03.05.1974
Efri deild: 116. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 4120 í B-deild Alþingistíðinda. (3724)

174. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið. Þá veit maður það, að þessir einkaskólar verða knúðir til að afhenda þann rétt, sem þeir hafa hingað til haft til að skipa sjálfir sínar skólanefndir, í hendur ráðh. og hann mun ganga eftir því.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að því, sem hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan. Hann taldi það ekki æskilega breytingu, sem ég hef flutt till. um við 9. gr. Við 2. umr. málsins, held ég, að það hafi komið ljóst fram í mínu máli, að það, sem ég lagði megináherslu á, var að þessir skólar fengju að halda sjálfstæði sínu. Þegar ríkið á byggingarnar og skipar skólanefndirnar, fer að verða dálitið lítill sjálfstæðissvipur yfir þessum menntastofnunum, verð ég að segja. Það mátti ekki einu sinni vera svo, að þessir eignaraðilar skólanna skipuðu skólanefndirnar, en ráðh. eða menntmrn. tilnefndi skólanefndarmann. Nei, það skyldi verða settur alger ríkissvipur á þetta og ráðh. skipaði skólanefndirnar.

Ég get sagt það einu sinni enn, að ég hef orðið fyrir geysilegum vonbrigðum með afgreiðslu þessa máls. Þótt ég fari ekki að orðlengja um 9. gr., þann skoðanamun, sem er um hana, verð ég að segja, að 10. gr. tekur þó í hnúkana. Hv. 4. þm. Norðurl. v. talaði um, að ýmis vandamál kynnu að koma upp í sambandi við endurgreiðslu á styrk vegna stofnkostnaðar. Hann benti réttilega á, að með þeirri þróun, sem orðið hefur í þjóðfélaginu og auðvitað er komin með okkur í aðrar eins ógöngur og raun er á, rýrnar verðgildi í krónutölu slíkra styrkja, þegar fram í sækir, ef við reiknum með því, að verðbólguþróun haldi áfram, og a.m.k. að svo stöddu munu flestir búast við því, að svo verði alla vega um næstu framtíð. En það, sem mér sýnist hljóta að vera mjög eðlileg túlkun á, hvernig endurgreiðslu verði hagað, er það, hve mikill hluti af stofnkostnaðinum hefur komið sem styrkur úr ríkissjóði, miðað við heildarkostnað mannvirkjanna, og þá um leið sama hlutfall af verðmæti þeirra, þegar styrkurinn verður endurkræfur, þ.e.a.s. þegar skólinn hættir starfi. Þá fæ ég ekki annað séð en það ætti að vera auðvelt að vita, hvað þetta er með þáverandi verðgildi.

Hitt skulum við líka athuga, að það geta komið upp önnur vandamál. Við skulum segja, að annar hvor aðilinn hafi lagt fé í bygginguna til endurbóta. Þá yrði að sjálfsögðu að taka það til athugunar, og ég veit, að þetta mun hafa orðið nokkurt vandamál í sambandi við slíkt uppgjör.

En ég vil enn undirstrika það, að ég tel, að sjálfstæði þessara skóla með þeim breytingum, sem gerðar eru á frv., hafi verið stórlega skert, og ég veit, að fyrir einmitt þeim aðilum, sem að rekstri þessara skóla standa, var lögð megináhersla á, að með löggjöfinni yrði sjálfstæði skólanna ekki skert. En því miður hefur svo farið í meðförum þingsins.