27.04.1977
Efri deild: 66. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3799 í B-deild Alþingistíðinda. (2736)

233. mál, ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara að lengja þessar umr. úr hófi. Aðeins vildi ég koma hér í ræðustól aftur til þess að taka af öll tvímæli og fyrirbyggja, ef sá mis­skilningur skyldi vera fyrir hendi, að ég með þeim orðum, sem ég hafði í sambandi við þetta frv. áðan, sé að hvetja til reykinga og ég sé á móti ráðstöfunum til að draga úr tóbaksreyk­ingum. Það er mesti misskilningur. Ég byrjaði ungur að reykja og reykti lengi og mikið, en það eru líka mörg ár síðan ég hætti. Og ég hef reynt, eftir því sem ég hef frekast getað, að láta í ljós það álit mitt alls staðar, að ég teldi að einhver sú allra vitlausasta athöfn, sem einstaklingurinn framkvæmdi, væri að reykja. Ég hef sagt bæði við mín börn og aðra, að ég líki því ekki saman hvað sé þó meira virði, að maður fái þó óbeinlínis eitthvað fyrir peningana sína t. d. með því að kaupa sér hálfflösku af brenni­víni eða eitthvað svoleiðis eða að fá sér þrjá til fjóra sjússa eða drekka sig hálfan. Maður getur þá komist í það ástand, að maður á þó töluvert mikið af heiminum og kannske allstóran hlut af honum og er nokkuð stór persóna vissa stund, mismunandi lengi eftir atvikum. Það má segja: er á meðan er, þó það sé mikil blekking, sem stundum veitir vissa fróun sem tóbakið gerir ekki að mínu mati. En aðeins vildi ég láta það koma fram, að ég er nú einhvern veginn þannig verður, að ég hef ekki trú á svona boðum og bönnum og svo t. a. m. sektarákvæðum eins og í 7. gr.:

„Brot gegn lögum þessum varðar sektum allt að 500 þús. kr., nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum.“

Haldið er fram að hátt verð á varningi eins og tóbaki sé öflugasta ráðið til þess að minnka neysluna eða að það sé einhvert sáluhjálparatriði, eins og kom fram hér hjá einum hv. þm., að láta ekki sýna kvikmyndir þar sem fólkið lifði í þeirri sjálfsblekkingu að því líði vel að vera að reykja t. a. m. góðan vindil eða pípu. Mér líst ekki á þá framtíð ef slíkt ætti allt að hverfa, ég verð að segja það, og það getur vel verið af því að ég er orðinn þetta gamall. Ég er alinn upp með syndina að förunaut, en sú er sögð lævís og lipur, en ég veit ekki til þess að þið hafið vald eða getu til að bjóða eitthvað annað, t. a. m. algerlega syndlaust líf. Ég held því að við verðum að fara að þessu öllu með gát.

Einhvern veginn finnst mér að við verðum að sætta okkur við tóbakið að einhverju leyti. Þetta er neysluvarningur hjá sumum einstakl­ingum, algjör neysluvara. Ég þekki fólk sem hefur neitað sér um allt nærri því heldur en tóbak, og þegar svo er komið, þá er það fólk sem ekkert hefur til sakar unnið nema þetta, að hafa tamið sér þessa nautn og þá er það vafa­söm ráðstöfun eða lækning af þjóðfélagsins hálfu að fara að beita slíkt fólk þeirri aðferð að fara að skattleggja það sérstaklega fyrir að það hefur fallið fyrir þessum lesti. Ég held að það sé ekki að rétta þjáðum manni líknarhönd að fara þannig að, svo að ég er ekki hvetjandi til hjálpar í þá átt. Nei, ég er hlynntur þeirri hreyfingu, sem ég hef orðið var við hjá unga fólkinu, og vil styðja hana af öllum mætti. Ég er viss um að sú hreyfing getur borið ríkulegan árangur. En við skulum láta Alþ. vinna að sínum störfum. Það hefur nógum öðrum vandamálum að gegna sem falla betur undir störf þess. Ég held að þegnarnir sjálfir leysi best þann vanda sem fylgir tóbaki.