtæki af þessu tagi, ef skynsamlegt verður talið að ráðast í það.

Þetta eru þau meginatriði, sem ég tel rétt að minnast á í sambandi við frv. sjálft. En mig langar einnig að fara nokkrum orðum um málið í heild. Ég tel, að með þessu frv. til undirbúnings þörungavinnslu á Reykhólum sé stigið merkilegt spor í áttina til hagkvæmrar nýtingar íslenzkra náttúruauðlinda, til eflingar íslenzku þjóðlífi í breiðri merkingu. Með því eru til lykta leiddar athuganir, sem staðið hafa, með nokkrum hvíldum þó, í yfir 20 ár eða jafnvel mun lengur, ef fyrstu tilraunir til vinnslu eru taldar með. Að þessu verkefni hafa unnið ýmsar stofnanir, félög og einstaklingar, sumir hverjir af einstakri bjartsýni og þrautseigju, og má í því sambandi sérstaklega nefna Sigurð A. Hallsson efnaverkfræðing, sem hvað lengst hefur unnið að málinu sérfræðilega, svo og orkumálastjóra, sem um hríð kostaði þessar rannsóknir og Rannsóknaráð ríkisins, sem annazt hefur meðferð málsins fyrir hönd hins opinbera síðari ár, en þar hefur dr. Vilhjálmur Lúðvíksson haft forustu og beitt sérþekkingu sinni, dugnaði og raunsæi. Heimamenn í Reykhólasveit og nágrenni hafa einnig sýnt þessu máli mikinn áhuga og stutt það með ráðum og dáð.

Þeim, sem ekki þekkja til, kann að þykja sú grg. eða sú skýrsla, sem rannsóknaráð hefur skilað, sé heldur lítil eftirtekja af löngu starfi, sem margir aðilar hafa veitt lið. En sannleikurinn er sá, að ekki þarf einungis ötult starf, heldur líka heppni og sérstakar aðstæður á ákveðnum tíma, til þess að híð flókna samband milli hráefnis, orkulinda, vinnutækni, afurða, markaðs og markaðsverðs standi þannig, að forsendur séu til framkvæmda og arðbærrar framleiðslu. Þessar forsendur virðast einmitt nú vera tiltækar, og það tækifæri viljum við grípa. Þess vegna er frv. lagt fram í þessari mynd. Á það skal minnt hér, að hugmyndin, sem frv. miðar sérstaklega við, gerir ráð fyrir starfrækslu þangþurrkunarstöðvar, þó að rannsóknir seinni ára hafi aðallega beinzt að nýtingu þara. Viðskiptalegar forsendur til vinnslu þara brugðust hins vegar, þegar til átti að taka, en þess í stað opnuðust markaðir fyrir þang. Á grundvelli þeirrar almennu þekkingar, sem aflazt hafði, svo og með tæknilegri aðstoð frá skozku fyrirtæki, Alginate Industries Ltd., sem óskaði eftir kaupum á þangmjöli héðan, hefur verið gerð áætlun, sem bendir til, að rekstur geti orðið hagkvæmur við þangvinnslu.

Ég sagði í upphafi, að hér væri um að ræða hagkvæma nýtingu á íslenzkum auðlindum til eflingar íslenzku þjóðlífi í breiðri merkingu. Í fyrsta lagi eru hér lögð drög að starfsemi, sem allar fyrirliggjandi upplýsingar benda til, að geti orðið arðbært fyrirtæki, sem á grundvelli innlendis hráefnis, orkulinda og vinnu skapar útflutningsverðmæti, sem nema allt að 140 millj. kr., þegar fullri stærð er náð. Í öðru lagi er með fyrirtæki þessu stefnt að uppbyggingu atvinnu á svæði, sem hefur öðrum svæðum fremur verið afskipt um atvinnuþróun og efnahagsuppbyggingu. Í þriðja lagi gæti með þeim opinberu framkvæmdum, sem rekstri þessum verða að fylgja, þ.e. hafnargerð, vegagerð og eflingu raforkukerfis, myndazt grundvöllur fyrir frekari uppbyggingu atvinnulífs og ekki sízt þjónustustarfsemi, sem þessi landshluti er sérstaklega fátækur af og háir honum svo mikið. Í fjórða lagi er hér stefnt að fyrirtæki, sem hagnýtir aðrar auðlindir þessa svæðis en áður voru nýttar á þann veg, sem væntanlega hvorki leiðir til rányrkju eða útrýmingar náttúruauðlegðar né spillingu þess umhverfis, sem því er ætlaður staður í. Í fimmta lagi er hér um að ræða fyrirtæki af þeirri stærð, sem við getum sjálfir ráðið við, þótt uppbygging þess sé í náinni samvinnu við væntanlega erlenda viðskiptaaðila og með tæknilegum stuðningi þeirra. Þannig sýnist mér, að í þessari framkvæmd sameinist mörg þjóðhagslega æskileg sjónarmíð, sem flestir flokkar eru sammála um, þ.e.a.s. arðsemissjónarmið, svo og þjóðhagsleg, atvinnuleg, byggðaþróunarleg, vistfræðileg og hagpólitísk sjónarmið.

