10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

59. mál, vegarstæði yfir Þorskafjörð

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti: Á undanförnum árum hefur verið mikið rætt um vegagerð yfir Þorskafjörð. Þetta hefur m.a. komið fram í því að sýslunefnd Austur-Barðastrandarsýslu hefur látið málið til sín taka, og með bréfi 4. júní 1973 tilkynnti sýslumaður barðstrendinga, Jóhannes Árnason, að sýslunefnd Austur-Barðastrandarsýslu hefði á síðasta aðalfundi sínum samþ. að beina þeim eindregnu tilmælum til samgrh., að hann láti fara fram hið fyrsta ítarlega könnun á vegarstæði yfir Þorskafjörð frá Stað á Reykjanesi að Skálanesi og að jafnframt verði gerð kostnaðaráætlun um verkið. Þetta segir í bréfi sýslumanns til samgrn.

Samgrn. mun hafa brugðist svo við þessari málaleitan að fela Vegagerð ríkisins þetta verk, að láta fara fram könnun á þessu vegarstæði.

Hér er um að ræða ákaflega mikilvægt mál á ýmsan hátt. Það er í fyrsta lagi um að ræða mikla samgöngubót fyrir allar meginbyggðir Vestfjarða. Það er um það að ræða að stytta veginn, sem nú liggur fyrir þrjá firði, Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð, og taka af tvo fjallvegi, Hjallaháls og Ódrjúgsháls. Þetta er enn fremur og af sömu ástæðum alveg sérstakt hagsmunamál fyrir þær byggðir sem liggja að þessu svæði, byggðir Austur-Barðastrandarsýslu.

Í sambandi við þetta mál hafa einnig komið upp hugmyndir um fiskrækt í þorskafirði og allt sýnir þetta hve mál þetta er stórt og mikilvægt.

Með tilliti til þess hefur mér þótt hlýða að bera fram þá fsp. til hæstv. samgrh., hvað liði könnun á vegarstæði yfir Þorskafjörð frá Stað á Reykjanesi að Skálanesi?