24.02.1976
Neðri deild: 63. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2120 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

140. mál, Líferyissjóður Íslands

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt um vandamál lífeyrisþega og þá alveg sérstaklega vandamál hinna óverðtryggðu lífeyrissjóða. Meginorsök þessa vanda liggur í augum uppi. Það er sú ofsalega verðbólga sem hrjáð hefur okkar þjóðarbúskap.

Eins og hv. frsm. þessa frv. um Lífeyrissjóð Íslands, hv. 6. landsk. þm., gat um er lífeyriskerfi landsmanna nú uppbyggt aðallega með tvennum hætti. Höfuðstoðir þess eru aðallega tvær. Það eru í fyrsta lagi almannatryggingarnar sem skiptast í grunnlífeyri og tekjutryggingu til þeirra sem litlar sem engar aðrar tekjur hafa en tryggingabæturnar, og svo í öðru lagi lífeyrissjóðirnir, en þeir skiptast hins vegar í verðtryggða og óverðtryggða lífeyrissjóði. Tryggingabætur þeirra, sem ekki hafa neitt annað en almannatryggingarnar og það litla sem fengist hefur úr óverðtryggðu lífeyrissjóðunum fram til þessa eru alls ófullnægjandi, eins og hv. frsm. tók fram áðan, og lífeyrir þeirra, sem eru í verðtryggðum lífeyrissjóðum annars vegar og óverðtryggðum hins vegar, er í svo hrópandi mótsögn og ójöfnuðurinn svo mikill að slíkt getur ekki gengið og verður að ráða bót á. Ég ætla ekki að fara að endurtaka nein dæmi hér um. Þetta þekkja allir hv. þm. og kom enda mjög lýsandi dæmi fram í framsöguræðu hv. 6. landsk. þm.

Í maímánuði 1969 gerðu almennu verkalýðsfélögin samninga um lífeyrissjóði. Það má segja að þar hafi í rauninni í fyrsta sinn verið gerðir almennir samningar sem náðu til verkalýðshreyfingarinnar í heild á þessu sviði. Á næstu árum þar áður hafði farið fram mikið umtal um lífeyrissjóði fyrir alla landsmenn og samin hafði verið ágæt grg. þar um af Haraldi Guðmundssyni. En hér var aðeins um umr. og undirbúningsvinnu að ræða. Á tímum þeirrar ágætu viðreisnarstjórnar varð ekkert úr framkvæmdum og verkalýðsfélögin, sem voru fyrst og fremst hlynnt hugmyndinni um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, sáu fram á að hér yrði ekki um neinar framkvæmdir að ræða. Allar framkvæmdir virtust ævinlega og alltaf í blámóðu fjarskans vegna þess að menn sáu ekki möguleika til að fjármagna slíkt kerfi. Því var það að verkalýðsfélögin sömdu um lífeyrissjóðina í maímánuði 1969.

Með þessum samningum má segja að lífeyrissjóðakerfið í landinu hafi í rauninni gjörbreyst og þá fyrst og fremst vegna þess að nú var tekin upp skylduaðild allra launþega að lífeyrissjóðum. Þegar skylduaðildin var komin hefur komið í ljós, sem að sjálfsögðu var sjáanlegt, að sjóðasöfnun mundi verða mjög mikil, enda hefur orðið svo að það skiptir milljörðum á ári sem safnast í sjóði lífeyrissjóðanna og þessi þáttur er nú orðinn einn ríkasti þátturinn í sparifjársöfnun landsmanna. Samhliða samningunum um lífeyrissjóðina var einnig samið um að koma skyldi sérstakur lífeyrir til aldraðra í stéttarfélögum, þeirra sem sjáanlegt var að aldrei gætu notið lífeyrissjóðanna. Þessi lög eru nr. 63 frá 1971. Á þessu ári er gert ráð fyrir að varið verði í þessar sérstöku lífeyrisgreiðslur sem nemur röskum 200 millj., og það var ráðstöfun ríkisstj. á sínum tíma, þegar þessi lög voru seti, að Atvinnuleysistryggingasjóður skyldi greiða 3/4 af þessum kostnaði og ríkissjóður 1/4.

Allt frá stofnun þessara almennu lífeyrissjóða, en þeir tóku til starfa 1. jan. 1970, hefur það blasað við að þeir mundu verða alls ómegnugir að standa undir viðunandi lífeyrisgreiðslum vegna þess hve hin mikla verðbólga hefur gjörsamlega brennt upp fjármuni þeirra ár frá ári.