Í aths. með frv. er skýrt frá helztu niðurstöðum tæknilegra og hagrænna athugana á þangþurrkunarstöð, sem Rannsóknaráð ríkisins hefur látið gera, en þar er gert ráð fyrir, að verksmiðja, sem í upphafi getur framleitt 4000 tonn af þangmjöli á 7 mánaða starfstíma, kosti um 128 millj. í stofnkostnaði og geti framleitt þangmjöl með þeirri hagkvæmni, að miðað við tilboðsverð, sem liggur fyrir staðfest í fskj. II með frv., er áætlað, að um 10% endurheimt af stofnfé fáist, áður en skattar og vaxtagreiðslur fyrirtækisins eru reiknuð. Þetta mat á arðsemi er e.t.v. ekki einhlítt og kann að þykja í lægri mörkum í samanburði við sum áhættufyrirtæki. Þess ber þó að geta, að hér er einungis miðað við byrjunarstærðina 4000 tonn á ári, en viljayfirlýsingin frá hinu skozka fyrirtæki, sem ég vísaði áðan til, sýnir, að árleg aukning viðskipta getur numið 1500 tonnum, unz framleiðslan hefur náð 10 þús. tonnum á ári a.m.k. Slíkri stærðaraukningu fylgir jafnframt veruleg aukning á hagkvæmni. Einnig skal á það bent, að áætlunin er talin varleg, og þau verðtilboð, sem fengizt hafa, og þær athuganir, sem gerðar hafa verið, síðan áðurgreind áætlun var gerð, benda til, að nokkur lækkun geti orðið bæði á stofnkostnaði og rekstrarkostnaði frá því, sem gert var ráð fyrir. Þannig virðist vissulega vera eftir nokkru að slægjast fjárhagslega, og ber á þessum grundvelli að halda ótrautt áfram frekari könnun og undirbúningi að stofnun fyrirtækis, ef svo fer sem horfir.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um það á þessum stað, hversu hagkvæm þessi framkvæmd yrði í þeirri mynd, sem hún nú er, fyrir þróun byggðar á þessu landssvæði. Mér yrði brotið nýtt blað í atvinnu- og efnahagslífi þessa svæðis og vinnuafli beint inn á svið, sem ekki hefur í för með sér frekari spennu til offramleiðslu, sem vissulega er tilhneigingin hjá núverandi aðalatvinnugrein á þessu svæði. Jafnframt er stuðlað að bættri aðstöðu fyrir annað athafnalíf á svæðinu, og ber sérstaklega að minna á þá þýðingu, sem ný höfn við norðanverðan Breiðafjörð gæti haft í þessu sambandi.

Reykhólar eru að mörgu leyti vel fallnir til uppbyggingar þéttbýliskjarna. Þeir eru sæmilega miðsvæðis, þar er jarðhiti nógur, og þar er nú verið að ljúka við fyrsta áfanga myndarlegrar skólabyggingar, sem vissulega yrði betur nýtt í fjölmennara plássi en þar er nú. Landrými í eigu ríkis er þar nægilegt, og mætti taka það til skipulagningar, ef með þyrfti. Öflun þangs og flutning á því til verksmiðju mætti stunda úr eyjum og af öðrum stöðum á þessu svæði, og gæti fyrirtækið þannig styrkt búsetu víðar en á Reykhólum. T.d. mætti hugsa sér Flatey í því sambandi.

