26.11.1975
Sameinað þing: 23. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

80. mál, samkomulag við Sambandslýðveldið Þýskaland um veiðar þýskra togara

Björn Jónsson:

Herra forseti. Núna undanfarna klukkutíma hefur hver af öðrum hv. þm. stjórnarflokkanna lýst kostum, en þótt undarlegt megi virðast aðallega ókostum þeirrar þáltill. sem hér liggur fyrir. Og einhvern veginn er það svo, að þeim hefur gengið afskaplega illa að koma auga á kostina þó að þeir hafi allir talað sig að lokum niður á það plan að þeir ætluðu að fylgja þessu gegnum þykkt og þunnt.

Mig undrar það ekki, ég er ekki hissa á því þó að hv. þm. Helgi Seljan, sem hefur átt tiltölulega skamma setu hér á hv. Alþ., sé ofurlítið hissa á þessu. Mér er ekki eins farið og honum um það. Ég undrast þetta ekki. Það vill nefnilega svo til, að þó að ég sé hér nú sem íhlaupamaður, þá sat ég hér áður fyrr 19 þing og sú reynsla, sem ég hafði af því, hún drap í mér möguleikann til þess að verða hissa.

En þrátt fyrir þetta hef ég reynt eftir bestu getu í gegnum þær að vissu leyti þokukenndu umr., sem hér hafa farið fram, að gera mér grein fyrir því af umr. m. a., hvaða rök á báða bóga séu af því tagi að það taki því yfirleitt að gera þau að umtalsefni.

Ég vil þá fyrst nefna það, af því tagi sem frá stjórnarþm. og ráðherrum hefur komið sem þeir bera fram sem afsökun sína fyrir þessari þáltill. og því að þeir vilji fara samningaleiðina sem aðalbaráttuaðferðina, ekki samninga um alger bráðabirgðaúrræði, um lítið aflamagn, heldur um stórfelldar undanþágur til fiskveiða innan okkar landhelgi. Og fyrsta ástæðan, sem þeir bera fram og ég tel vert að skoða, er sú, að þeir segja: „Við getum ekki varið landhelgina.“ Í öðru lagi segja þeir að orðstír okkar á alþjóðavettvangi velti á því að við sýnum svokallaða sanngirni. Og í þriðja lagi að við mundum spilla niðurstöðum hafréttarráðstefnunnar ef samningaleiðin væri ekki farin. Af þessum ástæðum verðum við að ganga lengra en afkoma okkar og möguleikar í raun og veru þoli. Ég held — og það er mín sannfæring — að allar þessar ástæður séu órökstuddar með öllu.

Varðandi vörslu landhelginnar hef ég fyrir mér persónulegt viðtal við þann mann sem einna frækilegasta framgöngu hefur sýnt í vörn landhelginnar, og þar sagði hann að með nokkurri aukningu þess flota, sem landhelgisgæsluna skipar, þ. e. a. s. ef til vill 4–6 togurum sem við höfum handbæra og hentuðu vel til vörslunnar, þá væri hægt að verja landhelgina allt að 100% fyrir öllu nema beinni herskipaíhlutun. Þetta hefur staðfest af reynslunni. Þessi sami skipherra rak á nokkrum klukkutímum 35 breska togara út úr landhelginni norður af Melrakkasléttu ekki alls fyrir löngu, og í Morgunblaðinu sá ég annaðhvort í dag eða gær — ég man nú ekki hvort var heldur — með stórri fyrirsögn letrað að varðskipið Týr hefði hindrað 15 togara frá veiðum. Enn fremur vil ég gjarnan í þessu efni vísa til ummæla breskra fiskiskipstjóra um að dráttarbátarnir væru vitagagnlausir og hótuðu því að gefast upp á Íslandsmiðum við tilraunir til veiða ef ekki kæmi til herskipaverndar.

Nú er mér spurn í fyrsta lagi, af því hér er verið að tala um samninga við þjóðverja: Geta þessi rök um landhelgisvörsluna gilt að nokkru leyti gagnvart þjóðverjum? Við skulum sleppa bretum nú í bili og taka það fyrir aðeins síðar. Nei mér finnst það algjörlega fráleitt. Ég held að forsaga þjóðverja sé slík og minningarnar frá styrjöldinni, þar sem nasisminn æddi brennandi, eyðandi og drepandi um alla Vestur-Evrópu og raunar miklu víðar, það sé svo skammt liðið frá þeim tíma að þýsk stjórnvöld og allra síst þau stjórnvöld, sem nú fara með völdin í Þýskalandi, mundu ekki svo mikið sem þora að miða leikfangabyssu að varðskipunum okkar, þegar þau væru við vörsluna. Ég slæ því algerlega föstu að herskipabeiting af hálfu vestur-þjóðverja kemur ekki til greina, og þar með er því í raun og veru líka slegið föstu, að við getum varið landhelgina 100% gegn þeim ef henni er beitt.

