21.10.1975
Sameinað þing: 5. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (88)

11. mál, dagvistunarheimili

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Það er vissulega þarft að gera úttekt á þessum málum til þess að sjá hvernig þau standa eftir gildistöku laganna, en það var það sem vakti fyrir hv. fyrirspyrjanda, og ekki skal ég draga úr nauðsyn þess að fá yfirlit um hvað gert hefur verið. Hins vegar get ég ekki látið hjá líða að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að það þarf ekki ítarlega úttekt til þess að gera sér grein fyrir, að þessi mál eru nú á hraðri niðurleið. Í tíð vinstri stjórnarinnar var gert stórátak í málefnum dagvistunarheimila. Með lögum um hlutdeild ríkisins í rekstri og byggingu þeirra var Ísland komið í fremstu röð Norðurlanda varðandi lögbundin framlög til þessara mála, en þau höfðu áður verið hér á landi í algeru lágmarki. Það er auðséð á fjárlagafrv., sem lagt hefur verið fram, að stórfelld hætta er á að stórlega muni draga úr áframhaldandi uppbyggingu þessara heimila. Hér varðar mestu að framlög til stofnkostnaðar hafa verið stórlega skert.

Í fyrra voru veittar 60 millj. eða rétt rúmlega það til stofnkostnaðar, en í fjárlagafrv. fyrir árið 1976 er þessi upphæð 68 millj. 400 þús. kr. Þetta er ekki hækkun, eins og gefið er í skyn í fjárlagafrv., heldur bein lækkun. Til þess að ná jafngildi í framkvæmd ætti upphæðin í fjárlögum nú að vera 87 millj. Hér er því um lækkun að ræða sem nemur 18.6 millj. kr. ef reiknað er í beinhörðum peningum. Það vantar því talsvert á að haldið verði í horfinu, hvað þá að stefnt sé að aukinni sókn. Það vantaði talsvert á að dagvistunarheimili, sem sóttu um ríkisframlög til bygginga í fyrra, fengju þá upphæð sem þau sóttu um. Til samanburðar má geta þess, að árið 1974 var öllum umsóknum fullnægt, en framlög til þeirra heimila. sem fengu framlög á s. l. ári, voru svo skert að þau eru enn á undirbúningsstigi. Eins og kom fram í ræðu hæstv. menntmrh., liggja nú fyrir 10 nýjar umsóknir. Afleiðingarnar verða, auk þess að stórlega mun draga úr byggingaframkvæmdum, jafnframt þær að ríkið safnar löngum skuldahala sem erfitt verður að leysa úr þegar að skuldadögum kemur. Hvað sá skuldahali verður orðinn langur um áramót, veit ég ekki, þar sem ég hef ekki séð sundurliðaðar umsóknir, en fróðlegt hefði verið að fá það upplýst hjá hæstv. ráðh.

Í lokin vil ég aðeins taka undir orð hv. fyrirspyrjanda og minna á markmiðsgrein laganna um dagvistunarheimili. Þar var mótuð sú framtíðarstefna að öll börn ættu kost á að njóta dvalar á dagvistunarheimilum ef þess væri óskað. Þau hafa mikilvægu uppeldishlutverki að gegna við hlið heimilanna, og það sjónarmið var viðurkennt á Alþ., þegar lögin voru samþykkt, að nægur fjöldi dagvistunarheimila væri eitt stærsta skrefið í átt til jafnréttis kynjanna.

Ég vil því eindregið vara við að afturför verði í þessum efnum.