20.12.1976
Sameinað þing: 36. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

1. mál, fjárlög 1977

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur á milli umr. rætt ýmsa þætti fjárlagafrv. og tekið til nánari athugunar erindi sem hjá n. lágu og voru óafgreidd. Þá tók n. einnig til athugunar till. þær, sem þm. fluttu við 2. umr. og teknar voru aftur til 3. umr. Í sumum tilfellum hefur n. komið á móti óskum þm. og tekið upp till. um fjárveitingar þó að fjárupphæðir séu í flestum tilfellum lægri en farið var fram á.

Svo sem ég gat um við 2. umr. eru nú fyrir hendi breyttar forsendur fyrir grundvelli fjárlagafrv. frá því sem var, þegar frv. var samið. Afleiðingar þeirra kaup- og verðlagsbreytinga, sem átt hafa sér stað og séð verður fyrir í náinni framtíð, hafa raskað verulega þeim grundveili sem fjárlagafrv. er byggt á. Því hefur Þjóðhagsstofnun og fjárlaga- og hagsýslustofnun nú tekið til endurskoðunar allan þjóðarbúskapinn og látið fjvn. í té allar upplýsingar um áhrif þessa varðandi fjárlagagerðina.

Í grg. Þjóðhagsstofnunar kemur m. a. fram að nú liggi fyrir vitneskja um innheimtu ríkissjóðs á fyrstu 11 mánuðum ársins 1976. Þessi vitneskja er talin vera í samræmi við þá áætlun um ríkistekjur á árinu sem fjárlagafrv. var reist á.

Þá hefur Þjóðhagsstofnun sett fram nýja þjóðhagsspá fyrir árið 1977. Breytingar þjóðarútgjalda á næsta ári samkv. þessari nýju spá eru taldar nema um 1/2% til aukningar, eða 21/2% í stað 2% sem fjárlagafrv. er byggt á. Innflutningur er talinn aukast á sama hátt um 1%. Hins vegar telur Þjóðhagsstofnun að meginbreytingin, sem áhrif hefur á tekjur og gjöld ríkissjóðs á næsta ári, felist í þeirri þróun kaupgjalds- og verðlagsmála sem er til hækkunar umfram þær forsendur sem frv. er byggt á.

Nú er komin fram 31/2% hækkun launa og verðlags, og er það talið geta leitt til þess að meðalverðlag geti orðið 6–7% hærra og innflutningsverðlag í íslenskum krónum og almennt kaupgjald 7–8% hærra en reiknað er með í fjárlagafrv. Að því er nú stefnt að þessar breyttu forsendur séu að fullu teknar til greina við endanlega afgreiðslu fjárlaga.

Til þess að auðvelda samanburð á fjárl. milli ára verður að byggja á sömu forsendum og áður, þ. e. á desemberverðlagi. Telur Þjóðhagsstofnun að mismunurinn, sem um er að ræða ef nú væri lagt til grundvallar desemberverðlag, sé um 6 milljarðar kr. sem fjárlagaupphæðin yrði lægri en þær forsendur gefa sem nú er reiknað með. Hitt er svo annað mál, að með þessum hætti ætti öll fjármálastjórn ríkisins að geta orðið auðveldari og traustari en ella.

Eins og fram kemur í brtt. fjvn., sem ég mun síðar víkja að, er um verulegar útgjaldahækkanir að ræða sem n. hefur látið reikna út og fengið um þær upplýsingar frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Nemur þar mestu hækkun til Tryggingastofnunar ríkisins um 1510 millj. kr. og vegna launa- og verðlagsmála samtals 2007 millj. kr. Er þessi síðari upphæð tekin inn á einn lið í gjaldabálki frv. samkv. brtt. fjvn., en deilist síðan að sjálfsögðu hlutfallslega út á einstaka gjaldaliði.

Með hliðsjón af því, sem ég hef nú greint frá, eru till. fjvn. og meiri hl. fjvn. gerðar. Mun ég nú víkja að brtt. fjvn. á þskj. 253.

Kemur þar fyrst brtt. við 4. gr. frv., embætti forseta Íslands. Þar er lagt til að viðhaldsliður lækki um 8 millj. kr., en það er í samræmi við endurskoðaða áætlun sem gerð hefur verið um viðhaldskostnað á forsetabústaðnum.

Við forsrn. er lagt til að launaliður hækki um 1.3 millj. kr., en það er vegna ráðningar á næturverði í ráðuneytishúsinu.

Þá koma næst brtt. við menntmrn., aðalskrifstofa. Lagt er til, að launaliður hækki um 1 millj. 530 þús. kr. og er það vegna ráðningar á fulltrúa í rn. fyrir kennslu afbrigðilegra barna.