Hitt vitum við, eins og hér hefur komið fram, að landhelgisgæslunni er stjórnað úr landi og það eru æðstu menn hennar sem bera ábyrgð á því að þjóðverjar hafa getað veitt þó það magn sem þeir hafa gert hér að undanförnu. En þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir vissu um það, sem hlýtur að vera í hugum þeirra sem hafa staðið að þessum samningum, að við getum hindrað allar veiðar þjóðverja innan 200 mílna markanna, þá á að auka veiði þeirra innan fiskveiðimarkanna frá því sem verið hefur, þ. e. a. s. að innan 200 mílnanna munu þeir fiska meira en þeir fiskuðu áður innan 50 mílna lögsögunnar.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það er verið í raun og veru að færa landhelgina inn. Og ég vil nú biðja menn að íhuga hvað hefði verið sagt þegar við færðum út í 12 mílurnar ef þá hefðu verið gerðir samningar innan 4 mílnanna. Ætli það hefði ekki þótt ofurlítið einkennileg ráðstöfun, svo að ekki séu viðhöfð stærri orð? Nú skeður það, um leið og við erum að færa landhelgina út í 200 mílur, þá eru leyfðar veiðar allt inn að 23 mílum, en það væri hliðstætt því að við 12 mílna útfærsluna hefðu verið gefnar undanþágur upp að 2 eða 3 mílum. Mér er spurn um það hvort eitthvað slíkt hafi verið í hugum manna þegar þeir voru að fagna 200 mílna útfærslunni. Átti sú þjóðareining, sem þá var kallað á, að verða um eitthvað líkt þessu?

Þá vil ég aðeins víkja að bretum og stöðu þeirra. Ég vil í fyrsta lagi segja það, að þjóðin stendur auðvitað algerlega einhuga — eða það vona ég að ég geti fullyrt úr þessum ræðustól — gegn ofbeldi þeirra. Það mun mælast illa fyrir, ekki aðeins á Íslandi, heldur einnig í Bretlandi sjálfu og og enn verr kannske út um allan heim. Ég held þess vegna að þeir muni gefast upp á því fyrr en síðar, þó ekki kæmi til annað en almenningsálitið í heiminum. Og auk þess er vitað að veiðar undir herskipavernd verða erfiðar og ótrúlega óhagstæðar.

Ég held þess vegna að gagnvart þeim, þ. e. a. s. ef ekki á að fara sömu leiðina og með þjóðverja, sem ég vil í lengstu lög vona að verði ekki gert, þá sé það spurning um tíma og jafnvel stuttan tíma hvenær bretarnir gefast upp á því ofbeldi sem þeir eru nú að byrja á gagnvart okkur.

En þá kemur líka spurningin í hugann: Höfum við engin vopn gegn bretum?

Það er auðvitað hverjum manni auðsætt að við getum ekki á nokkurn hátt gert okkur vonir um að hafa afl við þá í sambandi við okkar varðbáta og þeirra freigátur. Þar hljótum við að verða undir, þegar þessum drápstækjum þeirra er beitt gegn okkar tiltölulega litlu bátum. En við eigum ýmis önnur vopn. Við eigum pólitísk vopn sem við getum beitt ef við þorum og viljum. Í yfirlýsingu hæstv. forsrh. í gær sagði hann að vera beggja þjóðanna undir slíkum kringumstæðum í N ATO gæti ekki samræmst því ofbeldi sem bretar væru nú að hefja. Ég vona að þessi yfirlýsing hafi þýtt meira en orðin tóm og það verði staðið við hana og bretum og öðrum NATO-ríkjum gerður sá kostur að annaðhvort hypji þeir sig úr landhelginni eða þá við segjum okkur jafnskjótt úr NATO. Við getum líka, eins og fram hefur komið, slitið stjórnmálasambandi við breta, sem ég tel sjálfsagt ef þeir koma með her inn í okkar landhelgi. Við getum lokað herstöðinni. Við getum sett viðskiptabann á þá og við getum sett hafnbann á breskar vörur. Það er enginn íslenskur verkamaður skyldugur til þess að skipa upp einni einustu vöru sem frá Bretlandi er ættuð, og ef framhald verður á ofbeldi þeirra, þá verður það vissulega athugunarefni fyrir rétta aðila.

