29.04.1977
Efri deild: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3989 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun nú mæla hér aðeins nokkur orð um mál það er hér fyrir liggur. Ég vil rifja upp það sem gerðist er þessi hv. d. samþ. frv. um fæðingarorlof á sínum tíma.

Ég staðhæfi það og mun, ef mönnum þykir við þurfa, rifja það upp úr Alþingistíðindum, með hvaða hætti deildin var fengin til meirihlutasamþykkis við frv. Dagana á undan hafði sérstakur áhugaþm. og málflytjandi úr Nd. raunar ólmast hér í d. hjá okkur eins og — ja, við skulum segja ljónynja í poka, að knýja þetta mál fram. Því er ekki að neita að deildarþm. höfðu ákveðna samúð — ég er í þeirra hópi — með málstað þeim sem túlkaður var í frv. Við sáum ýmsa agnúa á því, að fé yrði veitt úr At­vinnuleysistryggingasjóði til þess arna, og töldum að enn fleiri agnúar væru á þessu frv. þar sem fæðingarstyrknum væri ekki ætlað að ná til næstum því allra kvenna á Íslandi. Það var ein­göngu vegna túlkunar hæstv. ráðh. á ákvæðum til bráðabirgða sem meiri hl. fékkst hér í d., — eingöngu fyrir túlkun hæstv. ráðh. Og ég get tekið undir með hv. þm. Jóni G. Sólnes um það atriði, að ég skildi það svo, að hér væri um algjöra bráðabirgðaráðstöfun að ræða. Að því er lýtur að fyrirheitinu í bráðabirgðaákvæðinu treysti ég mér alls ekki til að skáka enn í skjóli þessara ummæla hæstv. ráðh. eftir að það hefur komið berlega í ljós að þau var ekki að marka.

Ég tel mig ekki þurfa að afturkalla nokkurn skapaðan hlut, sem ég gerði við hina fyrri atkv­gr., þó ég láti það vera nú að ítreka mistök sem voru afsakanleg í hið fyrra sinnið, en væru það alls ekki núna. Nú værum við, þeir þm. sem lögðum fyrrnefndan skilning í ummæli ráðh. á þeim tíma, vissulega að gera vísvitandi rangt ef við gerðum það núna.

Ég tel að það sé borin von að aflað verði, eins og ráð var fyrir gert, tekna eftir öðrum leiðum og eðlilegri og skynsamlegri til þess að standa straum af kostnaðinum við framkvæmd þessara laga, eins og von var gefin um á sínum tíma, og treysti mér því ekki til að styðja frv. í þeirri mynd sem það nú liggur fyrir deildinni. Ég vildi mjög gjarnan að það yrði athugað, hvort við gætum ekki fundið til þess aðrar leiðir og komið þessum málum þannig fyrir, að fæðingar­styrkurinn megi ná tilgangi sínum og koma rétt­látt niður og verða kostaður af þeim aðilum sem með slíkt hafa að gera.