Við Raunvísindastofnun háskólans hækkar launaliður um 1.8 millj. kr. og þá ráðgert að ráða að stofnuninni jarðskjálftafræðing. Er þessi starfsráðning talin óhjákvæmileg með hliðsjón af þeim miklu umsvifum sem nú eiga sér stað í víðtækum rannsóknum á þessu sviði, og er þá sérstaklega höfð í huga sú könnun sem nú á sér stað hér á Suðurlandi.

Þá er lagt til að við Rannsóknaráð ríkisins hækki launaliður um 1.3 millj. kr., en það er vegna ráðningar á einum ritara fyrir Rannsóknaráð.

Þessu næst er lagt til, að inn verði teknir tveir nýir liðir, þ. e. til Tónlistarskólans í Garðabæ 500 þús. og til Tónlistarskólans á Hellissandi 500 þús.

Við liðinn héraðsskólar, gjaldfærður stofnkostnaður er lagt til að fjárveiting hækki um 5 millj. kr. Um sundurliðun á heildarupphæðinni vísast til þess sem fram kemur á þskj.

Þá kemur næst brtt. við grunnskóla. Er þar lagt til að inn verði tekinn nýr liður til umferðarfræðslu í skólum að upphæð 2 millj. 150 þús. Af þeirri upphæð er gert ráð fyrir að verja þurfi um 500 þús. kr. vegna kostnaðar við starfið. Liðurinn framlag til að styrkja munaðarlausa, vanrækta og fatlaða unglinga til náms er lagt til að hækki um 200 þús. kr. og verður þá heildarliðurinn 500 þús.

Þá er lagt til, að fjárveiting vegna samningar á íslensk-enskri orðabók hækki um 300 þús. kr., en þetta verkefni er talið að sé nú komið vel á veg.

Til Sambands ísl. karlakóra er till. um 153 þús. kr. fjárveitingu.

Næst kemur liðurinn Íþróttasjóður, til byggingar íþróttamanvirkja. Lagt er til, að fjárveiting hækki um 30 millj. kr., en um skiptingu á heildarfjárveitingunni vísast til þess er fram kemur í sérstöku yfirlíti. Um þennan fjárlagalið er það að segja, að fyrir nokkru var gert sérstakt samkomulag við sveitarfélögin um að ljúka greiðslum á þeim skuldahala sem safnast hafði upp um nokkurt árabil. Var þá um það samið að umræddur skuldahali yrði greiddur upp á fjögurra ára tímabili. Þegar þessi samningur var gerður féllu sveitarfélögin frá kröfu um verulega fjárupphæð sem þau áttu þá á hendur ríkissjóði. Nú virðist því miður allt sækja í sama horfið í þessum efnum. Ef gert er ráð fyrir að ríkissjóður greiði sinn hluta samkv. lögum, þá vantar hér allverulega á að við mótframlag ríkissjóðs sé staðið eins og áætlað var. Það er mitt álit að af hendi ríkisins verði að taka þessi mál fastari tökum en gert hefur verið. Því miður hefur það átt sér stað í allt of mörgum tilfeilum að sveitarfélög hafa hafið framkvæmdir á íþróttamannvirkjum eða fest kaup á dýrum tækjum til íþróttaiðkana án þess að umrædd framkvæmd eða kaup hafi verið tekin inn með fjárveitingu á fjárlögum. Afleiðing þessa hefur orðið sú, að íþróttafulltrúi og Íþróttanefnd ríkisins hafa að sjálfsögðu þrýst á fjvn. um síauknar fjárveitingar í þessu skyni. Að sjálfsögðu ber að viðurkenna að hér er um þýðingarmikið málefni að ræða sem snýr að æsku þjóðarinnar og í mörgum tilfeilum er um mikil verðmæti að ræða sem þessir aðilar láta í té við sjálfboðaliðsvinnu á einn eða annan hátt. Staðreyndin er hins vegar sú, að ríkissjóður þarf í mörg horn að líta og því þarf að gera sér grein fyrir þessu málefni sem öðrum á sem raunhæfastan hátt. Það er sem sagt mitt álit að endurskoða þurfi málefni Íþróttasjóðs milli þinga eða fjárlaga og reynt verði að standa að málinu eins og lög gera ráð fyrir.

Næst er lagt til að inn séu teknir tveir nýir liðir, til KFUM í Vatnaskógi 500 þús. kr. og til starfsemi KFUK í Vindáshlið 100 þús., en liðurinn KFUM og KFUK starfsstyrkur, lækkar hins vegar um 350 þús. kr. og verður 670 þús. Sá liður var hækkaður við 2. umr. sem þessu nemur og verður því um heildarhækkun á fjárveitingu til starfsemi KFUM og KFUK að ræða sem nemur 600 þús. kr. frá því sem er í fjárlagafrv.