Ég fullyrði ekki nú á þessari stundu hvenær og hvernig á að beita þessum vopnum, en það er fásinna að láta sem þau séu ekki til og geti engin áhrif haft í okkar baráttu. Og ég er sannfærður um það, að ef þessum vopnum er teflt fram af sæmilegu hugviti, þá getum við hreinsað íslenska landhelgi af breskri ásælni fyrr en okkur kannske flesta grunar. Við verðum að vísu að gera ráð fyrir því að við getum átt erfiða tíma um skeið. En ég er sannfærður um að baráttan mun færa okkur sigur ef valdsmennirnir tefla rétt og bregðast ekki þeim þjóðarvilja sem nú er óðum að skapast í sambandi við þetta mál.

Þá er í öðru lagi röksemdin um áhrifin á þróun hafréttarmála. Það hefur lengi verið vitað, að það er veruleg hætta á því að jafnvel þó að 200 mílna efnahagslögsaga verði gerð að alþjóðalögum, þá fylgi því ýmisleg skilyrði, t. al. varðandi svokallaðan sögulegan rétt, sem Haagdómstóllinn að vísu með illa eða órökstuddu máli taldi vera fyrir hendi fyrir vestur-þjóðverja og breta. En mín skoðun er sú að þetta fordæmi hafi aldrei verið fyrir hendi. Hins vegar með því að veita nú mjög miklar og stórfelldar undanþágur frá okkar fiskveiðimörkum, þá sýnist mér að við séum að bjóða heim þeirri hættu, sem er stórkostleg fyrir okkur, að aftan í hugsanleg ákvæði um 200 mílna almenna efnahagslögsögu verði hengd ákvæði um svo og svo mikil réttindi til þeirra þjóða sem áður hafa veitt á tilteknum svæðum.

Mér þykir það hart ef við með einhverjum hætti gripum til þess slæma ráðs, vægast sagt, að fara að viðurkenna slíkan rétt, vegna þess að hann er ekki til. Við vitum að til þess að hefð skapist, sem gefur einhvern rétt, þarf viðkomandi verknaður að hafa átt sér stað um mjög langan tíma, ósundurslítið og án mótmæla. Engu slíku er til að dreifa, hvorki gagnvart bretum né vestur-þjóðverjum. Þeir uppfylla hvorugt þessara almennu alþjóðlegu skilyrða til þess að hafa getað skapað sér nokkra hefð.

Auk þess verðum við að hafa það í huga, að þrátt fyrir það að Haagdómurinn væri okkur ekki hagstæður, heldur þvert á móti, þá er strax með því uppkasti, sem hér er gert að samningum við þjóðverja, gengið verulega lengra en gert er ráð fyrir í forsendum Haagdómstólsins, en þar segir að ef lífshagsmunir strandríkisins krefjist, þá hafi þeir forgang umfram þá sem kunna að hafa einhvern hefðarrétt. Og ef við höfum ekki rökin fyrir því nú, að lífshagsmunir okkar liggi við um að verja okkar landhelgi, þá verð ég að segja það að við erum illa á vegi staddir, — ef við viljum ekki aðeins lúta ábendingum Haagdómstólsins svokallaða, dómur var það ekki, heldur áskorun eða ábending og á því er geysilega mikill munur, sem oft hefur komið fram, og málið þannig flækt og falsað. En hér er tvímælalaust um það að ræða, að við erum að ganga lengra en þessi svokallaði Haagdómur gerði ráð fyrir að réttur breta og vestur-þjóðverja næði.

Þetta voru örfá orð um þau rök talsmanna þáltill. sem ég tel þess eðlis að það sé nauðlegt að skoða þau niður í kjölinn, og mín niðurstaða er sú sem ég nú hef greint frá.

Á hinn bóginn eru svo rök okkar sem ekki erum mjög samningsfúsir og höfum reyndar sagt við þau skilyrði sem nú ríkja í þessum málum að við vildum enga undanþágusamninga. Ég fyrir mitt leyti vil þó taka fram, að ég tel að þetta beri ekki að túlka á þann veg að það væri ekki fræðilegur möguleiki að sýna okkur samninga sem við mundum hika við að neita. Ég tel að það yrði að meta, en það yrðu þá að vera samningar á allt öðru stigi en þeir sem hér er um að ræða. Við gerum það auðvitað ekki að gamni okkar að standa í deilum, og við mundum sjálfsagt vilja vinna eitthvað til að geta haft frið á okkar fiskimiðum, jafnvel þó að það kostaði okkur einhverjar algerar bráðabirgðaundanþágur í nokkrar vikur eða nokkra mánuði. Ég held að sé ekki vafi á því. Hitt er svo annað mál, að þetta kjörorð okkar hefur skapast við þau skilyrði að ekkert hefur verið um að ræða af hálfu stjórnvalda annað en stórkostlegar ívilnanir sem varða þjóðarhag milljarða og það jafnvel margra milljarða árlega og mundu skerða rétt okkar óbærilega um langan tíma.

