21.11.1973
Neðri deild: 26. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

78. mál, Seðlabanki Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst hlíða að segja nokkur orð, þegar um það er að ræða að breyta l. allra ríkisbankanna fjögurra, og aðeins hugleiða, hvort þörf er á þeim frv., sem hér er um að ræða.

Það er vitað mál, að bankaráð bankanna eru kosin af Alþingi, það eru 7 manna bankaráð, og allir þingflokkar eiga fulltrúa í bankaráðunum. Bankaráðin eru hinar réttu stjórnir ríkisbankanna, og sýnist vera, að bankaráðin hafi og geti ráðið flestu, sem fram fer í bönkunum. Þó hygg ég, að bankaráðin skipti sér ekki af daglegum rekstri. En þegar um framkvæmdir er að ræða, fjárfestingu, þá mun það vera borið undir bankaráð, hvort í framkvæmdirnar skuli ráðist eða ekki.

Ég geri ráð fyrir því, að þessi frv. öll séu flutt vegna Seðlabankans, vegna þess að Seðlabankinu ætlaði að fara að byggja stórhýsi hér í Rvík og er reyndar byrjaður á því. Ég hygg þó, að mótmælin gagnvart Seðlabankabyggingunni hafi ekki verið aðallega vegna hússins sjálfs, heldur vegna þess, hvar átti að byggja húsið. Þau mótmæli, sem ég heyrði helst um það, voru vegna staðsetningar hússins. Það voru margir, sem ekki vildu skemma Arnarhól, eins og sagt var, eða spilla útsýninu af Arnarhóli.

Mér hefur verið tjáð, að bankaráð Seðlabankans allt hafi samþykkt samhljóða að ráðast í þessa byggingu, fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Og þá er spurningin, hvort ríkisstj. hefði getað stöðvað þessa byggingu. Það er eðlilegt, að menn spyrji að því. Hæstv. forsrh. hefur svarað fsp. frá hv. 3. landsk. um það. Og hæstv. forsrh. — eins og fram kemur í grg. fyrir frv. — komst svo að orði: „Mitt svar er það, að ráðh., í þessu tilfelli viðskrh., sem fer með bankamál, hefur hvorki að óbreyttum l. né samkv. venju um starfshætti banka og bankaráða heimild til að stöðva byggingarframkvæmdir ríkisbanka.“ Ég hygg, að þetta sé alveg rétt, að skv. venju hafi hæstv. ráðh. ekki skipt sér af slíku og látið þetta gott heita. Ég geri ekki ráð fyrir því, að ráðh. hafi komið við sögu, þegar Búnaðarbankinn ákvað að byggja í Austurstræti, og ekki heldur, þegar ákveðið var að byggja stórhýsi við Hlemm. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. viðskrh. hafi heldur komið við sögu, þegar Landsbankinn byggði í Austurstræti og í Hafnarstræti og stórhýsi inn á Laugavegi. Og ég geri ekki heldur ráð fyrir, að hæstv. viðskrh. hafi komið við sögu, þegar Útvegsbankinn byggði stórhýsi sitt eða viðbygginguna miklu hér við Austurstræti. Nú er enginn í vafa um, að í dag eru þessar framkvæmdir allar álitnar góðar, og þær hafa verið nauðsynlegar fyrir þessa banka. Þess vegna er ekki um það rætt, og varð lítill hvellur út af þessum framkvæmdum, þótt oft hafi verið talað um mikla þenslu í bankakerfinu. En það hefur ekki verið sérstaklega vegna þessara stórhýsa, sem byggð hafa verið hér í Rvík, heldur einnig og ekki síður vegna útibúanna, sem hafa verið sett á stofn víðs vegar, bæði hér á Reykjavíkursvæðinu og úti um land. En útibú er tvímælalaust ekki hægt að stofna nema með samþykki ráðherra, þess ráðherra, sem fer með bankamál. Þótt oft hafi verið rætt um mörg útibú og þenslu í bankakerfinu hvað það snertir, þá hygg ég, að bankaútibúin séu þannig, að þau auki sjálfstæði og reisn þeirra byggðarlaga, sem þau eru í. Ég er alveg sannfærður um, að það vill ekkert hérað missa það útibú, sem það hefur fengið til sín. Það er enginn vafi á því, að bankaútibúin úti á landi eru lyftistöng fyrir héruðin. Það er byggðamál að flytja starfsemi bankanna út í sveitir og út í héruðin. Þess vegna er það, að stofnun útibúa hefur verið stórt og mikið framfaraspor og aukið fjármagn úti í byggðum landsins.