Þá er lagt til að liðurinn til Frjálsíþróttasambands hækki um 100 þús.

Næst koma till. n. um fjárveitingar til þriggja náttúrugripasafna, en það er til Náttúrugripasafns Neskaupstaðar 100 þús. hækkun, til Náttúrugripasafns Vestmannaeyja 100 þús. hækkun og til Náttúrugripasafnsins í Borgarnesi 200 þús. kr. hækkun, en þannig verða öll þessi söfn með jafna fjárveitingu. Hér er um byggingarstyrk að ræða og greiðslu á stofnkostnaði til umræddra safna.

Til Hins íslenska náttúrufræðifélags er lagt til að fjárveiting hækki um 75 þús., til Taflfélags Reykjavíkur um 100 þús. og til Dýraverndunarfélags Íslands um 50 þús. kr.

Þá er lagt til, að inn séu teknir nýir liðir, sem hér segir: Til safnahúss á Blönduósi 300 þús. kr., til safnahúss á Sauðárkróki 300 þús., til safnahúss á Húsavík 300 og til Héraðsskjalasafnsins á Egilsstöðum 300 þús. kr. Hér er á sama hátt og áður um fjárveitingu að ræða til að standa straum af stofnkostnaði.

Þá eru tvær brtt. sem varða utanrrn. Kemur þar fyrst till. um að launaliður hækki um 20 millj. kr. og liðurinn önnur rekstrargjöld um 9 millj. Hér er einungis um leiðréttingu að ræða sem byggð er á breyttum forsendum vegna gengissigs.

Hin till. er um aðstoð við þróunarlöndin, að hún hækki um 12 millj. kr. og verði þá heildarupphæð í þessu skyni 25 millj. kr.

Við landbrn. eru nokkrar brtt. Þar er lagt til að launaliður aðalskrifstofu hækki um 11/2 millj. kr. Er það til ráðningar á einum nýjum starfsmanni.

Liðurinn Jarðeignir ríkisins hækkar um 7 millj. kr., en það er vegna óhjákvæmilegra greiðslna sem Jarðeignir ríkisins verða að inna af hendi á næsta ári.

Til Búnaðarfélags Íslands hækkar launaliður um 11/2 millj. vegna ráðningar á tölvufulltrúa. Við Rannsóknastofnun landbúnaðarins er lagt til að inn sé tekinn nýr liður: Til rannsókna á heyverkunaraðferðum 3 millj. kr. Hér er talið að um brýnt verkefni sé að ræða og liggja fyrir Alþ. nú þegar þáltill. sem ganga í þessa átt.

Til Landnáms ríkisins er lagt til að liðurinn vextir hækki um 2 millj. kr.

Til Garðyrkjufélags Íslands er till. um 60 þús. kr. hækkun og til Æðarræktarfélags Íslands hækkar fjárveiting um 50 þús.

Til Tilraunastöðvar Búnaðarsambands Suðurlands er lagt til að fjárveiting hækki um 11/2 millj. kr. og verður þá samtals 3 millj., en það er styrkur til byggingar á tilraunafjósi sem er í byggingu á vegum Búnaðarsambands Suðurlands.

Loks er svo fárveiting til framkvæmda á laxastiga í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu að upphæð 75 millj. kr., en upphæð þessi er fjármögnuð með fé samkv. lánsfjáráætlun. Hér er um framkvæmd að ræða vegna samnings sem gerður var við landeigendur Laxár.

Þessu næst koma brtt. sem varða sjútvrn. Koma þar fyrst brtt. við Hafrannsóknastofnun. Er þar um að ræða leiðréttingar- og viðbótarfjárframlög á ýmsum liðum stofnunarinnar varðandi laun, önnur rekstrargjöld, viðhald og gjaldfærðan stofnkostnað. Samtals er hér um upphæð að ræða sem nemur 45.7 millj. kr., þar af eru 700 þús. kr. vegna ráðningar hálfs starfsmanns við útibú stofnunarinnar á Húsavík.

Þá koma næst tvær brtt. varðandi Fiskveiðasjóð og er þar aðeins um orðalagsbreytingu að ræða.

Við þetta rn. er svo lagt til að inn sé tekinn nýr liður: Fiskileit, vinnslutilraunir og markaðsöflun, að upphæð 150 millj. kr. Í sambandi við þennan lið vil ég vísa til þess sem ég sagði um þetta málefni við 2. umr. málsins.

Næst koma brtt. sem varða dómsmrn. Þar kemur fyrst að lagt er til að inn sé tekinn nýr liður: Rannsóknarlögregla ríkisins 15 millj. kr. hér er um fjárveitingu að ræða til framkvæmda á löggjöf sem Alþ. hefur nú nýlega samþykkt. Hvort hér er um raunhæfa upphæð að ræða verður ekki sagt að svo stöddu og verður reynslan að skera þar úr hvað hér er um kostnaðarsamt verkefni að ræða. Þessari heildarupphæð er lagt til að skipta þannig, að á launalið komi 8 millj. kr., önnur rekstrargjöld 3 millj. og gjaldfærður stofnkostnaður 4 millj.