Það er enginn vafi á því, að með þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, eru þjóðverjum í fyrsta lagi boðin 60 þús. tonn á ári í 2 ár, en það samsvarar ársafla 40 íslenskra togara með 3000 tonna afla, sem ekki verður að telja ólíklegan eins og sakir standa þó að aflamagnið verði trúlega ekki svo mikið þegar frá líður.

Hattersley hinn breski spáði því í dag samkv. fregnum breska útvarpsins að samningar mundu geta tekist við íslendinga um 90–95 þús. tonn. Ég vona að hann hafi ekki verið sannspár í þessu. En tilboðin, eins og þau standa, segja mér sem manni sem stundum hefur tekið þátt í samningum að það hljóti að vera stefnt á einhverja slíka tölu, annars hefði svo há tala eins og 65 þús. í tilboðinu aldrei verið nefnd. Þá hefðu menn haldið sig við miklu lægri tölu ef meiningin var að hér væri um eitthvert lokaboð að ræða. Lokaboð gera menn ekki í samningum, ekki neins staðar þar sem ég þekki til, þegar svo mikið ber á milli sem hér er.

Það er sjálfsagt enginn vafi á því heldur og hafa ekki verið bornar brigður á það hér í þessum umr. að samningar við a. m. k. belga og færeyinga eru á döfinni og skortir ekkert nema undirskriftirnar undir þá, og fleiri þjóðir koma þar til sem ættu hliðstæðan rétt, eins og t. d. pólverjar, norðmenn, austur-þjóðverjar, sovétrússar og jafnvel danir. Í sambandi við þá vil ég segja það, að það vill nú svo til að þeir eru í Efnahagsbandalaginu og ef þeim mislíkaði við okkur, sem ég efast ekkert um að þeim geri, m.a. vegna kannske óklókrar aðferðar í sambandi við mörkun 200 mílnanna, þá gætu þeir einir beitt neitunarvaldi til þess að t. d. bókun 6 kæmist ekki í framkvæmd. Og ég býst við að íslensk stjórnvöld yrðu þá ekki sein á sér að segja: Gjörið þið svo vel, þið getið fengið ykkar kvóta, ef það stæði ekki á öðru.

Það er þess vegna sem mér finnst eitt aðalatriðið í þessu máli vera sú stefna sem mér sýnist vera mörkuð með tilboði til þjóðverja um 60 þús. tonn. Með þeim eru þeim afhent t. d. um 60% af þeim karfa sem við megum veiða samkv. áliti fiskifræðinga, og er þó svo langt gengið nú þegar í þeim veiðum að smákarfi er til skaða veiddur samkv. skýrslu fiskifræðinganna, og sjálfsagt verður ekki mikil breyting á því.

Í öðru lagi er það svo álit mitt í sambandi við þessi atriði, sem ég hef gert hér að umtalsefni, að eins og ég reyndar var áður búinn að segja, tel ég að slíkar stórfelldar undanþágur eins og hér er um að ræða hljóti að hafa stórspillandi áhrif á þróun hafréttarmálanna. Við höfum haft þar mikil áhrif á undanförnum árum með fordæmi okkar. Ég held að þau áhrif mundu þverra og þau mundu nú öll verða á hinn verri veginn og ef til vill okkur stórhættuleg.

Í þriðja lagi tel ég það stórt atriði hvaða áhrif slíkir samningar og slík stefna í okkar fiskveiðimálum sem hér er um að ræða hefði á fiskveiðistefnuna hér innanlands. Það er brýnt fyrir okkur af okkar sérfræðingum sem við hljótum að taka góða og gilda, a. m. k. þessa 13 sem ekki vildu skrifa undir með Jóni Jónssyni, að það sé grundvallarskilyrði til þess að fiskstofnarnir geti haldist í horfinu hér við land að sóknin verði ekki meiri á næsta ári heldur en um 400 þús. tonn, þ. e. a. s. næstum því sama talan og við höfum sjálfir veitt að undanförnu, og þó helst eitthvað minni. Ég held að með því móti að við séum að afhenda útlendingum þriðja hvern eða annan hvern fisk sem veiðanlegur er með skaplegum hætti á Íslandsmiðum til útlendinga, þá þurfum við ekkert að vera að tala um neina markvissa fiskveiðistefnu hér á Íslandi.