Verkalýðsfélögin hafa á tímanum frá því að samið var um lífeyrissjóðina oftlega gert ályktanir um að gera þyrfti ráðstafanir til að verðtryggja þá, og í samningunum, sem gerðir voru við atvinnurekendur 1974, var það yfirlýsing beggja aðila að vinna á samningstímabilinu að verðtryggingu lífeyrissjóðanna með einhverjum hætti

Um þetta mál hefur verið æðimikið fjallað og nú undanfarin 3–4 ár hefur verið starfandi á vegum fjmrn. sérstök nefnd, allfjölmenn, sem hefur haft það verkefni að ræða þessi mál og raunar æðimikið meira. Hún hefur verið umræðuvettvangur líka varðandi sérstaka ráðstöfun á fé lífeyrissjóðanna til karpa á verðbréfum og ýmislegt fleira. þessi n. hefur safnað ýmsum gögnum sem að gagni geta komið fyrir hverja þá sem að þessum málum vinna.

Varðandi verðtryggingu lífeyris hefur fyrst og fremst verið rætt um tvær leiðir: annars vegar verðtryggð útlán úr sjóðunum, kaup á verðtryggðum bréfum ríkissjóðs, og svo hins vegar að taka upp gegnumstreymiskerfið svokallaða, þ.e.a.s. að nota peningana á meðan þeir halda verðgildi sínu. Það mætti tala langt mál um þessar tvær leiðir eð a hvora fyrir sig. En það ætla ég ekki að gera að þessu sinni, en aðeins minna á að um hina svokölluðu verðtryggingarleið, þ.e.a.s. með verðtryggðum útlánum bæði til sjóðfélaga, til atvinnuvega og ríkisins, vakna margar spurningar og þá kannske fyrst og fremst sú spurning, hvaða bagga við erum að binda framtíðinni með slíkri leið. Mundu þeir, sem við eiga að taka, verða okkur mjög þakklátir fyrir að hafa farið þessa leið. Þetta held ég að sé spurning sem er skylda hvers einasta manns að velta fyrir sér og þá ekki hvað síst hv. alþm. Það má spyrja hvort sjóðfélagarnir, sem fá lán til íbúðarbygginga, íbúðarkaupa, standi undir verðtryggðum lánum frá lífeyrissjóðunum til viðbótar þeim verðtryggðu lánum sem þeir nú verða að taka hjá Byggingarsjóði ríkisins. Í öðru lagi: Er ástand atvinnuveganna slíkt að þeir standi undir fullverðtryggðum lánum úr fjárfestingarsjóðum. Og síðast, en ekki síst mætti kannske spyrja hvernig ríkisstj. ætli að fara að því að standa skil á stöðugt auknum verðbréfasölum með fullri verðtryggingu, eins gert hefur verið nú undanfarið.

Hins vegar varðandi gegnumstreymiskerfið, sem svo hefur veríð nefnt og er eiginlega andstæða sjóðjöfnunarkerfisins, er óhætt að fullyrða að með fjármagni almannatryggingalaganna, eins og það er nú, og lífeyrissjóðanna mætti strax veita landsmönnum viðunandi lífeyristryggingar sem væru í samræmi við verðlag og kaupgjald á hverjum tíma, en það er auðvitað það markmið sem lífeyristryggingar verða að hafa.

Með því frv., sem hér liggur fyrir, frv. til l. um Lífeyrissjóð Íslands, er gerð virðingarverð tilraun til að benda á lausn þessa mikla vandamáls og ég vil strax lýsa því hér yfir að ég er fylgjandi þeirri meginstefnu sem mörkuð er með þessu frv., þ.e. að taka upp gegnumstreymiskerfið og að myndaður verði einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn sem greiði verðtryggðan lífeyri. Ég hygg, að meginþorri forustumanna í verkalýðshreyfingunni sé þessarar skoðunar.

Ég vil í þessu sambandi geta þess að alþb.- menn hafa æði oft hreyft þessum málum hér á hv. Alþ. En alveg sérstaklega vil ég geta framlags fyrrv. trmrh., hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, en í ráðherratíð sinni gerði hann ráðstafanir til að unnið yrði að lagasetningu um lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn.