Þessu næst koma svo tvær brtt. um nýjar mannaráðningar við sýslumannsembættið í Stykkishólmi og sýslumannsembættið á Patreksfirði. Er gert ráð fyrir að ráða einn fulltrúa á hvorn stað og er heildarkostnaður 3 millj kr. Við sýslumannsembættið á Selfossi er hins vegar lagt til að fjárveiting hækki um 25 millj., en ástæðan til þess er sú, að þegar gengið var frá fjárlagafrv. lágu ekki fyrir upplýsingar eða till. frá viðkomandi rn. um nauðsynlegar breytingar til hækkunar á hinum ýmsu kostnaðarliðum. Hér er því nánast um óbreytta upphæð að ræða í frv. svo sem er í fjárl. yfirstandandi árs. Varðandi hækkanir sem lagt er til að komi á hina ýmsu kostnaðarliði við embættið vísast til þess sem fram kemur á þskj., en hér er sem sagt um upphæð að ræða til hækkunar sem nemur 25 millj. kr.

Þá er næst brtt. við Landhelgisgæslu. Lagt er til að liðurinn 07 Landhelgissjóður hækki um tæplega 77 millj. Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú, að lánagreiðslur eru fluttar af almennum lánagreiðsíum ríkissjóðs yfir á Landhelgissjóð,

Til almannavarna er brtt. til hækkunar um 1 millj. kr. Er sú upphæð ætluð til að standa undir kostnaði við áframhaldandi snjóflóðarannsóknir.

Þá eru brtt. sem varða félmrn. Lagt er til að liðurinn Styrktarsjóður vangefinna hækki úr 40 millj. kr. í 105 millj. Svo sem kunnugt er voru í gildi lög um markaðan tekjustofn, svokallað tappagjald, til fjáröflunar fyrir þennan sjóð. Ríkisstj. hefur nú ákveðið að flutt verði frv. til l. um framlengingu á þessum markaða tekjustofni, og þá um leið ákveðið að hækka gjaldið til samræmis við breytt verðlag. Mun ætlunin að gjaldið verði 7 kr. á hverja flösku og þessi upphæð er miðuð við að svo verði.

Þá er lagt til að liðurinn Jafnréttisráð hækki um 1100 þús., en það er til leiðréttingar svo að unnt verði að standa undir kostnaði við framkvæmd laga sem hér um ræðir.

Til Öryrkjabandalags Íslands kemur nýr liður að upphæð 1 millj. Þá er lagt til að inn verði tekinn annar nýr liður: Ferlivistarnefnd fatlaðra, 200 þús. kr.

Næst koma brtt. sem varða heilbr.- og trmrn. Lagt er til að liðurinn Tryggingastofnun ríkisins hækki um 1510 millj., eins og ég gat um áður, og verður þá samtals fjárveiting til Tryggingastofnunar ríkisins 21 milljarður 691 millj. 500 þús. kr. Er þessi hækkun, eins og ég hef áður greint frá, vegna breyttra forsendna varðandi kaupgjalds- og verðlagsmál.

Þá koma nokkrar brtt, varðandi Landsspítalann, Fæðingardeild Landsspítalans, Kleppsspítalann, Vífilsstaðaspítala og Kópavogshæli. Þær breytingar, sem er hér um að ræða, eru gerðar vegna endurskoðunar sem átt hefur sér stað á rekstri þessara stofnana innbyrðis og hefur ekki heildaráhrif til hækkunar eða lækkunar á niðurstöður fjárlagafrv. Um einstaka liði varðandi þessar breytingar sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða, en vísa til þess sem fram kemur á þskj.

Við liðinn til sjúkrahúsa og læknisbústaða er lagt til að inn sé tekinn nýr liður við læknisbústaði: Fáskrúðsfjörður, að upphæð 2 millj. kr. Hér er um leiðréttingu að ræða sem féll niður við fyrri afgreiðslu.

Þá er lagt til að liðurinn héraðslæknar og heilsugæslustöðvar hækki um 29 millj. 160 þús. kr. Er þessi hækkun vegna ráðningar á 4 læknum fyrir heilsugæslustöðvar, þar af 2 í Árbæ, 10 hjúkrunarkonum og 2 ljósmæðrum.

Lagt er til að til Stórstúku Íslands hækki fjárveiting um 400 þús. og verði þá samtals 2.4 millj. kr.