Enda þótt núverandi áætlanir miðist við 4000 tonna ársframleiðslu af þangmjöli og fyrir liggi spár um framleiðsluaukningu upp í 10 þús. tonn á ári, eru engar líkur á því, að vinnsla þörunga við Breiðafjörð og jafnvel viðar stöðvist við það mark. Hér er fyrst og fremst verið að ryðja brautina. Þótt ekki liggi fyrir neinar tölur um hugsanlega þanguppskeru af Breiðafjarðarsvæðinu og þær tölur geti ekki orðið til, fyrr en reynsla hefur fengizt af þangöflunaraðferðum og áhrifum þeirra á endurvöxt þangs, má þó búast við því, að heildaruppskerumagnið geti orðið meira en þessu nemur. Þess vegna er einnig æskilegt að athuga aðra markaði fyrir þangmjöl en hið skozka fyrirtæki býður. Má í því sambandi geta um mjög hagstæða þróun, sem er að verða á notkun þangmjöls sem áburðarefnis í lífræna áburðarblöndu fyrir garðyrkjubúskap í Bandaríkjunum. Hér er um að ræða ákveðna þróun í átt til notkunar alhliða lífrænna áburðarefna í stað einhæfra kemískra áburðarefna, sem annars tíðkast mest. Einnig má benda á, að enda þótt hinar margvíslegu forsendur þörungavinnslunnar hafi nú loks krystallazt í því að gera þangþurrkun hagkvæma, er engan veginn loku fyrir það skotið, að hinn rétti rammi verði ekki líka fundinn fyrir nýtingu annarra þörungategunda. Þari og þangmjöl til manneldis eru t.d. vel hugsanlegar afurðir, sem hagkvæmt geti verið að vinna, sérstaklega með aðstoð jarðhita, þótt ekki yrði það í jafnstórum mæli og þangþurrkunin er áætluð. Þangmjöl það, sem selja á til Alginate Industries, er hráefni til framleiðslu á alginsöltum, sem notuð eru í margs konar nútímaíðnaði, þar sem hafa þarf áhrif á flæðieiginleika vökva og hlaupkenndra eða deigkenndra efna. Sú spurning vaknar því, hvort ekki sé hægt að framleiða alginsöltin hérlendis. Nánari könnun á þessu atriði leiðir þó í ljós, að slíkt yrði ekki hagkvæmt á þessu stigi af eftirgreindum ástæðum.

Til að halda velli á alginmörkuðum, þar sem mjög hörð samkeppni ríkir, þarf að hafa á boðstólum mikinn fjölda mismunandi gerða af alginsöltum. Slíkur fjöldi gerða fæst ekki nema úr blöndun margra tegunda af þörungum úr fjarlægum heimsálfum með mjög nákvæmum og leyndarvernduðum aðferðum. Alginate Industries framleiðir t.d. yfir 200 mismunandi gerðir. Til að fylgjast með rekstrinum og þróa ný not hefur skozka fyrirtækið 40 þjálfaða sérfræðinga og tæknilega aðstoðarmenn í þjónustu sinni. í annan stað þarf til framleiðslu alginsalta mikið magn af sóda og kalsíumklóríði, sem yrði að flytja inn, og væri það óhagstætt fyrir samkeppnisaðstöðuna hérlendis. Ekki er þó þessi möguleiki alveg útilokaður, því að ef farið yrði að framleiða kalsíumklórið sem aukaefni í saltverksmiðju á Reykjanesi og e.t.v. síðar sóda sem aukaefni í magnesíumverksmiðju samkv. sjóefnavinnsluhugmyndunum, þá gætu myndazt hagrænar forsendur til framleiðslu hálfunninna alginsalta, sem síðan yrðu notuð til endanlegrar framleiðslu blöndunar í verksmiðjum Alginate Lndustries Ltd. í Skotlandi. Það hjálpar hér til, að gífurlegt vatnsmagn þarf til þessarar framleiðslu, og mun tiltækilegt vatnsmagn verulega takmarka stækkunargetu hins skozka fyrirtækis á núverandi framleiðslustöðum, og gæti þá reynzt hagkvæmt að hafa hluta vinnslunnar hér á Íslandi í náinni samvinnu við það fyrirtæki.