Ég ætla ekki hér eða nú að ræða einstaka þætti þessa frv. Það þarf í meðferð þingsins að fá rækilega skoðun og nákvæma. Sannarlega á þetta frv. það skilið að þn. skoði það vel, og ég vænti þess að það fái þá meðferð sem efni standa til, en ég tel þetta eitt merkasta þmfrv. sem býsna lengi hefur komið fram hér á hv. Alþ.

Hins vegar liggur í augum uppi að þetta frv. svarar ekki öllum spurningum, og ég veit að hv. flm. er það einkar ljóst. Starf lífeyrissjóðanna hefur verið tvíþætt: Í fyrsta lagi, og það er að sjálfsögðu höfuðverkefni lífeyrissjóðanna og má aldrei gleymast, að standa undir viðunandi lífeyrisgreiðslum. Þetta er að sjálfsögðu frumverkefni lífeyrissjóðanna. Hins vegar hafa þeir haft með höndum viðtæka lánastarfsemi og þó einkum og sér í lagi til sjóðfélaganna til þess að standa undir hvers konar íbúðarkostnaði. Enn fremur vil ég geta þess að í samningunum 1974 var beinlínis um það samið við þáv. ríkisstj. að 20% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna skyldu renna til þess að kaupa verðbréf Byggingarsjóðs, verðtryggð, gegn því að unnið yrði að tilteknum íbúðabyggingum á félagslegum grundvelli. Núv. ríkisstj. hefur — gerði það í fyrravetur þegar við þá stóðum í samningum - lýst því yfir að hún muni standa við þessa yfirlýsingu fyrrv. ríkisstj., þó með fyrirvara um fyrirkomulag lána, þannig að ég vonast til þess að þetta verði ekki pappírsplaggið eitt og staðið verði við þessa yfirlýsingu þó að við sjáum ekki enn neitt af framkvæmdum í því efni. En verði ekki svo munu lífeyrissjóðirnir að sjálfsögðu endurskoða afstöðu sína til þeirrar yfirlýsingar sem gefin var um kaup á verðbréfum.

Ef tekið verður upp gegnumstreymiskerfi er augljóst að þessi þáttur í starfi lífeyrissjóðanna fellur niður. Þá verður að sjálfsögðu að gera aðrar og fullnægjandi ráðstafanir til þess að fyllt verði í það mikla tómarúm sem þá myndaðist varðandi fjármögnun, einkanlega íbúðabygginga. En að sjálfsögðu hafa lífeyríssjóðirnir með hinni miklu fjársöfnun, sjóðsöfnun, staðið undir margs konar öðrum framkvæmdum í landinu vegna þess hve stór þáttur hún er orðin í sparifjársöfnuninni.

Ég held að það sé alveg augljóst, að ef þetta kerfi verður upp tekið svo sem ég álit að eigi að gera, sé ekki hugsanlegt að nema aðeins örfáir af þeim lífeyrissjóðum, sem nú eru til í landinu, geti haldið áfram lánastarfsemi til sjóðfélaga, nema þá með einhverjum sérstökum ráðstöfunum. Þeir sjóðir, sem stofnaðir voru með samningunum 1970, mundu ekki á neinn hátt geta staðið undir áframhaldandi lánastarfsemi. Þetta liggur ljóst fyrir og þetta er einn sá þáttur þessa vandamáls sem að sjálfsögðu verður að skoða í leiðinni, vegna þess að það er ekki hægt að láta verða þarna ófyllt skarð. Þetta tvennt yrði að haldast í hendur: að taka upp nýtt kerfi lífeyristrygginga sem tryggði lífeyrisþegum fullnægjandi bætur, verðtryggðar bætur, og eins hitt, að séð yrði fyrir fjármagni til íbúðabygginga, alveg sérstaklega, í stað þess sem lífeyrissjóðirnir hafa gert á því sviði til þessa.

Í þeim samningaviðræðum, sem nú hafa staðið yfir, hafa lífeyrissjóðirnir og mál þeirra verið býsna ríkur þáttur. Þau mál hafa verið afgreidd núna. En það er auðvitað öllum ljóst að framtíðarlausn þeirra mála getur ekki orðið nein skyndiákvörðun og verður ekki gerð í einni svipan.