Ég hef ekki trú á þeim boðskap, sem ég hlustaði á í sjónvarpinu nú um kvöldið frá ritara fiskiþings, að ráðið væri það að ganga hringinn í kringum landið og höggva niður bátaflotann með aðstoð ríkisins, sem keypti skipin, og segja þeim: Meira fáið þið ekki að veiða heldur en þetta og þetta. — Ég held, þó að kannske núverandi sjútvrh. eða sá sem næstur tæki við af honum væri eitthvað kjarkaðri heldur en fyrrv. sjútvrh., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, sem legið hefur undir ámæli fyrir að hafa ekki gengið nógu hart fram í þessum málum, — sem vel kann að eiga einhverja stoð, það skal ég ekki segja um, — en ég er ekki farinn að sjá þann kjarkmann sem ætlar sér að ganga um landið, í öll sjávarþorpin, með þennan boðskap og gera hann að veruleika.

Ég held þess vegna að niðurstaðan yrði ekki þessi. Hún yrði kannske enn þá háskalegri, þ. e. a. s. sú að íslendingar veiddu með öllum sínum flota allt sem þeir gætu og gætu kannske komist upp undir þau magnmörk nú næstu eitt eða tvö árin sem þeir hafa gert hingað til og síðan kæmi það til viðbótar sem við afhendum öðrum þjóðum, þ. e. a. s. að við veiddum í staðinn fyrir það, sem fiskifræðingarnir segja að gæti verið hæfilegt og án háska, um 400 þús. tonn, þá mundum við taka, ef flotinn gæti eða á meðan flotinn gæti, kannske allt að 550 eða 600 þús. tonnum. Og við höfum alveg fyrir okkur, m. a. í skýrslu Hafrannsóknastofnunar og þessari bók Steingríms Hermannssonar, sem honum sé þökk fyrir, hvaða afleiðingar verða af því, en þær standa hér, niðurstöðurnar um það, á bls. 14 í þessu merka riti Rannsóknastofnunarinnar, en þar segir m. a.:

„Fari svo, að viðkomubrestur verði í þorskstofninum, má áætla tekjumissi útgerðar 11 milljarða kr., lækkun útflutningstekna 18–20 milljarða kr. og hugsanlega lækkun þjóðartekna 40–50 milljarða kr. miðað við varlega áætlun um margfeldisáhrif.“

Og enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: „Áframhaldandi fyrirhyggjuleysi í málefnum sjávarútvegsins getur í versta falli leitt til efnahagslegs hruns og í besta falli til fjárhagslegra þrenginga.“

Svo mörg eru þau orð. En ég ætla þessi orð sannmæli sem þm. ættu að taka tillit til, þó að yfirmaður höfundanna virðist ekki vilja gera það. Ég held þess vegna, að ef þessi stefna nær fram að ganga sem hér er verið að marka, þá þýði það skipulagt dráp og eyðingu stofnanna meðan nokkurt kóð finnst í sjónum eða nokkrum útgerðarmanni eða bátseiganda þykir það nokkru skipta eða nokkur ábatavon í því að ýta skipi úr vör. Og afdrifin af slíku fyrirhyggjuleysi höfum við fyrir okkur hér svart á hvítu, og ég trúi algerlega Steingrími Hermannssyni í því sem hann segir í þessari bók.

Ég held þess vegna að það sé alveg augljóst að samningsdrögin, sem hér liggja fyrir, verði í fyrsta lagi að skoðast sem fordæmi, byrjun á framkvæmd stefnu sem ekki samræmist íslenskum hagsmunum, og ætla ég að þetta séu ekki nein stóryrði miðað við það sem fyrir liggur frá okkar vísindamönnum. Þessi stefna opnar gáttir fyrir öðrum og sumum e. t. v. stærri. Mér sýnist t. d. að afhending á 60% af karfaaflanum geti verið býsna þægileg röksemd fyrir bretana, sem aðallega hafa veitt þorsk hér við land, um að það ætti að afhenda þeim kannske þriðjunginn, kannske helminginn, kannske 60%, eins og þjóðverjum, af þorskaflanum. Alla vega yrði það ekki góð röksemd fyrir okkur þegar við þurfum að fara að semja sátt við þá, sem við gerum áreiðanlega fyrr eða síðar, því að það er nú svo með allar deilur að einhvern tíma enda þær með sáttum og einhvern tíma verður sest að samningaborði, þó að hugur manna standi kannske ekki mikið til þess núna næstu dagana. Vil ég þó ekkert um það fullyrða hversu skjótt skipast veður í lofti þar. Í öðru lagi að þessi stefna hefur hættuleg áhrif á gang hafréttarmála og á niðurstöðu ráðstefnu þjóðanna um þau. í þriðja lagi að hún spilli eða jafnvel útiloki að hér verði mörkuð framsýn og vitleg veiðimálastefna, sem er frumskilyrði efnahagslegrar velferðar okkar í þessu landi.