Næst koma brtt, varðandi fjmrn. Við liðinn styrktarfé og ýmis eftirlaun embættismanna og liðinn styrktarfé og ýmis eftirlaun, ekkjur, eru till. um hækkun sem nema samtals um 8 millj. 586 þús. Um einstakar fjárveitingar á þessum liðum vísast til þess sem fram kemur á þskj.

Þá er lagt til að inn sé tekinn nýr liður: 989 Vegna launa og verðlagsmála. Þar er launaliður sem nemur 1 milljarði 464 millj. kr. og önnur rekstrargjöld 543 millj., eða samtals 2007 millj. kr. Þessar brtt. eru, eins og ég gat um áðan, byggðar á forsendum þeirra breytinga, sem leiðir af endurskoðun á þjóðarbúskapnum sem nú hefur farið fram.

Liðurinn óviss útgjöld er lagt til að lækki um 100 millj. kr.

Þá koma brtt. varðandi samgrn. Vegagerð ríkisins: Gert er ráð fyrir, að tekjurnar hækki um 250 millj. kr. sem skiptist þannig, að 100 millj. kr. er lán og hækkun á mörkuðum tekjustofnum nemur 150 millj. Um vegáætlun er annars það að segja, að hún mun bíða frekari afgreiðslu Alþingis þar til þing kemur saman að afloknu jólafríi. Það skal einnig tekið fram, að fjvn. hefur ekki á þessu stigi málsins tekið afstöðu til fjárfestingarliða, svo sem kaupa á tölvu sem rætt mun hafa verið um af hendi Vegamálaskrifstofunnar.

Til vita- og hafnamála hækkar liðurinn um 300 millj. kr. Er það í samræmi við lánsfjáráætlun og er upphæðin ætluð að mæta kostnaði við kaup á nýju dýpkunarskipi eða þar til gerðum pramma með tækjum sem ætlað er að komi í staðinn fyrir dýpkunarskipið Gretti sem nú hefur verið dæmt ónýtt.

Til hafnarannsókna er lagt til að fjárveiting hækki um 21/2 millj. kr. og verður þá samtals 15 millj. Eru þar m. a. hafðar í huga hafnarannsóknir við suðurströndina, eins og nýlega kom fram í umr. hér á Alþingi.

Liðurinn um ferjubryggjur er lagt til að hækki um 7 millj. Um skiptingu á heildarfjárupphæðinni vísast til þess sem fram kemur á sérstökum lista á þskj.

Til Hafnabótasjóðs hækkar fjárveiting um 9.8 millj. og er það í samræmi við lagaákvæði og með hliðsjón af hækkaðri fjárveitingu til hafnarframkvæmda almennt.

Til sjóvarnargarða er lagt til að fjárveiting hækki um 25 millj., þar af 15 millj, til Eyrarbakka til að bæta það mikla tjón sem þar átti sér stað á s. l. ári, eins og öllum er kunnugt um. Að öðru leyti vísast til yfirlits um skiptingu á upphæðinni til einstakra framkvæmda, eins og fram kemur á þskj.

Þá eru brtt. við liðinn hafnamál. Inn kemur nýr liður sem verður 09: Landshöfn í Þorlákshöfn 95 millj. kr. Við liðinn hafnarframkvæmdir við Grundartanga er lagt til að fjárveiting lækki úr 450 millj. í 150 millj. Sú breyting, sem hér er um að ræða, er vegna þess að framkvæmdum við hafnargerðina á Grundartanga mun seinka miðað við það sem áður var fyrirhugað.

Þá kemur næst brtt. við liðinn flugmálastjórn, en þar hækkar fjárveiting um 76 millj. kr., og er það í samræmi við lánsfjáráætlun, en þessari viðbótarupphæð verður varið til kaupa á öryggistækjum og búnaði fyrir flugvélina. Um skiptingu á heildarfjárveitingunni að öðru leyti vísast til þess sem fram kemur á sérstöku yfirliti.

Þá er lagt til, að fjárveiting til flugbjörgunarsveita hækki um 200 þús. kr. læst kemur liðurinn ferðamál. Þar hækkar fjárveiting um 11 millj. 833 þús. og er þeirri upphæð ætlað að standa undir kostnaði af störfum Ferðamálaráðs, en þessi liður hafði fallið niður úr frv. E. t. v. var það vegna þess að um ný lög í sambandi við ferðamál var að ræða að þessu sinni og þá kannske gert ráð fyrir að sá nýi tekjustofn, sem er ekki undir 70–80 millj. kr., yrði látinn taka að sér þetta verkefni í heild, og má segja að það sé ekkert óeðlilegt út af fyrir sig.

Næst koma brtt. varðandi iðnrn., en þar er fyrst brtt. varðandi Orkustofnun. Þar er lagt til að liðurinn önnur rekstrargjöld hækki um 50 millj. og liðurinn sértekjur er lagt til að hækki um 90 millj.