Það samkomulag, sem gert hefur verið í samningnum núna, felur aðallega í sér tvennt, eins og hv. flm. kom inn á áðan. Það er í fyrsta lagi frambúðarmarkmið, en það er hins vegar ekki neitt nákvæmlega markað, mjög rúmt. Höfuðatriðið í því er að helst öllum landsmönnum verði tryggður viðunandi lífeyrir sem væri í beinum tengslum við verðlag og kaupgjald á hverjum tíma. Þetta er eitt grundvallarmarkmiðið sem aðilar hafa komið sér saman um að stefnt skuli að með því starfi sem lagður er grundvöllur að einnig í þessu samkomulagi. Þar er gert hvort tveggja, að aðilar setja á stofu n. af sinni hálfu, sem gert er ráð fyrir að starfi síðan með eða verði hluti af n. sem ríkisstj. skipi til þess að vinna að þessum málum, og sett upp einnig starfsáætlun og við það miðað að hið nýja lífeyriskerfi geti tekið gildi 1. jan. 1978. Hins vegar er svo lausn til bráðabirgða sem ég ætla ekki að fara að rekja nákvæmlega hér, en hún felur í sér, þessi lausn, meginstefnu. Það má segja að í þeirri lausn felist nokkur meginatriði. Það er í fyrsta lagi að sá viðbótarlífeyrir, sem gert er ráð fyrir að komi úr lífeyrissjóðunum, verði verðtryggður, verði í beinum tengslum við kaupgjald og verðlag á hverjum tíma. Og í öðru lagi er sú meginstefna mörkuð að lífeyrissjóðirnir taki sameiginlega á sig meginhluta þess kostnaðar sem hér er um að ræða. En eins og hv. frsm. tók fram áðan er aðstaða lífeyrissjóðanna í þessum efnum ákaflega misjöfn. Sumir lífeyrissjóðir eru með mikið af ungu fólki. Aldursskipting er sem sagt ákaflega misjöfn. Aðrir sjóðir hafa hins vegar mikið af öldruðu fólki innan sinna vébanda. En án tillits til þessarar skiptingar taka lífeyrissjóðirnir nú allir eða flestir á sig þennan viðbótarkostnað sameiginlega. Ég vil geta þess að hv. flm. þess frv., sem hér er til umr., átti góðan hlut einmitt að lausn þessara mála.

Til þess að þessi viðbótartrygging frá lífeyrissjóðunum komi að notum verður hins vegar að breyta almannatryggingalögunum hvað varðar tekjutrygginguna. Það verður að hækka þau mörk sem eru nú fyrir þeim frjálsu tekjum sem menn mega hafa án þess að tekjutryggingin skerðist. Samkomulag er um að þetta hækki nú í 10 þús. kr. á mánuði eða 120 þús. kr. á ári fyrir einstakling og fyrir hjón 14 þús. kr. á mánuði eða 168 þús. kr. á ári, þannig að hér er um verulega rýmkun að ræða sem tekur til allra án tillits til þess á hvern hátt teknanna er aflað. Hér er sjáanlega um að ræða nokkurn kostnaðarauka áreiðanlega fyrir ríkissjóð, vegna þess að það verða fleiri sem komast undir tekjutryggingu með þessu móti heldur en nú er. Það er rétt að geta þess að tekjutryggingin er nú fyrir einhleypa, ef ég man rétt, 46 þús. kr. á ári og eitthvað rétt um 80 þús. fyrir hjón, þannig að þetta hækkar allverulega. Að vísu er það rétt að þessir samningar eru ekki enn þá undirskrifaðir frekar en annað í samningamálunum þó að samkomulag sé orðið um það, og einnig eru yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj. um að hún muni flytja þau frumvörp sem á þarf að halda til að þessi mál nái fram að ganga og nái markmiði sínu.

Allt þetta er í fullu samræmi við þá meginstefnu sem felst í frv. sem hér er nú til umr., þannig að það er, má segja, áfangi á þeirri leið sem mörkuð er sem meginstefna með þessu frv. Ég veit að ýmis atriði þessa frv. geta orkað tvímælis, en eins og ég sagði áðan, þá ætla ég ekki að fara inn á að ræða neitt einstök atriði þess, heldur einvörðungu þá meginstefnu sem í því felst.

Ég vil svo að lokum leggja áherslu á það að hér er um stórmál að ræða og jafnframt mjög fjölþætt mál og vandasamt úrlausnarefni. Það er augljóst að það verður ekki leyst nema þar komi til margir aðilar, því að svo margþætt er málið, og mætti þar nefna margt til sem ég ætla ekki að gera núna. En ég vil aðeins endurtaka fylgi mitt við þá meginstefnumörkun sem í þessu frv. um Lífeyrissjóð Íslends felst.