Ég ætla mér hér ekki að fara út í einstök atriði nema þá örlítið í sambandi við sjálf samningsdrögin, því að ég tel að ég hafi hér dregið fram það sem mér finnst vera aðalatriði málsins. En tek þó undir það, sem hér hefur komið fram, m. a. frá þm. stjórnarflokkanna, að magnið, sem samið er um, er fráleitt, 60% af karfaveiðinni t. d. og það skapar stórhættulegt fordæmi í samningum við breta sem fyrr eða síðar hljóta að fara fram. Forgangsréttur okkar sem strandríkis, sem við eigum m. a. samkv. hinum svokallaða Haagdómi, er fótumtroðinn með þessari stefnu og þessari þáltill. Á margvíslegan hátt er þjóðverjum gert hærra undir höfði en okkur íslendingum, t. d. um möskvastærðina. Ef ég hef ekki misskilið neitt, þá eiga þeir í orði kveðnu að hlíta íslenskum reglum um möskvastærð, sem er ákaflega þýðingarmikið atriði, vegna þess að kannske er mikilvægast í okkar fiskvernd að verja ofsókn í þriggja ára fisk sem verður ekki kynþroska fyrr en eftir 3 ár og er auðvitað blandaður innan um annan og stærri fisk og þess vegna útilokað að verja hann með öðrum hætti en að stórstækka möskvana. Ég heyrði einn leiðangursstjóra af Bjarna Sæmundssyni lýsa því í sjónvarpinu núna að það væri mjög líklegt að möskvastærðin yrði færð úr 130 og eitthvað mm í 170 á næstunni. Þessu eiga þjóðverjarnir að hlíta, en þeir eiga bara að fá árs fyrirvara til þess að breyta því. Eftir að við höfum breytt okkar möskvastærð í 170 mm t. d., þá mega þeir halda áfram að veiða með 130 eða 135 í eitt ár frá þeim tíma. Þeir eiga líka að vera háðir tímabundinni vernd sem við íslendingar ákveðum og gerum jafnvel til mjög skamms tíma, vegna þess að fiskurinn hreyfir sig víst í sjónum, að maður hefur haldið, og það getur verið nauðsynlegt að grípa snögglega til verndaraðgerða af þessu tagi. Þeir eiga líka að hlíta þessu. En þetta þarf allt að ganga í gegnum stórmikið skriffinnskubákn, og það gæti jafnvel farið svo að þetta væri ekki komið til æðstu manna og ráðamanna þjóðverja fyrr en bannið yrði afnumið.

Ég hafði skilið það svo, og ég held að þeir hafi verið margir sem skildu það svo varðandi bókun 6, að algert skilyrði fyrir samningum ætti að vera að þau tollafríðindi, sem við höfum samið um, kæmu til framkvæmda. En svo er ekki. Þessu hefur verið kastað algerlega fyrir borð og í staðinn settur þessi 5 mánaða frestur sem mér sýnist aðeins vera til þess að herða á íslenskum og breskum stjórnendum að hafa lokið samningum fyrir þann tíma.