Þá er ekki heldur að vita, hvaða aðrar afurðir mætti framleiða úr þörungum, og er þess að vænta, ef það fyrirtæki, sem hér er verið að undirbúa, kemst upp, að þá verði rannsóknum á vöruþróun á þessu sviði gefinn mikill gaumur. Þetta tækifæri, sem hér býðst, er þannig vonandi stökkpallur til mun víðtækari nýtingar sæþörunga. Tilboð skozka fyrirtækisins opnar möguleika til að hefja starf í svo stórum stíl, að hægt sé að gera þær bætur á aðstöðu og koma því skipulagi á öflun hráefnis og útskipun afurða, sem nauðsynlegt er til að tryggja rekstrarhagkvæmni þessarar starfsemi. Þegar sú aðstaða er fengin, geta aðrir möguleikar fylgt í kjölfarið.

Eins og ég minntist á áðan, þarf hið opinbera að koma upp þeirri aðstöðu á Reykhólum, sem gerir rekstur af þessari stærð mögulegan. Þannig verður nauðsynleg vegagerð frá Reykhólum og að fyrirhuguðu verksmiðjusvæði í Karlsey undan Reykhólum. Þá þarf að byggja bryggju við Karlsey, leggja þriggja fasa raflínu, sem annað getur orkuþörf fyrirtækisins, og bora eftir heitu vatni og veita því til verksmiðjunnar. Eins og ég nefndi áðan, bendir lausleg byrjunaráætlun til þess, að þessar framkvæmdir kosti um 60 millj. kr.

Nú kann að vera álitamál, hvernig líta beri á hagkvæmni svona framkvæmda af hálfu hins opinbera. Reiknað er með því, að fyrirtækið greiði einungis jarðvarmaveituna að fullu aftur samkv. reikningi fyrir varmanotkun. Not af raflínu, höfn og vegi að henni yrðu hins vegar svo almenn, ef að líkum lætur, að ríkisstj. telur verjanlegt, að í slíkar framkvæmdir verði ráðizt, þótt einungis verði greitt fyrir afnot af höfn í formi venjulegra hafnargjalda og raforka keypt á því verði, sem gildir á þessu svæði.

Eins og ég sagði áðan, mun ríkisstj., ef allt fer svo sem menn gera sér vonir um núna, leita heimildar Alþ. til fjáröflunar í þessu skyni á síðara stigi. Eins og ég hef lagt mikla áherzlu á, eru tímamörk þau, sem tilboð hins skozka fyrirtækis gerir ráð fyrir, mjög naum og þess vegna tæplega ráðrúm til svo ítarlegrar meðferðar af hálfu hins opinbera og menn hefðu e.t.v. viljað. En af þeim ástæðum, sem ég rakti áðan, að frekari dráttur gæti aftur eyðilagt þær viðskipalegu forsendur, sem nú hafa opnazt til vinnslu þangs, hefur ríkisstj. ákveðið að hraða meðferð málsins eftir föngum, m.a. með því undirbúningsfyrirtæki, sem gert er ráð fyrir í frv. Með stofnun slíks fyrirtækis ætti að vera unnt að framkvæma það tæknilega undirbúningsstarf, sem nauðsynlegt er til að fá staðfestingu á rekstrargrundvelli þangþurrkstöðvar og búa allt í haginn fyrir framkvæmdir, ef jákvæð ákvörðun er tekin um stofnun endanlegs fyrirtækis til byggingar og rekstrar slíkrar stöðvar.

Ég geri mér vonir um, að þetta frv, njóti svo almenns stuðnings hér á hinu háa Alþ., að það verði unnt að afgreiða það sem lög fyrir jólaleyfið. Þar er vissulega farið fram á mikið, og þetta er ekki framkvæmanlegt, nema til komi góður vilji þm. úr öllum flokkum, og ég vil leyfa mér að óska eftir því, að slík samstaða gæti tekizt hér á hinu háa Alþ.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. iðnn. og 2. umr.