Þá eru till. fjvn. um skiptingu á fjárupphæð Orkusjóðs að upphæð samtals 1725 millj. kr. Þar er gert ráð fyrir, að verðjöfnunargjald verði 725 millj., framlag til orkurannsókna verði 150 millj., framlag til styrkingar dreifikerfis í sveitum 63 millj., framlag til lánagreiðslna 136 millj. og 400 þús., lán til jarðhitaleitar verði 350.6 millj. og lán til hitaveituframkvæmda verði 300 millj. kr.

Þá kemur ein brtt. varðandi viðskrn., en það er liðurinn: Styrkur vegna olíunotkunar til húsahitunar. Lagt er til að fjárveiting hækki um 98 millj., og það er með tilliti til þess hvað söluskattsstigið hækkar á milli umr. og verður alls 698 millj. kr. Lagt er til að fyrirsögn liðarins orðist svo: „Styrkur vegna olíunotkunar samkv. reglum, er lög nr. 9/1976 ákváðu.“ Ég er ekki viss um að þetta geti staðist og að ekki þurfi núna, á meðan þessi umr. fer fram, að endurskoða þetta ákvæði sérstaklega. Ég hygg að það kunni jafnvel að vera þannig, að það sé ákveðin krónutala í þessari reglugerð sem má greiða til hvers notanda, og ef það væri, þá er óhjákvæmilegt að breyta þessu ákvæði og hafa það þá þannig að þetta verði ákveðið samkv. sérstakri reglugerð sem viðskrn. mundi setja og yrði það þá að sjálfsögðu gert með tilliti til þess kostnaðar, sem hér er um að ræða, og þá þess fjármagns, sem fyrir hendi verður til að verja í þessu skyni.

Fjvn. leitaði upplýsinga nú á milli umr. og fékk samanburð á kostnaði við húsakyndingu hjá þeim, sem nota olíu til húshitunar, og þeim, sem hafa hitaveitu, og þeim, sem nota raforku til upphitunar. Hér er um gífurlegan mismun að ræða, og þess vegna tel ég að ef þetta ákvæði er eins og mig grunar, að lögin ákveði ákveðna upphæð, þá þurfum við að breyta því. En það segir í þessum upplýsingum sem Þjóðhagsstofnunin veitti fjvn.:

„Miðað við áætlaðar mannfjöldatölur á miðju ári 1975 má lauslega áætla að fólki, sem býr við hitaveitu, fjölgi um 9000 frá miðju ári 1976 til jafnlengdar 1977. Samkv. þessu byggju um 127 700 manns við hitaveitu, 22 500 manns við rafmagnskyndingu og 70 000 manns við olíukyndingu. Fólki, sem býr við olíukyndingu, gæti því fækkað um 8000 eða 10–11%. Athuga ber að hér er um grófar áætlanir að ræða,“ segir Þjóðhagsstofnun.

Síðan kemur samanburðurinn, og þar segir að miðað við 100 hjá þeim, sem nota olíu, sé kostnaðurinn fyrir þá, sem nota hitaveitu, 33.l%, og þá, sem nota raforku til upphitunar, 50.3%. Sjá allir hvað hér er um geysilegan mismun að ræða fyrir þá sem enn þá verða að notast við þá orku til upphitunar sem olían er, og enn hækkar hún. Ég tel því, eins og ég gat um áðan, að það beri að hafa það í huga við endanlega afgreiðslu málsins, hvort ekki þurfi hér að breyta orðalagi. Þegar við erum að ræða um það að koma á móti þeim mönnum, sem nota olíu til upphitunar, þá skulum við einnig líta á það, að einmitt þessir sömu menn, sem fá þennan styrk, taka vissulega þátt í að borga til hans líka og byggja upp þá fjárfúlgu, sem verður til skiptingar, bæði til að greiða niður olíuna og til annarra rannsókna í sambandi við hitaveituframkvæmdir og jarðhitaleit.

Þá koma næst brtt. við fjárlaga- og hagsýslustofnun. Þar er lagt til að launaliður hækki um 3 millj. kr. og er það vegna ráðninga á einum ritara og fulltrúa, en það er starfsmaður fjvn. sem jafnframt er ætlað að vinni á vegum stofnunarinnar við fjárlagagerð.

