30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

14. mál, dreifing sjónvarps

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Hafist var handa um að koma hér á rekstri sjónvarps hlutfallslega snemma, t. d. miðað við nágrannalönd okkar. Sjónvarpið náði í upphafi til verulega stórs hluta þjóðarinnar. Nefndar voru háar hundraðshlutatölur yfir, hve margir þegar nytu útsendinga þess. Þetta gekk fljótt og vel og var sjónvarpinu komið upp með tiltölulega litlum kostnaði, a. m. k. reiknað á þann fjölda íbúa, sem þegar naut þess. Þegar var svo hafist handa um að dreifa sjónvarpinu um landið, og það gekk einnig allfljótt og vel og framar öllum vonum, miðað við okkar stóra og fjöllótta land. Hundraðshluti þeirra, sem í náðinni voru, hækkaði, og nefndar voru háar tölur um það, að nú hefðu 90% þjóðarinnar eða meira sjónvarp til að horfa á. Tekjustofnarnir, sem undir þessu stóðu, voru innflutningsgjöld af sjónvarpstækjum. Sá tekjustofn hlaut eðli sínu samkv. að rýrna, jafnótt og sjónvarpið dreifðist um landið. En þetta var í upphafi allt saman gott og blessað. Og enn betra var það, að sjónvarpið íslenska reyndist mikill fjölmiðill, oft menningartæki á marga lund og gott til afþreyingar þeim, sem ekki höfðu öðru að sinna, og þó sérlega þeim, sem ekki höfðu á öðru völ. svo sem öldnum og sjúkum.

En hvað þá um hina, sem ekki fengu sjónvarpið, þó að þeir væru fáir? Og hvað nú, þegar tekjulindin fer ört þverrandi og er kannske nærri þornuð? Er það ekki mannréttindamál, að þjóðin láti þá ekki biða lengur í óvissunni, a. m. k. ekki í algerri óvissu um það, hvort og hvenær þeir fái þetta til sín. Það er tæplega sæmandi í félagslega þenkjandi þjóðfélagi að fara nú að reikna út, hvað það kostar á hvern íbúa fyrir þá síðustu, sem fá þetta til sín.

Um þetta mál hafa þegar verið fluttar hér á hv. Alþ. tvær þáltill., á þskj. 13 og 19, og farið fram um þær umr., en ég hygg, að hæstv. menntmrh. hafi þá ekki verið viðstaddur.

Það er í ljósi þess, sem ég hef nú sagt, sem ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 14 eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„1. Hvað hefur miðað með dreifingu sjónvarps á yfirstandandi ári?

2. Hver hafa orðið aðflutningsgjöld af innflutningi sjónvarpstækja síðustu 5 ár, og hvað er áætlað, að þau verði á yfirstandandi ári og því næsta?

3. Eru áform um aðrar tekjuöflunarleiðir, til þess að unnt verði að ljúka dreifingu sjónvarps til allra landsmanna innan eðlilega langs tíma?“