14.11.1974
Efri deild: 7. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

42. mál, farmiðagjald og söluskattur

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það gleður mig sannarlega að sjá það, þó að leiðir hafi skilist milli fyrrv. flokksbræðra, þeirra hv. flm. þessa frv., Halldórs Ásgrímssonar, og hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, þá skuli engu að síður hugrenningatengsl þeirra á milli vera svo sterk sem raun ber vitni um því að í Nd. er einmitt einnig frv. svipaðs eðlis frá þeim þm. samtakanna, Ólafi Ragnari Grímssyni og Karvel Pálmasyni, þar sem þeir leggja til að söluskattur verði felldur niður af fólksflutningum með flugvélum innanlands. Þetta gleður mig sem sagt mjög, að þessi tengsl skuli ekki vera með öllu rofin. Vitanlega er, eins og vera ber, ábyrgðartilfinning hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar meiri en hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, því að hann ætlast þó til að eitthvað komi þarna í staðinn, þ.e.a.s. í stað niðurfellingar söluskattsins komi sérstakt farmiðagjald, en reyndar tekur fram einnig að það skuli renna til ákveðinna framkvæmda.

Án þess að gera þetta að frekari gamanmálum vil ég lýsa yfir stuðningi við megintilgang þessa frv. Sá megintilgangur er vissulega góðra gjalda verður. Hér er sanngirnismál á ferð, réttlætismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar alveg sérstaklega, og því ekki nema eðlilegt að það komi á dagskrá frá þm. þaðan.

Ég skal taka það skýrt fram hér, eins og ég hef oft áður gert, að ég tel söluskattinn yfirleitt öllum öðrum sköttum ranglátari. Yfirleitt tel ég að hinir óbeinu skattar séu ranglátari skattmeðferð heldur en hin beina skattlagning, þó að vissulega þurfi þar úr mörgu að bæta áður en hægt verður að tala um að beinir skattar komi réttlátlega niður að fullu og öllu. Hins vegar hefur mér verið gersamlega óskiljanlegur sá mismunur sem verið hefur á söluskattsinnheimtu í innanlands- og utanlandsflugi. Mér er sagt að þetta stafi af því að einhverjir milliríkjasamningar komi í veg fyrir það að hægt sé að leggja söluskatt á utanlandsferðir eða fargjaldið. Þó er vitað að miklu meiri hluti ferða innanlands en utanlands er nauðsynjaferðir. Því meiri ástæða væri vitanlega til þess að undanþiggja innanlandsferðir þessu rangláta skattformi, en taka þess í stað upp fullan söluskatt á utanlandsferðirnar. Við vitum hvort sem er að mikill hluti þessara utanlandsferða er óþarfur og aðeins til afþreyingar og skemmtunar og vart ástæða til þess að hlífa slíkum ferðalögum við svo sjálfsögðu gjaldi sem látið er dynja á þeim sem þurfa að ferðast hér innanlands nauðsynjaferðir, t.d. sér til heilsubótar og annarra nauðsynjaerinda.

Þessu var æ ofan í æ hreyft í tíð fyrrv. ríkisstj., að leggja söluskatt á ferðir til útlanda. Þá voru sömu svörin alltaf á reiðum höndum, þ.e.a.s. að einhverjir milliríkjasamningar kæmu í veg fyrir það að þetta væri leyfilegt. Nánari skýringar hef ég ekki á þessu og veit ekki sönnur þess hvort þarna hefur viðkomandi ráðuneyti og ráðherra haft að einhverju leyti rangt fyrir sér eða ekki. En sanngjarnt hefði þetta verið tvímælalaust.

Hér er lögð til ný leið og þá kemur auðvitað fram spurning um það hvort farmiðagjald af þessu tagi á utanlandsferðirnar brýtur ekki að einhverju leyti í bága við þessa margrómuðu milliríkjasamninga. Ég veit það sem sagt ekki. E.t.v. hefur hv. flm. kynnt sér það sérstaklega.

Hér er um að ræða mikla lækkun ferðakostnaðar innanlands, sérstaklega á þeim flugleiðum, sem lengri eru, og fagna ég því auðvitað alveg sérstaklega. Ég hefði þó kosið, ef það væri mögulegt og hv. flm. vildi á það fallast, að farmiðagjaldið á utanlandsferðirnar væri a.m.k. tífalt, ekki minna en tífalt á við það farmiðagjald sem lagt er á innanlandsferðirnar. Það er að vísu stórt stökk frá núverandi ástandi og ég játa, að mörgum, sem mikið þurfa að vera á flakki, þætti sjálfsagt þrengdur sinn kostur með þessu móti. Ég held að það væri sanngjarnt og væri til með það ásamt öðrum þm. að flytja um það breyt., ef þetta farmiðagjald er á annað borð heimilt, að þá verði farmiðagjaldið af utanlandsferðum a.m.k. tífalt á við innanlandsferðirnar.

Um beina ráðstöfun fjárins til flugvallagerðar er líka allt gott að segja. Ég styð hana eindregið. Við verðum þá að treysta því að sömu fjárveitingar og áður er reiknað með í fjárl. fáist áfram þrátt fyrir þennan nýja tekjustofn og hér sé um hreina viðbót að ræða. Þegar við hv. flm. erum búnir að sammælast um það vonandi að tífalda eða eitthvað í þá áttina farmiðagjaldið af utanlandsferðum, þá verði þarna kominn álitlegur tekjustofn sem ekki veitir af, eins og hann benti réttilega á, til þess að skapa betri aðstöðu í landinu fyrir flugsamgöngur yfirleitt.