En það var þetta með Seðlabankann, sem er tilefni að flutningi þessa frv. Ég verð að segja, að ég er samþykkur hv. 3. landsk. um að ég tel ekki heppilegt nú á þenslutímum, þegar slegist er um hvern mann, bæði verkamenn og iðnaðarmenn, að þá ráðist sú stofnun, sem á að vera ráðgefandi í fjármálum og efnahagsmálum, í að byggja það stórhýsi, sem búið er að forma hér í Rvík. Það er áreiðanlega ekki rétt stefna. Það er vitanlega heilbrigðara að bíða með slíkar framkvæmdir, þangað til dregur úr spennunni og þangað til atvinna er annað hvort ekki allt of mikil eða kannske of lítil, eins og hún hefur stundum orðið, þegar árferði versnar. Þess vegna er það, að ég tel að hæstv. ríkisstj. hefði átt að fylgjast með í máli þessu. Ég vil ekkert fullyrða um það, að einn ráðh. hefði getað stöðvað þessa framkvæmd, t. d. bankamrh. En ég vil fullyrða það, að ríkisstj. í heild hefði getað gert það. Fulltrúar stjórnarflokkanna eru í meiri hl. í bankaráðinu, og það væri mikill klaufaskapur af hæstv. ráðh. þriggja flokka í ríkisstj., ef þeir gætu ekki haft áhrif á fulltrúa stjórnarflokkanna í bankaráðinu, ef þeir hafa leitast eftir því og viljað það. Það trúir því vitanlega enginn, að ef ríkisstj. í heild hefði lagst á eitt til þess að stöðva þetta mál og frestað því, að hún hefði ekki getað það. Það er hægt að segja það hér í hv. Alþingi, en það trúir því enginn maður, vegna þess að það er á valdi ríkisstj. í heild. Það er sennilega ekki á valdi eins ráðh., eins og l. nú eru. Einn ráðh. getur talað við fulltrúa síns flokks og áreiðanlega fengið hann á sitt band, en það er ekki á valdi ráðh. að hafa áhrif á fulltrúa hinna stjórnarflokkanna.

En svo veit ég, að margir hafa haldið, að það væri önnur bremsa á ónauðsynlegar framkvæmdir, sem hefði verið hægt að grípa til, úr því að hæstv. ríkisstj. brást, því að allt fram undir þetta hafa það verið hv. þm., sem hafa trúað því, að það væri eitthvað hægt að byggja á Framkvæmdastofnuninni og að hún reyndi að grípa til þeirra heimilda, sem henni eru gefnar í lögum. En hvernig var það með þessa stofnun, Framkvæmdastofnunina? Þeir vöknuðu af svefni og kipptust við, eftir að bankaráðið hafði samið við verktaka um framkvæmdir, og þremur vikum eftir að verktakinn hafði byrjað á framkvæmdum lét Framkvæmdastofnunin í sér heyra. Það mun nú margur hafa sagt: Þetta var henni líkt. Það var það, sem búast mátti við. — En það er ástæðulaust að fjölyrða öllu meira um þetta.

Ég tók til máls, vegna þess að ég vildi taka undir það, sem 3. hv. landsk. þm. hefur sagt, að það var ekki rétt að ráðast í Seðlabankabygginguna á þessu ári, þegar spennan er jafnmikil og hún nú er. Það er ekki rétt, að Seðlabankinn fari í kapphlaup við íbúðarhúsbyggjendur og framleiðslufyrirtæki og kannske yfirborgi beint eða óbeint verktökunum, vegna þess að það er slegist um þá. Ég veit, að allir hv. þdm. eru á sama máli og skilja þetta. Ríkisstj. áttaði sig of seint á málinu og að hún hefði alveg örugglega getað stöðvað málið, ef hún í heild hefði lagst á eitt til þess að gera það. Það má vera, að ríkisstj. hafi eitthvað byggt á fósturbarninu, óskabarninu, sem átti að vera, Framkvæmdastofnuninni, og verið andvaralaus þess vegna. Það má vera, að einhverjir hæstv. ráðh. hafi hugsað sem svo, að framkvæmdastofnunin léti málið til sín taka, stofnunin átti að vera á verðinum, og þeir hafi ætlað henni að grípa í taumana. Það má vera, að frv., sem hér liggur fyrir og hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram, um Hagrannsóknastofnunina, sé til orðið vegna vonbrigða um Framkvæmdastofnunina, vegna þess að hæstv. ráðh. hafi talið, að stofnunin hafi brugðist og það sé þess vegna mál til komið að fara að reyta fjaðrirnar af henni og undirbúa það, að hún verði lögð niður og annað sett í staðinn, sem verði nothæft hjálpartæki í efnahags- og fjárhagsmálum. Mér finnst ekki ósennilegt, að þetta geti verið ástæðan fyrir því, að hæstv. ríkisstj. gerði sér grein fyrir því, að Framkvæmdastofnunin, eins og hún nú er, dugir ekki, þess vegna þurfi að setja á stofn annað apparat, sem væri hægt að treysta betur.