Sannleikurinn er sá, að allt plaggið er þannig eða mest af því, að við eigum að uppfylla allar skyldurnar, okkur á að blæða fyrir það sem tekið er af okkar fiskstofnum, og ég geri í sjálfu sér ekkert afskaplega mikinn mun á því um hvaða fisktegundir þar er að ræða, hvort það er þorskur eða annað, vegna þess að um leið og við þurfum að draga við okkur og minnka sóknina í þorskinn, þá hljótum við fyrr eða seinna, — það kann að vera einhver aðlögunartími, sem við þurfum, — þá hljótum við, ef við eigum að reyna að bjarga okkur eftir því sem við getum að gerðum slíkum samningum, að sækja meira í þá stofna sem ekki eru verst staddir um þessar mundir. En skyldurnar eru sem sagt allar okkar megin, en litlar eða engar hjá þjóðverjunum. Hér er ekki verið að semja á jafnréttisgrundvelli á nokkurn hátt, heldur líkist samningurinn meira því að þar hafi verið beygðir og bugaðir menn að verki gagnvart stórveldinu. Og ég held að ekkert slíkt hafi reynst smárri þjóð sigurvænlegt í baráttu hennar fyrir sjálfstæði sínu og rétti. Auk þessa er þess að gæta, að hér erum við að semja við ríkustu þjóð veraldar, þjóð sem setti á síðasta ári met í yfirballans á greiðslujöfnuði við erlendar þjóðir, en við á sama tíma Evrópumet í verðbólgu og kannske líka skuldasöfnun og viðskiptahalla, og með þessu erum við að gera okkur grátbroslega, ef ekki hlægilega í augum umheimsins. Það er eins og við værum einhver stórmenni, sem hefðum af miklu að má og gætum úthlutað stórveldunum verulegum fúlgum af okkar þjóðarauði. Við erum að rétta þessari ríku þjóð marga milljarða, ég skal ekki segja hve marga, ég hef ekki slegið neinum tölum á það, en það verður sjálfsagt leikur einn að gera það, en auka okkar eigið tap sem er ærið fyrir. Og ég spyr: Er þetta fallið til að auka veg okkar meðal þjóða, eins og hér hefur verið talað um, og styrkja okkar málstað? Þeir svari þessu sem mesta ábyrgðina bera á efnahagsþróuninni hér á landi frá síðustu tímum og á þeim samningsdrögum sem hér liggja fyrir.

Ég get svo að lokum ekki horfið héðan úr pontunni án þess að gera ofurlitla grein fyrir afstöðu verkalýðssamtakanna í þessu máli. Það hefur ekki farið fram hjá mönnum að alda mótmælasamþykkta frá almannasamtökum og þó sérstaklega frá félögum innan Alþýðusambands Íslands hefur sjaldan eða aldrei risið hærra heldur en nú.

Krafan er um raunverulega útfærslu og hreina landhelgi svo skjótt sem kraftar okkar til sóknar leyfa. Þetta sýnir að mínu viti þann þjóðarvilja sem nú er fyrir hendi, ekki bara verkalýðshreyfingarinnar því að hér er auðvitað fyrst og fremst um mál allrar þjóðarinnar að ræða fremur en einstakra starfshópa eða stétta. Hitt er þó alveg augljóst, að til að byrja með verður það verkalýðsstéttin, allra frekast fiskimennirnir, fólkið í fiskiðnaðinum í öllum sjávarplássum landsins, sem höggið dynur þyngst og harðast á, og því er ekki óeðlilegt, að það láti málið nú mest til sín taka. Skýrslur fiskifræðinga sanna að allir samningar um teljandi undanþágur þýða nákvæmlega sem nemur magni leyfðra undanþága jafnmikinn samdrátt atvinnu og lífskjara þessa fólks sérstaklega, en allrar þjóðarinnar að lokum. Við höldum ekki við um atvinnu og tekjur, það liggur fyrir, þó að allir útlendingar hverfi héðan og það strax á þessum degi eða þessari nóttu. Allt, sem samið er um til erlendra þjóða, er tekið af lífskjörum íslensks verkafólks á sjó og landi, og ég bendi í þessu sambandi á ábendingu í bók Rannsóknaráðs ríkisins um möguleika á 40–50 milljarða þjóðartekjutapi, 20 milljarða minnkun útflutnings og 11 milljarða tapi sjávarútvegsins, sem þar er spáð ef svo heldur fram sem mér virðist nú horfa. Ég held að það sé þess vegna augljóst að framhald þeirrar stefnu, sem hér er verið að marka, þýði í fyrsta lagi atvinnuleysi sjómanna og verkafólks í öllum sjávarplássum landsins, hvernig sem að er farið. Við höfum enga möguleika á að fá aðrar atvinnugreinar í staðinn, a. m. k. ekki um ófyrirsjáanlega framtíð.

Í öðru lagi þýðir þessi stefna stórfelld og fyrirséð rýrð lífskjör, því að lífskjörin fáum við ekki annars staðar heldur en af okkar eina stóra þjóðarauði.

Í þriðja lagi sýnist mér að þessi stefna hljóti að leiða til mjög harðnandi stríðs á vinnumarkaðnum, því að auðvitað fer það svo að verkalýðshreyfingin mun reyna að spyrna við fótum með eðlilegum hætti, og ef við fáum ekki atvinnuleysið strax, þá fáum við það síðar. Það getur verið að við fáum það strax nú í vetur.

A. m. k. var það boðað af ritara Fiskiþings að kvótaskiptingin á sjávarplássin ætti að ganga í gildi strax núna um áramótin.

