09.05.1975
Efri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3715 í B-deild Alþingistíðinda. (2848)

224. mál, tónlistarskólar

Frsm. (Axel Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Það er alveg rétt sem síðasti ræðumaður tók fram, það er ekki skylda í dag að sveitarfélög styrki tónlistarskóla, því miður vil ég segja. En ég held þau geri það flest því að með því móti ná menn þó einum þriðja af kostnaði frá ríkissjóði. Og ég veit a. m. k. um það sveitarfélag sem ég er kunnugastur í að við höfum orðið að styrkja tónlistarskóla miklu, miklu meira en að einum þriðja, því að hann starfaði ekki í dag ef hann þyrfti að bera þriðjung kostnaðar af skólagjöldum.

Sú aths. sem kom frá Sambandi ísl. sveitarfélaga varðandi þetta mál var það í fyrsta lagi, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. tók fram, að greiðslurnar kæmu mánaðarlega og að starfsmennirnir gætu átt kost á því að gerast aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vegna þess að í smærri sveitarfélögunum eru ekki starfandi lífeyrissjóðir. Þetta eru þær óskir sem stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga lagði fram um málið nú.

Sveitarstjórn hefur auðvitað í hendi sér að neita að stofna þennan skóla eins og hún getur neitað að stofna skóla á skyldunámsstiginu í dag ef hún veitir ekki til þess fjármagn.