16.05.1975
Efri deild: 95. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4373 í B-deild Alþingistíðinda. (3646)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það er orðið nokkuð áliðið fundartíma, en það er víst ekki, svo að ég viti til, boðaður fundur fyrr en hálfellefu í fyrramálið í Sþ. svo að það er nægur tími enn til þess að ræða mál þess vegna.

Ég ræddi þetta mál nokkuð í nótt, þegar það kom hér fyrst til umr. í þessari hv. d., og benti sérstaklega á þá hættu sem ég taldi sem stjórnarmaður í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að fælist í því að leggja þessar skuldbindingar á sjóðinn án þess að nokkuð annað kæmi á móti. Ég tók mjög skýrt fram þá og endurtek enn á ný að þetta er réttlætismál, og ég vakti einmitt athygli á því og endurtek það enn á ný að ég vildi einnig að þær konur, sem tækju að sér kornabörn, fengju frí. Það er ekki hægt að kalla það fæðingarorlof, heldur frí á launum til þess að sinna sínum kornabörnum á fyrstu vikum eða mánuðum sem þau eru samvistum við þær. Og í nágrenni við okkur er þetta í gildi.

En það varð vissulega mikil breyting á frv. í n. þessarar hv. d. þegar hún lagði til að gildistöku laganna yrði frestað til 1. jan. n. k. því að hitt var að dómi sjóðsstjórnarinnar gersamlega ábyrgðarlaust. Þetta segi ég ekki vegna þess að þarna sé um að ræða ómerkt hlutverk, heldur vegna þess að í fyrsta lagi er fjárhagur Atvinnuleysistryggingasjóðs þannig gagnvart því meginhlutverki sem hann á að standa undir, þ. e. a. s. atvinnuleysistryggingabótum, að vegna þess eins væri mjög óskynsamlegt að samþykkja nýjar skuldbindingar á sjóðinn eins og ástatt er í dag án þess að á móti komi einhver tekjuöflun.

Í öðru lagi hefur það verið meining sjóðsstjórnarinnar að geta að einhverju leyti veitt lán til atvinnuuppbyggingar í sveitarfélögum og einstaklingsrekstri og öðru slíku. Það voru hugmyndir um að veita lán til hafna, til iðnaðar, til fiskiðnaðar, vatns- og hitaveitna, félagsheimila, þar er átt við orlofsheimili verkalýðsfélaganna sem á undangegnum árum hafa fengið lán úr þessum sjóði. Síðan eru hin umdeildu áhættulán sem eru veitt til staða, sem brýna ástæðu ber til að hlaupa undir bagga með.

Ég nefni hér nokkur atriði sem sjóðsstjórnin hafði í huga auk þess að sinna sinni frumskyldu, að geta greitt út atvinnuleysistryggingabætur er til slíks kæmi. Og það kom fram á fundi stjórnarinnar ásamt n. þessarar hv. d. í morgun, að í s. l. viku varð þegar hér í Reykjavík innan eins verkalýðsfélags um að ræða hálfrar millj. kr. bætur, innan verkakvennafélagsina Framsóknar, vegna þess að hér er atvinnuleysi vegna stöðvunar í tilteknum rekstri.

Þetta voru mín varnaðarorð í nótt um það að leggja ekki í þessar skuldbindingar — þó að þær séu vissulega þess verðar í sjálfu sér — leggja þær ekki á Atvinnuleysistryggingasjóð án þess að á móti komi einhverjir tekjumöguleikar til þess að tryggt verði að sjóðurinn geti staðið við þær skuldbindingar sem hann þó fyrst og fremst á að standa undir.

Í öðru lagi vakti ég athygli á því að ekki hefði verið haft samráð við aðila vinnumarkaðarins sem 1955 stóðu að því — og var það einn liður í lausn vinnudeilnanna þá — að stofna þennan sjóð. Þetta ákvæði hafði ekki fyrr en í morgun verið borið undir þá.

Varðandi meðferð mála hér á Alþ., eins og einhver hv. þm. kom hér inn á, get ég að vissu leyti verið sammála um að nú á síðustu dögum er þar um að mínu viti of hraðar afgreiðslur að ræða sem þýða of lítinn tíma til þess að kanna málin. En þetta er ekkert nýtt að mínum dómi. Þó að ég hafi ekki verið hér nema endrum og eins síðan 1963, þá er það held ég nokkuð algild venja að í síðustu viku þingsins geti þm. verið sammála um að þá sé um óæskilega hröð vinnubrögð á stundum að ræða.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. frsm., að það er í dag stór hópur kvenna sem nýtur þessara réttinda, þ. e. a. s. þær konur sem eru í störfum hjá opinberum aðilum. Og ég ítreka það mjög enn á ný að ég tel að það eigi að vera fleiri konur sem njóta þessara réttinda. En ég vil ekki deila við lækninn um það sem hann sagði hér að það væri vaxandi áhugi á því hjá ungum konum að skapa sér tækifæri í vaxandi mæli til að hafa börn sín lengur á brjósti. Það fer a. m. k. tvennum sögum af því og ég hef heyrt ýmsa menn hafa áhyggjur af því að hinar ungu konur í dag hefðu minni áhuga á slíku en þeirra formæður ég minni áhuga en vert væri. En það kemur ekki þessu máli alfarið við.

Ég hef hér vikið að því sem var eitt meginatriðið í aths. mínum s. l. nótt, þ. e. a. s. varað við stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég viðurkenni að hv. n. þessarar d. tók þetta til greina þó að hv. n. Nd. liti fram hjá þessu alvarlega atriði algerlega. Dagskrártill. okkar um að fela ríkisstj. að undirbúa frv. og leggja fram strax í upphafi næsta reglulegs þings, er að mínum dómi ekki til þess að fresta málinu, miðað við þá till. sem hv. heilbr.- og trn. þessarar hv. d. hefur nú þegar lagt fram. Ég ber það traust til ríkisstj. að hún muni standa að því að leggja þessa löggjöf fram.

Till. hv. 2. þm. Vestf. er á vissan hátt efnislega shlj. okkar till., nema hún kannske gengur enn þá lengra að því leyti til að við tökum ekki fram að öllum konum skuli tryggt fæðingarorlof. Það væri vissulega ákaflega gott að geta tekið stökkið allt í einu. Við vildum ekki leggja það til á þessu stigi. En ég fagna því ef það getur orðið niðurstaða könnunar og athugunar og undirbúningsstarfs ríkisstj., eins og hann leggur til í sinni till, Það, sem þá fyrst og fremst greinir á um, er að við höfum ekki, hinir 4 flm. dagskrártill., kveðið jafnfast að orði um að þarna skuli öllum konum skilyrðislaust og í einum áfanga vera tryggð þessi réttindi. Það var ekki tekið fram hjá okkur. Við höfðum málið opnara í báða enda en hér er kveðið á um. En til þess að lengja ekki umr. frekar en ástæða er til á þessu stigi og ef það er augljóst og liggur fyrir að ríkisstj. muni leggja fram og gera sínar ráðstafanir til þess að megintilgangi þessa lagafrv. verði náð, þá er tilganginum fyrst og fremst náð og með tilvísun til þessa munum við draga till. okkar til baka til 3. umr.