02.03.1976
Sameinað þing: 59. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2298 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

178. mál, veiting prestakalla

Geirþrúður H. Bernhöft:

Herra forseti. Ég vil taka það strax fram, að ég fagna þeirri till. sem hér er fram komin og tel það vissulega tímabært og hefði mátt vera mun fyrr. Ég er mjög fylgjandi því að þetta mál nái fram að ganga og er algjörlega sammála flm., hv. 2. þm. Vesturl., þeim málflutningi sem hann flutti hér, og tel því ekki mikla ástæðu til að endurtaka það.

Allir hv. þm. vita og þarf því ekki að lýsa, að prestkosningar eru slagur. Í þéttbýlinu er slagurinn verstur. Af ýmsum ástæðum hlýtur það að gerast, hjá prestum eins og öðrum opinberum starfsmönnum, að þeir kjósa kannske að skipta um og vera ekki alla ævi í starfi á sama stað. Ekki er hægt að setja neitt út á það. Þetta er lífsins gangur og getur ýmislegt orðið þess valdandi. En prestkosningar, eins og þær eru í dag, ýta undir ósamkomulag, sundurlyndi, rógburð og ósannindi. Þær ýta oft undir það lægsta sem í hverjum manni býr. Er mér hulin ráðgáta að stór hópur manna skuli geta verið sammála um að slíkt sé æskilegt. Sérstaklega vil ég benda á að prestar eru einu ríkisstarfsmennirnir sem þurfa að standa í slíkum slag er þeir sækja um embætti. En þeir eru einnig einu ríkisstarfsmennirnir sem eiga að vinna að sáttfýsi og umburðarlyndi. en verða að hefja starfið með því að koma öllu í bál og brand. Ég tel að þau lög, sem nú eru ríkjandi, séu svo algjörlega í andstöðu við starfið sjálft að teljast megi furðulegt að maður, sem á fyrst og fremst að boða fagnaðarerindið, stuðla að sáttfýsi, umburðarlyndi, góðri samvinnu og skilningi í sinni sókn, hann sé skyldugur til að setja allt á annan endann áður en hann byrjar í starfi. Og hugsið ykkur þann unga mann sem nær svo kosningu. Hann þarf að byrja á því að sætta alla þá sem urðu óvinir einungis vegna hans. Þetta er ekki til neins staðar í sambandi við önnur störf, og er það gott. Ég er hræddur um að það væru margir sem vildu sækja um ýmis önnur störf ef byrjunin væri svona. Jafnvel helmingurinn af kjósendum og kannske meira hafa kosið annan mann og hafa unnið að því baki brotnu í langan tíma að koma einhverjum allt öðrum manni að. Þar af leiðandi má segja að þeir verði að bíta í það súra epli að taka við manni sem þeir alls ekki vildu fá. Ástæðurnar til þess, að þeir vildu hann ekki, geta svo verið margar, eins og frsm. lýsti áðan.

Hv. 2. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Vesturl. höfðu dálítið undarlegan málflutning frá mínu sjónarmiði séð. Það var eins og þeir væru að ræða um að kjósa það sem kallað var hér áður fyrr „altmuligmand“, en alls ekki prest. Mér finnst það enginn ljóður á presti að hann sé hagur maður og verkfær o.s.frv. Það hlýtur að vera kostur við hvern mann að hann sé fjölhæfur. En að það sé verið að kjósa mann til prestsembættis af því hann sé kannske mjög duglegur að gera við báta og vélar og ýmislegt annað, því get ég ekki verið sammála. (Gripið fram í.) Ég tók það fram, það sakar ekki, það sakar engan að vera fjölhæfur.

Ég vil eindregið styðja þessar þáltill. Þetta er aðeins till. til þál. og hér er farið fram á að Alþ. kjósi 7 manna n., þingmannanefnd. Þykist ég vita hvert verkefni hennar eigi að vera, og það hlýtur öllum að vera ljóst. Ég styð þetta mál eindregið og vona að Alþ. beri gæfu til að samþ. einnig frv. þegar það sér dagsins ljós.