Að síðustu eru brtt. n. við 6. gr. frv. Kemur þar fyrst VI. Þar er lagt til að liðurinn hljóði þannig: „Að leyfa Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að greiða af hverjum seldum vindlingapakka: a) 67 aura til Landgræðslusjóðs, b) 33 aura til Landgræðslu ríkisins.“ Þetta er í sömu hlutföllum og þessu hefur verið skipt áður, en það var óskað eftir því að það væri sérstaklega tekið fram hver háttur yrði á þessu hafður. Svo er það aftur á valdi þeirra, sem með Landgræðslusjóðinn hafa að gera, hvað mikið af þessum 67 aurum kemur til með að renna til skógræktarfélaganna. Um það hefur verið nokkuð rætt á milli þessara aðila, hvort ekki væri rétt að meiri hluti af þessari upphæð gengi til skógræktarfélaganna og létti undir með þeim, en það er sem sagt á þeirra valdi, tel ég, eins og verið hefur að undanförnu.

Við VIII er á sama hátt lagt til að leyfa Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að greiða Krabbameinsfélagi Íslands 1 kr. af hverjum seldum vindlingapakka, og VIII að leyfa Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins að greiða 1,50 kr. af hverjum seldum vindlingapakka til Slysavarnafélags Íslands og Íþróttasambands Íslands og skiptist gjaldið til þeirra að jöfnu. Er gert ráð fyrir því að þessi hækkun, sem hér er um að ræða til Krabbameinsfélagsins og til Slysavarnafélagsins og Íþróttasambands Íslands, þessi upphæð muni nema milli 4 og 5 millj. kr. Upphæðin liggur ekki nákvæmlega fyrir, en samkv. þeim upplýsingum, sem fjvn. hefur fengið, má gera ráð fyrir að um þessa auknu upphæð verði að ræða til þeirra sem hér eiga hlut að máli.

Þá koma nýir liðir sem n. ber fram við þessa grein: Að endurgreiða söluskatt af pípuorgeli, sem keypt hefur verið fyrir Hnífsdalskapellu. — Að taka lán til kaupa á húseign í Ytri-Njarðvík til nota fyrir prestsbústað. — Að hafa makaskipti á núverandi prestsbústað á Ólafsfirði og annarri húseign þar. — Að selja Hitaveitu Suðurnesja hluta ríkissjóðs úr svokallaðri Járngerðar- og Hópstorfu við Grindavík (þ. e. hitaréttindi og landspildu er tilheyrir prestssetrinu í Grindavík). — Að taka lán allt að 300 millj. kr. vegna greiðslna til sveitarfélaga á grundvelli væntanlegs samkomulags um kostnað sveitarfélaga á árinu 1975 af verkefnum, sem lög nr. 94/1975 ná til.

Hér er um allmikið mál að ræða sem mikið hefur verið um deilt á milli ríkisvaldsins og forsvarsmanna sveitarfélaganna. Ég tel að þessi fjárveiting, sem hér er um að ræða, sé mjög nauðsynleg, og ef tekst að ná þessu samkomulagi við forsvarsmenn sveitarfélaganna tel ég það einnig mjög gott. Þetta umdeilda atriði var, eins og okkur öllum er kunnugt, viðhaldskostnaður á skólum sem átti sér stað áður en lögin tóku gildi, það voru líka framkvæmdir í sambandi við elliheimili, dagvistunarheimili og fleiri slíka liði sem með sérstökum lögum voru færð frá ríkissjóði yfir til sveitarfélaganna á s. l. ári. Sem sagt, það lítur út fyrir að náist samkomulag um þetta. Áður var búið að taka 450 millj. í þessu skyni, en það þykir sýnt að það muni ekki nægja, en að samkomulag muni nást með þessari upphæð sem hér er lagt til.

Þá kemur næst: Að endurgreiða þinglýsinga- og stimpilgjöld af afsali og lánsskjölum vegna kaupa á m/s Herjólfi — Að endurgreiða væntanlegan tekjuskatt af Henrik Steffensen-verðlaunum sem Hannes Pétursson skáld hefur hlotið. — Að kaupa eða byggja húsnæði á móti Borgarsjóði Reykjavíkurborgar til afnota fyrir Gjaldheimtuna í Reykjavík og taka lán í því skyni. — Að ábyrgjast lán allt að 9 millj. kr. fyrir Bandalag starfsmanna ríkis og bæja til áframhaldandi byggingar orlofsheimila að Munaðarnesi, gegn tryggingum sem ríkisstj. metur gildar. — Að ábyrgjast lán allt að 15 millj. kr. fyrir Bandalag háskólamanna til uppbyggingar orlofsheimila, gegn tryggingum sem ríkisstj. metur gildar. —- Að ábyrgjast lán allt að 640 millj. kr. fyrir lánasjóð ísl. námsmanna. — Að selja húseign Ríkisútgáfu námsbóka að Tjarnargötu 10 og taka nauðsynleg lán vegna kaupa á öðru húsnæði fyrir stofnunina. — Að taka lán allt að 25 millj. kr. til framkvæmda við legurými geðdeildar á Landsspítalalóð á árinu 1977.