Þetta, sem ég hef sagt um afleiðingar þessarar stefnu, bætist við aðrar þær efnahagslegu ógöngur sem þjóðfélagið er í. Mér sýnist þess vegna að það gæti margt bent til þess að tímarnir fram undan, ef allt fer á versta veg, yrðu ekki betri en tímar kreppuáranna milli 1930 og 1940, og þeir, sem lifðu þá tíma, a. m. k. sem verkamenn, langar ekki beinlínis til þess að lifa þá aftur.

Þegar ástandið er þannig að kaup þyrfti nú að hækka um 30% og að auki að koma full verðtrygging á laun, svo að viðunandi mætti teljast fyrir verkalýðinn í landinu, og þetta bætist við, þá geta allir gert sér í hugarlund hvernig muni ganga að sætta aðilana á vinnumarkaðnum. Ég held að verkalýðshreyfingin hafi verið að reyna að sýna og muni sanna það enn betur á næstunni að slíka framtíðarsýn lætur hún ekki bjóða sér án þess að grípa til allra tiltækra ráða sem hún getur gripið til, til þess að spyrna við fótum og reyna að hindra að þeir erfiðleikar gangi yfir hana sem valdsmenn þjóðarinnar virðast nú stefna að vitandi eða þá meira eða minna óvitandi, blindaðir af ímynduðum „sanngirnishugmyndum“ gagnvart þremur stórveldum, en fullu tillitsleysi gagnvart íslenskum verkalýð og íslenskri þjóð.

Fram til þessa hafa verkalýðssamtökin látið sér nægja að aðvara ríkisstj. og stuðningslið hennar með fjöldasamþykktum sem taka þó af allan vafa um hug hennar. Þau hafa vonað að þau varnaðarorð yrðu einhvers metin, m. a. hér í þingsölunum, og á það mun nú reyna skjótlega, þegar endanleg afstaða verður tekin til þess uppkasts sem nú er rætt. En ég stæði hér sem óhreinskilinn maður, sem væri að reyna að blekkja hv. þm., ef ég lýsti ekki því eindregna áliti mínu, að ef varnaðarorðin margendurtekin verða að engu höfð og voði atvinnuleysis og enn rýrðra lífskjara verður óhindraður látinn dynja yfir vegna þrekleysis og skammsýni valdhafa, þá verður ekki látið sitja við orðin tóm. Það væri að sjálfsögðu heimildarlaust af mér og í engan stað eðlilegt að ég færi hér að útlista í einstökum atriðum til hvaða ráðstafana verkalýðssamtökin gætu gripið ef illa fer. En hitt fullyrði ég, að alþýðusamtökin munu ekki auðvelda neina framkvæmd þeirrar stefnu sem hér er verið að marka. Þau munu innan marka laga og réttar beita hverju tiltæku vopni samtakamáttar síns til þess að koma í veg fyrir að meðferð landhelgismálsins leiði til þess voða sem fyrirsjáanlegt er að hlýtur að verða afleiðing þeirrar undanhaldsstefnu sem hér er verið að ryðja brautina fyrir.

Verkalýðssamtökunum er fullljóst að hér er um að tefla sjálft grundvallarskilyrðið fyrir því að hér verði forðað frá atvinnuleysi, neyðarkjörum í kaupgjaldsmálum og efnahagslegum ógöngum. Þeim er ljóst að hér er um að ræða grundvöll allrar baráttu þeirra fyrir mannsæmandi lífskjörum nú og um langa framtíð. Og þetta hljóta þau að tengja almennri baráttu sinni fyrir hagsmunum sínum. Og þetta hlýtur líka að tengjast efnahag þjóðarinnar og þeim vanda sem þar er víst við að etja. Og samkv. þessu mun verkalýðshreyfingin ákveða baráttuaðferðir sínar, — baráttuaðferðir sem ég trúi að fyrr eða síðar muni færa þjóðinni allri sigur í þessu lífshagsmunamáli. Þetta eru ekki hótanir. En þetta eru skyldug aðvörunarorð á þessari stundu, því að ég segi jafnframt: Verkalýðshreyfingin er albúin þess að veita stjórnvöldum allan þann stuðning og annan þann styrk sem hún má til þess að halda fast og drengilega á réttum málstað þjóðarinnar, velji hún þann kostinn að hugsuðu máli. Og að ég tel víst er hún líka tilbúin að taka á sig sanngjarnan hluta þeirra erfiðleika sem öll þjóðin kann að þurfa að bera í baráttu sinni fyrir fullri viðurkenningu á lögmætum aðgerðum til að vernda lífsgrundvöll þjóðarinnar, ekki aðeins um stundarsakir, heldur um langa framtíð. — Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.