Ég mun þessu næst víkja með nokkrum orðum að brtt. meiri hl. varðandi tekjubálk frv. Till. um hækkun tekjuliða nema samtals 5 milljörðum 923 millj. 480 þús. kr. og verða þá samtals 89 milljarðar 941 millj. 581 þús. Tekjuáætlun gerir ekki ráð fyrir mikilli breytingu þjóðarútgjalda á árinu 1977 frá því, sem gert var í fjárlagafrv. Meginbreytingin, sem áhrif hefur á tekjur og gjöld ríkissjóðs, felst einkum í nýjum spám um þróun verðlags og launa, eins og ég hef áður að komið.

Í frv. hafði þegar verið gert ráð fyrir grunnkaupshækkun í átt við samninga BSRB og BHM, en hins vegar ekki verðlagsuppbótum samkv. þeim samningum. Nú er þegar fram komin 3–31/2% hækkun launa og verðlags af þessum sökum, og búist er við að meðalverðlag gæti orðið 6–7% hærra og innflutningsverð í ísl. kr. og almennt kauplag 7–8%. Við afgreiðslu fjárl. undanfarin ár hefur oftast verið miðað við verðlag í landinu um þær mundir sem fjárlög eru afgreidd í des., eins og áður hefur verið á bent, og sjaldan ætlað veruleg:t fyrir verðbreytingum. Í þessu frv., sem fram er lagt í haust, var hins vegar ætlað fyrir grunnkaupshækkun á næsta ári og afleiðingum hennar. Við endanlega afgreiðslu fjárl. er ætlunin að stíga þetta skref til fulls, þannig að verðlags- og launaforsendur fjárlaga og lánsfjáráætlunar verði þær sömu og fram eru settar í þjóðhagsáætlun næsta árs. Þessi aðferð ætti að gera alla fjárlagastjórn raunhæfari og ákveðnari en ella þar sem ekki ætti að sinna neinum umframfjárbeiðnum á næsta ári vegna óvæntra verðlags- og launabreytinga, þar sem þegar hefur verið ætlað fyrir slíkum breytingum að svo miklu leyti sem það er unnt fram í tímann.

Þeir tekjuliðir, sem samkv. till. meiri hl. breytast og hækka, ern söluskattur um 1310 millj., aðflutningsgjöld um 1081 millj., sérstakt vörugjald um 260 millj., rekstrarhagnaður af Áfengis- og tóbaksverslun um 1370 millj., launaskattur um 380 millj., stimpilgjald og aukatekjur um 290 millj. og aðrir liðir um 1229 millj. samtals.

Verði þessar till. fjvn. og meiri hl. fjvn. samþykktar munu heildarútgjöld ríkissjóðs nema um 89 milljörðum og 53 millj. kr. Tekjur ríkissjóðs munu nema 89 milljörðum 942 millj. Tekjur umfram gjöld nema því 888 millj. Halli á lánahreyfingum er um 630 millj., sem er 122 millj. kr. lækkun frá frv., en breytingin kemur þannig fram, að inn hækkar erlend lántaka um 922 millj., innheimt af endurlánuðum spariskírteinum um 100 millj. Hækkanir þannig samtals 1 milljarður og 22 millj. kr. Út breytist þannig: Rarik almennar framkvæmdir hækka um 254 millj., Norðurlínan um 34 millj., lína Krafla-Eyrarteigur, nýr liður, 500 millj., Kröfluvirkjun, stöðvarhás og vélar lækka um 113 milli., Kröfluvirkjun, borholur og aðveitukerfi hækka um 99 millj., járnblendiverksmiðja í Hvalfirði um 42 millj., endurlán vegna hafnargerðar við Grundartanga lækkar um 100 millj., afborgun af almennum lánum ríkissjóðs hækkar um 184 millj. Samtals 9041 mill.j. kr. Lækkun á halla lánahreyfinga verður því 122 millj. Heildarlántökur nema þá samkv. þessu 10 milljörðum 630 millj. kr. Lánahreyfingar út nema 11 milljörðum 260 millj. Verður þá halli á lánahreyfingum 630 millj. Greiðsluafkoma ríkisins verður því þannig, að tekjur umfram gjöld eru 888 millj., halli á lánahreyfingum er 630 millj. og því um greiðsluafgang að ræða sem nemur 258 millj. kr.

Herra forseti. Ég hef þá lokið við að gera grein fyrir brtt. fjvn. og meiri hl. fjvn. Það kann að vera að fjvn. þurfi að koma á framfæri leiðréttingum á einhverju sem fallið hefur niður. Ég vil sérstaklega taka fram, að ég man eftir því að við samþykktum till. til Sögusafns verkalýðshreyfingarinnar sem var borin fram till. um við 2. umr., en það hefur fallið niður á þskj. og verður sjálfsagt leiðrétt undir umr.